22.01.1970
Neðri deild: 40. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (2096)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég sé ekki, að það þjóni neinum tilgangi að hefja efnisumr. um þetta mál til eða frá, sem nokkuð gætti nú í ræðu hv. 4. þm. Austf., þar sem sjútvmrh. er í veikindaforföllum í dag og reyndar forsrh. líka. En út af því, sem hv. þm. beindi til okkar hinna ráðh., sem hér erum staddir, að ríkisstj. fjallaði skjótlega um þetta mál, þá kom það einnig fram í máli hans, að í gær var sjútvmrh. í viðræðum við aðila um málið. Við höfum ekki fengið grg. um efni þeirra viðræðna. Við munum að sjálfsögðu hlutast til um, að það standi ekkert upp á ríkisstj. að gera það, sem í hennar valdi stendur í sambandi við þetta mál, hvort sem það leiðir til lausnar deilunnar eða ekki. Út í það skal ég ekki fara. Við forsrh. hafði ég samband í morgun, og hann gerði ráð fyrir því, ef eitthvað óvænt kæmi ekki fyrir, að heilsufar hans væri þannig, að hann gæti boðað ríkisstj.-fund fyrir hádegi á morgun, svo að það eru líkur til þess, að fundur verði í stjórninni, og hún mun þá sjálfsagt ræða þetta mál. Aftur á móti veit ég ekki um aðstæður sjútvmrh. En við munum ekki láta standa upp á okkur að reyna að gera það, sem í okkar valdi stendur til þess að hafa samband við meðráðh. okkar um skjóta afstöðu ríkisstj. til málsins.