19.03.1970
Sameinað þing: 40. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

Utanríkismál

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég var nú raunar búinn að stinga niður í tösku mína þeim minnisblöðum, sem ég er hér með, þar sem hæstv. forseti hafði ákveðið að fresta þessari umr., en ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að ræða um þessi mál almennt, enda þótt það sé vitanlega hárrétt, sem hér hefur komið fram, að það eru æskileg og eðlileg vinnubrögð, að slík skýrsla, sem hæstv. utanrrh. hefur nú flutt, liggi fyrir fjölrituð eða prentuð nokkru áður en umr. fara fram.

Sú var tíðin og það er raunar ekki ýkjalangt síðan það var ótrúlega torvelt að fá utanríkismál rædd hér á Alþ., a. m. k. á þann hátt og með því sniði, að vel sómdi þeirri stofnun, að rökræður um þau mál gætu orðið frjóar og líklegar til að upplýsa mál. Þá hafði og utanrmn. verið svæfð Þyrnirósarsvefni og yfirleitt alls ekki verið kölluð saman í nokkur ár, var alls ekki látin gegna sínu lögformlega hlutverki. Þetta var að sjálfsögðu algerlega óviðunandi ástand. Þetta ástand var Alþingi til hreinnar vanvirðu. Þetta hefur nú nokkuð breytzt á allra síðustu árum, og hæstv. núv. utanrrh. á góðan hlut að því, að þarna hefur nokkur bragarbót verið á gerð. Vottur breytingarinnar er m. a. sú ýtarlega skýrsla um utanríkismál, sem hæstv. ráðh. hefur nú flutt, og svo það, að það er þó gert ráð fyrir því, að utanríkismál verði rædd í tilefni af slíkri skýrslu. Þetta vil ég þakka. Þetta tel ég verulega framför. En þegar ég segi það og þakka þetta, þá er það algerlega óháð ýmsum efnisatriðum þeirrar skýrslu og sömuleiðis íslenzkri utanríkisstefnu, eins og hún birtist þar, en við hana hef ég sitt hvað að athuga.

Ég vil taka undir það, sem kom fram áðan í þeim orðum, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. lét hér falla, að í framtíðinni er það ekki aðeins æskilegt, heldur nauðsynlegt, til þess að umr. geti orðið skipulegar, að slík skýrsla sem þessi liggi fyrir prentuð sem þskj. eða henni sé a. m. k. útbýtt fjölritaðri meðal þm., áður en umr. fara fram. Raunar teldi ég, að það væru hin æskilegustu vinnubrögð í þessu efni, að ársskýrsla utanrrh. væri fyrst lögð fram í utanrmn. og n. fengi aðstöðu til að kynna sér efnisatriði skýrslunnar og fjalla um hana á einum eða tveimur fundum. Nm. gætu þá spurt spurninga eða óskað upplýsinga um tiltekin atriði slíkrar ársskýrslu. Síðan væri hún prentuð og henni útbýtt sem þskj. nokkru áður en umr. um hana færu fram. Ég vona, að þetta verði tekið til vinsamlegrar athugunar í framtíðinni.

Ég mun nú víkja að og ræða hér ýmsa þætti íslenzkra utanríkismála, bæði marga þá, sem fjallað er um í skýrslu utanrrh., og e. t. v. nokkur önnur atriði, sem þar koma lítið við sögu.

Nú virðast allar horfur á, að hugmyndir um Efnahagsbandalag Norðurlanda, Nordek, verði að veruleika. Hæstv. ráðh. rakti greinilega í skýrslu sinni meginatriðin í þeim drögum að samningi, sem Norðurlöndin fjögur eru að gera um þetta mál. Þetta mikilvæga mál komst fyrst verulega á dagskrá á þingi Norðurlandaráðs í Osló 1968, að því er ég hygg, þó að oft hafi verið rætt um nánari efnahagssamvinnu Norðurlanda áður. En síðan á þessu Norðurlandaráðsþingi hefur málið verið kannað og undirbúið rækilega af sérfræðingum og stjórnarvöldum Norðurlandaþjóðanna fjögurra, eins og hæstv. ráðh. rakti skilmerkilega.

Ég hygg, að það sé rétt, að Íslendingar hafi frá upphafi átt kost á að taka einhvern þátt í undirbúningi þessa máls og hafi átt kost á því að fylgjast með því stig af stigi. En það varð niðurstaðan, að Íslendingar höfnuðu þessu. Ég er þeirrar skoðunar, að sú ákvörðun hafi verið hæpin. Þó má að vísu segja, að íslenzkum stjórnvöldum hafi e. t. v. verið nokkur vorkunn í þessu efni, þar eð margir litu svo á, og þá sennilega íslenzkir ráðamenn einnig, að mjög náin efnahagssamvinna Norðurlanda, eins og fyrirhuguð er nú, væri hálfgerð draumsýn og yrði fráleitt að veruleika í náinni framtíð. En nú er svo komið, að stofnun Nordeks má heita staðreynd. Ég fagna þeirri þróun og ég vænti góðs af henni. Ég tel, að okkur Íslendingum beri að fylgjast mjög gaumgæfilega með þessum málum og kanna af fyllstu alvöru möguleikana á því, að við getum gerzt aðilar að slíku norrænu efnahagssamstarfi. Til þess þurfum við vafalítið og e. t. v. vafalaust að ná sérsamningum eða fá undanþágur um ákveðin atriði, undanþágur, sem eru óhjákvæmilegar til þess að vernda íslenzka hagsmuni, sem eru vitanlega sérstæðir vegna hinnar miklu smæðar okkar.

Það er sjálfsagt rétt að flýta sér hægt og gá vel til allra átta í þessu máli, en ég hygg, að það sé þó tvímælalaust rétt stefna og í samræmi við íslenzka hagsmuni, að íslenzk stjórnarvöld fjalli um þetta mál á þeim grundvelli og með það í huga, að almennt séð eigum við Íslendingar hvergi fremur heima í efnahagsbandalagi en með Norðurlandaþjóðunum. Ég tel mig ekki þurfa að rökstyðja það mikið meðal ráðamanna. Þar er tvímælalaust hvort tveggja fyrir hendi, góð þekking á högum okkar og á sérstöðu ýmiss konar og vilji til að auðvelda okkur efnahagslega og menningarlega samstöðu með öðrum Norðurlandaþjóðum.

Samvinna Norðurlanda á ýmsum sviðum hefur þróazt allverulega og í rétta átt, að ég tel, á undanförnum árum. Nánari efnahagssamvinna þeirra innan Nordeks yrði vafalaust til þess að efla slíka samvinnu á ýmsum öðrum sviðum og gera hana fjölþættari. Ég trúi því, að slíkt verði styrkur hverju þessara landa um sig og það muni efla þau í heild í samskiptum við aðrar þjóðir og við önnur bandalög. Ég teldi það því ógæfu, ef við Íslendingar losnuðum úr tengslum við frændþjóðirnar, fjarlægðumst þær. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar, að fyrr en síðar beri að kanna, hvaða skilyrði við þurfum að setja til þess að geta gerzt aðilar að Nordek og hvaða möguleikar eru á því að fá þeim skilyrðum fullnægt.

Hæstv. ráðh. fjallaði nokkuð um landhelgismál í skýrslu sinni áðan. Um þau mál vil ég segja það fyrst og fremst, að afstaða okkar Íslendinga er tiltölulega skýr og hún er byggð á landgrunnslögum okkar og þeim yfirlýsingum, sem Alþingi hefur gefið í samræmi við þau. Þar er stefna okkar í landhelgismálunum mörkuð í grófum dráttum, og þar er m. a., a. m. k. í viljayfirlýsingum frá Alþingi, sennilega fleiri en einni, lögð á það áherzla, að íslenzkum stjórnarvöldum beri að kynna þessa afstöðu og afla henni fylgis með öðrum þjóðum. Ég tel og vil átelja það, að þessari stefnu okkar í landhelgismálinu hefur ekki að mínu viti verið haldið nægilega á lofti. Það hafa ekki verið notuð nægilega þau tækifæri, sem gefizt hafa til þess að skýra þessa stefnu, eins og margyfirlýst hefur verið, að við ætluðum að gera og þyrftum að gera, ef við ætlum að ná árangri á þessu mjög svo mikilvæga sviði. Jafnvel þegar hæstv. utanrrh. hefur rætt þessi mál á undanförnum árum, t. a. m. á þingi Sameinuðu þjóðanna og víðar, þá virðist þess hafa gætt nokkuð mikið, að hann sneiddi hjá því að segja skýrt og ákveðið, hver stefna okkar er í landhelgismálunum, og að skýra afstöðu okkar í sambandi við yfirráðaréttinn yfir landgrunninu. Þetta gífurlega hagsmunamál okkar Íslendinga er nú að komast á dagskrá að nýju, eins og kom glöggt fram í ræðu hæstv. ráðh., og það er af mörgum ástæðum brýnna nú en nokkru sinni að standa vel í ístaðinu í þessu máli og berjast fyrir hinni íslenzku stefnu þar. Í því sambandi þarf ekki annað en að minna á þá hættu, sem fiskstofnum í Norðurhöfum er búin af völdum ofveiði, og fleira mætti nefna í þessu sambandi.

