18.03.1970
Sameinað þing: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

Framkvæmd vegáætlunar 1969

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svar við fsp. minni, en hann svaraði henni á þá leið, að mér skildist, að þegar hann hefði sagt frá því, að ríkisstj. hefði ákveðið að hraða lagningu hraðbrauta, hefði hann í rauninni átt við það, að hún ætlaði að framkvæma þá vegáætlun, sem fyrir liggur, og þá e. t. v. einnig að beita sér fyrir einhverjum framkvæmdum í sambandi við endurskoðun áætlunarinnar á næsta þingi.

Það er náttúrlega ekki nein nýlunda, að ríkisstj. framkvæmi þá vegaáætlun, sem gerð er. Það hefur hún yfirleitt gert og það ber henni að gera. En annað mál er svo hitt, sem ríkisstj. kann að beita sér fyrir þar fyrir utan, t. d. í sambandi víð næstu endurskoðun áætlunarinnar, sem stendur fyrir dyrum. Og ég vil segja það, að það er náttúrlega mikil nauðsyn á því að koma upp hraðbrautum og ekki nema gott um það að segja, að tekin séu, eins og nú er ástatt, lán til hraðbrauta. En ég sé ekki annað en það verði þá einnig að fara inn á hliðstæða leið vegna þjóðbrautanna, því að þrátt fyrir þá tekjuöflun, sem samþ. var í fyrra til viðbótar, miðar mjög hægt lagningu þjóðbrautanna. Ég hef ekki nefnt landsbrautirnar í þessu sambandi. Mjög verulegur hluti af vegakerfinu er landsbrautir, og verður að gera ráð fyrir því, að til þeirra geti fengizt fé úr vegasjóðnum.

Varðandi snjómoksturinn, sem hæstv. ráðh. ræddi einnig um, þá efast ég ekkert um, að reynt sé að framkvæma hann sanngjarnlega, ekki viljandi beitt hlutdrægni. Samt getur það skeð, að mönnum verði slíkt á óviljandi. Og ég hef ástæðu til þess að ætla, að það sé ekki fullt samræmi í þeim reglum, sem um þetta gilda, án þess þó að ég hafi haft aðstöðu til þess að gera þar ýtarlegan samanburð. Það er það, sem ég var að beina til hæstv. ráðh., sem ég veit að hann mun gera, að leggja áherzlu á, að þarna verði um samræmi að ræða. Ég er ekki að tala um að framkvæma það, sem ekki er hægt að framkvæma í okkar landi, að halda þjóðvegum opnum eftir hvert óveður, í því ástandi, sem þeir enn eru, því miður. En það er mikilsvert, að reynt sé að halda samræmi í þessu, sambærilegri fyrirgreiðslu fyrir fólkið í landinu og atvinnuvegina.

Ég ræddi ekki sérstaklega um Norðurl. e., en ég benti á Norðausturland, þar eiga hlut að bæði Norðurland eystra og Austurland, en ég ræddi ekki sérstaklega um Norðurl. e., enda hefur af hálfu okkar þm. kjördæmisins verið sérstaklega rætt bæði við hæstv. ráðh. og vegamálastjóra um það mál nú í vetur, og ætla ég ekki að fara að flytja þær umr. hér inn á Alþ. En ég vil alveg sérstaklega benda á eitt, sem verður að hafa í huga í sambandi við snjómoksturinn, og það er nauðsyn þeirra læknishéraða, sem eru þó nokkuð mörg hér á landinu núna, sem eru læknislaus og því ætlað á hvaða árstíð sem er og hvernig sem færð er að njóta læknisþjónustu úr öðru héraði. Það er náttúrlega mjög erfitt að njóta slíkrar þjónustu á vetrum, ef ekki er gert eitthvað til þess að auðvelda hana, að því er samgöngurnar varðar, og sérstaklega að sjá um þetta, eftir því sem unnt er, að vegirnir séu ekki ófærir.