15.10.1969
Sameinað þing: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

Atvinnuleysi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að taka þátt í þeim almennu umr., sem hér hafa farið af stað um efnahagsmál, fara að deila um það, hvað gerzt hefur í þróun íslenzka iðnaðarins á undanförnum árum, hvort þetta eða hitt tímabilið hefur þar komið hagstæðar út. Það var engan veginn ætlun mín, að hér yrðu almennar umr. um efnahagsmál. Mér var ljóst, að slíkt var varla hægt að gera hér utan dagskrár á þessum fundi, enda ætla ég að slíkar umr. geti orðið hér á Alþ. áður en langt um líður.

Það, sem ég tel að hér skipti mestu máli, er, að það sé viðurkennt, að veruleg hætta er á því, að um atvinnuleysi geti orðið að ræða í vetur, ef ekki er brugðið skjótt við til úrbóta. Mér fannst á því, sem kom fram hér hjá hæstv. forsrh., að hann tæki undir þetta, og ég fagna því fyrir mitt leyti, að hann hefur lýst því hér yfir, að hann vildi, að samstarf yrði tekið upp á milli ríkisstj. annars vegar og Alþ. hins vegar um það, hvað í þessum málum skyldi gert. Ég tel þessa yfirlýsingu hans mjög jákvæða, en vænti jafnframt, að hann beiti sér fyrir því, að þessu samstarfi verði nú komið á til þess að hægt sé að fá eins mikla samstöðu um það, sem gera þarf í þessum efnum, og kostur er á og það geti gengið eins hratt fyrir sig og mögulegt er. En ég er hins vegar á því, að hæstv. forsrh. þurfi enn að endurskoða nokkuð í sambandi við það, sem kom fram í hans ræðu, mat hans á samstarfinu við verkalýðshreyfinguna, sem nú er. Það er mín skoðun, að það samstarf sé allsendis ófullnægjandi. Það er að vísu um nokkurt samstarf að ræða við verkalýðshreyfinguna í atvinnumálanefndunum og í atvinnumálanefnd ríkisins, en hvort tveggja er nú, að ég hygg, að atvinnumálanefnd ríkisins hafi þegar úthlutað svo að segja öllu því fjármagni, sem hún hafði yfir að ráða, eða hartnær 300 millj. kr., eða gefið loforð um, hvernig þessu fé yrði ráðstafað, svo að það virðist nú vera, að beint starf þeirrar n., a. m. k. innan þess ramma, sem þegar hefur verið lagður, takmarkist. En það er auðvitað enginn vafi á því, að hér þarf að gera miklu meira en hægt er að gera innan þess ramma, sem áður hafði verið settur um störf þessarar n. Ég held líka, að hæstv. forsrh. þurfi að átta sig á því, að samstarfið við forustumenn sveitarfélaganna er engan veginn nægilega mikið. Í atvinnumálanefndunum eiga sveitarstjórnirnar enga beina fulltrúa, þó að þar sé um að ræða einhverja þýðingarmestu aðilana að vinnumarkaðinum, ekki sízt þegar á reynir á atvinnuleysistímum. Og þó að hinar einstöku tillögugefandi atvinnumálanefndir úti á landi geti haft samráð við sveitarstjórnarmenn, þá er enginn vafi á því, að það samráð hefur ekki verið á því stigi, sem það þyrfti að vera. Og það þarf að bæta úr þessu, m. a. með því að hafa miklu nánara samstarf við sveitarstjórnarmenn um það, hvað hægt er að gera til úrbóta í atvinnumálum.

Það hefur verið sagt, að vandinn í þessum atvinnumálum nú sé mestur hér á höfuðborgarsvæðinu og gjarnan á Akureyri og Siglufirði. Og ég efast ekkert um það, að vandinn á þessum svæðum er býsna mikill og kannske langmestur. En ég vil vekja athygli á því, að það er enginn vafi á, að það er einnig verulegur vandi á höndum víða í minni kaupstöðum landsins og sjávarþorpum, þó að þar hafi verið á tímabili næg atvinna, meðan sjósókn var í fullum gangi, fiskveiðarnar gengu vel. Þar sem menn stunda jafnmikið bein framleiðslustörf, þá er enginn vafi á því, að um leið og þarna verður nokkur breyting á, sem oft vill verða á haustin og veturna, þá er líka komið mikið atvinnuleysi í þessum þorpum, af því að það hefur dregið stórlega úr framkvæmdum annarra aðila en þeirra, sem beinlínis vinna að framleiðslustörfum, svo að það þarf vitanlega að huga að þeirra málum líka í þessum efnum.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. fyrir mitt leyti meir að þessu sinni. Ég endurtek aðeins ánægju mína yfir þeim undirtektum hæstv. forsrh. um það, að hann vilji, að tekið verði hér upp samstarf við alla þm. um það, hvað gert skuli í þessum málum, og ég vil vænta þess, að hafður verði hraði á í þessum efnum, að menn standi ekki öllu lengur og velti vandamálinu fyrir sér, heldur athugi málið og setji það í n. Tíminn hefur hlaupið þannig frá okkur, að nú þarf að efna til framkvæmda, sem auka atvinnu í vetur a. m. k., ef á að afstýra atvinnuleysi. Hitt er svo auðvitað augljóst mál, að skyndiráðstafanir til að leysa atvinnumálin í vetur leysa ekki þann meginvanda, sem hér er við að glíma.

Hann stafar af því að mínum dómi, að undirstöður okkar atvinnulífs eru ekki nægilega sterkar til þess að halda uppi öllu því, sem á undirstöðurnar hefur verið lagt, og í þeim efnum þarf að breyta um stefnu í verulegum atriðum. En nú skiptir mestu máli að koma sér saman um skyndiráðstafanir til að koma í veg fyrir atvinnuleysið í vetur.