Það kom fram í skýrslu hæstv. ráðh., að nokkuð náin samvinna hafi að undanförnu tekizt milli stórþjóðanna tveggja, Rússa og Bandaríkjamanna, um ýmis mál, og það kom alveg sérstaklega fram í skýrslunni, að í sambandi við landhelgismálið hafi verið tekin upp einhvers konar samvinna milli þessara ríkja, og þá, að því er virðist, í því skyni að fá slegið fastri þeirri alþjóðareglu, að 12 mílna fiskveiðilandhelgi skuli gilda sem meginregla, með að vísu einhverjum hugsanlegum undantekningum þó. Ég tel, að hér sé um að ræða dálítið varhugavert mál fyrir okkur Íslendinga, og vissulega er hér ástæða til, að við séum á verði eins og framast er kostur. Ég tel, að við verðum í þessum efnum að gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að hafa áhrif á þróun þessara mála, hafa áhrif á það, hvernig þessi mál verða undirbúin nú á næstunni, og það sé sjálfsagt af okkar hálfu að leita alveg sérstakrar samvinnu við öll þau ríki, sem hafa svipaða afstöðu og við í þessu máli og svipaðra hagsmuna að gæta. Á þetta vildi ég leggja áherzlu. Þetta er að sjálfsögðu eitt af hinum stóru utanríkismálum okkar, þar sem við verðum að leggja okkur alla fram og vera vel á verði og kunna að afla okkur þeirra bandamanna, sem líklegastir eru til þess að vilja og geta stutt okkar mál.

Eitt af því, sem vakti nokkra athygli í skýrslu hæstv. ráðh., var það, hve ákaflega lítið hann fjallaði um stórmál, sem er að vísu ekki sérstakt utanríkismál okkar Íslendinga, en þó mál, sem kemur öllum þjóðum mjög við, smáum og stórum, ríkum og fátækum. Ég held, að ég fari rétt með, að það hafi aðeins verið í tveimur málsgreinum undir lokin, sem hæstv. ráðh. minntist á þetta stóra mál. Ég á hér við hið gífurlega vandamál hinna snauðu þjóða, þróunarlandanna svonefndu, og þær kröfur, sem t. a. m. æskufólk í velmegunarlöndunum hefur borið fram að undanförnu með vaxandi þunga um, að velmegunarlöndin láti í té af nægtaborði sínu fjármuni, matvæli og þekkingu til hjálpar í löndum fátæktarinnar og allsleysisins. Ég saknaði þess, að hæstv. ráðh. skyldi nánast ekkert fjalla um þetta mál og alls ekki víkja að því, hver afstaða íslenzkra stjórnarvalda væri til virks stuðnings íslenzka ríkisins í þessu sambandi. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það, hvernig ástandið er í þessum efnum. Ég geri ráð fyrir, að flestum hv. alþm. sé það nokkuð kunnugt. Ég vil aðeins nefna örfáar tölur.

Íbúar jarðar eru nú um 3500 milljónir. Meiri hlutinn býr í þróunarlöndunum eða um 2000 milljónir af íbúum jarðar. Þessar 2000 millj. eru taldar hafa 1/6 hluta heimsframleiðslunnar til umráða. Um 900 millj. manna á þessari jörð hafa árstekjur, sem nema innan við 9 þús. litlum ísl. kr. Í hinum snauðu ríkjum Asíu, Afríku og rómönsku Ameríku er til jafnaðar einn læknir á hverja 100 þús. íbúa, og um 700 millj. manna kunna þar hvorki að lesa né skrifa. Ef við lítum aftur á móti á íbúa Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, þar sem búa innan við 18% af íbúum jarðar, þá kemur í þeirra hlut 61% heimsteknanna.

Ýmsir mætir menn á Vesturlöndum hafa látið þessi gífurlegu vandamál til sín taka. En þessi vandamál eru svo hrikaleg, að til þess að koma einhverju teljandi jákvæðu til leiðar þarf gífurlega stórt og samstillt átak margra þjóða. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, hefur unnið mikið starf á þessu sviði, og síðustu árin hafa æskulýðssamtök Vesturlanda gert þetta mál að alveg sérstöku baráttumáli sínu og sett sér það mark að fá hvert ríki sem einhvers er megnugt til að verja 1% þjóðartekna til aðstoðar við þróunarlöndin. Ég held, að ég fari rétt með, að frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hafi allar sett sér það að ná þessu marki, þessu 1%, á nokkrum árum með vaxandi framlagi hvert ár, og ég hygg, að Svíar séu komnir býsna nálægt markinu nú þegar. Þessi stóru mál hafa því miður verið furðulitið rædd hér á Alþ., og mér virðist allt of margir, jafnvel einnig hér innan þingsalanna, yppta hálfgert öxlum og hugsa og jafnvel segja eitthvað á þá leið, að við séum svo fáir og lítils megnugir, að það geti aldrei munað mikið um hið íslenzka framlag. Slíkt er ekki hægt að segja. Íslenzk æskulýðssamtök hafa hins vegar sýnt þessu máli mjög mikinn áhuga, og æskufólkið íslenzka hefur hlotið jákvæðar undirtektir almennings. Þær hafa m. a. komið fram í góðum árangri af fjársöfnunum, sem fram hafa farið. Það er íslenzkt æskufólk úr öllum flokkum og utan flokka, sem hefur tekið hér upp baráttuna fyrir því, að íslenzka ríkið leggi fram 1% af þjóðartekjunum til stuðnings við þróunarlöndin, ef ekki strax að fullu, þá í áföngum á nokkrum árum. Ég tel alveg víst, að hæstv. utanrrh. viti það, að ungir jafnaðarmenn hafa gengið vel fram í þessu máli og þeir hafa haft þessar kröfur uppi við ýmis tækifæri. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvað hefur íslenzka ríkisstj. gert í sambandi við þetta mál? Hefur hún rætt þetta mál? Hefur hún tekið afstöðu til þessara ákveðnu tilmæla? Hefur hún undirbúið till., sem væntanlega verða þá lagðar fyrir Alþingi? Ég spyr hæstv. ráðh. sem sagt: Hver er afstaða ríkisstj. til þessa stórmáls?

Þegar litið er yfir stefnu Íslands í utanríkismálum í heild, og þá ekki síður á s. l. ári heldur en löngum áður, þá blasir það við, að sú stefna rígbindur okkur á klafa Bandaríkjamanna, og hún gerir það samkvæmt vilja íslenzkra ráðamanna sjálfra. Ég fæ ekki orða bundizt um það, en mér virðist svo rammt kveða að þessu, að svo framarlega sem einhver hnúturinn, sem bindur pinkilinn Ísland á trússahest Bandaríkjanna, ætlar að rakna, þá muni íslenzkir ráðamenn vísir til að biðja verndarana að tylla þessu nú ögn betur. Þessi auðsveipni, sem íslenzk stjórnarvöld hafa á löngum tíma tamið sér gagnvart Bandaríkjamönnum, er að vísu alvarlegri en svo, að hún skyldi höfð að gamanmálum. En mér finnst það varla einleikið, hve oft ég hef haft tilefni til að minnast vísunnar hans Andrésar Björnssonar, sem hann orti um íslenzku pólitíkina í gamla daga, þegar þessi árátta íslenzkra stjórnarvalda er á döfinni. Þetta var á þeim tímum, meðan við áttum margt saman við Dani að sælda og tveir pólitísku flokkarnir voru kallaðir Þversum og Langsum. Kannske var þetta að vísu einn flokkur, sem hafði skipt sér í tvennt. Alla vega minnir fyrirbærið mig á Sjálfstæðis-Alþýðuflokkinn núna. En í vísu Andrésar Björnssonar þarf ekki að hagræða nema einu litlu rímorði til þess að hún eigi býsna vel við í dag:

Sundrungar þeir sungu vers,

svo að hvein í grönum,

að því loknu langs og þvers

lágu þeir fyrir Könum.

Sú var tíðin, jafnvel fyrstu árin eftir að við gengum í Atlantshafsbandalagið sæla, sem hæstv. ráðh. var að prísa hér áðan, eins og hann hefur löngum gert, að við sýndum dálítinn lit á því á alþjóðavettvangi að taka sjálfstæða afstöðu öðru hverju. En nú um nokkurra ára skeið hygg ég, að það verði ekki fundin mörg dæmi þess, að fulltrúar okkar hjá Sameinuðu þjóðunum, í Evrópuráði, á NATO-þingum eða annars staðar hafi lyft svo mikið sem litlafingri, án þess að þeir héldu a. m. k., að það væri Bandaríkjamönnum til þægðar. Svo rammt kveður að þessu, að hvað eftir annað hefur okkur nú að undanförnu skort mannrænu til þess að standa við hlið annarra Norðurlanda, ef stjórnvöld hér hafa haldið, að slík afstaða þeirra til mála fæli í sér hið minnsta frávik frá því, sem Bandaríkin vildu. Þetta kemur því miður hvað eftir annað fram á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þegar Ísland eitt Norðurlanda greiðir atkv. gegn því að Pekingstjórnin kínverska taki sæti Kína hjá Sameinuðu þjóðunum. Menn þurfa vissulega ekki að vera hrifnir af kínversku stjórnarfari til þess að sjá, hvað rétt er og skynsamlegt í þessum efnum. Enginn dregur í efa, hverjir það eru, sem stjórna hinu mikla Kínaveldi, þessu fjölmennasta ríki veraldar. Því er ekki stjórnað af fáeinum, gömlum mönnum suður á Formósu, mönnum, sem hafast þar við í skjóli Bandaríkjahers. Þegar spurt er, hvers vegna Íslendingar halda áfram að berja hér höfðinu við steininn og neita staðreyndum ár eftir ár, þá er svarið eitthvað á þá leið, að ekki sé nú rétt að svipta Formósustjórn aðild að Sameinuðu þjóðunum. Þessa röksemd hef ég heyrt hvað eftir annað. Þetta er hreinn fyrirsláttur. Stjórnin á Formósu segist vera hin eina, sanna stjórn Kínaveldis, og það er í krafti þess, sem hún krefst aðildar að Sameinuðu þjóðunum, og það er í krafti þess, sem hún hefur fengið þeim vilja sínum framgengt, m. a. með árvissum stuðningi Íslendinga. Stjórnin á Formósu hefur mér vitanlega aldrei farið fram á það að fá sæti hjá Sameinuðu þjóðunum sem Formósustjórn, sem ríkisstj. þar í landi, heldur sem ríkisstj. Kínaveldis. Mér þykir trúlegt, að það líði nú óðum að því, að Bandaríkin sjálf breyti hér um stefnu og fallist einn góðan veðurdag á aðild Pekingstjórnarinnar að Sameinuðu þjóðunum. Hvað gerir íslenzki fulltrúinn þá? Verður hann kaþólskari en páfinn?

