10.04.1970
Sameinað þing: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

Utanríkismál

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans um utanríkismál. Skýrsla þessi var bæði ýtarleg og drepið á hin stærstu mál og helztu viðburði utanríkismála á s. l. ári. Ég vil taka undir það, sem áður hefur verið sagt í umr. um þá nýbreytni, sem núv. hæstv. utanrrh. tók upp í fyrsta sinn á síðasta ári, að flytja Alþ. skýrslu um utanríkismál, en jafnframt að efna til umr. um skýrsluna og utanríkismálin almennt.

Ég mun hér á eftir ræða nokkuð almennt um utanríkismál og almenna stefnumörkun utanríkismála og meðferð þeirra, en jafnframt drepa á örfá málefni, sem fyrri ræðumaður Framsfl. við þessa umr., hv. 4. þm. Reykv., talaði ekki sérstaklega um. En hann ræddi m. a. um landhelgismálið og varnarmálin.

Utanríkismálin eru mjög þýðingarmikil mál af þeirri ástæðu, að þau varða sjálfstæði þjóðarinnar og öryggi. Frá því Íslendingar tóku meðferð utanríkismála að öllu leyti í sínar hendur vorið 1940, eru nú liðin tæp 30 ár. Á þessum tíma hefur öll aðstaða Íslands gagnvart umheiminum breytzt ótrúlega mikið. Við upphaf þessa tímabils var Ísland tiltölulega einangrað land. Nú er landið hins vegar í þjóðbraut á alþjóðaleiðum og hefur mikla hernaðarþýðingu í augum stórveldanna. Tæknin og vísindin hafa gjörbreytt allri aðstöðu lands og þjóðar. Fjarlægðin frá öðrum þjóðum, sem svo lengi hefur verndað okkur, er nú úr sögunni. Fyrir síðari heimsstyrjöldina töldu flestir Íslendingar, að öryggi Íslands væri bezt borgið með yfirlýsingu um ævarandi hlutleysi. En saga heimsstyrjaldarinnar og eftirstríðsáranna sannaði smáþjóðunum á átakanlegan hátt, að einlægur, einhliða vilji til hlutleysis hrekkur skammt til að treysta öryggi.

Bretar brutu hlutleysi á okkur Íslendingum 9. maí 1940. Þó að við mótmæltum þessu þá formlega, held ég að í dag finnist fáir eða engir Íslendingar, sem hefðu heldur kosið, að nazistar hefðu orðið á undan Bretum. Með herverndarsamningnum við Bandaríkin sumarið 1941 var gerð breyting á utanríkismálastefnu Íslands og horfið frá hlutleysisstefnunni. Víðtækt samstarf þjóða í milli hefur farið ört vaxandi og fer ekki fram hjá okkur Íslendingum. Við verðum, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að fylgjast með straumnum. Hann er of þungur til þess, að við getum staðið hann af okkur án þess að finna til hans. Við verðum að læra að hafa vaxandi samvinnu við aðrar þjóðir í mikilvægum málum. Hins vegar verðum við að gæta þess vel að halda menningu þjóðar okkar og fullu sjálfstæði. Það er okkar dýrasta eign. En því aðeins fáum við haldið fullu sjálfstæði, að okkur takist að tryggja í landinu sambærileg lífskjör við grannþjóðirnar. Samvinna við aðrar þjóðir verður að byggjast á því, að við látum ekki af hendi sjálfsforræði þjóðarinnar. Við Íslendingar höfum vanizt frelsi og viljum vera frjálsir. Við viljum byggja stjórnarfar okkar á lýðræði og mannhelgi og viljum mikið á okkur leggja til að tryggja í reynd frelsi og lýðræði í landi okkar.

Meðferð á utanríkismálum er að mörgu leyti erfitt hlutverk og vandasamt fyrir smáþjóð í viðsjálum heimi. Sorglega margar þjóðir hafa misst sjálfsforræði sitt á okkar tímum og búa við hið versta hlutskipti. Í þessum efnum eru dæmi nærtæk. Segja má, að Framsfl. sé fylgjandi þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi á grundvelli þeirra sjónarmiða, sem ég var að lýsa. Flokkurinn vill byggja stefnuna í utanríkismálum landsins á góðri sambúð við allar þjóðir, sérstaklega þjóðir Norðurlanda, og með þátttöku í Sameinuðu þjóðunum, en jafnframt á sérstakri samvinnu við vestrænar lýðræðisþjóðir. Framsfl. er því sammála þeirri stefnu, sem fram kom í ræðu hæstv. utanrrh., að byggja stefnuna í utanríkismálum í meginatriðum á eftirfarandi grundvelli: Í fyrsta lagi á náinni samvinnu við hin Norðurlöndin, í annan stað á þátttöku í störfum Sameinuðu þjóðanna, í þriðja lagi á þátttöku í Atlantshafsbandalaginu og í fjórða lagi á góðri samvinnu við viðskiptalönd okkar og allar þjóðir, án tillits til þess á hvern veg þær haga stjórn innanríkismála og stjórnskipulagi sínu.

