10.04.1970
Sameinað þing: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

Utanríkismál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var nú ekki ætlun mín að ræða hér um utanríkismálin á breiðum grundvelli eða gera hér sérstaklega grein fyrir stefnu okkar Alþb.-manna í utanríkismálum. Í þeim efnum vísa ég til þeirrar ræðu, sem fulltrúi okkar í utanrmn., hv. 5. þm. Reykn., flutti fyrr í þessum umr. Ég vil aðeins í sambandi við þær yfirlýsingar, sem hér hafa verið gefnar nú, undirstrika, að meginafstaða okkar í utanríkismálum byggist á því, að við viljum, að Íslendingar séu virkir þátttakendur í störfum Sameinuðu þjóðanna, en að Ísland standi utan allra hernaðarbandalaga, og af því beri okkur að segja skilið við NATO, segja upp herverndarsamningnum við Bandaríkin og gera ráðstafanir til þess, að allur erlendur her víki úr landinu.

Við viljum hafa vinsamleg samskipti við allar þjóðir og leggja alveg sérstaka áherzlu á það, að við höfum sem nánast samstarf og samskipti við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða hér um almenna stefnu í utanríkismálum. En það var eitt atriði sérstaklega, sem mig langaði til að víkja að í þessum umr., sem fram kom í skýrslu utanrrh., sem hann flutti hér á Alþ., atriði, sem nokkuð hefur verið minnzt á í þessum umr., en ég tel ástæðu til að vekja hér enn frekari athygli á. En það snertir landhelgismál okkar. Í skýrslu hæstv. utanrrh. er frá því greint, að á þingi Sameinuðu þjóðanna hafi verið rætt allmikið um svonefnt hafsbotnsmál og í sambandi við þær umr. á þingi Sameinuðu þjóðanna hafi einnig komið fram ýmislegt athyglisvert varðandi þróunina í landhelgismálum.

Ég átti um tíma á s. l. hausti sæti í sendinefnd Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna og hlýddi þar nokkuð á þessar umr., sem ég tel fyrir mitt leyti, að hafi verið hinar mikilvægustu. Mér varð það alveg sérstaklega ljóst, eftir að ég hlýddi á þessar umr., að okkar landhelgismál hljóta að koma nú til umr. og afgreiðslu með einum eða öðrum hætti innan tíðar. Um það er mikið rætt, að alþjóðasamþykkt verði gerð um skipan mála, sem snerta hafsbotnssvæðið svonefnda, þar sem gert er ráð fyrir því, að hið mikla hafsbotnssvæði verði lýst sem alþjóðaeign og öll verðmæti, sem úr því verða unnin með einum eða öðrum hætti, verði á þann hátt alþjóðaeign. En þó að þjóðirnar séu sammála í öllum grundvallaratriðum um að marka þessa stefnu varðandi verðmætin, sem hugsanlega geta fundizt á hinum víðáttumikla hafsbotni, þá er þó ljóst, að þær eru ekki sammála um það, hvernig afmarka skuli sérstaklega þetta mikla svæði, hafsbotninn. Þegar að því kemur að ákveða mörkin á milli landgrunnsins annars vegar og hafsbotnsins, alþjóðasvæðisins, hins vegar, þá er augljóslega um skiptar skoðanir á milli þjóðanna að ræða.