Afstaða íslenzku ríkisstj. til fasistastjórnarinnar í Grikklandi hefur verið dálítið undarlega loðin. Hæstv. ráðh. kom nokkuð inn á þessi mál í skýrslu sinni og var nú raunar að reyna að afsaka það, hversu loðin afstaðan hefur verið, en ég held, að það fari ekki á milli mála, að hún hefur verið það. Þegar aðrar Norðurlandaþjóðir sameinuðust fyrst um að leggja fram harðorða till. í Grikklandsmálinu á fundi Evrópuráðsins, þá minnist ég þess, að hæstv. utanrrh. skýrði frá því hér í blöðunum, að honum hefði ekki gefizt tími til að kynna sér þetta till., áður en hún var lögð fram, og þess vegna hefði Ísland ekki verið aðili að flutningi hennar. Jafnframt skýrði hann frá því, að skeyti hefði verið sent um aðild Íslands að till., eftir að hún var lögð fram, en svo undarlega brá við, að þetta skeyti virðist hafa misfarizt með einhverjum dularfullum hætti, eða svo mikið er a. m. k. víst, að Íslands var aldrei getið í þessu sambandi, þegar sagðar voru fréttir frá Evrópuráði, enda þótt önnur stuðningsríki till. væru, að ég hygg, nákvæmlega tilgreind. Um ástæðuna fyrir þessu veit ég ekki. Í Grikklandsmálinu gerðist það nú síðast, að Danir, Norðmenn og Svíar lögðu fram till. um að víkja Grikklandi úr Evrópuráðinu. Ísland átti þess kost að flytja till. með frændþjóðunum, en Ísland hafnaði því. Endanleg afstaða Íslands til till. kom aldrei raunverulega í ljós, þar eð Grikkir sögðu sig úr ráðinu, áður en á það reyndi. Hæstv. ráðh. sagði að vísu í skýrslu sinni hér áðan, að ráðið hefði verið, að Ísland fylgdi þeirri till., þegar til atkvgr. kæmi, og gott er nú það. En þessi afstaða Íslands öll finnst mér vægast sagt laus við að vera stórmannleg, og mér er kunnugt um, að hún hefur vakið nokkra furðu hjá frændum okkar á Norðurlöndum. Ég leyfi mér að víta þessa málsmeðferð, og ég leyfi mér að staðhæfa, að hún er ekki í samræmi við vilja Íslendinga almennt.

Í sambandi við þetta Grikklandsmál skal ég gjarnan taka það fram, að það hefur ekki hvarflað að mér eitt andartak, að hæstv. utanrrh. eða aðrir samherjar hans í ríkisstj. séu eitthvað sérlega hrifnir af grísku valdaræningjunum, sem sitja nú við stjórnvölinn í Grikklandi, eða þeir hafi einhverja samúð almennt með fasísku stjórnarfari. Það dettur mér ekki í hug að halda. Nei, ég held, að skýringin sé nærtæk. Eins og ég mun væntanlega koma nánar að síðar í ræðu minni, þá hefur Bandaríkjastjórn stutt grísku stjórnina, þessa herforingjastjórn þar, með ráðum og dáð. Bandaríkjastjórn telur hana og Grikki hinn öfluga útvörð NATO í suðri, og vitanlega hljóðar eitt af boðorðunum í íslenzkum utanríkismálum eitthvað á þessa leið: Þú skalt ekki hrella vini Bandaríkjanna.

Austur-Þýzkaland, þýzka alþýðulýðveldið, sem svo heitir, hefur nú verið staðreynd í rúm 20 ár. Við getum vafalaust orðið sammála um það, hæstv. utanrrh. og ég, að gagnrýna austur-þýzku ríkisstj. fyrir margt, gagnrýna þá einræðisstefnu, sem valdhafarnir í því landi fylgja. En fram hjá hinu verður ekki gengið, að þetta er öflugt ríki, þetta er mikið iðnaðarveldi, þarna býr menntuð og dugleg þjóð. Íslendingar hafa frá upphafi haft veruleg efnahagssamskipti við þetta ríki. Hins vegar hafa Íslendingar neitað að viðurkenna ríkið Austur-Þýzkaland, og ég held, að ég fari rétt með, að það sé hið eina umtalsverða viðskiptaland okkar, sem við höfum ekkert diplómatískt samband við. Það er sennilegt, að NATO hafi talið og telji það andstætt sínum hagsmunum, að þetta ríki hljóti viðurkenningu þjóða. En Austur-Þýzkaland er, hvað sem öðru líður, ákaflega áþreifanleg staðreynd, og þeir gerast nú æ fleiri, sem viðurkenna, að þýzku ríkin eru tvö og verða það án efa um einhverja framtíð enn. Jafnaðarmaðurinn Willy Brandt, kanzlari Vestur-Þýzkalands, virðist vera bæði raunsær og hugrakkur stjórnmálamaður. Hann leitar nú að færum leiðum til að taka upp aukið samband og bætta sambúð við grannríkið í austri, og það þarf ekki að draga það í efa, enda kom það skýrt fram í fréttum af móttökunum, sem hann fékk í Austur-Þýzkalandi í dag, hver hugur fólksins í þessum löndum er gagnvart bættri sambúð. Ég legg til, að hæstv. utanrrh. okkar fari nú að dæmi Willy Brandts og beiti sér fyrir því við ríkisstj., að hún hætti að hlýða einhverjum annarlegum fyrirmælum um þetta, en fari að vinna að því, að tekið verði upp stjórnmálasamband við Austur-Þýzkaland. Það er vissulega orðið tímabært.

Ekki alls fyrir löngu hlýddi ég á útvarps- eða sjónvarpsviðtal, — ég man ekki hvort heldur var, — sem fram fór við einn af forystumönnum íslenzkra saltfiskframleiðenda. Þar kom fram, að áður fyrr hefðum við Íslendingar átt góðan markað fyrir saltfisk á Kúbu, en nú væri þessi markaður glataður. Norðmenn hefðu lagt hann undir sig. Mér skildist á viðtalinu, að við hefðum gersamlega hætt öllum viðskiptum við Kúbu á sömu stundu sem Castro hinn skeggjaði og félagar hans brutust þar til valda. Hins vegar hefðu Norðmenn haldið áfram, eins og ekkert hefði í skorizt, að sinna þessum markaði og sætu nú að honum einir.

Ég skal játa það, að mér eru þessi markaðsmál á Kúbu alveg ókunn að öðru en því, sem fram kom í þessum viðtalsþætti. En það má mikið vera, ef hér er ekki enn eitt dæmið um íslenzka utanríkispólitík og reisn hennar. Ég vænti þess, að hæstv. utanrrh. leiðrétti mig, ef ég er að vaða reyk í þessu efni. En tilraun mín til að skýra fyrirbærið er einfaldlega þessi: Íslenzkir ráðamenn segja hver við annan: Bandaríkjamönnum er bölvanlega við Castro. Þeir vilja fráleitt, að við seljum honum fisk. Engin viðskipti framar við Kúbu, unz þar tekur við völdunum einhver geðugri maður heldur en Castro og Bandaríkjunum þóknanlegri. Ætli þessi skýring sé fjarri lagi, hæstv. ráðh.?

Eins og kunnugt er, voru á s. l. ári liðnir tveir áratugir frá því, að Atlantshafsbandalagið var stofnað. Í sáttmála þess giltu þau ákvæði, að aðildarríki skyldu bundin um 20 ára skeið frá gildistöku samningsins, en að þeim tíma liðnum gæti hvert aðildarríki, er þess óskaði, sagt sig úr bandalaginu með eins árs fyrirvara. Frá 24. ágúst í fyrra er þessi samningur uppsegjanlegur með einhliða ákvörðun hvers aðildarríkis um sig. Svo sem kunnugt er, urðu á sínum tíma mjög harðar deilur um það, hvort Ísland skyldi gerast aðili að Norður-Atlantshafssamningnum. Alla stund síðan hafa skoðanir hér á landi sem víðar í aðildarlöndunum verið skiptar um NATO, um eðli þess, um gildi og áhrif á sambúð þjóða. Um rökin, sem til þess lágu, að bandalagið var stofnað, skal ég ekki fjölyrða að þessu sinni. Að vísu hefur margt fróðlegt og forvitnilegt verið um það ritað á síðari árum, og ýmsir, þ. á m. mikilhæfir vestrænir stjórnmálafræðingar og sagnfræðingar, hafa hiklaust látið í ljós þá skoðun, að kenningarnar um yfirvofandi rússneska árás á Vestur- og Norður-Evrópu hafi verið úr lausu lofti gripnar. En um þetta atriði, sem að vísu er mikilvægt sögulega séð, ætla ég sem sagt ekki að fjölyrða. Það, sem nú skiptir höfuðmáli, er, hversu traustar voru forsendurnar fyrir stofnun Atlantshafsbandalagsins árið 1949 eða haldgóð rökin á þeim tíma fyrir inngöngu Íslands í slíkt bandalag. Að vísu er ég þeirrar skoðunar, að hvorugt standist, ef málið er skoðað niður í kjölinn á algerlega hlutlægan hátt. En héðan af er vissulega miklu meira um hitt vert, að menn gefi sér tóm til að fjalla um herstöðva- og hernaðarbandalagamál, eins og þau blasa við í dag, við lok 7. áratugs þessarar aldar og upphaf þess 8. Og það ber mönnum, ekki sízt stjórnmálamönnum, að gera af raunsæi og hleypidómaleysi, og þeir ættu ekki að láta gömul, löngu úrelt slagorð, gamla fordóma og innihaldslitla frasa vera framlag í rökræðum um þetta mikilvæga mál.