Með hugtakinu „vestræn samvinna“ er að öllum jafnaði átt við samvinnu þjóðanna, beggja vegna Atlantsála, í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu. Þessar þjóðir eiga samleið af ýmsum ástæðum og í ýmsum greinum. Þær eru yfirleitt fremstar allra þjóða veraldarinnar í því, er lýtur að tækniframförum og vísindum, margar hverjar fremstar á sviði félags- og framfaramála, og meðal þeirra er að finna það bezta, sem völ er á. Þetta þýðir ekki það, að allt sé gott, sem þaðan kemur. En við Íslendingar eigum að vinza úr það bezta og hagnýta okkur það. Landfræðilega hagar svo til, að samskipti þessara þjóða hafa verið mikil og náin. Næstu nágrannaþjóðir okkar eru fyrst og fremst Norðurlandaþjóðirnar og Bretlandseyjar í austri og Bandaríkin og Kanada í vestri. Þess vegna er það rökrétt og eðlilegt, að við Íslendingar leggjum áherzlu á sem nánast samstarf við Norðurlandaþjóðirnar og Engilsaxa og reynum á þann hátt að tryggja sjálfstæði okkar, menningu og öryggi. Stjórnarfar þessara þjóða er yfirleitt í grundvallaratriðum svipað, þótt þjóðirnar og löndin, sem þær byggja, séu um margt mjög ólík. Þess vegna hentar ekki það sama í öllum löndunum, og sum þessara landa eiga við vandamál að stríða, sem eru okkur framandi, enda óviðkomandi. Það er sameiginlegt þessum þjóðlöndum að byggja stjórnarfar sitt á frelsi og lýðræði. Yfirleitt eru lífsviðhorf og menningararfleifð þessara þjóða á þann veg, að eðlileg samstaða þeirra er sjálfsögð.

Af þessum ástæðum, sem ég hef rakið, og fleirum telur Framsfl. eðlilegt, að Íslendingar taki þátt í varnarsamtökum vestrænna þjóða, Atlantshafsbandalaginu, en leggur áherzlu á þá fyrirvara, sem gerðir voru af hálfu Íslendinga, er þeir fyrir rúmum 20 árum gerðust aðilar að þessum samtökum, en þeir voru á þá lund, að á Íslandi yrði ekki herlið eða herstöðvar á friðartímum, að það væri algerlega á valdi Íslendinga sjálfra, hvenær hér væri erlent herlið, og Íslendingar hefðu ekki eigin her og ætluðu ekki að setja hann á fót. Samvinna Íslendinga við aðrar þjóðir hlýtur að verða að grundvallast á sérstæðri tilveru og aðstöðu Íslendinga. Fámenni okkar skapar vandamál í samvinnu við stærri þjóðir og stórveldi. Verndun þjóðernis vors, tungu og menningar, svo og fjárhagslegs sjálfstæðis, er mikið vandamál í nýjum heimi vaxandi samskipta og samvinnu. Við hljótum að gera þá kröfu til þeirra þjóða, sem við eigum samvinnu við, að þær taki eðlilegt tillit til sérstöðu okkar.

Utanríkismál eru annars eðlis en innanríkismál. Þau varða afstöðu landsins út á við og löglega teknar ákvarðanir, marka stefnu landsins gagnvart öðrum þjóðum. Stefnan á að miðast við hagsmuni allrar þjóðarinnar. Í innanríkismálum gegnir allt öðru máli. Þar stangast hagsmunirnir meira og minna á. Af þessu leiðir, að sjálfsagt er að leitast við að skapa sem víðtækasta samstöðu landsmanna um utanríkismálin. Ef við lítum til annarra þjóða, jafnvel stórþjóða, má finna mörg dæmi þess, að ólíkir stjórnmálaflokkar snúi bökum saman, þegar um þýðingarmikil utanríkismál er að tefla, ef þeir vilja byggja á meginsjónarmiðum, þótt þeir séu mjög á öndverðum meiði í innanríkismálunum. Fyrir smáþjóð eins og Íslendinga er mjög áríðandi, að allir, sem aðhyllast sömu grundvallarsjónarmið í utanríkismálum, reyni að standa saman eins og unnt er og taka nokkurt tillit hver til annars. Skiptir ekki máli í þessu sambandi, þótt menn séu á öndverðri skoðun um stefnuna í innanríkismálum.

