15.01.1970
Neðri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Eins og öllum þingheimi er kunnugt og allri þjóðinni hefur enn einu sinni orðið skiptapi fyrir Vestfjörðum og mundi ekki þykja ástæða til — (Forseti: Ég vil vekja athygli ræðumanns á, að dómsmrh. hefur bent mér á, að leitinni að viðkomandi bát er ekki lokið og það er ekki búið að tilkynna, að báturinn sé talinn af.) En Ægir kom sem seinasta skip úr þessari leit í morgun og er hér kominn í höfn með síðustu skýrslu um málið. En ég vænti, að það verði ekki tekið af mér orðið út af því, því að ég ætla ekki að færa hér fram sakir á hendur einum eða neinum eða gera þetta mál að umtalsefni af öðrum ástæðum heldur en almenn þjóðarþörf útheimtir. Við erum ekki of góðir til þess, alþm. fremur en aðrir, að leiða hugann að slíkum atburðum, þegar þeir gerast, á hvaða stundu sem er, og ég veit, að öll þjóðin hefur fylgzt með þessum atburðum og þeirri víðtæku leit, sem gerð hefur verið af þessu tilefni, að báturinn Sæfari frá Tálknafirði kom ekki úr sjóferð aftur 10. janúar. Þessi leit hefur verið víðtæk og engan árangur borið og síðasta skip, sem ég veit að hefur tekið þátt í leitinni, varðskipið Ægir, er komið úr leitinni án nokkurs árangurs og flugvélar og þeir menn, sem hafa leitað með ströndinni, eru allir komnir til síns heima án þess að geta gefið nokkra vitneskju um örlög skipsins, annað en að sú staðreynd blasir við, að skipið kom ekki úr sinni síðustu sjóferð.

Ég var vestur á Patreksfirði þá daga, sem leitin fór fram, og fylgdist með henni úr nálægð, hitti skipherrann á Ægi, þegar hann kom úr sinni næst-síðustu leitarferð. Þá átti hann aðeins eftir að lóna norður með ströndum enn einu sinni og þá voru komin góð leitarskilyrði. Hann kom þá að landi til Patreksfjarðar með eina litla fjöl, sem hann hafði fundið, og bar það undir skipstjórnarmenn á Patreksfirði, sem gerþekktu þennan tapaða bát, hvort hún gæti verið úr honum, og var ég þar viðstaddur og þeir álitu, að svo væri ekki. Það er það einasta, sem leitarskipin hafa fundið.

En það alvarlega við þetta er, og að því hafa margir leitt hugann, að s. l. ár hafa skiptapar verið tíðir fyrir Vestfjörðum. Samkv. skýrslu frá Slysavarnafélaginu hefur það verið svo, að allt frá og með árinu 1964 og fram í ársbyrjun 1970 hafa eitt eða fleiri skip farizt á Vestfjörðum á öllum þessum árum, að undanteknu árinu 1965, og með þessum skipum hafa farizt samtals 33 menn. Hér er því um endurtekna atburði að ræða og því ekki nema eðlilegt, að menn leiði hugann að því, hvort hér sé nokkuð hægt að gera, — nokkuð, sem í mannlegu valdi standi til þess að draga úr þeim háska, sem þarna er sýnilega á ferð, sérstaklega á þessum kafla íslenzku strandarinnar. Skýrsla Slysavarnafélagsins er ekki löng, hún hermir frá því í aðalatriðum, að í októbermánuði 1964 hafi farizt báturinn Mummi, 54 tonna skip, og með honum 4 menn. Sama haust, 1964, ferst annar bátur af Vestfjörðum, Snæfell, 74 tonna bátur frá Flateyri við Önundarfjörð, og með honum 3 menn. Á árinu 1965 er góðu heilli enginn skiptapi á Vestfjörðum, en árið 1966 kveður ekki án þess að þá farist einnig skip frá Vestfjörðum, 81 tonns skip, Svanur, og með honum 6 menn. Árið 1967 ferst vélbáturinn Freyja út af Ísafjarðardjúpi í sjóróðri og með honum 4 menn. Í ársbyrjun 1968 ferst vélbáturinn Heiðrún, 154 tonn, það er skip frá Bolungarvík, og með því skipi 6 menn, og þá um veturinn, síðar um veturinn, vélskipið Trausti frá Súðavík, 40 tonna bátur, með 4 menn. Og á árinu 1969, í ársbyrjun, fórst vélbáturinn Svanur frá Súðavík, 101 tonns skip, áhöfnin var 6 menn, skipið fórst, en mannbjörg varð í það skiptið, eftir að vonlítið þótti þó, að þeir björguðust, en skipverjarnir björguðust þó í það skiptið. Og nú í ársbyrjun 1970, 10. janúar, fórst vélbáturinn Sæfari frá Súðavík, 101 tonns bátur, og með honum fórust 6 menn, 5 af þeim frá litlu kauptúni, Bíldudal.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá er spurningin þessi og hún var á vörum skipherrans á Ægi, þegar ég var um borð í því skipi núna fyrir fáum dögum: „Hvað er hægt að gera?“ Er nokkuð hægt að gera, sem í mannlegu valdi stendur? Orsakirnar vita menn ekki hverju sinni, stundum alls ekki í öðrum tilfellum mjög óljóst, en við tökum eftir því með þessa skiptapa flesta, að skipin eru frekar smá. Stærsta skipið, Heiðrún, er 154 tonn, tvö af þeim eru 101 tonn, og hin skipin eru innan við 100 tonna skip. Annað, sem tekið er eftir í skýrslu Slysavarnafélagsins, er það, að skipstjórnarmenn í langflestum tilfellum eru ungir menn. Hugurinn leiðist því að því, að hér er frekar um að ræða minni skipin, unga skipstjórnarmenn, og maður getur hugsað sér, að þeir eru kappsfullir ungu mennirnir, þeir eru á tiltölulega smærri skipum og vilja halda til jafns við 200–300 tonna skipin, en þetta virðist vera þeim ofraun.