Þegar nálgast tók, að 20 ára gildistímabil Atlantshafssamningsins rynni út, þá hefði mátt þykja eðlilegt, að víðtækar umr. færu fram hér á landi, eins og víðar í aðildarríkjunum, um bandalag þetta, um gildi þess og erindi Íslands í slíkt bandalag framvegis. En það reyndist ótrúlega torvelt að fá slíkar umr. teknar upp hér, og ég verð að segja það, að hér á Alþ. virtist þetta vera nærri því ókleift. Það virtist svo sem forsvarsmenn aðildar okkar að NATO segðu blátt áfram og umbúðalaust: NATO hefur reynzt vel. NATO hefur stöðvað framrás kommúnismans. Við verðum áfram í NATO.

Ég get ekki látið hjá líða að fara hér fáeinum orðum um þá tregðu, sem ríkt hefur hjá íslenzkum stuðningsmönnum Atlantshafsbandalagsins, og þá alveg sérstaklega hæstv. ríkisstj. og hennar mönnum, að því er tekur til allrar raunhæfrar athugunar á þessu máli og raunar til eiginlegra rökræðna um það einnig. Árið 1965, þegar liðin voru 16 ár af gildistíma Atlantshafssamningsins, fluttum við Alþb.-menn þáltill. um könnun og endurskoðun á aðild Íslands að Norður-Atlantshafssamningi og Atlantshafsbandalagi. Till. var á þessa leið:

„Alþingi ályktar að kjósa 7 manna nefnd til að kanna svo sem við verður komið, hvaða hugmyndir eru uppi meðal aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins um skipulag þess og framtíð. Jafnframt skal n. fjalla um afstöðu Íslands til Norður-Atlantshafssamningsins frá 1949, jafnt í ljósi fenginnar reynslu sem breyttra aðstæðna og þeirra upplýsinga, sem fyrir liggja og fram kunna að koma, um viðhorf aðildarríkja til samningsins. Skal n. með sérstöku tilliti til ákvæðis samningsins í uppsagnarheimild 1969 semja rökstudda grg. um málið og leggja hana fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Ég var fyrsti flm. þessarar þáltill. og átti nokkurn þátt í að forma hana á þann veg sem varð. Með því að leggja áherslu á rannsóknar- og könnunarleið í þessu stórmáli, vakti það fyrir mér og okkur flm. að reyna að þoka umr. um aðild að Atlantshafsbandalaginu og umr. um utanríkisstefnu Íslands í heild á nýtt og dálitið annað stig en verið hafði þá um skeið. Því er ekki að leyna, að löngum þá á undan höfðu umr. um þessi mál, jafnt innan þings sem utan, einkennzt að mínu viti um of af lítt rökstuddum fullyrðingum, en tilraunum til að leggja hlutlægt mat á málin án tilfinningasemi var heldur illa tekið, ég vil segja í beggja herbúðum. Annars vegar var kostað kapps um að staðhæfa, að allir fylgismenn aðildar að Atlantshafsbandalagi væru lítilmótlegir og ósjálfstæðir Bandaríkjaleppar. Hins vegar var af ekki minni óbilgirni fullyrt, að allir andstæðingar NATOs væru Rússadindlar, sem reru að því öllum árum, að Rússar gætu komið og gleypt okkur.

Eins og ég hef áður vikið að, var búið að gera utanrmn. óstarfhæfa með öllu og raunverulegar rökræður um utanríkismál hér á Alþ. áttu sér afar sjaldan stað. Ótrúlega lengi eimdi eftir af þeim ræðuhöldum og þeim blaðaskrifum, sem einkenndust af glórulausu ofstæki, svo sem þegar málgagn stærri stjórnarflokksins, Morgunblaðið, kallaði á sínum tíma núverandi biskup landsins „hinn smurða Moskvuagent“ og staðhæfði, að honum og skoðanabræðrum hans væri það mest í mun, að Ísland yrði Rússum sem allra auðveldust bráð.

Sem betur fer er ofstæki af þessu tagi nú að verulegu leyti úr sögunni, a. m. k. hér á Alþ., og ég skal taka það fram til að fyrirbyggja misskilning, að ég tel, að hæstv. núv. utanrrh. eigi sinn góða hlut að því, að rætt er um þessi mál með nokkuð öðru orðbragði nú en áður var. En ég kippi mér ekki upp við það, þó að einstök blöð, eins og t. d. umrætt Morgunblað, eigi dálítið bágt með sig stundum og öðru hverju birtist þar skrif og kannske víðar, sem minna óþyrmilega á þá staðreynd, hve erfitt það getur verið að venja sig af gömlum ósiðum. En þó að hér hafi orðið á veruleg bragarbót á síðustu árum, og þá alveg sérstaklega að því er tekur til umræðna ungra manna um þessi efni, — þá á ég við unga menn bæði innan stjórnmálaflokkanna og utan, — þá er slíkt engan veginn einhlítt, þótt gott sé, og raunar tel ég það mjög mikilvægt og er bjartsýnn í sambandi við þá staðreynd, að unga kynslóðin virðist kosta kapps um málefnalegar og raunsæjar umr. um mál eins og utanríkismál, og ég vona, að margt gott megi af því leiða. Við hér á Alþ. erum kannske helzt til íhaldssamir í þessu efni, eins og sumum fleiri, og eigum e. t. v. dálítið erfitt með að losa okkur við eitt og annað af gömlu frösunum, og skal ég ekki undanskilja mig að öllu í því efni.

Ég tel, að hæstv. utanrrh. hafi gert gott verk, þegar hann lagði sitt fram til þess að bæta að nokkru vinnubrögðin í sambandi við meðferð utanríkismála hér á Alþ. og í sambandi við utanrmn. Það er kunnugt, að utanrmn. hefur nú verið vakin af dvala og starfar með nokkurn veginn eðlilegum hætti. Hún leitast nú við að gegna því mikilvæga hlutverki að fjalla um utanríkismál, og nefndinni hefur verið gefið fyrirheit um, að svo verði framvegis og jafnvel í auknum mæli og að nefndin starfi einnig þá mánuði, sem Alþ. situr ekki ár hvert, en það tel ég verulegu máli skipta. Væntanlega verður þetta fyrirheit efnt og aðstaða nefndarinnar þar með bætt til að vinna verk sitt á þann veg, að gagn geti af orðið. En hvað sem þessu líður, þá hefur allt fram að þessu gætt furðumikillar tregðu ráðamanna hér á hv. Alþ. til að ræða af alvöru afstöðuna til herstöðvamálsins og NATO. Með ýmsum hætti hefur verið undan því vikizt að taka NATO-aðild Íslands til rækilegrar athugunar og endurskoðunar.

Þáltill. sú, sem ég gerði nokkra grein fyrir hér áðan, var flutt á tveim eða þrem þingum, án þess að Alþ. fengist til að taka afstöðu til efnisatriða hennar. Enn var málið flutt í ályktunarformi snemma á þingi í fyrra. Efni þeirrar ályktunar, sem við Alþb.-menn lögðum þá fram, var í stuttu máli á þá leið að fela utanrmn. að semja rækilega grg. um þau vandamál, sem tengd eru aðild Íslands að NATO, um breytingar á vettvangi alþjóðamála þau 20 ár, sem bandalagið hefur starfað, og viðhorfin nú með sérstöku tilliti til Íslands. Þessari till. var seint og um síðir vísað til utanrmn., en þar lá hún óafgreidd fram undir þinglok.

Síðar á þinginu í fyrra fluttum við Alþb.-menn aðra till., sem fól í sér hvort tveggja í senn, úrsögn úr NATO og uppsögn herstöðvasamningsins við Bandaríkin. Sú till. var á dagskrá Sþ. alltaf öðru hvoru allan síðari hluta þingtímans í fyrra, en var aldrei tekin til umr. Nú var sams konar till. flutt um miðjan nóvembermánuð s. l., og hún hefur ekki enn verið rædd né komizt til n. Ég geri ekki ráð fyrir því, að hér sé eingöngu eða jafnvel ekki fyrst og fremst um að kenna sérstakri tregðu hæstv. utanrrh. eða annarra ráðamanna um að ræða þessi herstöðva- og herbandalagamál. Hér kemur einnig og kannske fyrst og fremst til sú allsendis óhæfa ráðstöfun, að ætla sameinuðu Alþingi nær aldrei annan fundartíma allan þingtímann heldur en miðvikudagana, til þess að umr. geti farið fram, þó að reynslan sýni ár eftir ár, að þetta er alls kostar ófullnægjandi fyrir Sþ. Þetta þrengir m. a. stórlega að nauðsynlegum umr. um utanríkis- og sjálfstæðismál þjóðarinnar. Það er fyrir því margföld reynsla, að sá tími, sem Sþ. er ætlaður frá upphafi þings og til loka, fer að langmestu leyti í fsp. og í hrókaræður ráðh. í sambandi við þær fsp., þegar þeir eru að lesa yfir þingheimi oftast nær langar skýrslur, sem rn., ríkisstofnanir eða nefndir hafa tekið saman. Nú er ég ekki að segja, að það sé ekki oft ýmis fróðleikur í þessum skýrslum, sem gott sé að fá, en ég tel það algerlega óhæf vinnubrögð til frambúðar, að Sþ. og þar með utanríkismálum þjóðarinnar og sjálfstæðismálum sé skammtaður svo naumur tími, að það séu ekki tök á að ræða ýtarlega, og það ekki aðeins á einum fundi, hin stærstu og mikilvægustu mál.

