22.01.1970
Neðri deild: 41. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

123. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að flytja langt mál til þess að gera grein fyrir afstöðu 2. minni hl. fjhn. til þessa frv., því að hún kemur nokkuð ljóst fram í nál. frá okkur á þskj. 259.

Mér finnst þó rétt að vekja athygli á því, að þegar þetta mál var til umr. hér fyrir jólin, var lögð mikil áherzla á það af hæstv. ríkisstj., að það yrði afgr. fyrir jólafríið, en þá voru ekki eftir nema örfáir dagar þangað til það átti að byrja. Þessu var mjög ákveðið mótmælt af stjórnarandstæðingum og þau mótmæli báru þann árangur, að málinu var frestað þar til þing kom saman að nýju.

Þetta hefur orðið til þess, að frv. hefur fengið miklu nánari og víðtækari athugun en ella. Tollskrárnefnd ríkisins fór yfir ýmis ákvæði þess meðan á þinghléi stóð og síðan þing kom saman hafa fjhn. beggja þingdeilda unnið sleitulaust að því að fara yfir frv. Ég tel, að það hafi á margan hátt verið vel unnið og formaður fjhn. þessarar deildar sem stjórnaði því starfi hafi haldið þar vel á málum eins og aðstaðan var. Niðurstaðan hefur líka orðið sú, að hér hafa verið lagðar fram ekki færri en 160 brtt., sem eru fluttar af formanni fjhn. og eru yfirleitt studdar af allri n. eða a.m.k. af meiri hl. hennar. Og mér er tjáð, að samanlagt muni þessar till. lækka tollana um u.þ.b. 30 millj. kr. Langmest af þeirri tollalækkun er ávinningur fyrir iðnaðinn með ýmsum hætti.

Ég tel að þetta sýni, að sú afstaða okkar stjórnarandstæðinga fyrir jólin, að krefjast nánari athugunar á þessu máli, hafi haft við fyllstu rök að styðjast og að hún hafi borið verulegan árangur, eins og ég hef hér bent á. Það hefði verið alveg útilokað, ef átt hefði að afgr. tollskrána fyrir jólin, að slík athugun og átt hefur sér stað hefði getað farið fram. Ég tel því, að afstaða okkar stjórnarandstæðinga til málsins við 1. umr. hafi þannig borið árangur, sem vert er að minnast og gæti hún orðið til leiðbeiningar síðar, þegar áherzla er lögð á það af hæstv. ríkisstj., — hvort sem það væri þessi ríkisstj. eða önnur, – að afgr. stórmál eins og þetta með óeðlilegum hraða.

Eins og fram hefur komið hér, bæði nú við þessa umr. og 1. umr., þá hefur endurskoðun tollskrárinnar að þessu sinni fyrst og fremst beinzt að því að samræma hana þeim samningi við EFTA, sem samþ. var hér á þingi fyrir jólin. Og starf fjhn., eða afstaða fjhn. til frv., hefur fyrst og fremst beinzt að tollskránni með tilliti til hans. Athuganir á öðrum ákvæðum tollskrárinnar hafa því ekki farið fram, þó að til þess væri ærin ástæða. Ég vil t.d. nefna í því sambandi, að vissir tollar eru nú óeðlilega háir, eins og t.d. tollar á byggingarefni og tollar á heimilisvélum. Það er orðið mjög aðkallandi að lækka þá. Ég tel þessa tolla, sem ég nefndi hér, sérstaklega ósanngjarna, vegna þess að þeir bitna fyrst og fremst á ungu kynslóðinni eða því fólki, sem er að koma sér upp eigin húsnæði og er að mynda heimili og þarf þess vegna öðru frekar á heimilisvélum að halda. En því er ekki að neita, að ef ætti að lækka þessa tolla í það horf, sem eðlilegt væri, þá mundi af því hljótast veruleg tekjurýrnun fyrir ríkissjóð. Þess vegna hygg ég, að heildarendurskoðun á tollskránni, sem er orðin nauðsynleg, m.a. með tilliti til þessara breytinga, geti tæpast farið fram, nema jafnhliða fari einnig fram athugun á öðrum tekjustofnum ríkisins. Þessi mál þarf öll að athuga í heild. Það er orðið mjög aðkallandi að framkvæma slíka heildarendurskoðun á öllum tekjustofnum ríkisins, m.a. með það í huga, að það verði gerðar þessar breytingar og fleiri á tollskránni í heild. En til slíkrar athugunar gafst ekki tækifæri eða aðstaða nú, heldur var starf fjhn. fyrst og fremst bundið við það að samræma tollskrána þeim breytingum, sem leiðir af EFTA–aðildinni.

