15.10.1969
Sameinað þing: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

Atvinnuleysi

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Menn hafa við orð; að þeir ætli ekki að efna til almennra umr. að þessu sinni og ekki að vera margorðir. En síðan flytur hv. 1. þm. Norðurl. v. ræðustúf um iðnaðinn, þar sem er alveg gersamlega talað út í hött og í algeru ósamræmi við raunverulegar staðreyndir í þessu máli. Ég skal ekki taka upp neinar almennar eða langar umr., en hér er auðvitað ógerlegt annað en að leiðrétta, því að þetta er ekki í fyrsta skiptið, sem þessi hv. þm. lætur þetta henda sig, heldur gerði hann þetta nýlega í sjónvarpsviðræðum við forsrh. Og hv. framsóknarmenn hafa á undanförnum árum flutt þáltill. þing eftir þing, sem að efni til hafa verið um það, að gera þyrfti ráðstafanir vegna samdráttar í iðnaði. Nú eru staðreyndirnar þær, að allan þennan tíma var enginn samdráttur í iðnaði, heldur vöxtur og verulegur vöxtur. Það liggja fyrir skýrslur um það á árunum 1960–1966, þá var 31% framleiðsluaukning í iðnaði eða meðaltal á ári 4.5%, meðan allar samdráttartillögurnar voru fluttar. Þetta er ekki sama meðaltal og hæstu iðnaðarframleiðslu hjá háiðnþróuðu þjóðunum, en hins vegar fór framleiðsluaukningin í iðnaði á sumum árum þessa tímabils allt upp í 8%, og veit ég ekki um aðrar þjóðir, sem hafa aukið árlega iðnaðarframleiðslu sína meira, nema ef vera kynni Japanir. Ég hef gert samanburð á tveimur tímabilum, tveimur 6 ára tímabilum, frá 1955–1961 og 1961–1967, og fært allt verðlag til sama verðlags, til þess að tölurnar séu sambærilegar, eða verðlags 1967, og þá kemur í ljós, að fjármunamyndunin í iðnaðinum síðara tímabilið er næstum því tvöfalt meiri en fyrra tímabilið. 1230 millj. fyrra tímabilið, ef ég man rétt, og 2130 millj. síðara tímabilið, eða um 173% aukning á síðara tímabilinu miðað við það fyrra. Það er sagt, að mörg fyrirtæki hafi lagzt niður vegna stefnunnar í innflutningsmálum. Ég hefði gaman af að heyra einhvern tíma upptalningu á þessum fjölda fyrirtækja, sem lagzt hafa niður af þessum sökum. Mér er ljóst, að á þessum árum eins og á öðrum árum áður hafa einhver iðnfyrirtæki lagzt niður. En til þess kunna að liggja margar fleiri orsakir, og er hægt að gefa skýringar á því, heldur en stefnan í innflutningsmálunum og það hafi verið vegna of harðrar samkeppni við innflutning. Það eru ekki heldur talin þau nýju fyrirtæki, svipuð fyrirtæki, sem sett hafa verið á laggirnar á þessu tímabili, en þau eru mörg og sum hver í stærri stíl en áður hefur verið, og lagður með því grundvöllur að stóriðju í landinu og grundvöllur að áframhaldandi iðnþróun í landinu, sem ella hefði verið ógerlegt, ef ekki væri nægileg orka fyrir höndum.

Það er sagt, að skýrslugerð hafi ekki verið búin að fara fram, þegar rætt var um EFTA-málin hér síðast, um það, hvernig líklegt væri, að iðnaðurinn gæti snúizt við aðild okkar að EFTA, hvaða fyrirtæki fengju möguleika til útflutnings og hver ekki o. s. frv. Þetta er auðvitað mikið vandaverk. Mér er kunnugt um, að bæði Norðmenn og Danir gerðu tilraun til þess að gera slíkar spár fram í tímann, þegar þeir gengu í EFTA. En mér er líka kunnugt um, að lítið af þessu stóðst og í þeim báðum tilfellum varð reyndin miklu betri en skýrsluhugmyndirnar eða áætlunargerðirnar, sem fram höfðu farið. Það sannar auðvitað ekki það, að slíkt sé óframkvæmanlegt hér. Hins vegar hefur verið unnið að skýrslugerð um það hér á landi, hvernig íslenzkur iðnaður sé við því búinn að taka við þeirri breytingu, sem leiða mundi af þátttöku í EFTA, og það er mjög mikil skýrslugerð, sem felur í sér margar veigamiklar og nýjar upplýsingar um iðnaðinn og aðstöðu hans, sem áður voru ekki fyrir hendi, en það er allt of langt mál að fara út í það nú, en það verður auðvitað gert lýðum ljóst.