Ég mun nú ræða nokkru nánar um NATO-málið og skal leitast við að gera það málefnalega og ofstækislaust, enda hygg ég, að þess sé að vænta, að sá tími sé liðinn, a. m. k. hér á Alþ., að menn séu með staðhæfingar eins og þær, að afstaða manna til hernaðarbandalaga og herstöðva hljóti að mótast af dýrkun á rússneskum kommúnisma annars vegar og bandarískum kapítalisma hins vegar. Það fer ekki á milli mála, að í aðildarlöndum Atlantshafsbandalagsins, þ. á m. Íslandi, hafa margir fylgismenn aðildar að þessu bandalagi sitt hvað við þjóðskipulag Bandaríkjanna og utanríkisstefnu þeirra að athuga. Sumir fylgismanna NATO, sjálfsagt býsna margir, sjá einnig ákveðin vandkvæði á NATO og telja, að áhrif Bandaríkjanna á stefnu þess hafi verið og séu óeðlilega mikil, og mjög margir telja aðild einræðisríkja, hreinna fasistaríkja, vera svartan blett á þessum samtökum. En allt um það eru þessir menn, sem ég ræði hér um, þeirrar skoðunar, að Atlantshafsbandalagið hafi gegnt þörfu hlutverki, það hafi verið og sé óhjákvæmilegt mótvægi gegn kommúnískri og þá einkum rússneskri útþenslustefnu í Evrópu. Ýmsir, sem þessu halda fram, gera sér hins vegar ljóst, að hernaðarbandalögin tvö í Evrópu, Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið, eru engan veginn æskileg eða eðlileg framtíðarlausn á sambúðarvandamálum Evrópu. Og sumir gera sér það einnig ljóst, að þau koma í rauninni í veg fyrir raunhæfa lausn þessara mála. Því miður fannst mér allmikið skorta á, að hæstv. utanrrh. hefði þennan skilning. En menn, sem hafa þessar skoðanir, eru vísir til að vilja meta hverju sinni, hvaða aðferðir eru líklegastar til að stuðla að friði, stuðla að bættri sambúð þjóða. Þeir eru til viðræðu um vandamálin. Þeir vilja móta afstöðu sína til herbandalaga á grundvelli sem raunhæfastrar vitneskju, sem traustastra staðreynda. Ég vona, að það sé ekki of mikil bjartsýni að vænta þess, að meðal íslenzkra fylgismanna NATO í þingmannahópi séu slíkir menn. Það er ekki sízt við þá, sem ég vil gjarnan ræða þetta mál nokkuð og frá ýmsum hliðum.

Með hliðsjón af því, sem ég hef nú þegar sagt, ætti e. t. v. að vera óþarfi að taka það fram, að ég tel alla hugsandi menn, alla menn, sem einhver ábyrgð er falin, siðferðilega skylda til að endurmeta afstöðu sína og viðhorf í ljósi nýrra upplýsinga og þeirra staðreynda, sem fyllstar liggja fyrir hverju sinni. Þetta gildir vitanlega einnig um okkur, sem höfum verið og erum andvígir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Flest er breytingum háð, og þróun heimsmála er næsta ör. Við megum því allir gæta okkar á því að staðna ekki, flæktir í gamlar kreddur eða kennisetningar. Við erum hver og einn siðferðilega skyldugir til að meta viðhorf og taka afstöðu til allra mála fyrst og fremst út frá íslenzku sjónarmiði hverju sinni. Við hljótum að sjálfsögðu að gera okkur fulla grein fyrir því, að eins og sakir standa, er veröldinni skipt í áhrifasvæði, þar sem risaveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, kosta kapps um að hafa tögl og hagldir hvort á sínu svæði. Við hljótum að horfast í augu við þá staðreynd, að Ísland er á miðju áhrifasvæði Bandaríkjanna. Ég er ekki svo óraunsær að neita því, að við mótun íslenzkrar utanríkisstefnu er óhjákvæmilegt að taka tillit til þessara staðreyndar. Hinu neita ég eindregið, að af þessari staðreynd beri að draga þá ályktun, að okkur sé það eitt hlutskipti búið að vera handbendi Bandaríkjanna og þjónn bandarískrar utanríkisstefnu í einu og öllu. Nei, ég tel, að enda þótt sjálfsagt sé að leggja fullkomlega raunsætt mat á allar aðstæður, þá hljóti það að vera kjarni íslenzkrar utanríkisstefnu að tryggja íslenzkri þjóð sem mest og öruggast sjálfstæði og frelsi og stuðla að bættri sambúð þjóða og varanlegum friði. Ég vil í lengstu lög vænta þess, að þeir íslenzkir stjórnmálamenn séu fáir, ef nokkrir eru, sem teknir eru að líta á það sem keppikefli í sjálfu sér, að land þeirra sé í hernaðarbandalagi og hér dveljist erlendur her. Og vissulega fagna ég því, sem hæstv. utanrrh. sagði um dvöl hers hér á landi, þar sem hann vék að því, að vitanlega væri hún óæskileg lengur en nauðsyn krefði, eins og ég hygg, að hann hafi orðað það.

Mér þykir einsætt, að íslenzk viðhorf hljóti að vera þau, að aðild að hernaðarbandalagi sé almennt talin óæskileg og óeðlileg og að varanlegt hernám sé háskalegt og andstætt hagsmunum þjóðarinnar. Hitt kynni þá fremur að vera deiluefni, hvort aðstæður, svo sem styrjaldarháski, réttlættu einhverjar slíkar ákvarðanir á tilteknu tímabili, gerðu þær um skeið illa nauðsyn.

Eitt af býsna mörgu, sem tekið hefur verið til rækilegs endurmats nú á síðustu árum, eru vestrænar kenningar um utanríkisstefnu Sovétríkjanna, um markmið hennar og leiðirnar til að ná því marki. Lengi vel var ákaflega torvelt að afla sér upplýsinga um þetta mikilvæga mál. Þeir voru næsta fáir, sem leituðust við að skýra rússneska utanríkisstefnu á hlutlægan hátt, leituðust við að meta hana og segja þar kost og löst. Þar var sjaldan nema um tvennt að ræða: annars vegar blinda fordæmingu, hins vegar blinda dýrkun. Algengt var, einkum á blómatímum kalda stríðsins, að lýsa Rússum sem samsærisklíku, samsærisklíku glæpamanna, sem berðist ákaft fyrir því að leggja undir sig heiminn og útbreiða kommúnisma um allar jarðir með báli og brandi. Þessum skuggalega lýð fylgdi svo í hverju landi heil hjörð illvirkja, sem stefndi að þessu sama marki, og þar að auki svokallaðir nytsamir sakleysingjar, er þóttu flestum varhugaverðari. Það er óþarfi að rekja þessa sögu. Hún er öllum kunn. Á hinn bóginn mátti svo lesa ritsmíðar manna, sem töldu sjálfum sér og öðrum trú um, að austur í Rússlandi væri fyrirmyndarríkið að rísa, þar væri draumurinn fagri um frelsi, jafnrétti og bræðralag að rætast. Ég held, að það fari ekki á milli mála, að margir sósíalistar og kommúnistar á Vesturlöndum treystu því æðilengi, að austur þar væri, þrátt fyrir þrengingar og tímabundin skakkaföll, að mótast þjóðfélagskerfi betra og fullkomnara en áður þekktist. Og meðan menn trúðu þessu, var í sjálfu sér skiljanlegt, að þeir reyndu í lengstu lög að skýra og réttlæta utanríkisstefnu Rússa út frá hugmyndum sjálfra sín um forysturíki sósíalismans, eins og það var orðað. Hitt er svo annað mál, að á okkar tímum hafa fáir orðið fyrir öðrum eins vonbrigðum og einmitt þessir menn, og þeim mun meiri og sárari hafa vonbrigðin orðið sem trúin var einlægari og heitari.

En víkjum nú aftur að þeirri staðhæfingu, að lengi hafi verið örðugt um vik að afla staðgóðrar fræðslu um utanríkisstefnu Rússa, og fáir orðið til að meta hana á hlutlægan hátt. Hin síðustu ár hefur orðið töluverð breyting á þessu einmitt hér í hinum vestræna heimi. Ýmsir mikilhæfir menn, sem ekki verða vændir um kommúnisma, þ. á m. sérfræðingar í utanríkismálum og í samtímasögu, hafa skrifað býsna fróðlegar bækur um utanríkisstefnu Rússa allt frá tímum byltingarinnar og fram á þennan dag. Ég ætla aðeins að nefna tvo slíka rithöfunda af allmörgum, menn, sem mér eru kunnir eða ég hef lesið eftir, menn, sem um þessi mál hafa fjallað á þann hátt, er ég tel, að veki traust. Ég geri sérstaklega grein fyrir þessum tveimur, þar sem ég styðst í ýmsu við rit þeirra í orðum mínum hér á eftir.

