12.12.1969
Efri deild: 25. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að gera nokkra aths. við vinnubrögð hér á Alþ., en ég tel þau vera orðin með þeim endemum, að ekki verði lengur við unað. Ég sé nú að vísu, að það er heldur fátæklegt hér í d., þar sem enginn ráðh. er viðstaddur, en ég hefði kosið, að a. m. k. einn hefði mátt vera að því að hlýða á mál mitt. En það, sem ég ætlaði hér fyrst og fremst að ræða um og vekja athygli á — (Gripið fram í.) Þeir eru orðnir fótlúnir og mega sennilega ekki vera að því að ganga úr Nd. og upp í Ed. (Gripið fram í.) Ég vildi kjósa sjútvmrh. hér viðstaddan. Ég ætla þá, með leyfi forseta, að doka aðeins við.

Já, hæstv. sjútvmrh. er nú ekki í Nd. og hæstv. fjmrh. ekki heldur, en mér þætti vænt um, ef annar hvor þeirra vildi vera við, en þess virðist ekki kostur, og hv. fundarmenn taka þá eftir því, að hæstv. ráðh., sem eiga þó sæti í þessari d. sem alþm., treysta sér ekki að vera viðstaddir hér. En það, sem ég hafði einkum ætlað að gera hér að umræðuefni, er starfsemi n. í þinginu og þá fyrst og fremst starfsemi þeirrar n., sem ég á sæti í, þ. e. a. s. sjútvn.

Sjútvn. hv. Ed. hefur haldið einn fund á þessu ári. Hún hélt hann í þingbyrjun. Verkefni þess fundar var að kjósa formann og ritara. Það gekk slysalaust. Síðan ekki söguna meir. Þessi hv. n. hefur aldrei haldið fund síðan. Til þessarar hv. n. hefur verið vísað 7 málum. Ég ætla, að þau séu ekki fleiri, málin sem aðrar n. hafa fengið til meðferðar á Alþ. að þessu sinni. Og af þessum 7 málum, sem hv. sjútvn. hefur fengið til meðferðar, eru 5 stjórnarfrv., sem hæstv. sjútvmrh. hefur lagt hér fram. En það eru líka til viðbótar tvö frv., sem við stjórnarandstæðingar höfum lagt fram. Þessi hv. n. hefur fengið þannig til meðferðar 7 mál og aldrei haldið fund um þau. Og þessi mál eru, — ég ætla að leyfa mér að rekja það og benda á um leið, hvenær þeim var vísað til sjútvn. Ég nefni þá stjfrv. fyrst:

Það er í fyrsta lagi frv. um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands. Því var vísað til n. 6. nóv., og eins og hv. þm. kannske rekur minni til er það efni þess frv. að fella niður gjald ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs á árunum 1969–1970, svo að þá má nú segja, að í nokkurn eindaga sé komið með árið 1969 a. m. k. Annað er Siglingastofnun ríkisins, stór og mikill lagabálkur, er var vísað til sjútvn. 4. nóv. Í þriðja tagi er eftirlit með skipum, því var vísað til sjútvn. 4. nóv. Í fjórða lagi er það frv. til l. um breyt. á siglingalögum, því var líka vísað til sjútvn. 4. nóv. Og í fimmta lagi er það svo frv. um ráðstafanir vegna flutnings sjósaltaðrar og ísvarinnar síldar, var vísað til n. 23. okt. Svo eru það frv. frá okkur stjórnarandstæðingunum, þmfrv. Það er í fyrsta lagi frv. okkar framsóknarmanna um togaraútgerð ríkisins og stuðning við útgerð sveitarfélaga. Því frv. var vísað til sjútvn. 28. okt. Og það er í sjöunda og síðasta lagi frv. tveggja hv. þm., Alþb: manna, um togarakaup ríkisins, sem var vísað til sjútvn. 30. okt.

Ég ætla, að það sé ekki ofsagt, að hér sé um stórmál að tefla, sem verðskuldi það, að hv. þm. íhugi þau og að sú n., sem hefur fengið það verkefni að fara yfir þessi mál og kanna þau, líti aðeins á þau. Ég vil t. d. segja það um frv. okkar framsóknarmanna um togarakaup ríkisins og stuðning við útgerð sveitarfélaga, að við skoðum það sem eitt höfuðmál okkar á þessu hv. Alþ. Ég hélt satt að segja, að málefni togaraútgerðarinnar væru í því ástandi, að það sakaði ekki, að þau væru skoðuð frá ýmsum hliðum a. m. k. og þn. fjallaði um þau, gerði svo lítið að lesa yfir frv. um þetta efni. En þess hefur ekki verið kostur, vegna þess að það hefur aldrei verið haldinn fundur í sjútvn. þessarar hv. deildar.