Ég veit vel, að það er ekki auðvelt mál að taka vald af skipstjórnarmönnum, og það láta sér fáir detta það í hug. En er hægt að gera nokkrar varúðar- eða varnarráðstafanir? Það er spurningin. Bretar höfðu á þessu bili strandarinnar, íslenzku strandarinnar, orðið fyrir þungum áföllum og miklu manntjóni, og þá gripu þeir til þess ráðs að setja eftirlitsskip við ströndina til þess að veita leiðbeiningar og aðhald um sjósókn, og virðist það í fljótu bragði a. m. k. hafa borið nokkurn árangur. Stór áföll hafa ekki orðið í brezka flotanum á þessari strandlengju síðan. Mér dettur því í hug, hvort það sé a. m. k. ekki þess virði að athuga það af færustu mönnum og þeim, sem bezt þekkja til, hvort íslenzka ríkið eigi ekki að hafa sérstakt gæzluskip til ráðlegginga og leiðbeiningar við þessa harðviðrasömu strönd, a. m. k. á þeim tíma ársins, sem slysahættan er mest. En skiptaparnir allir undantekningarlaust, sem hér er um að ræða við Vestfirði á seinustu árum, hafa orðið á haustvertíðinni og vetrarvertíðinni fram til marzbyrjunar. Þetta virðist vera háskatíminn, og vita allir, að þetta er mesti harðviðratíminn við okkar land. Sumir segja: Væri ekki ráðlegt að setja á laggir sjóslysanefnd og kanna þessa skiptapa sérstaklega? Slíkt hefur áður verið gert. Skýrslur hafa verið samdar af þessum sjóslysanefndum, en af ýmsum ástæðum hefur í flestum tilfellum, að ég hygg, ekki þótt tiltækilegt að birta þessar skýrslur og þannig hefur ekki verið hægt að draga almenna lærdóma af þeim upplýsingum, sem þær hafa haft að gefa. Það má vera, að til þess hafi verið fyllstu ástæður að birta þær ekki. Mér dettur því það eitt í hug, hvort ekki væri rétt, að íslenzka ríkið hefði gæzluskip við Vestfirði, alveg sérstaklega frá því í byrjun haustvertíðar og fram í t. d. miðjan marzmánuð, með svipuðu fyrirkomulagi, svipuðum rétti til eftirlits, aðvörunar og leiðbeininga og brezka eftirlitsskipið virðist hafa. Ég vil a. m. k. að allar hugsanlegar aðgerðir séu athugaðar, sem kynni að standa í mannlegu valdi að gera til þess að draga úr þeim háska, sem þarna virðist alveg sérstaklega skilja eftir sig djúp spor, og ég spyr hæstv. ríkisstj., hvort hún hafi kannske þegar athugað þann möguleika með gæzluskip, sem gæti þarna orðið til aðstoðar og sérstaklega tæki þetta svæði íslenzku strandarinnar og þann árstíma, sem slysin hefur öll borið að á, til þess að vera þar til aðstoðar og hjálpar og til þess að reyna að fyrirbyggja eins og hægt er að gera með mannlegum aðgerðum.