Annar er víðkunnur amerískur prófessor í þjóðfélagsfræðum, Marshall D. Schulmann. Rit hans, „Utanríkispólitík Stalíns endurmetin“, var gefið út af forlagi Harvard-háskóla, en bók hans „Að kalda stríðinu loknu“ kom út hjá bókaútgáfu Yale-háskóla. Hinn rithöfundurinn, sem ég ætlaði að nefna hér til, er Norðmaðurinn Jan Otto Johansen, en hann er sérfræðingur norska sjónvarpsins um utanríkismál. S. l. haust kom út eftir hann einkar fróðleg og athyglisverð bók um sovézka utanríkispólitík. Jan Otto Johansen segist rita bók sína ekki hvað sízt til þess að reyna að hnekkja þeirri útbreiddu, en röngu skoðun, að utanríkispólitík Sovétríkjanna sé eitthvað ákaflega dularfullt fyrirbæri, sem hvorki verður skýrt né skilið út frá sömu forsendum og utanríkispólitík annarra ríkja. Þetta mat vestrænna manna, að utanríkisstjórnmál Rússa séu óskiljanlegt ráðabrugg einhverra afla úr myrkheimum, það gildir nú einnig um Kína, eftir að kommúnistar náðu þar völdum. Margir Vesturlandabúar, þ. á m. fjöldi ráðamanna, hefur litið á utanríkispólitík þessara víðlendu og fjölmennu kommúnistaríkja út frá því sjónarmiði, segir þessi norski sérfræðingur, að þar gildi ekki að neinu leyti almenn og áður kunn lögmál. Stefnan mótist ekki af venjulegum ríkishagsmunum, svo sem öryggissjónarmiðum, efnahagsstöðu og öðru slíku, heldur af leyndardómsfullum áformum um alheimssamsæri um að koma á heimsbyltingu, um að útbreiða kommúnismann með báli og brandi um alla jörð. Þessi hneigð manna á Vesturlöndum til að skilgreina utanríkispólitík Rússa sem eitthvert algerlega nýtt og einstakt fyrirbrigði með allt annað markmið en venjuleg pólitík stórvelda veldur því, segir Johansen, að litið er á rússneska stjórnmálamenn sem hálfgerðar dularverur og þessar dularverur hafi allt annan hugsanagang, noti allt aðrar aðferðir og stefni að allt öðrum markmiðum en stjórnmálamenn annarra stórvelda hafa gert fyrr og síðar. Jan Otto Johansen hafnar þessari kenningu algerlega, og telur hana á misskilningi byggða. Hann segir: „Niðurstaða mín er þessi: Stefna Sovétríkjanna í utanríkis- og öryggismálum er ákaflega svipuð þeirri stórveldapólitík, sem við þekkjum ósköp vel. Við hana er ekkert sérlega dularfullt, og að svo miklu leyti sem utanríkispólitík Rússa er frábrugðin utanríkispólitík annarra stórvelda nú á dögum, stafar það af því, hve hún er ákaflega íhaldssöm og hefðbundin, en alls ekki af hinu, að hún sé svo róttæk og byltingarkennd.“

Ekki veit ég, hvort saga Jósefs Stalíns er enn komin í það mikla fjarlægð, að auðvelt sé að ræða ákveðna þætti stjórnarathafna hans af hlutlægni og án stóryrða. Þetta gerir þó prófessor Marshall D. Schulmann hiklaust, en að því er mér virðist nokkuð trúverðuglega. Í bók sinni um utanríkispólitík Stalíns tekur prófessorinn til meðferðar þá kenningu, að Stalín hafi rekið ákafa og ofsafengna útþenslupólitík í því skyni að koma á kommúnísku skipulagi um allan heim. Schulmann kemst að þveröfugri niðurstöðu. Með ýmsum dæmum sýnir hann fram á, hvernig Stalín var ævinlega reiðubúinn að fórna kommúnistum og hugsanlegri kommúnískri byltingu, svo sem í Kína á sínum tíma og í Grikklandi á sínum tíma, ef hann taldi það henta hinu rússneska stórveldi og vera vissara fyrir öryggi þess. Telur prófessor Schulmann, að í rauninni hafi Stalín rekið varfærnislega utanríkispólitík, forðazt að leggja í mikla áhættu, sem leitt gæti til mjög alvarlegra árekstra við Bandaríkin. Aftur á móti hafi Nikita Krúsjeff rekið ólíkt harðari og glannafengnari utanríkispólitík. Prófessorinn segir, að hvaða eftirmæli, sem Stalín kunni að eiga skilið að öðru leyti, hafi hann rekið að vísu nokkuð kaldrifjaða, en gætilega og skynsamlega utanríkispólitík frá rússnesku stórveldissjónarmiði séð. Schulmann fjallar rækilega um ástandið í Rússlandi að heimsstyrjöldinni lokinni. 20 millj. manna fallnar, fjöldi borga og heilir landshlutar í rústum, Bandaríkin auðug og hervædd og hampandi atómsprengjunni, ráðamenn þar boðandi heilaga krossferð gegn kommúnismanum. Undir þessum kringumstæðum, í tómarúminu í Evrópu eftir styrjöldina, verður að skýra þá atburði, sem gerðust í ýmsum löndum Mið-Evrópu fyrir röskum 20 árum, segir hinn ameríski prófessor. Vitanlega hafi Stalín kosið að tryggja það, að stjórnir sem flestra nágrannaríkja Rússlands yrðu Rússum vinveittar og jafnvel háðar. Schulmann tekur þarna til samanburðar ýmis gömul og ný afskipti Bandaríkjanna af innanlandsmálum Mið- og Suður-Ameríkuríkja. Hann spyr síðan, hvort Bandaríkjamenn gætu barið sér á brjóst og svarið og sárt við lagt, að þeim hefði aldrei komið til hugar að hlutast til um stjórnarfar nágrannaríkja. Setjum svo, heldur hann áfram, að Rússar hefðu staðið í sporum Bandaríkjamanna að styrjöldinni lokinni, verið langtum öflugri hernaðarlega, ráðið yfir atómvopnum einir þjóða, strengt þess heit að umkringja og einangra Bandaríkin og hefja krossferð gegn bandarískum kapítalisma. Ef Bandaríkjamenn hefðu jafnframt staðið í sporum Rússa, land þeirra legið flakandi í sárum eftir villimannlega innrás voldugs nágranna, er þá ekki sennilegt, að þeir hefðu gengið nokkuð langt til að tryggja líf sitt og öryggi? spyr hinn ameríski prófessor.

Prófessorinn kemst að þeirri niðurstöðu, að hvert einasta skref Stalíns í utanríkismálum hafi miðað að því að auka öryggi og efla áhrifamátt Rússlands, hann hafi aldrei stigið hænufet til að útbreiða heimskommúnismann. Gamli maðurinn hafi meira að segja sýnt og sannað, einkum með afstöðunni til Júgóslavíu og Títós, að kommúnistaríki, sem ekki hlíta rússneskri leiðsögn, væru að hans dómi hér um bil það versta, sem til væri. Vissulega væri fróðlegt að rekja í einstökum atriðum stjórnmálasögu síðustu áratuga í ljósi þeirrar kenningar, að sovézkir valdamenn hafi fyrr og síðar komið fram sem fulltrúar rússnesks stórveldis, fremur en sem baráttumenn fyrir alheimskommúnisma. Hér er ekki tækifæri til svo umfangsmikillar könnunar. Hitt vil ég staðhæfa, að ég fæ ekki betur séð að svo komnu máli en niðurstaðan hljóti að vera þessi: Leiðtogar Sovétríkjanna hafa stefnt og stefna að því með utanríkispólitík sinni að treysta öryggi og auka völd og áhrif þess stórveldis, sem þeir stjórna. Þeir vega og meta hverja stöðu, sem upp kemur í alþjóðamálum, út frá sjónarmiði rússneska ríkjasambandsins fyrst og fremst. Starfsaðferðir þeirra bera engin auðkenni þess, að heimsbylting sé takmarkið. Ég fæ ekki betur séð en það sé rétt, að hér er á ferðinni stórveldispólitík í næsta hefðbundnum stíl.

Ýmsir stuðningsmenn NATO hér á landi jafnt sem erlendis hafa bent á innrás Rússa og fylgiríkja þeirra í Tékkóslóvakíu sumarið 1968 sem nýja og ótvíræða sönnun þess, að tilvist Atlantshafsbandalagsins sé nauðsyn. Á þetta lagði hæstv. utanrrh. mjög ríka áherzlu í skýrslu sinni hér í fyrra, og hann var einnig við sama heygarðshornið í ræðu sinni hér í dag. Svo rík áherzla hefur verið lögð á þessa staðhæfingu, að ég tel rétt að athuga hana nokkru nánar. Og þá verður óhjákvæmilegt að líta fyrst aftur í tímann um nokkurt skeið.

Hinn 12. marz 1947 flutti þáv. forseti Bandaríkjanna, Harry S. Truman, ræðu, sem oft hefur verið vitnað til síðan. Í ræðu þessari var demókratinn Truman öðrum þræði að svara stjórnmálaandstæðingum sínum í Bandaríkjunum, repúblikönum, sem höfðu sakað hann og stjórn hans um hina mestu linkind gagnvart kommúnistum, jafnt innanlands sem utan. Forsetinn tók nú á honum stóra sínum og hugðist þvo kommúnistaóorðið af demókrötum með stórhreingerningum í eitt skipti fyrir öll. Í ræðu sinni lagði Truman áherzlu á, að það væri hverju orði sannara, að gervallt mannkyn skiptist nú í tvo hluta, hinn góða hluta og hinn illa. Góða fólkið ætti flest heima á vesturhveli jarðar, það elskaði frelsið ákaflega heitt, það væri ákaflega lýðræðissinnað, það hataði kommúnista ákaflega mikið og það væri prýtt mörgum öðrum dyggðum. Þetta góða fólk lyti forystu rétt hugsandi Bandaríkjamanna. Hins vegar væri vonda fólkið, kommúnistar, undir forystu Rússa, fylgifiska þeirra og handbendi víðs vegar um lönd. Þetta var allt ákaflega einfalt, annaðhvort amerískur andkommúnismi eða kommúnískt samsærisdót. Það var ekkert þar fyrir utan. Og nú boðaði Truman hvort tveggja í senn: upprætingu kommúnismans í Bandaríkjunum og harða baráttu gegn kommúnisma í öðrum löndum. Slá þyrfti hring um Sovétríkin, halda þeim í eins konar herkví. Hér kom einnig fram sú kenning, að Bandaríkin hefðu bæði rétt og skyldu til að koma vinum sínum í öðrum löndum til hjálpar, væri ríkjandi stjórnarfari ógnað af innlendum jafnt sem erlendum öflum. Á þessum tíma geisaði borgarastyrjöld í Grikklandi, og það var einmitt til að geta komið afturhaldsöflum þar í landi til hjálpar, sem þessi fræga kenning, Trumanskenningin svonefnda, var sett fram.

