22.01.1970
Neðri deild: 40. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil vænta þess í tilefni af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að ríkisstj. taki þetta mál fyrir svo fljótt sem tök eru á og beiti sér fyrir lausn á málinu, og ég tel alveg einsýnt, að það sé auðvelt fyrir ríkisstj. að leysa þetta mál. Það er þess eðlis og ég efast ekkert um það, að ef hún gengur í það að leysa málið, þá leysist það fljótlega. En hættan er sú, að menn leggi málið til hliðar og láti það verða afskiptalaust nokkurn tíma. Af því getur hlotizt mikið tjón, og þá getur það orðið miklu torleystara, eftir að er komið út í deilu. En ég vil sem sagt skoða það sem svo, sem hér kom fram hjá hæstv. dómsmrh., að það sé ætlunin, að ríkisstj. fjalli um málið mjög fljótlega og beiti sér fyrir því, að málið verði leyst.