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá var það meginstefna í þessu frv., samkvæmt samkomulaginu við EFTA, að lækka verndartollana um 30%, en til að mæta því áfalli, sem af því leiddi fyrir iðnaðinn, var ákveðið að lækka hráefnistolla til jafnaðar um 50% og tolla á vélum til iðnaðarins úr 25% í 7%. Þó að þetta sé nokkru meiri lækkun á hráefnistollunum og vélatollunum, en lækkun verndartollanna nemur, þá mun niðurstaðan í flestum tilfellum verða sú, að af þessum tollabreytingum mun leiða meiri lækkun á erlendum vörum, en verður á innlendu framleiðslunni. Þetta gerir þess vegna stöðu iðnaðarins óhagstæðari en hún áður var.

Af þeim ástæðum og líka í samræmi við fyrri afstöðu okkar, þá teljum við framsóknarmenn, að lengra hefði átt að ganga í þá átt að lækka hráefnistollana og vélatollana. Við teljum, að það hefði verið eðlilegt og raunar óhjákvæmilegt að afnema þessa tolla með öllu. Ég vil benda á það, að ef frv. verður samþ. óbreytt og söluskatturinn verður hækkaður í 11%, eins og hér er lagt til í öðru frv., þá munu tollar og söluskattur af vélum til iðnaðarins nema samanlagt rúmlega 19% af innkaupsverði þeirra. Þetta er álagning, skattálagning, sem hvergi annars staðar þekkist og er iðnaðinum tvímælalaust mjög óhagstæð, í samanburði við þá aðila, sem við er að keppa erlendis. Þess vegna hefði ekki veitt af því, eins og við leggjum hér til á sérstöku þskj., að vélatollarnir hefðu verið alveg felldir niður og hráefnistollarnir einnig.

Ég hygg, að það séu flestir sammála um það, að næstu fjögur ár verði mjög örlagarík fyrir iðnaðinn, þ.e.a.s. hvort honum tekst á þeim tíma að auka svo samkeppnishæfni sína, að hann standist þá miklu lækkun eða afnám verndartollanna, sem þá er framundan. Og til þess að bæta samkeppnisaðstöðu sína á þessum tíma, þá hefði honum áreiðanlega ekki veitt af því, að vélatollarnir og hráefnistollarnir væru alveg felldir niður. Það er í samræmi við þetta, sem við í 2. minni hl. fjhn. leggjum til á sérstöku þskj., að vélatollarnir, sem eru nú 7% í frv., verði alveg felldir niður, þ.e.a.s. tollar á vélum til iðnaðarins.

Jafnframt teljum við eðlilegt, að tollar á vélum til landbúnaðarins, sem eru nú 10%, en eru lækkaðir í 7% í frv., verði einnig alveg felldir niður. Ef tollarnir á landbúnaðarvélunum verða ekki lækkaðir meira en sem svarar þessum 3%, sem frv. gerir ráð fyrir, en söluskatturinn verður hækkaður um 3 1/2%, þá munu landbúnaðarvélarnar hækka nokkuð í verði frá því, sem nú er. Þess vegna teljum við eðlilegt, að þessir tollar verði alveg felldir niður.

Sama er að segja um vélar, hluti og tæki til sjávarútvegsins. Það hvílir nú á þessum vélum eða tækjum 4% tollur og það er gert ráð fyrir því, að hann haldist áfram. Þetta þýðir það, að þessar vélar og tæki sjávarútvegsins munu hækka í verði sem öllum söluskattinum nemur, ef tollurinn verður látinn standa óbreyttur.