Það er svo alkunna, að upp úr þessu hófust í Bandaríkjunum þeir furðulegu atburðir, sem kenndir hafa verið við McCarthy hinn eldra og naumast eiga sér aðrar hliðstæður en galdrabrennur liðinna alda. Fjöldi fólks var borinn hvers kyns sökum og líf óteljandi mætra manna lagt í rúst. Þar kom, að Harry Truman sjálfur varð einn skotspónn þessa froðufellandi ofstækis. Hann var jafnvel sakaður um að hafa haldið verndarhendi yfir rússneskum njósnara. Truman fjallar um þetta í endurminningum sínum og lýsir því hressilega og ákaflega tæpitungulaust, eins og hans var von og vísa, til hvers McCarthy-isminn í Bandaríkjunum leiddi. Truman kemst þannig að orði:

„Lýðskrumarar, fífl og atvinnuföðurlandsvinir voru iðnir við að sá fræjum óttans í sálir amerískra borgara. Fjöldi heiðarlegs fólks trúði því statt og stöðugt, að yfir bandarísku þjóðinni vofði kommúnískt valdarán og að ríkisstj. okkar í Washington væri gegnsýrð af kommúnisma. Þessi áróður var svo öflugur og umfangsmikill, að enginn gat verið öruggur um sinn hag. Þetta var harmleikur og smán okkar tíma.“ Slíkur var dómur Trumans eftir á.

Hér skal ekki rætt meira um McCarthy-ismann, en vikið nokkru nánar að Trumanskenningunni, þeirri kenningu, að krossferðin gegn sósíalisma og kommúnisma veiti Bandaríkjunum rétt til þess að hlutast til um innanríkismál annarra þjóða á svonefndu vestrænu yfirráðasvæði, til þess að hægt sé að viðhalda þar óbreyttu stjórnarfari eða breyta því Bandaríkjunum í hag. Það er framkvæmd þessarar kenningar, sem hefur valdið Bandaríkjunum mestum erfiðleikum og álitshnekki, og þarf ekki annað en að nefna örfá nöfn því til staðfestingar, nöfn eins og Víetnam, Kóreu, Formósu, Grikkland. Austur í Rússlandi sitja líka valdamenn öflugs stórveldis. Margt er líkt með skyldum, segir máltækið, og á það nokkuð oft við um hugsanagang og starfsaðferðir leiðtoga risaveldanna tveggja. Rússneskir valdhafar hafa líka tilhneigingu til að einfalda hlutina, ósköp líkt og Bandaríkjamenn. Þeir hafa líka verið að bisa við að skipta heiminum í tvennt, gott og illt, hvítt og svart. Þar er annars vegar hinn góði kommúnismi, undir rússneskri forystu, hins vegar hinir illu stríðsæsingamenn og heimsvaldasinnar, sem hlíta bandarískri leiðsögn. Furðumargar hliðstæður má finna með stórveldunum tveimur, jafnvel að því er tekur til kenninga og opinbers boðskapar. Eitt er það, að ekki verður annað séð en Trumanskenningin gamla, sem m. a. var, eins og ég áður sagði, beitt í Grikklandi 1947 og oft hefur verið beitt síðan af Bandaríkjamönnum, hafi verið tekin upp austur í Rússlandi og heiti þar að vísu Brésnjeffskenning. Það var samkvæmt þessari kenningu, um rétt til íhlutunar í innanríkismál á hinu austræna áhrifasvæði, sem Rússar réðust inn í Tékkóslóvakíu í ágúst 1968, eftir að þeir höfðu tilkynnt Bandaríkjunum sérstaklega, hvað í vændum væri. Innrás Rússa og fylgifiska þeirra í Tékkóslóvakíu og ömurleg þróunin þar í hernumdu landi alla stund síðan hefur verið notuð bæði hér og erlendis til rökstuðnings fyrir NATO-stefnu.

Hér á landi hefur með allmiklum árangri verið reynt að hagnýta þessa atburði til að réttlæta bæði áframhaldandi bandaríska hersetu á Íslandi og áframhaldandi aðild Íslands að NATO. Svo langt hafa sumir menn jafnvel gengið, að staðhæfa, að rússnesk valdbeiting í Tékkóslóvakíu réttlæti allar yfirtroðslur og óhæfuverk, sem Bandaríkin hafa framið víðs vegar um heim. Þátttaka Íslands í NATO hvílir sem fyrr á þeirri kenningu, að Atlantshafsbandalagið sé varnarbandalag gegn árásarstefnu Rússa og annarra kommúnistaríkja og stuðli að því að viðhalda valdajafnvægi, meðan ekki hefur náðst samkomulag um afvopnun og upplausn hernaðarbandalaganna.

Athugum nú þessa gömlu og nýju kenningu í ljósi reynslunnar. Samkvæmt sáttmála Atlantshafsbandalagsins er það meginhlutverk þess bandalags að vernda bandalagsþjóðirnar fyrir hugsanlegri utanaðkomandi árás. Svipuð ákvæði mun að finna í sáttmála Varsjárbandalagsins, þótt ég þekki hann miður. En hver hefur raunin orðið? Hún hefur orðið sú, að í hvorugu tilfellinu, hvorki að því er tekur til Atlantshafsbandalags né Varsjárbandalags, hefur frelsi og sjálfsákvörðunarrétti bandalagsþjóða verið ógnað utan frá af hinum meintu andstæðingum, sem hernaðarbandalögin áttu að verja þjóðirnar fyrir. Frelsið og sjálfsákvörðunarrétturinn hafa þvert á móti verið skert eða fótum troðin af ríkjum innan hvors bandalags fyrir sig. Bandalögin hafa allt frá upphafi, en þó í vaxandi mæli, eftir því sem fram liðu stundir, orðið stjórntæki risaveldanna tveggja, Rússlands og Bandaríkjanna, til að tryggja yfirráð þeirra yfir hinum smærri bandalagsríkjum, hvorum í sinni hernaðarblökk. Frelsi Tékka var ekki ógnað úr vestri, heldur af Rússum og öðrum bandalagsríkjum Tékka í Varsjárbandalaginu, hernaðarbandalaginu, sem átti með vopnum sínum að tryggja öryggi þeirra og rétt. Og á hliðstæðan hátt, — ég fullyrði það, — á hliðstæðan hátt sýna örlög Grikklands hvílíkt frelsi það er, sem NATO, undir yfirstjórn Bandaríkjanna, tryggir smáríkjunum, sem þar eiga aðild og skulu samkvæmt aðildarsáttmálanum vænta halds og trausts. Hæstv. utanrrh. neitaði þessu í ræðu sinni og taldi alls ekki um sambærilega hluti að ræða, og skal ég því koma að því nokkru nánar.

Það þarf ekki að rekja það, sem alkunnugt er, að vorið 1967 hrifsaði grísk herforingja- og liðsforingjaklíka til sín öll völd í Grikklandi, kom þar á hernaðareinræði, smalaði stjórnmálaandstæðingum sínum í fangabúðir og hefur stjórnað síðan samkvæmt kokkabókum ótíndra fasista. Þetta valdarán var framkvæmt, þegar kosningar stóðu fyrir dyrum í Grikklandi, þegar sýnt þótti, að frjálslyndur borgaraflokkur þar í landi, Miðsambandið svonefnda, næði þar þingmeirihluta ásamt sósíalistum og kommúnistum og myndaði að öllum líkindum með þeim einhvers konar vinstri stjórn. Það er fyrir löngu talið alveg óyggjandi og fullsannað, að valdarán liðsforingjanna í Grikklandi var framið samkvæmt bandarískri áætlun, sem gerð hafði verið að frumkvæði CIA leyniþjónustu Bandaríkjanna. Til þessarar áætlunar skyldi grípa og hún skyldi framkvæmd, hvenær sem ástandið í grískum innanlandsmálum kynni að komast á það stig, að talið væri hættulegt fyrir NATO og þar með óæskilegt frá sjónarmiði Bandaríkjanna. Vitneskja um þessi afskipti bandarísku leyniþjónustunnar af þessum málefnum Grikklands og samvinna við valdaræningjana þar varð tiltölulega fljótt kunn. Um skeið héldu ýmsir vinir Bandaríkjanna því fram, að leyniþjónustan hefði sjálfsagt hér eins og oftar gripið fram fyrir hendurnar á yfirboðurum sínum í Washington og sýnt þetta hressilega framtak án þess að þeir hefðu minnstu hugmynd um. En síðar hafa verið leiddar að því sterkar líkur, — ég þori ekki að segja, að það sé fullsannað, — að utanríkis- og varnamálaráðuneyti Bandaríkjanna og jafnvel Johnson forseti hefðu ekki aðeins vitneskju um áætlunina og fyrirætlun grísku liðsforingjanna, heldur hafi þessir aðilar tekið beinan þátt í undirbúningi. Það er a. m. k. víst, að Miðjarðarhafsfloti Bandaríkjanna lá úti fyrir Aþenu, þegar liðsforingjarnir hrifsuðu til sín völdin, og hann hélt þar kyrru fyrir um meira en hálfs mánaðar skeið, eða þangað til valdaránið var að fullu og öllu til lykta leitt. Nú hafa þessir grísku liðsforingjar og hershöfðingjar setið við stjórnvölinn í Grikklandi í þrjú ár, og gríska stjórnin hefur nær allan þann tíma notið bæði hernaðarlegrar og efnahagslegrar aðstoðar frá Bandaríkjunum, að því er talið er í mjög stórum stíl. Grikkland undir fasistastjórn er af Bandaríkjunum og NATO hinn yfirlýsti útvörður frelsis og lýðræðis í suðri, svo einkennilega sem þetta hljómar. Og á fundum NATO-ráðs hefur meiri hl. fulltrúa staðið gegn því, að ástandið í Grikklandi væri rætt, og það er gert með þeirri röksemd, að NATO hlutaðist ekki til um innanríkismál aðildarlanda.