Það er ekkert nýtt og það væri sannarlega ekki ástæða til langra orðræðna út af því, þó að frv. okkar stjórnarandstæðinga fengju slíka meðferð. Við erum því vanir, að þau séu söltuð í n. og þeim sé ekki einu sinni vísað til umsagnar. En þá kastar fyrst tólfunum, verð ég að segja, þegar frv. stjórnarinnar, þegar frv. hæstv. sjútvmrh. er sýnd jafnaugljós fyrirlitning og hér er gert. Og ég verð að segja það, að jafnvel þó að hæstv. sjútvmrh, þykist ekki skilja þá framkomu, sem hann mætir þarna, þá veit ég, að hann skilur hana. Ég efa það satt að segja, að það hafi gerzt oft á þingi fyrr, að frv. frá hæstv. ráðh. hafi fengið slíka meðhöndlun sem þessi frv.

Ég verð að segja það, að bæði þessi stjórnarfrv. og eins bæði frv. frá þm. hefðu með eðlilegum hætti átt að vera send til umsagnar ýmissa aðila. En það er sýnilegt, að með þeim vinnubrögðum, sem hér hafa verið tekin upp, verður þess ekki kostur fyrr en þing kemur saman að lokinni þingfrestun, því að við vitum allir, hvernig ástatt er nú á síðustu þingdögum fyrir frestun og ég kem lítillega að síðar. Það hefði verið það minnsta, að þessum frv., sem þannig hljóta efni málsins samkv. að verða send til umsagnar áður en þau verða afgreidd, hefði verið komið út til umsagnar, áður en þingi var frestað. Ég held satt að segja, að þetta séu alveg einstök vinnubrögð. Þetta er, eins og ég sagði áðan, að vísu ekki kannske að öllu leyti nýlunda að því er varðar frv. frá stjórnarandstæðingum, þó að ég haldi, að það sé frekar sjaldgæft, að þau hafi alls ekki verið tekin fyrir, en ég fullyrði, að þetta eru algerlega ný vinnubrögð að því er varðar frv. frá einum hæstv. ráðh., og þetta eru vinnubrögð, sem ekki er hægt að láta bjóða sér. Þetta eru kannske vinnubrögð, sem við stjórnarandstæðingar verðum að þola, eins og starfi þingsins er nú orðið háttað. En þetta eru vinnubrögð, sem við munum ekki þola án þess að mótmæla, og þetta eru vinnubrögð, sem athygli þjóðarinnar þarf að beinast að. Og nú mun ég fyrir mitt leyti fylgjast með því, og ég vona, að aðrir hv. þm. fylgist einnig með því, hvernig hinn hlutlausi fréttaritari útvarpsins skýrir frá þeim staðreyndum, sem ég hef hér rakið skilmerkilega, um hvert einasta mál, hvenær því var vísað til n. og hversu lengi það hafi legið hjá n. og að það hefur aldrei verið haldinn fundur í þessari n., nema til þess að kjósa formann og ritara. En að vísu er það, eins og ég mun síðar koma að, nokkurt atriði orðið í þessum hv. þingsölum, hverjir verða formenn og ritarar nefnda.

Þetta, sem ég hef hér nefnt, er aðeins dæmi. Ég reikna alveg með því, að hliðstæð vinnubrögð hafi átt sér stað og eigi sér stað hjá öðrum n. þingsins. Það má vera og ég vil vona, að þetta sé sérstaklega alvarlegt dæmi um vinnubrögð þn., starfsleysi þn., en það mætti segja mér, að þetta væri aðeins dæmi um það, sem á sér stað hér á þingi nú. Og ég vil vona það, að hv. þm. séu ekki þannig skapi farnir, að þeir vilji láta þetta fara fram hjá sér þegjandi og þeir vilji þola svona vinnubrögð þegjandi, að láta gera Alþ. að hreinni skrípamynd.

Það mætti að sjálfsögðu segja margt um vinnubrögð Alþ. að öðru leyti og það er full ástæða til þess einmitt um þessar mundir, því að við vitum, hvernig nú er ástatt. Það er lagt hér fram á síðustu dögum hvert stórmálið á fætur öðru. Það er lögð hér fram þáltill. um EFTA. Það er verið að afgreiða fjárlög. Það er lagt hér fram frv. að nýrri tollskrá. Það er lagt hér fram frv. að söluskatti. Öll þessi mál eiga að afgreiðast, að því er sagt er, áður en þingi er frestað fyrir jól. Og það er jafnframt látið fylgja með, að þingi muni sennilega verða frestað 19. dag þ. m. Og þar af getum við séð, að það er aðeins um það bil vika til stefnu.

