12.12.1969
Efri deild: 25. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er ástæða til þess að fagna þeirri hreinskilnu játningu, sem hv. form. sjútvn. gerði, og ég met það að vísu við hann, að hann var ekki að reyna að finna upp neinar sérstakar tylliástæður fyrir því, að fundir hefðu ekki verið boðaðir. Hann viðurkenndi það auðvitað, sem óhjákvæmilegt var, að þetta er staðreyndin. Hins vegar fór hann mjög villur vegar, þegar hann var að reyna að benda á það, að það væru einhverjar annarlegar ástæður hjá mér, sem gerðu það að verkum, að ég vildi vekja athygli á þessum vinnubrögðum. Ég hef ekki vanizt því, og ég held, að það hafi ekki verið viðteknir hættir hér á Alþ., að einstakir menn, sem flutt hafa mál, þyrftu að ganga á eftir og vera í hælunum á formönnum nefnda til þess að fá þá til þess að kveðja fund saman. Ég hefði haldið, að það væri skylda nefndarformanns að gera það og gera það eftir hendinni, eftir því sem mál bærust nefndarmönnum, og sem betur fer tek ég undir það, sem hv. þm. Björn Jónsson sagði, að það eru vissulega undantekningar frá þeim vinnubrögðum, sem ég gerði hér að umtalsefni, og sumir nefndaformenn eru til fyrirmyndar, eins og hann réttilega benti á, og aðrir nefndaformenn mættu taka þá sér til eftirbreytni.

En hann taldi, hv. 2. þm. Vesturl., að það mundi ekki hafa verið af umhyggju fyrir málunum, sem ég væri að ýta á þetta. Þetta er nú dálítið einkennilegur hugsunarháttur, verð ég að segja. Við flytjum hér allir framsóknarmenn í d. frv. til l. um togaraútgerð ríkisins og stuðning við útveg sveitafélaga. Við teljum það eitt okkar stærsta mál. Ég hafði framsögu fyrir því. Ég legg þar áherzlu á það, hversu þýðingarmikið mál þarna sé um að ræða. Ég lýk máli mínu með því að óska alveg sérstaklega eftir því, að meðferð málsins verði hraðað eða a. m. k. það hljóti eðlilega meðferð, og það gerði ég af ákveðnu tilefni, vegna þess að hæstv. dómsmrh. var nýlega búinn að hafa hér framsögu fyrir máli, að mig minnir, og hann fór fram á það við þá hv. n., sem það mál fékk til meðferðar, að hún léti það sæta eðlilegum vinnubrögðum. Og ég undirstrikaði það einmitt í lok minnar ræðu, að það væri þó það minnsta, sem ég fari fram á, að þetta frv. fengi eðlileg vinnubrögð. Það er því vissulega ekki nein afsökun hjá hv. þm., þó að einstakir nm. hafi ekki verið að ganga eftir því.

Ég vil segja það alveg hreint út, að ég mun ekki hér á Alþ. temja mér þau vinnubrögð, að ég þurfi að vera hlaupandi á eftir nefndaformönnum til þess að ýta við þeim og krefjast þess, að þeir taki mál fyrir, sem til n. er vísað. En hitt er svo eftir, og það er að svara því, hvers vegna þau mál, sem hæstv. sjútvmrh. hefur borið hér fram, hafa sætt sömu örlögum í þessu efni og frv. okkar stjórnarandstæðinga. Og mér finnst ástæða til þess að spyrja hæstv. sjútvmrh. að því, hvort hann sé samþykkur svona vinnubrögðum, hvort hann sé ánægður með þá meðferð, sem þau mál hafa fengið, sem hann hefur flutt. Ég man það að vísu ekki, hvort hann hefur flutt þau öll, það kann að vera, að hæstv. fjmrh. hafi mælt fyrir frv. nm niðurfellingu á framlagi til Fiskveiðasjóðs, en það breytir engu um það, að auðvitað er það mál, sem í eðli sínu heyrir undir sjútvmrh. Og ég hef satt að segja staðið í þeirri meiningu, að sjávarútvegsmálin væru þau mál, sem mundu liggja einna þyngst á þessu hv. Alþ., sem nú situr, og það ætti að verja tíma sínum að verulegu leyti til þess að skoða og fjalla um. Ég held, að ástand þeirra mála hafi verið slíkt, því miður. Þar er ég ekkert að saka hæstv. sjútvmrh., en þetta er bara staðreynd, sem við vitum, að þessi mál eru í ýmsum efnum í sjálfheldu og þyrftu allir að leggjast á eitt um að leysa þau og gera þar á bragarbót. En þá er þessi háttur, sem ég hef lýst, á hafður, einmitt að því er varðar þessi mál á hinu háa Alþ., að það hafa önnur mál þótt eiga forgang alla þessa mánuði, sem þingið hefur setið. Það verð ég að telja illa farið. Og ég endurtek og ítreka að öðru leyti þetta, sem ég sagði um vinnubrögð Alþingis.

Það er að vísu rétt, að það má segja, að það sé visst samhengi í því, að ég bendi á þetta nú, og þeim fyrirætlunum, sem hafðar eru uppi um afgreiðslu stórmála nú á síðustu dögum þingsins. Það þykir ekki ástæða til þess, að það vefjist tengi fyrir n. að fjalla um þau mál, þegar það eru einhver mál, sem stjórnin ætlar að koma fram. Þá má drífa þau í gegn án nokkurrar umtalsverðar athugunar. En sjávarútvegsmálin hafa ekki þótt það mikið aðkallandi á þessu þingi, að ástæða hafi þótt til að athuga þau mál í n. Það er áreiðanlega dómur, sem menn taka eftir, dómur, sem kveðinn hefur verið upp af meiri hl. Alþ. varðandi þann málaþátt.