19.03.1970
Sameinað þing: 40. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

Utanríkismál

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vildi segja hér nokkur orð vegna þeirrar málsmeðferðar, sem hæstv. forseti hefur viðhaft í sambandi við umr. um utanríkismál og mér þykir ekki tilhlýðileg.

Hæstv. utanrrh. hefur lesið hér langa skýrslu um utanríkismál, og ég álít, að hann hafi með því tekið upp venju, sem beri að þakka honum fyrir og væntanlega verður til frambúðar. En ég held, að það sé föst venja alls staðar, þar sem slíkar umr. fara fram, að talsmönnum annarra flokka sé gefinn kostur á því að taka einnig til máls við þá umr., en henni sé ekki frestað, eins og hér hefur verið gert. Það tel ég ótæk vinnubrögð. Nú er þessu þannig háttað í framkvæmd, að fjölmiðlar segja aðeins frá ræðu utanrrh., en ekki neitt frá því, sem fulltrúar hinna flokkanna mundu hafa fram að færa. Ég held, að það sé alls staðar venja, þar sem slíkar umr. fara fram, að talsmenn flokkanna fái að tala strax og ráðh. hefur lokið máli sínu, en ekki löngu seinna. Ég held, að það hafi ekki komið fram neinar beinar óskir um það, að umr. væri frestað, vegna þess að ræða ráðh. lægi hér ekki fyrir í handriti. Það var nú að vísu látið í ljós, að það væri æskilegt, en það hefði þá verið auðvelt að fresta umr., þegar fulltrúar flokkanna voru búnir að tala, ef fleiri hefðu þá óskað eftir að taka til máls. En af þeirra hálfu munu ekki hafa komið fram óskir um þessa frestun. Ég segi þetta vegna þess, að mér finnst, að í framtíðinni, þegar slík umr. sem þessi fer fram, þá eigi ekki að slíta henni í miðjum klíðum, heldur halda henni áfram, unz henni er lokið. Ég vil þess vegna láta í ljós undrun mína yfir þessum vinnubrögðum forseta, að slíta umr. þannig í sundur, en vil svo í framhaldi af því spyrja hann, hvenær hann geri ráð fyrir, að umr. haldi áfram.