Á sama tíma hefur auðvitað verið athuguð aðstaða iðnaðarins í sambandi við tollamálin, og það hefur verið eitt af þeim veigamiklu málum, sem í þessu sambandi hafa verið í endurskoðun á liðnu sumri. Meginatriðin þar eru einmitt till. um að fella niður tolla og lækka tolla, skulum við segja, af vélum og hráefnum í samræmi við og ekki minna en tollar eru lækkaðir eða verndartollar, skulum við segja, eru afnumdir. En það hefur verið gert ráð fyrir því alltaf frá öndverðu, að íslenzkur iðnaður fengi langan, 10 ára aðlögunartíma í sambandi við breytingar á tollalöggjöfinni, og í stórum dráttum er gert ráð fyrir, að fyrsta 4 ára tímabilið verði ekki um neina minnkun á tollvernd iðnaðarins að ræða, vegna þess að þeir verndartollar, sem kunna að verða afnumdir, vegist upp í heild fyrir iðnaðinn með þeim tollalækkunum, sem iðnaðurinn fær á vélum og hráefnum. Þess vegna þarf ekki að halda langa tölu um þetta, og þetta er engin nýjung og þetta er þingmönnum kunnugt, sérstaklega forustumönnum flokkanna, þar sem vitað er, að flokkarnir hafa fulltrúa í EFTA-nefndinni og hafa með því móti haft aðstöðu til þess að fylgjast með því, sem þarna hefur verið að vinda fram og kemur síðar betur í ljós í undirbúningi og aðstöðu ríkisstj. Það hefur svo alltaf frá öndverðu verið stefna ríkisstj., og það á ekki aðeins við um iðnaðinn, heldur um aðrar atvinnugreinar, að hafa samráð við allar þessar atvinnugreinar um það áður en þær endanlegu ákvarðanir eru teknar. Og þetta hefur verið gert.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. vildi gera sérstakar ráðstafanir til verndar iðnaðarvöru, sem mér skildist, þó nokkuð óljóst sé talað, að ætti að felast í því að banna innflutning á vissum iðnaðarvörum, var naumast hægt öðruvísi að skilja. Það hefur ekki verið meginstefna stjórnarinnar að fara þá leið, heldur að gera aðrar ráðstafanir, semja svo um, að aðlögunin væri iðnaðinum hagkvæm varðandi tímalengd og einnig í sambandi við tollverndina, að í raun og veru mundi hún ekki minnka neitt á fyrsta fjögurra ára tímabilinu. Og loksins hafa svo verið gerðar aðrar ráðstafanir, sem eiga að koma iðnaðinum og þeim greinum þá væntanlega til stuðnings, sem verst standa í samkeppninni fyrst í stað við innflutta iðnaðarvöru, og til þess að efla íslenzkan útflutning og á ég þar m. a. við þá samninga, sem samkomulag hefur orðið um og birt hefur verið grg. um, um stofnun hins norræna iðnþróunarsjóðs, sem nú er ráðið til lykta og mundi, ef um aðild að EFTA yrði að ræða, koma til framkvæmda samtímis henni og með þeim hætti, að stofnfé sjóðsins, sem er 1230 millj. kr., þar af leggjum við um 45 millj. kr. fram, en Norðurlandaþjóðirnar hinar sem sagt meginupphæðina, að allt þetta stofnfé yrði borgað inn á fjórum árum, einmitt á þessum fjórum fyrstu árum aðildarinnar að EFTA og það mundi þýða það, að íslenzkur iðnaður fengi þar árlega til ráðstöfunar, bæði í lánsfé, auknu lánsfé, og einnig í beinni aðstoð og styrkjum, sem gert er ráð fyrir, 300 millj. kr. á ári til viðbótar við það, sem hann hefur. En þegar við höfum það í huga, að ráðstöfunarfé iðnlánasjóðsins okkar er nú 100 millj. kr. á ári, þá sjáum við í hendi okkar, hversu mikil blóðgjöf það getur verið íslenzkum iðnaði og hversu ríkt tækifæri gefst þarna einmitt til þess að styðja þann iðnað, sem á í og kemur til með að eiga í vök að verjast, og svo mun verða um ýmsar iðngreinar, bæði í samkeppni á innlendum markaði og svo til þess að lyfta nýjum íslenzkum iðngreinum til þess að afla sér markaða erlendis.

Það er spurt: Hvaða innlendur iðnaður getur átt sér möguleika til útflutnings? Þessu getur í raun og veru enginn svarað í dag. En við erum þó alltaf að heyra fréttir af því, að með eigin framtaki er alltaf verið að selja íslenzkar iðnaðarvörur, sem áður hafa ekki verið seldar á íslenzkum markaði, í sambandi við vörusýningar, sem byrjað var að halda á s. l. vetri, haldnar hafa verið í sumar og í haust og nýlega er lokið og samtök iðnaðarmanna og iðnaðardeildar samvinnufélaganna hafa staðið að og undir kannske höfuðforystu útflutningsskrifstofu Félags ísl. iðnrekenda, sem ríkisstj. hefur stutt með fjárframlögum, bæði í fyrra og nú á þessu ári.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri til að lengja ekki um of þessar umr. utan dagskrár. En mér fannst óhjákvæmilegt, að fram kæmi það, sem ég nú hef sagt, til þess að ekki sé verið að rekja vandræðin til erfiðleika, sem stafa af einhverjum sökum, sem staðreyndir segja, að séu ekki fyrir hendi.