19.12.1969
Sameinað þing: 27. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þingi verður nú senn frestað. Það er vitað mál, að um áramótin nú koma til framkvæmda ný lög, lög um Stjórnarráð Íslands. Það er vitað mál, að af þeirri lagasetningu hlýtur að leiða ýmsar breytingar, ekki aðeins að því er varðar stjórnarráðið sjálft og þar skrifstofur, sem þar undir heyra, heldur hlýtur þetta einnig að hafa í för með sér breytingu á stjórninni eða í öllu falli á verkefnaskiptingu á milli ráðh. Þess vegna vildi ég leyfa mér að beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh., hvort hann gæti nú og áður en þing fer heim í jólaleyfi skýrt þingheimi frá þessum fyrirhuguðu breytingum.