Ég hef margoft bent á það hér, að það þyrfti að skipuleggja vinnubrögð Alþ. og m. a. þyrfti að skipuleggja þau á þann hátt að skipta stjórnarfrv. nokkurn veginn jafnt og eðlilega á milli d., þannig að d. gætu haft nokkurn veginn svipaða starfsaðstöðu. En það er eins og þessu hafi lítið verið sinnt, og það er reyndar engu líkara en hæstv. ráðh. standi í þeirri meiningu, að þeir geti aðeins lagt stjórnarfrv. fram í þeirri d., sem þeir eiga sæti í sem alþm. Nú er varla hægt að trúa því, að fáfræði hæstv. ráðh., sem hafa setið hér sumir hverjir áratugum saman á Alþ., sé svo mikil, að þeir viti það ekki, að stjfrv. verða lögð fram fyrir hvora þd. sem er. En ef þeir væru í vafa um það, þá er áreiðanlegt, að hæstv. forsrh. gæti gefið þeim fullnægjandi upplýsingar um það atriði, því að enginn þekkir betur en hann, hvernig þeim málum á að haga.

En hvernig hefur þessu verið hagað nú? Það eru lögð fram hér á síðustu dögum þingsins, sem heimtuð er afgreiðsla á á einni viku, tvö stórmál, fylgifiskar EFTA-málsins, frv. um tollskrá og frv. um söluskatt. Hvar haldið þið, að þau séu lögð fram? Ef þeim starfsháttum hefði nú verið fylgt, sem ég var að lýsa og venjuleg hafa verið, þá hefði hæstv. fjmrh. átt að koma með bæði þessi mál hingað upp í Ed. og leggja þau hér fram. Nei, takk, nú vendir hann sínu kvæði í kross og leggur bæði málin fram í Nd. Ég bara spyr: Hvaða vit er í svona vinnubrögðum? Hvers vegna er ekki annað málið lagt fram hér í þessari d., en annað í Nd.? Hver stjórnar svona vinnubrögðum? Getur nokkur maður fundið nokkurt skynsamlegt vit í svona vinnubrögðum? Og ég bara spyr: Eru vinnubrögð Alþ. alls ekkert skipulögð? Er ekkert samstarf á milli þingforseta og ríkisstj. um það, hvernig mál eru flutt á Alþ. og hvar þau eru lögð fram á hverjum tíma? Það er nauðsynlegt að fá upplýsingar um þetta. En svo er ætlazt til þess, að stjórnarandstæðingar verði bara ljúfir sem lömb og afgreiði þetta á einni viku. Ja, það er ekki furða, þó að þess sé vænzt af okkur miðað við þau vinnubrögð, sem við.eigum að mæta, og það tillit, sem tekið er til okkar yfirleitt, — þó að það sé ætlazt til þess af okkur. En það er nú stundum hægt að svara í sömu mynt. Og það getur nú verið, að þeir komist að því keyptu, ef þeir ætla að hafa þessi vinnubrögð, og stjórnarandstaðan er ekki svo dauð úr öllum æðum, að hún geti ekki látið þá finna fyrir því, hversu auðvelt er að láta mál ganga fram, þegar þau eru sótt af offorsi, eins og hér er gert, og engin skynsamleg vinnubrögð eru viðhöfð.

Það er svo að slepptu þessu atriði, að auðvitað hefði átt að skipta þessum málum á milli d., að vinnubrögðin eru að öðru leyti óhæf vegna þess, að það er enginn tími til þess að afgreiða þessi mál á þessum tíma. Það sjá allir, að hv. þm. gefst enginn tími til þess að átta sig á þessum málum. Og þeir hafa ekki einu sinni tíma til þess að lesa þau yfir, og þess vegna á auðvitað ekki að afgreiða þau fyrir jól. Og það er heldur engin ástæða til þess, af því að þeim er markaður gildistími og þau eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. marz. Þess vegna ber enga nauðsyn til að afgreiða þessi mál, og það er ekkert annað en ofríki að vilja knýja þau fram nú á þessum tíma.