Það leyndi sér ekki í þessum umr., sem ég hlýddi á á þingi Sameinuðu þjóðanna, að risastórveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, hafa greinilega þá afstöðu að vilja landgrunnssvæðið út frá ströndinni sem víðáttumest, af því að á því er enginn vafi, að þessi risastórveldi hafa mestan möguleika, eins og nú standa sakir, til þess að vinna verðmæti úr hafsbotninum út frá sínum ströndum lengst úti í hafi, og eru komin þar langlengst áleiðis. Afstaða þessara stórvelda miðast því greinilega við það í þessum efnum, að þau vilja í þessu tilliti áskilja sér sem mestan rétt. Ýmis önnur ríki í heiminum hafa hins vegar tilhneigingu til þess að vilja afmarka landgrunnið út frá ströndinni tiltölulega þröngt og láta hið mikla hafsbotnssvæði taka við nokkuð nærri ströndinni. En þó að slík sé afstaða stórveldanna í þessu tilviki, þá kemur hins vegar fram, að þau hafa aftur á móti þá afstöðu, þegar kemur til yfirráðanna á yfirborði hafsins, þegar rætt er um viðáttu fiskveiðilandhelgi eða annarrar landhelgi, að þá vilja þau marka svæðið út frá ströndinni sem allra þrengst, eða a. m. k. halda sig við það, sem nú er viðurkennt hjá flestum þjóðum, helzt ekki út fyrir 12 mílna mörkin frá grunnlínum við ströndina. Aftur á móti kemur í ljós, að fulltrúar ýmissa annarra þjóða líta svo á, að það sé talsvert mikið samhengi á milli reglna um víðáttu landgrunnsins út frá ströndinni og víðáttu landhelginnar út frá grunnlínum við ströndina. Það voru einnig sjónarmið í þessum málum, þegar þær alþjóðalagareglur voru settar, sem nú eru í gildi, árið 1958 á ráðstefnunni í Genf, sem þá fjallaði um réttarreglur á hafinu. Þá kom það alveg skýrt fram, m. a. hjá alþjóðalaganefnd, sem hafði undirbúið þær samþykktir, sem þar voru gerðar, að hún taldi, að það væri mjög erfitt að setja bindandi reglur fyrir þjóðirnar um víðáttu landgrunnsins án þess að taka einnig nokkurt tillit til þess, hvaða reglur ættu að gilda um, hafið yfir landgrunninu. Og því var þannig að þessum málum staðið árið 1958, að afgreiðsla þessara atriða fylgdist þar mjög að.

Nú tel ég alveg ljóst mál, að þótt við Íslendingar höfum nokkurn áhuga á því, að landgrunnið út frá ströndinni, sem við eigum að hafa einkaréttaraðstöðu yfir, sé ákveðið sem víðáttumest, þá höfum við þó enn ríkari hagsmuni af því að ákveða sem víðast svæði á hafinu í kringum landið einkaréttarsvæði fyrir okkur, a. m. k. að því leyti til sem það snertir fiskveiðar eða fiskveiðilögsögu. Í umr. á síðasta þingi Sameinuðu þjóðanna um þessi mál kom það mjög greinilega fram að mínum dómi, að þær þjóðir, sem berjast fyrir því að fá viðurkennda sem víðáttumesta landhelgi, m. a. fiskveiðilandhelgi, töldu, að það væri ekki hægt að skilja hér gjörsamlega á milli þessara mála og ákveða sérstaklega eða sér í lagi mörkin á milli hafsbotnsins og landgrunnsins, en hins vegar væri réttast að líta á þessi mál í samhengi og fjalla um hvort tveggja í einu, og kveða þá á um viðáttu landhelginnar um leið og ákveðin væri stærð landgrunnsins. En á sama hátt var það ljóst, að risastórveldin tvö vildu skilja þarna algjörlega á milli. Og það varð ljósara en áður, að þau voru þegar komin nokkuð áleiðis með að berjast fyrir því eða undirbúa það, að komið yrði á laggirnar sérstakri alþjóðaráðstefnu, sem væri markað það starfssvið að fjalla einvörðungu um reglur varðandi landhelgi, víðáttu landhelgi og fiskveiðilögsögu, en hefði ekki að gera að neinu leyti með hinn hluta málsins, sem snerti afmörkun landgrunnsins og hafsbotnsins. Það var ljóst, að fulltrúar risastórveldanna óttuðust, að sókn þeirra fyrir víðáttumiklu landgrunni kynni að verða eitthvað torveldari, ef þau þyrftu að fjalla um víðáttu landhelginnar um leið.

Nú var það svo, að á þingi Sameinuðu þjóðanna var samþ. till., eins og greint var frá í skýrslu hæstv. utanrrh., um að athugun skyldi fara fram á því, hvort ekki væri rétt að efna til alþjóðaráðstefnu, sem tæki til endurskoðunar öll lagaákvæðin, sem snerta réttarreglurnar á hafinu, bæði varðandi landgrunnsmálið og eins landhelgismálið. Till. þess efnis var samþ. þrátt fyrir afstöðu risastórveldanna tveggja, Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, og þrátt fyrir það að flest löndin í V.Evrópu voru þessu andvíg.

