12.12.1969
Efri deild: 25. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. sagði, að formaður sjútvn. hefði gert grein fyrir þeim ástæðum, sem lægju til þess, að fundur hefði ekki verið kallaður saman. Þetta er rangt. Formaður sjútvn. gerði enga grein fyrir því. Hann tók bara á sig þá sök og sagði hreinlega, að hann hefði ekkert fram að færa því til réttlætingar, að fundur hefði ekki verið. Í öðru lagi kom það fram hjá hæstv. sjútvmrh., að hann er sæmilega ánægður með þessa starfshætti og afgreiðslu á sínum málum. Hann sagðist hefði kosið, að þau hefðu fengið skjótari afgreiðslu, en hann vildi sætta sig við það eftir atvikum, enda sagðist hann ekki hafa kvartað við formann sjútvn. Ég hefði satt að segja haldið, að sum þessara mála, sem hæstv. ráðh. hefur þarna verið að leggja fram, hefðu verið þess eðlis, að ekki hefði verið óeðlilegt, að hann hefði fylgzt með því, hverja afgreiðslu þau hafa fengið. Þetta segi ég af því, að manni virðist, að það hafi oft verið svo, að hæstv. stjórnarherrar hefðu einurð á því að fylgjast með þeim málum, sem þeir hafa lagt fram hér á þingi, og hverja afgreiðslu þau hafa fengið. Það er ekkert nýtt, að ég lýsi því yfir, að ég sé reiðubúinn til samstarfs um ný og betri vinnubrögð á Alþ. Ég hef gert það áður, því hefur ekki verið anzað, ég geri það enn og sé til.