02.03.1970
Sameinað þing: 36. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Þegar mér barst vitneskja um þessa fsp. nú rétt fyrir hádegið, þá hófst ég handa um að reyna að afla mér upplýsinga um, hvernig þessi mál stæðu einmitt þessa stundina, og fékk eftirfarandi upplýsingar frá Jakob Jakobssyni, sem þessum leitum hefur stjórnað að undanförnu. En upplýsingar Jakobs eru á þessa leið:

„Samkvæmt starfsáætlun Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir árið 1970 var gert ráð fyrir því, að Árni Friðriksson yrði við loðnuleit frá ársbyrjun til 10. febrúar og svo aftur frá 10. marz til 31. marz. Nú varð hins vegar sú breyting á, að skipið hefur verið við loðnuleit allt frá áramótum til þessa dags. Fyrirsjáanlegt er, að því miður verður ekki unnt að fara í þriggja vikna sjórannsóknaleiðangur þann, sem ráðgerður var á tímabilinu 14. febrúar til 7. marz, þar sem nú hefur verið ákveðið, að skipið taki á ný til við loðnuleit strax og það heldur frá Reykjavík um miðja þessa viku. En þá er búizt við, að nauðsynlegum viðgerðum á skipinu verði lokið ásamt samningsbundnum hvíldartíma áhafnar.“

Af þessu er ljóst, að ákveðið hefur verið, að Árni Friðriksson fari ekki þennan umrædda leiðangur af loðnumiðunum, heldur haldi til þeirra aftur.