Ég hef það fyrir satt, að Íslendingar hafi staðið fast við hlið Bandaríkjanna í þessu, eins og flestu öðru. En nú hefur eðlilega og í framhaldi af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um atburðina í Grikklandi vorið 1967, vaknað spurning, sem orða má eitthvað á þessa leið: „Gildir það ekki um fleiri NATO-ríki en Grikkland, að bandaríska leyniþjónustan og herstjórnin telji sig þurfa að gera áætlanir um að grípa í taumana, ef þörf krefur að þeirra dómi? Hvað veit hæstv. utanrrh. eða aðrir íslenzkir fylgismenn aðildar að NATO um þessi efni? Sennilega veit hann ekki mikið um þau. En er það rétt, að árið 1964 hafi komizt upp um valdaránsáætlun á Ítalíu, hliðstæða hinni grísku, sem framkvæmd var þar þrem árum síðar? Á það má minna, að árið 1964 var á Ítalíu langvinn stjórnarkreppa. Þá var mikil ólga í landinu og veruleg óvissa ríkjandi í pólitískum efnum. Er það rétt, spyr ég aftur, að Bandaríkjamenn hafi þá verið þarna á ferðinni, verið reiðubúnir að grípa til sinna ráða, ef þeir töldu nauðsyn krefja? Nú er enn stjórnarkreppa á Ítalíu. Þar eru verkföll tíð. Þar er rík óánægja almennings. Þar eru veður öll válynd, enda má mikið vera, ef Bandaríkin eru ekki við sitt gamla heygarðshorn, tilbúin að láta til skarar skríða. Fróðlegt þætti mér að vita, hvort hæstv. utanrrh. getur frætt mig og aðra þm. um svokallað leyniskjal, sem á að vera undirritað af tveimur bandarískum hershöfðingjum í Evrópu og birtist í ýmsum erlendum blöðum í fyrra, þ. á m. í norska blaðinu Orientering, þar sem ég sá þetta plagg. Veit hæstv. ráðh. eitthvað um plaggið? Telur hann það falsað eða ófalsað? Í þessu svonefnda leyniskjali er vitnað til bandarískrar áætlunar, sem miðar að því, eins og þar stendur, að tryggja öruggt stjórnarfar í NATO-ríkjum, þar sem hætta kann að skapast, ýmist vegna aðsteðjandi atvika eða ótryggs ástands innanlands. Þetta skjal á að vera runnið frá aðalstöðvum bandarísku herstjórnarinnar í Evrópu. Þar eru tilgreind 10 aðildarríki NATO, sem áætlun þessi á að ná til. Ísland er ekki talið þar með. En hins vegar eru þar nefnd bæði Noregur og Danmörk.

Um þetta svokallaða leyniplagg skal ég ekki fjölyrða meira, enda veit ég ekki annað um eðli þess eða uppruna heldur en það, sem ég las í sumar sem leið í hinu norska blaði, sem ég áður nefndi. Hitt vil ég leyfa mér að staðhæfa og leggja á það áherzlu, að ég tel mig hafa fært nokkur rök fyrir því, að afstaða Bandaríkjanna til NATO og aðildarríkja þess annars vegar og afstaða Sovétríkjanna til Varsjárbandalagsins hins vegar er býsna áþekk.

Atburðirnir í Grikklandi 1967 og í Tékkóslóvakíu 1968 eru hliðstæðir að því leyti, að þeir eru bein afleiðing af áhrifasvæðapólitík risaveldanna. Örlög Tékka og Grikkja sanna, að aðild að hernaðarbandalögum er sízt af öllu nein frelsistrygging, miklu heldur er hún ógnun við sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði smárra þjóða. Bæði risaveldin fylgja drottnunarstefnu, hvort á sínu áhrifasvæði. Þar vilja þau ráða og ríkja.

Ég mun ekki að þessu sinni ræða yfirgangsstefnu Bandaríkjanna utan NATO, og þó er það, sem þegar hefur verið talið í því sambandi, hreinn barnaleikur á borð við ofbeldisstefnu þeirra í Asíu og rómönsku Ameríku. Í þeim efnum kemst áreiðanlega ekki neitt ríki í neinn samjöfnuð við Bandaríkin.

Ég skal nú senn láta þessu máli mínu lokið. Ég vil að síðustu aðeins segja þetta: Nú er að ýmsu leyti betra andrúmsloft ríkjandi í heimsmálum en um alllangt skeið áður og þá ekki hvað sízt í málefnum Evrópu. Þótt rétt sé að varast of mikla bjartsýni, þá er sem betur fer margt, sem til þess bendir, að nú sé hin gamla kynslóð kalda stríðsins smám saman að þokast til hliðar og með henni ýmsar kreddur og ýmsir fordómar, en ný kynslóð að sækja fram til áhrifa. Þetta kemur ekki hvað sízt fram í pólitík Willy Brandts og breyttri stefnu í Þýzkalands-málum og gagnvart austantjaldsmálum. Þá er einnig ljóst, að samskipti risaþjóðanna tveggja, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, hafa breytzt mjög hin síðustu missiri og spennan á milli þeirra hefur verulega minnkað. Þau hafa náð samkomulagi um mikilvægan áfanga, að því er nær til banns við útbreiðslu kjarnavopna, og þau ræðast nú a. m. k. við um allsherjar afvopnun. Batnandi sambúð þessara miklu ríkja er út af fyrir sig fagnaðarefni, og hún eykur vissulega vonir manna um varanlegan frið. Hitt verð ég þó jafnframt að segja, og það í fullri hreinskilni, að stóraukið samstarf og samspil þessara tveggja voldugu ríkja má einnig vera smáþjóðum og miðlungsstórum þjóðum nokkurt áhyggjuefni, nema því betur takist til. Þess vegna tel ég mig skilja það býsna vel, sem hæstv. ráðh. lýsti nokkuð og virtist furða sig á, að þess hefði gætt verulega á síðasta þingi Sameinuðu þjóðanna, að smáþjóðir ýmsar og miðlungsstórar þjóðir hefðu af þessum málum vissar áhyggjur. Og það er nú svo, að óneitanlega getur sú hætta vofað yfir, að aukið samstarf stórveldanna leiði til samkomulags þeirra í milli um varanlega tvískiptingu heimsins í áhrifasvæði, sem mundi jafnvel auka áhrifavald þessara tveggja risavelda yfir öðrum þjóðum. Þetta er vitanlega hætta, sem hinar minni þjóðir hljóta að reyna að gjalda varhug við og vera á verði gegn. Þær verða að halda vöku sinni og gera það, sem í þeirra valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir allar tilraunir stórþjóða til að gerast einhvers konar yfirdrottnarar heimsins til frambúðar, jafnvel þó þeir komi sér saman um að skipta honum á milli sín, hvort heldur sem slík yfirdrottnun á sér stað í krafti hervalds eða fjármagns eða hvors tveggja.

Einhver allra mikilvægasta hreyfing í átt til friðar og bættrar sambúðar þjóða, í Evrópu a. m. k., er sú hugmynd, sem verið hefur að þróast að undanförnu, um að vandlega verði undirbúin og síðan haldin ráðstefna um öryggismál Evrópu. Hæstv. ráðh. vék nokkuð að þessu máli undir lok ræðu sinnar, og mér fannst hann vera e. t. v. óþarflega neikvæður í sambandi við það mál. Ég geri mér verulegar vonir um, að þessi hugmynd þróist upp í það, að málið geti fljótlega komist á ekki aðeins umræðustig, heldur jafnvel á ákvörðunarstig. Slíkt verður að vísu vafalaust að nást í áföngum, en hvert skref fram á við í þessu efni er mikils virði. Ég tel alveg einsætt, að við Íslendingar eigum að styðja þessa hugmynd um Öryggisráðstefnu Evrópu. Við eigum að leggja okkar litla lóð á vogarskálarnar, til þess að hún verði haldin og til þess að hún beri árangur. Ég skal ekki draga úr því, að undirbúningur undir slíka ráðstefnu þurfi að vera vandaður. Það þarf að vera nokkuð ljóst, að hún fari ekki með öllu út um þúfur, því þá er e. t. v. verr af stað farið en heima setið. En ég legg áherzlu á, að þetta mál er þess eðlis og svo mikilvægt fyrir allar hinar smáu þjóðir, að þar hljótum við Íslendingar að leggja okkar lóð á vogarskálarnar, til þess að slík ráðstefna verði haldin með árangri.

Það skulu svo vera mín síðustu orð að þessu sinni, að íslenzkir ráðamenn ættu að gera sér það ljóst, og það fyrr en síðar, að öryggismál Evrópu komast ekki í gott og varanlegt horf, nema hernaðarblakkirnar tvær verði leystar upp.