15.10.1969
Sameinað þing: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

Atvinnuleysi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Okkur er áreiðanlega öllum, sem hér erum, og sennilega öllum Íslendingum, í fersku minni sá dimmi skuggi, sem lagðist yfir land og þjóð á s. l. vetri í almennu atvinnuleysi. Það var að vísu, þegar það ástand hafði skapazt og í rauninni of seint, sem verkalýðshreyfingin hóf samningaviðræður við ríkisstj. um að leggja fram fjármagnsfúlgu, ekki minna en 300 millj. kr., til þess að aðstoða atvinnulífið í bráðustu neyð til þess að reyna að draga úr því atvinnuleysi, sem hafði skapazt. Þessir samningar tókust, eins og kunnugt er, og mér er ekki kunnugt um annað en samstarf við atvinnumálanefnd ríkisins hafi fyrir löngu leitt í ljós, að atvinnulífið þurfti á þessari upphæð að halda og miklu meira fé og því hafi verið öllu saman ráðstafað og þó nokkrum tugum millj. umfram það, ekki minna en 340 millj. kr. Til þess að leggja hönd á plóginn um þetta stóra verkefni, að reyna að draga úr atvinnuleysinu á s. l. vetri, lögðu auðvitað bæði atvinnuleysistryggingarnar og atvinnujöfnunarsjóður fram mikið fé til þess að reyna að ráða við vandann, sem þó ekki tókst. Vitanlega var miklu bjargað, en þetta tókst þó ekki. Það stærsta, sem gerðist í þessu, var náttúrlega, að með bráðabirgðaráðstöfunum var útgerðinni, sem víða var stöðvuð, komið í gang og fiskiðnaðarfyrirtækjum hjálpað til þess að komast í rekstur á ný, því að þau voru víða stöðvuð líka, holskefla atvinnuleysisins var ekki hvað sízt af þeim rótum runnin á s. l. vetri, að útgerð og fiskiðnaður höfðu lamazt.

Það má hins vegar segja, að þær blikur, sem eru á lofti um atvinnuleysi á komanda vetri, eru að verulegu leyti nokkuð annars eðlis. Það má segja um þann ávinning af gengislækkuninni, sem útgerð og fiskiðnaður auðvitað hlutu að fá, að ef þessar atvinnugreinar hefðu ekki fengið ávinning af henni, þá hefði hún verið tilgangslaus. Hækkandi verðlag á sjávarafurðum á erlendum mörkuðum, allgóð aflabrögð að öllu öðru leyti en að því er snertir síldina og mikil aðstoð, sem veitt var, hafa gert það að verkum, að sjávarútvegurinn og fiskiðnaðurinn býr nú við allt aðra aðstöðu heldur en um þetta leyti í fyrra. Hið almenna atvinnuleysi í hverjum kaupstað og nálega hverju sjávarþorpi á Íslandi á haustnóttum í fyrra stafaði af því, að sjávarútvegurinn og fiskiðnaðurinn voru hvorir tveggja lamaðir, en núna er sem betur fer árferðið þannig, að aðstaðan mjög víða í útgerðarbæjum og útgerðarkauptúnum er á allt annan veg. Atvinnulífið hefur vaxið og er rekið nú, að því er þessar atvinnugreinar snertir, víðast hvar af fullum þrótti. En þó eru nokkrir staðir, sem byggja almennt atvinnu á sjávarútvegi og fiskiðnaði, sem eru enn þá lamaðir, en þeir eru sem betur fer miklu færri en í fyrra. Og hvaða staðir eru það? Það eru þeir staðir, þar sem atvinnufyrirtækin, útgerðin og hraðfrystihúsin, voru sokkin svo djúpt í skuldafen, að bráðabirgðaaðgerðirnar frá í fyrra dugðu ekki. Þessi fyrirtæki eru enn lömuð, svo lömuð að þess eru dæmi, að það hefur orðið að ráðstafa útgerðinni frá þessum allmyndarlegu útgerðarkauptúnum á aðra staði, á aðra landshluta, til þess að þeir fengju útgerðarnauðsynjar, olíur og veiðarfæri. Í heimahöfn sinni gátu þeir ekki fengið það, vegna þess að allt var þar komið í strand vegna skuldasúpunnar og lánin, sem veitt eru, duga með naumindum fyrir hráefnum og vinnulaunum, ef ekki þarf að taka af þeim lánum til þess að bera byrðar skuldasúpunnar, sem safnazt hefur fyrir. En það hefur útgerðin á þessum stöðum orðið að gera. Og ég álít, að það verði að gefa því alveg sérstakan gaum, úr því að það var ekki gert í fyrra, að taka þessi hraðfrystihús og útgerðarfyrirtæki, sem enn þá eru í þrotum þrátt fyrir hið góða árferði og miklu aðstoð, að taka þau til skuldaskila eða a. m. k. að knýja bankana til þess að taka þessar gömlu skuldir úr umferð og létta þannig af þeim byrðinni a. m. k. í bili og í haust endanlega með skuldaskilum. Að öðrum kosti verður sífellt basl og bágindi við að halda atvinnulífinu gangandi á þessum stöðum, þar sem svona var komið. Ég held, að sem betur fer séu þessir staðir ekki mjög margir, en það er þó ískyggilegt ástand þar sem svona var komið.