Núv. hæstv. utanrrh. hefur tekið upp ný vinnubrögð í meðferð utanríkismála, sem eru tvímælalaust til bóta. Hér er um að ræða í fyrsta lagi, að hann flytur hv. Alþ. árlega skýrslu um utanríkismálin og þar fara fram umr. um þau mál. Í öðru lagi: Utanrmn. hefur starfað meira en áður var og fyrir hana lögð mál, eins og ráð er fyrir gert í lögum. Í þriðja lagi: Samkomulag hefur verið um skipun sendinefndar á þing Sameinuðu þjóðanna. Það er tvímælalaust til bóta, að ríkisstj. hefur gefið flokkum stjórnarandstöðunnar kost á fulltrúum í sendinefnd Íslands á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Sá háttur var og tekinn upp að gefa fulltrúum stjórnmálaflokkanna tækifæri til að skipta einu sinni um mann, meðan á þingtímanum stendur, en hann er eins og kunnugt er nokkuð langur, eða um 3 mánuðir. Æskilegt væri, að fulltrúum flokkanna yrði gefinn kostur á að vera viðstaddir almennar umr. í upphafi allsherjarþingsins, þegar þjóðarleiðtogarnir flytja yfirleitt mál sitt. Að sjálfsögðu ræður ríkisstj. afstöðu landsins til mála á þingi Sameinuðu þjóðanna, og mótast störf sendinefndarinnar af þessu. Eigi að síður láta nefndarmenn álit sitt og sérstöðu í ljós innan nefndarinnar.

Hæstv. utanrrh. drap á ýmis málefni, sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fjallaði um í vetur. Hann rakti t. d. sögu hins svonefnda hafsbotnsmáls, sem á dagskrá allsherjarþingsins nefndist: „Friðsamleg hagnýting hafsbotnsins og verðmæta undir honum, utan lögsögu ríkja, til hagsbóta öllu mannkyninu.“ Þótt þetta mál varði fyrst og fremst hafsbotninn sjálfan og verðmætin undir honum, gefur auga leið, að vinnsla verðmæta hafsbotnsins getur á ýmsan hátt varðað hagsmuni okkar Íslendinga, þótt slík vinnsla sé utan okkar lögsögu. Þar er fyrst að nefna olíuvinnslu á sjávarbotni, sem hefur farið stórvaxandi. Þrátt fyrir mikla tækni hefur þó ekki reynzt unnt að koma í veg fyrir olíuleka og af ýmsum ástæðum hefur mikið magn olíu komizt út í hafið. Mengunarhætta hafsins vegna olíuvinnslu getur haft hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir fiskveiðiþjóð eins og okkur Íslendinga. Og síðan er spurningin um, hvað felst í hugtakinu „friðsamleg hagnýting hafsbotnsins“. Falla t. d. togveiðar hér undir, þegar um botnvörpu er að ræða? Ekki var til þess ætlazt af þeim þjóðum, sem hafa fyrst og fremst augastað á olíuvinnslunni. Þetta orkar þó mjög tvímælis af þeirri ástæðu, að hafsbotninn er notaður við botnvörpuveiðar. Það er því augljóst, að þetta mál hefur þýðingu fyrir okkur Íslendinga. Ástæða er til þess að ætla, að málsmeðferðin þróist á þá leið, að hún snerti okkar stærstu hagsmunamál varðandi fiskveiðilögsögu og hugsanleg forgangsréttindi utan fiskveiðilögsögunnar. Það er því nauðsynlegt að fylgjast sem bezt með þessu máli og reyna að tryggja íslenzka þátttöku í nefndum, sem fara með málið, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og annars staðar. Þetta hefur verið gert, m. a. með setu íslenzks fulltrúa í hafsbotnsnefnd Sameinuðu þjóðanna.