Það mætti vissulega margt segja fleira um vinnubrögð á Alþ. og tillitsleysi stjórnaraðstöðunnar gagnvart stjórnarandstöðunni. Ég hygg, að þau vinnubrögð, sem hér eru uppi höfð, séu nokkurt einsdæmi, ef miðað er við nálæg lönd, þau sem við þekkjum bezt til. Þetta tillitsleysi gagnvart stjórnarandstöðunni í vinnubrögðum Alþ. kemur fram bæði í hinu stóra og hinu smáa. Hér er það svo, eins og ég sagði og vék að áðan, að það þekkist ekki á þessu hv. Alþ., að það sé kosinn nefndarformaður eða ritari í hvað ómerkilegri n. sem er nema hann sé frá stjórnarliðinu. Það er betra að hafa tögl og hagldir. Að maður minnist nú ekki á forseta þingsins. Það er nú alveg útilokað, að það sé hægt að skipta forsetum á milli stjórnarliðs og stjórnarandstöðu, að stjórnarandstaðan, sem er þó stór hluti af Alþ., megi eiga ofurlítinn þátt í því að stjórna vinnubrögðum Alþ. Nei, það er ekki hægt. En þetta eru önnur vinnubrögð en þekkjast t. d. á Norðurlöndum. Þeir geta búið við það þar, að skipta forsetum á milli stjórnarliðs og stjórnarandstöðu. Það þykir, að ég bezt til veit, sjálfsagður siður þar.

Það er ástæða til þess að vekja athygli á þessu einmitt nú vegna þess, að sumir hæstv. ráðh. hafa verið með nokkurn fagurgala að undanförnu og voru með það í byrjun þessa þings, að þeir vildu hafa samstarf við stjórnarandstöðu, og töluðu mikið um vilja sinn í því efni. En ég hef ekki orðið var við það á þessu þingi, nema síður sé, að það hafi verið meiri vilji en áður til samstarfs um vinnubrögðin hér á Alþ. eða yfirleitt um önnur efni. En ég verð að segja það, að ég tel þau vinnubrögð, sem hér hafa verið viðhöfð og hér eru viðhöfð í þessum efnum, sem ég hef drepið á, og mýmörgum öðrum, sem nefna mætti, ekki lýðræðisleg vinnubrögð. Við státum af því að vera lýðræðissinnar, ekki vantar það. Við tölum fagurlega um það. Já, og við þykjumst nú færir um það að kveða upp dóm yfir öðrum í því efni, og ég vona, að það komi fram í dag á alþjóðlegum vettvangi, að Íslendingar vilji standa lýðræðismegin. En það væri kannske ekki ástæðulaust að hyggja dálítið að því, hvernig þessi mál eru á vegi stödd hér hjá okkur sjálfum og hvernig vinnubrögðin eru hér á Alþ., hvort þau eru í anda lýðræðis. Og það eru þau vinnubrögð, sem hér fara fram, sem almenningur sér, og eftir þeim vinnubrögðum er Alþ. dæmt, og það er, verð ég að segja, ekki furða, þó að Alþ. sæti allhörðum dómum um þessar mundir og þó að vegur þess í almenningsálitinu sé ekki eins mikill eins og skyldi einmitt um þessar mundir. En ætli einmitt þessi vinnubrögð, sem ég hef hér lítillega gert að umtalsefni, séu ekki orsökin til þeirrar gagnrýni og þeirra hörðu dóma, sem nú eru kveðnir upp um Alþ.

Ég vil segja það, að það þarf að taka hér upp ný vinnubrögð á Alþ, og það þarf að taka upp ný vinnubrögð í samskiptum stjórnaraðstöðu eða stjórnarliðs og stjórnarandstöðu, og það skal ekki standa á mér að vinna að því, að slíku sé hægt að koma í framkvæmd. En ég segi það bara, að það er ekkert samstarf, þó að menn séu kvaddir á fund og þar sé þeim kannske skýrt frá því, að stjórnin hafi hugsað sér að gera þetta svona og svona, að framkvæma þetta svona eða svona. Það kalla ég ekki samstarf, hvorki um vinnubrögð þingsins né um önnur efni. Að vísu höfum við veitt því athygli, að sumir ráðherrar hafa reynt að láta líta svo út, að þeir vildu hafa samstarf við stjórnarandstöðu. Þess er skemmst að minnast í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. Hæstv. fjmrh. hefur státað af því, að hann hafi tekið upp ný vinnubrögð í því efni og sett á fót sérstaka undirnefnd í fjvn. til þess að vinna að þeim málum á milli þinga. En síðan svo, þegar málin eru rædd við fjárlagaumr., þá vill hæstv. fjmrh. láta að því liggja, að þessir sömu undirnm. séu samábyrgir að einhverju leyti, að meira eða minna leyti, í því, sem gert hefur verið. Þetta er að misnota. Og ef svona vinnubrögð á að hafa við, þá verður það tekið til endurskoðunar, hvort það er rétt að taka þátt í þvílíkum vinnubrögðum og hvort það er rétt að nefna menn til þess, sem kallað er samstarf, en er í raun og veru ekkert samstarf. Þetta verða hæstv. stjórnarherrar að skilja.