12.12.1969
Efri deild: 25. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala hér langt mál. Ég vil aðeins, að það komi fram, að ég tel, að þessi ræða hv. 1. þm. Norðurl. v. er að mínum dómi þörf og tímabær hugvekja og ég get tekið undir flest eða allt, sem hann sagði um þessi mál. Þó vil ég segja það, að ég tel, að varðandi nefndarstörf í þinginu, þá eiga allar n. og allir nefndaformenn ekki jafnan hlut að. Ég á sæti hér t.d. í tveimur n., hv. fjhn. og hv. heilbr.- og félmn., og ég tel störf formanns, sérstaklega heilbr.- og félmn., hafa verið til fyrirmyndar, því að þar hafa öll mál gengið sinn eðlilega gang, verið afgreidd fljótt til umsagnar og tekin til endanlegrar afgreiðslu svo að segja 100% á s.l. þingi, og ég vænti þess einnig, að það geti orðið á þessu þingi og hvort sem þau mál hafa verið frá stjórnarandstöðunni runnin eða stjórnarherrunum. Og ég tel líka, að á þessum vetri hafi mál, sem eru að vísu fá, gengið nokkurn veginn eðlilegan gang í hv. fjhn. En þetta breytir engu um það, að venjan er hin, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði, varðandi nefndastörfin, þó að ég telji, að störf hv. sjútvn., eins og hann lýsti þeim á þessu þingi, taki út yfir allan þjófabálk og séu raunar einsdæmi á verri veginn.

Ég álít, að hér sé ekki eingöngu um það að ræða, sem hann gerði að umtalsefni, að skipting á málefnum milli d. sé ekki nægilega glögg. Ég held, að fyrir þessari hv. þd. hafi legið mörg mál og hún hafi út af fyrir sig getað haft nóg að starfa, ef öll nefndastörf hefðu gengið eðlilega.

Hitt atriðið, sem hv. þm. gerði að umtalsefni, þykir mér þó öllu lakara, þó að við séum orðnir ýmsu vanir í sambandi við nefndastörf, og það er sá háttur, sem nú er hafður á, sem ekki er reyndar nýr, þó að ég telji hér öll met slegin, þegar við eigum að afgreiða öll þau stórmál, sem hér liggja fyrir, núna fyrir jólin á einni viku, EFTA-aðildina, sem kann að mega segja, að sé eðlilegt, að sé afgreidd, fjárl., tollskrána, söluskatt og fylgifrv. með EFTA-sáttmálanum. Ég verð að segja það, að menn eru þá bæði miklu duglegri og gleggri heldur en ég. En ég tel, að það sé engum venjulegum mönnum bjóðandi að ætla þeim að gera sér nokkra glögga grein fyrir öllum þessum málum og greiða atkv. í samræmi við þær skoðanir, sem þeir hafa myndað sér af einhverri raunhæfri þekkingu, því að það er vissulega rétt, sem hv. þm. sagði, að það er ógerningur fyrir menn meira að segja að hafa lesið frv. yfir, hvað þá fyrir ýmsa þá aðila, sem þeir hefðu gjarnan viljað ræða við og hafa samráð við, áður en þeir taka afstöðu til málanna. Og ég sannast að segja vil varla trúa því, að hæstv. ríkisstj. sé svo heillum horfin, að hún viðhafi þau vinnubrögð og beiti sínum meiri hl. til þess, að þessi mál verði knúin í gegn með þeim hraða, sem mér virðist hún ætlast til. Það er algert lágmark alls velsæmis, að þm. viti, hvað þeir eru að greiða atkv. um. Við höfum horft á það áður hér á hv. Alþ., að meiri hl., mikill meiri hl., jafnvel flestir þm., hafi ekki haft hugmynd um, hvað það mál innihélt, sem verið var að greiða atkv. um. Slíkt er skömm fyrir elzta löggjafarþing veraldarinnar og á ekki að líðast.