Þá rakti hæstv. utanrrh. gang þeirra mála, sem snerta mengun hafsins, sem getur haft mjög skaðleg áhrif á fiskstofna, þegar tímar líða. Hættan er raunar þegar yfirvofandi vegna vinnslu olíu af sjávarbotni. Þá drap hann á samþykkt Sameinuðu þjóðanna um hagnýtingu og vernd auðæfa hafsins og um varnir gegn mengun hafsins. Öll þessi málefni hafsins setja æ meiri svip á umræður á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þjóðirnar virðast sífellt gera sér gleggri grein fyrir auðæfum hafsins og hafsbotnsins og þýðingu þessa máls fyrir mannkynið í heild.

Skylt þessum málum er svo málefni, sem nefnt er „umhverfi mannsins“. Á þingi Sameinuðu þjóðanna 1968 var samþykkt till. frá Svíum um, að efnt skyldi til ráðstefnu á vegum samtakanna um umhverfi mannsins. Aðalritara Sameinuðu þjóðanna var falið að athuga málið og undirbúa það nánar. Hann skilaði ýtarlegri skýrslu til samtakanna á nýliðnu þingi, en þar fóru fram miklar umr. um þetta mál. Þessi ákvörðun Sameinuðu þjóðanna, að taka röggsamlega á þessum málum, er hin þýðingarmesta. Má segja, að hið alþjóðlega samfélag hafi hér með viðurkennt, að margra ára aðvaranir vísindamanna og lærdómsmanna um hættu á vaxandi spillingu á umhverfi mannsins hafi við full rök að styðjast. Margar þjóðir tóku þátt í umr. um þetta mál. Auk almennra fræðandi umr. um málið sjálft beindust þær að fyrirhugaðri ráðstefnu í Stokkhólmi árið 1972. Aðaltilgangur slíkrar ráðstefnu er að hvetja og leiðbeina ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum um, hvernig unnt sé að vernda og bæta umhverfi mannsins og lagfæra það, sem farið hefur aflaga, og efna til alþjóðlegrar samvinnu um þessi mál. Sérstök nefnd vinnur að undirbúningi ráðstefnunnar 1972. Fulltrúi Kanada sagði í umr., að þekking á vandamálum fiskveiðanna yrði að vera til staðar, ef undirbúningsnefndin ætti að geta framkvæmt ætlunarverk sitt. Því ræði ég þessi mál, að þau snerta svo mjög verndun náttúrunnar umhverfis okkur. Nauðsyn er á alþjóðlegu samstarfi um verndun auðæfa hafsins og raunverulegri alþjóðastjórn. Vissir dýrastofnar eru í hættu. Má þar nefna t. d. hvali, seli, laxastofn og e. t. v. fleiri. Auk þess er sú mikla hætta á ofveiði annarra nytjafiska. Vaxandi þýðing sjávarins fyrir mannkynið í heild, vegna fæðuöflunar, próteinefna sérstaklega, krefst heildarstjórnar. Mál þessi eru hin þýðingarmestu fyrir fiskveiðiþjóðir eins og Íslendinga. Vera má, að vaxandi skilningur þjóðanna á þessum málum geti orðið okkur að liði í fiskveiði- og landhelgismálum. Ég álít mjög þýðingarmikið og vil sérstaklega undirstrika nauðsyn þess, að Ísland geri sitt ýtrasta til þess að ná sambandi við allar þjóðir, sem hafa svipaða hagsmuni í málum, sem snerta fiskveiðilögsöguna, og við látum ekkert tækifæri ónotað til þess að kynna öðrum þjóðum sjónarmið okkar.

Ég tók eftir því, þegar form. utanrmn. Alþ. hafði viðtal við sjónvarpið í tilefni af skýrslu utanrrh., að hann lagði áherzlu á, að lögð yrði meiri rækt við þann þátt utanríkismála, sem snertir verzlun og viðskipti. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt væri að ráða viðskipta- og efnahagsfulltrúa við Sendiráð Íslands. Þessir fulltrúar þurfa að starfa á sviði markaðsrannsókna og sölustarfsemi í sambandi við útflutning og sölu á íslenzkum afurðum. — Það er áríðandi, að þessir fulltrúar hafi sérþekkingu á íslenzkum atvinnuvegum og þörfum þeirra, þannig að þeir geti myndað sér sjálfstæða skoðun á viðskiptahagsmunum íslenzkra atvinnuvega. Það er lífsnauðsyn að tengja á lífrænan hátt sambandið milli atvinnuveganna og markaðanna erlendis. Eins og fram kemur í frv. til laga um utanríkisþjónustu Íslands, er gert ráð fyrir ráðningu viðskiptafulltrúa til takmarkaðs tíma og að ríkissjóður greiði að jafnaði ekki yfir helming launa þeirra. Gert er ráð fyrir, að um skipun þeirra skuli haft samráð við hlutaðeigandi ráðuneyti, viðskiptasamtök og stofnanir.