Það kemur einnig fram í skýrslu hæstv. utanrrh., að afstaða Norðurlanda til þessa máls var sú að sitja hjá, þegar till. þessi var borin upp á þingi Sameinuðu þjóðanna. Það þarf auðvitað ekki að koma okkur Íslendingum neitt á óvart, vegna þess að við höfum þá í huga fyrri afstöðu frænda okkar á Norðurlöndum til landhelgismálanna, en við vitum, að þar hefur afstaða þeirra verið talsvert mikið önnur en okkar. Mér þykir nú alveg sýnt, að að því dregur, að boðað verði til alþjóðaráðstefnu, sem fjallar um þessi mál, annaðhvort ráðstefnu, sem risastórveldin tvö, Sovétríkin og Bandaríkin, beita sér fyrir að halda og á þeim grundvelli, að einvörðungu verði fjallað um landhelgi og fiskveiðilögsögu, eða þá að það verður haldin alþjóðaráðstefna, sem fjallar um réttarreglur á hafinu á tiltölulega breiðum grundvelli, þar sem öll þessi vandamál verða að meira eða minna leyti tekin til umr. og endurskoðuð. Ég tel því, að miðað við þá stöðu, sem við Íslendingar höfum nú í landhelgismálum, sé orðið mjög tímabært, að við reynum að undirbúa okkur sem bezt undir þessa ráðstefnu og reynum að samstilla okkur, eins og við höfum getu til, til þess að móta þannig okkar afstöðu, að við náum þar mesta árangri, sem hugsanlegur er. Ég efast ekki um það, að hér verður við mikið vandamál að eiga. Það er enginn vafi á því, að grundvallarafstaða þeirra, sem jafnan ráða mestu um afgreiðslu mála á alþjóðavettvangi nú, risastórveldanna tveggja, fellur ekki fyllilega saman við það sem við viljum. En ekki vil ég segja það fyrir fram, að ekki sé hægt að fá fulltrúa þessara þjóða til þess að mæta óskum okkar í þessum efnum, að svo miklu leyti sem það gæti leyst okkar mál á viðunandi hátt. Úr því verður reynslan að skera. En ég tel miklu máli skipta, að undirbúningur okkar í þessum efnum verði sem beztur og það takist að skapa sem mesta samstöðu um afstöðu Íslands til mjög breytilegra tillagna, sem upp geta komið og við vitum að hljóta að koma upp varðandi þessi mál. Ég tel sjálfsagt, að við byggjum á þeirri sérfræðilegu þekkingu, sem við ráðum yfir í landinu, og því verði leitað til þeirra sérfræðinga, sem ríkisstj. getur leitað til varðandi allan undirbúning þessara mála. En ég legg á það áherzlu fyrir mitt leyti, að sá undirbúningur getur ekki verið fullnægjandi með því að fela undirbúninginn eingöngu sérfræðingum í alþjóðarétti. Ég álít, að hér þurfi að koma saman hin sérfræðilega þekking og einnig samstarf við t. d. fulltrúa þingflokka um þetta mál, ef við eigum að ná beztum árangri.

Við skulum gæta vel að því, að þótt landhelgismálið sé að nokkru leyti utanríkismál, þá er það í eðli sínu eitt af okkar stærstu innanlandsmálum, sem snertir stórlega afkomu þjóðarinnar, eins og allir hv. alþm. gera sér fulla grein fyrir.

Ég vildi aðeins við þessa umr. vekja athygli frekar en orðið var á þessum hluta úr skýrslu hæstv. utanrrh., og ég vil beina því til hans, að reynt verði að standa að undirbúningi þessa máls á þann hátt, að sem mest samstaða geti skapazt af okkar hálfu um það, hvernig á þessum málum verði haldið. Við getum haft eins góðan undirbúning og nokkur tök eru á, en þá er líka þörf á, að mínum dómi, að hefjast handa í þessum efnum hið allra fyrsta, því það dregur greinilega að því, að þessar ráðstefnur, sem ég hef rætt hér um, verði haldnar.