02.03.1970
Sameinað þing: 36. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er fsp., sem mig langar til þess að gera utan dagskrár, og ég skal taka það fram, að ég lét tilkynna hæstv. sjútvmrh. í morgun, að ég mundi spyrjast fyrir um þetta mál, til þess að hann gæti gefið svör við spurningunni.

Eins og kunnugt er byggist loðnuveiðin mjög á því, að fylgzt sé með loðnugöngunum að landinu, og síðan eftir að þær eru komnar í veiðimál, ef svo mætti segja. Árni Friðriksson, skipið Árni Friðriksson, hefur verið við þetta verkefni, og það eru víst engar ýkjur að segja, að þeir, sem þar annast þetta verk, hafa unnið ómetanlegt gagn í því, að fylgjast með þessum málum. Það var þess vegna, að ég hrökk við, þegar ég varð þess var, að Árni Friðriksson er kominn hingað til Reykjavíkur, og mun hafa verið ráðgert, að hann tæki að sér annað verkefni, sem er einnig þýðingarmikið í þjónustu sjávarútvegsins. En jafnhliða hef ég ekki orðið var við, að neinar tilkynningar hafi komið um, að annað skip hafi verið sett til þess að fylgjast með loðnugöngunum, en eins og kunnugt er, þá er gert ráð fyrir því, að loðnugöngur séu fleiri en ein, og menn vonast eftir loðnunni upp að Norðausturlandinu. Það þarf ekki að lýsa því, hversu mikið hér er í húfi, því einn veiðidagur getur gefið margra milljónatuga virði. Þess vegna vildi ég hefja máls á þessu nú strax utan dagskrár og spyrja hæstv. sjútvmrh.: Í fyrsta lagi, hvort það megi taka Árna Friðriksson frá þessu verki, hvort það sé fært, jafnvel þó að um annað þýðingarmikið verkefni sé að sjálfsögðu að ræða. Í öðru lagi, ef enginn kostur er á öðru en að hann verði tekinn frá þessu verki, hvaða fullnægjandi ráðstafanir verði þá gerðar í staðinn, til þess að ekki verði nein eyða umfram það, sem orðið er í loðnuleitinni. Og það væri þá kannske ástæða til einnig, að hæstv. ráðh. hefði rifjað það upp fyrir hv. Alþ., hvernig menn hugsa sér að koma þessum leitarmálum fyrir út loðnutímann.