Á nýloknum aðalfundi miðstjórnar Framsfl. var samþ. ályktun um, að löggjöf verði sem fyrst sett um útflutningsráð, sem annist útflutnings- og markaðsmál í samvinnu við utanrrn. Útflutningsráð atvinnuveganna þyrfti að vera sjálfstæð stofnun í nánum tengslum við utanrrn. Eðlilegast væri, að útflutningsráð yrði skipað fulltrúum helztu samtaka íslenzkra útflytjenda og atvinnuvega, þó að viðskiptafulltrúar væru að hluta starfsmenn þess. Stefnt verði að því að koma á lífrænu samstarfi milli atvinnuveganna og markaðsins í þeim tilgangi að greiða fyrir sölu á framleiðsluvörum okkar. Útflutningsráð ætti m. a. að hafa það hlutverk, að hafa forgöngu um markaðsrannsóknir og skipulegar aðgerðir til öflunar nýrra markaða fyrir íslenzkar útflutningsvörur, enn fremur að hafa forgöng um framleiðslu nýrra vörutegunda. En höfuðatriðið er, að starfsemin sé lífræn og vakandi og í náinni snertingu við sjálft atvinnulífið. Viðskiptafulltrúarnir þurfa í senn að hafa reynslu sem diplómatar og jafnframt sérstaka þekkingu á aðstöðu og þörfum íslenzkra atvinnuvega.

Ég dvel nokkuð við þessi málefni, vegna þess að á næstu árum getur það ráðið úrslitum um áframhaldandi uppbyggingu íslenzkra atvinnuvega, hvernig til tekst að selja íslenzkar afurðir á erlendum mörkuðum. Með inngöngu í EFTA harðnar samkeppnin og nauðsynin í þessum efnum verður enn brýnni en hún hefur verið nokkru sinni fyrr. Hér verður að koma til samstillt átak ríkisvaldsins og íslenzkra atvinnuvega.

1. marz s. l. gerðist Ísland aðili að Fríverzlunarbandalagi Evrópu, EFTA. Umræða og ágreiningur um þetta mál settu mikinn svip á stjórnmálin á s. l. hausti. Framsfl. taldi ekki tímabært, að Ísland gengi í EFTA, fyrst og fremst vegna þess, að iðnaðurinn í landinu væri ekki nægilega við því búinn að gangast undir hina hörðu samkeppni, sem óhjákvæmilega leiðir af aðildinni. Hins vegar var Framsfl. ekki andvígur aðild Íslands að EFTA í „prinsipinu“, eins og greinilega kom fram við atkvgr. um málið hér á hv. Alþ. Þegar ákvörðun hefur verið tekin í þessu máli, hljóta allir þjóðhollir menn að vinna heils hugar að því, að þjóðin noti sem bezt þau tækifæri, sem kunna að bjóðast, og búi sig undir harða samkeppni við aðildarlöndin. Ég álít, að iðnaður okkar sé í mikilli hættu, ef ekki er höfð fyllsta gát á hagsmunum hans. Verður að gera stór átök og markviss í þessum efnum, ef við eigum að halda hlut okkar. Þá verður að fylgjast mjög náið með þróun næstu ára og gera nauðsynlegar ráðstafanir, áður en í óefni er komið. Verkefnið verður að byggja upp og viðhalda iðnaði, sem verði fyrst og fremst í eigu okkar sjálfra, þótt samvinna við aðra komi einnig til. Það verður að efla iðnaðarfyrirtækin, sem fyrir eru, og gera þeim kleift að fylgja hinni öru tækniþróun nútímans, og það verður einnig að byggja upp ný.

Ég hef lesið vandlega skýrslu hæstv. ráðh. um stofnun samtaka um norræna efnahagssamvinnu, NORDEK. Hygg ég, að þær ráðagerðir auki enn á þá hættu, að iðnaður Norðurlandaþjóðanna verði ofjarl okkar í samkeppninni. Hin nýja afstaða Finna kann þó að hafa áhrif á gang þessara mála í heild. Við Íslendingar verðum að halda áfram að kynna okkur sem bezt þessa fyrirhuguðu efnahagssamvinnu Norðurlandanna og athuga, hvort og hvernig við getum hagnýtt okkur tækifæri til að njóta góðs af vaxandi efnahagssamvinnu við þessar frændþjóðir okkar.