Til þess að ganga úr skugga um, hver afstaða þm. er í þessum efnum eða hver þingviljinn er, þá flytjum við á þskj. 260 till. um að afnema tolla á nokkrum tilteknum vélum og tækjum, sem iðnaðurinn, sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn notar. Verði þessar till. okkar samþ., munum við, við 3. umr. flytja víðtækari till. um afnám tolla á öllum öðrum sambærilegum vélum og tækjum, en ella er óþarft að vera með langan tillöguflutning og margar atkvgr. um þetta efni, því að atkvgr. um þau atriði, sem felast í till. okkar á þskj. 260, á að leiða það fullkomlega í ljós, hver þingviljinn er í þessum efnum. Eins og kemur fram í nál. okkar, kostar það mikla vinnu og mjög mikla sérþekkingu að undirbúa till. um afnám tolla á hráefnum til iðnaðarins, vegna þess að þeim er blandað inn í fjölmarga vöruflokka aðra, og það getur verið mjög erfitt fyrir aðra en þá, sem eru sérstaklega sérfróðir í þessum efnum, að greina þessar vörur í sundur, þ.e. hvað eigi að teljast hráefni og hvað ekki. Þess vegna leggjum við til, að það ákvæði verði samþ. til bráðabirgða, að tollskrárnefnd endurskoði í samráði við Félag ísl. iðnrekenda, Samband ísl. samvinnufélaga, Landssamband iðnaðarmanna, Verzlunarráð Íslands og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna öll þau atriði tollskrárinnar, sem snerta hráefni og hjálparefni til iðnaðar, með það fyrir augum, að tollar af þessum efnum verði felldir niður og að till. n. um þetta efni verði lagðar fyrir næsta þing. Ég hygg að það verði ekki framkvæmanlegt í annarri mynd, en þessari að ná því fram, svo að fullnægjandi geti talizt eða rétt, að felldir verði niður tollar á hráefnum og hjálparefnum til iðnaðarins. Það er a.m.k. meira verkefni en svo, að það sé hægt að ljúka því á þeim tíma, sem ætlaður er til afgreiðslu þessa máls.

Ég tel, að það muni verða þörf á því hvort eð er, að taka tollskrána til meðferðar á næsta þingi. Ég nefni það því til sönnunar, að það náðist ekki samkomulag um það í fjhn. að gera breytingar á 90. kafla tollskrárinnar, en sá kafli fjallar aðallega um rannsóknartæki og ýmis mælitæki, sem iðnaðurinn notar og hlýtur að nota í vaxandi mæli, því að eftir því sem tækni og hagræðing og annað slíkt eykst í iðnaðarrekstrinum, verður vaxandi þörf fyrir margs konar rannsóknarstarfsemi. Rannsóknastarfsemi hlýtur þess vegna að verða mjög vaxandi þáttur á komandi árum í starfsemi iðnaðarins. En við þessa endurskoðun á tollskránni hefur eiginlega engin breyting fengizt fram á þessum lið. Ég hygg, að iðnrekendur muni yfirleitt leggja mikla áherzlu á það, að þessi tæki verði lækkuð, rannsóknartækin og mælitækin, til samræmis við aðrar vélar, en þau eru enn flest í mjög háum tollum, miklu hærri heldur en tollarnir á vélunum til iðnaðarins verða, jafnvel þó að það verði samþykkt, sem liggur fyrir í brtt. Ég hygg, að tollar á þessum rannsóknartækjum séu í mörgum tilfellum 50% og jafnvel allt að 70%, eða ég man það nú ekki svo nákvæmlega. Þeir eru a.m.k. mjög háir og það verður óhjákvæmilegt, að taka þetta atriði til sérstakrar athugunar, ekki síðar en á næsta þingi, sökum þess, eins og ég hef þegar minnzt á, að það verður mikil þörf á því, að auka á komandi árum hvers konar rannsóknarstarfsemi í þágu iðnaðarins. Það væri einmitt eðlilegt, að næsta Alþ. fjallaði um slíkar breytingar á tollalöggjöfinni. Þá mætti þess vegna vel hugsa sér, að jafnframt því, sem tollskrárnefndin endurskoðaði tollskrána með tilliti til þess ákvæðis til bráðabirgða, sem við flytjum till. um, þá færi einnig fram sérstök athugun á 90. kafla tollskrárinnar, þar sem rannsókna– og mælitækin eru.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða öllu meira um þetta mál að þessu sinni. Ég vil aðeins árétta það, áður en ég lýk máli mínu, að við í 2. minni hl. fjhn. teljum það mjög mikilvægt, að tollar á hráefnum og vélum til iðnaðarins verði felldir niður sem allra fyrst og í samræmi við það höfum við líka flutt þær till., sem eru á þskj. 260. En þrátt fyrir það, þó að svo fari, að þessar till. okkar nái ekki fram að ganga þessu sinni, munum við styðja frv., vegna þess að þær lækkanir, sem í því felast á hráefnatollum og vélatollum, ganga í rétta átt að okkar dómi, þó að of skammt sé gengið.