Það var sagt hér áðan og það er rétt, að atvinnuhorfurnar eru ískyggilegastar nú á Reykjavíkursvæðinu og Akureyrarsvæðinu eða Mið-Norðurlandssvæðinu. Mér virðist þetta gefa vísbendingu um það, hvar veikleikinn er í undirstöðu atvinnulífsins. Það er í iðnaðinum. Það er alveg greinilegt. Þar þarf að rétta hjálpandi hönd, ef iðnaðurinn á að geta veitt fleira fólki vinnu. Það hefur orðið samdráttur frá því sem áður var, og sá samdráttur iðnaðarins veldur atvinnuleysi á Reykjavíkursvæði og Akureyrarsvæði. Ég veit, að það hefur verið rétt verulega hjálpandi hönd iðnaðaraðstöðunni á Akureyri t. d. og einnig hér í Reykjavík með starfi atvinnumálanefndar ríkisins, en það virðist ekki vera nóg.

Ég held, að iðnaðurinn hafi orðið fyrir áfalli af gengislækkuninni, sérstaklega iðnaðurinn, sem byggir á innfluttu hráefni. Hann varð að fá aukið fjármagn jafnframt því sem gengislækkunin var gerð, ef allur hráefnislager, sem úrvinnslan byggist á, átti ekki að dragast saman. Þessari aðstoð var lofað. Það mun vera sagt nú, að það sé búið að veita iðnaðinum fullnægingu þess loforðs, en ég álít, að þetta hafi komið svo bagalega seint, að samdrátturinn í iðnaðinum hélt áfram um margra mánaða skeið og það sé áreiðanlega að nokkru leyti orsök þess, að vonir manna um að útrýma atvinnuleysi s. l. sumar brugðust. Menn létu sig áreiðanlega dreyma um það á útmánuðum í fyrravetur, að þetta væri vetrarplága, sem mundi linna með vori, en við urðum fyrir þeim vonbrigðum, að atvinnuleysið hvarf ekki með öllu yfir sumarmánuðina, og það er það ískyggilega. Ég held, að það sé því, þó horfurnar séu allískyggilegar að því er snertir Reykjavíkursvæðið og Akureyrarsvæðið og nokkra staði aðra á landinu, að því er atvinnuhorfur snertir nú, þá sé vandamálið nú viðráðanlegra heldur en það var á haustnóttum í fyrra, ef það er tekið réttum tökum og réttir aðilar gera sér grein fyrir því, hvers eðlis samdrátturinn í atvinnulífinu er, orsakirnar til þess, að menn óttast atvinnuleysið. En það má vitanlega ekki dragast að gera sér þess fulla grein og láta aðstoð berast án tafar.

Það var fyrir miðjan september, sem miðstjórn Alþýðusambands Íslands tók að ræða atvinnuástandið og atvinnuhorfurnar, og þá var um tvennt að velja: að kjósa n. til þess að flytja þau mál og draga upp þá mynd, sem við okkur blasti í þessum efnum, og ræða um það við ríkisstj., en það varð einróma álit miðstjórnarinnar, að rétt væri að halda sig á þeim vettvangi, sem skapaður hafði verið varðandi atvinnuleysismálin á s. l. hausti, og fela fulltrúum Alþýðusambandsins í atvinnumálanefnd ríkisins að flytja þessi mál við ríkisstj., enda mundu þangað berast allar till. um úrræði til úrbóta í þessum efnum frá verkalýðsfélögunum. Það var nokkru síðar, sem mörg verkalýðsfélög í Reykjavík héldu ráðstefnu og skiluðu till. sínum, sem einnig fóru til ríkisstj. og þannig einnig til úrvinnslu og álita í atvinnumálanefnd ríkisins tvímælalaust. Fyrir nokkru er svo lokið þingi Alþýðusambands Norðurlands og þar hafa verið samþ. mjög gagngerar og ýtarlegar till. til úrbóta í atvinnumálum á Norðurlandssvæðinu og tel ég og þykist mega ganga út frá því sem gefnu og vísu, að ríkisstj. og atvinnumálanefnd ríkisins hljóti að líta á allar þessar ábendingar um úrræði frá verkalýðsfélögunum í Reykjavík og verkalýðsfélögum Norðurlands og úr öllum þeim stöðum, þar sem ályktanir hafa verið gerðar um atvinnumálin. Ég er alveg viss um það, að till., sem koma frá því fólki, sem finnur hvar skórinn kreppir að, eru þær till., sem helzt er líklegt að verði til úrbóta, og allra úrræða verður að leita. Og ég treysti því, að svo verði gert til þess að framkvæma þær till., sem helzt mættu verða til þess að bæta úr atvinnuástandinu a. m. k. í bráð.

Ég er alveg sammála því, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., að á atvinnuleysistímum eru það tveir aðilar, sem fyrst og fremst eiga umfram allt að láta hendur standa fram úr ermum í atvinnumálum. Það er ríkisvaldið og sveitarfélögin, hið opinbera. Þessir aðilar eiga að draga nokkuð úr framkvæmdum, þegar mestur þrýstingur er á almennum vinnumarkaði, en þeir eiga líka að rísa undir þeirri skyldu og herða á og auka opinberar framkvæmdir, þegar einkaframtakið lamast að einhverju leyti og úr þrýstingi dregur og atvinnuleysi jafnvel skapast á hinum almenna vinnumarkaði. Þá eiga ríki og sveitarfélög að vera sá jöfnunaraðili í atvinnulífinu, sem ekki má bregðast eða bila.

Ég skal ekki taka þátt í að skaða neitt þann loftkastala, sem hæstv. iðnmrh. dró hér upp um gullöld, sem væri í vændum, þegar við værum komnir í EFTA, að því er snerti iðnaðinn, sem byggður yrði þá upp með myndarlegum norrænum iðnlánasjóði, gulli, sem flyti hér inn yfir landsins strendur. Ég álít það vera fjarlæga músík í sambandi við þessi alvarlegu mál komandi vikna og mánaða, atvinnuleysið í vetur, og ræði það ekki. En ég vil undirstrika það og ljúka máli mínu með því að segja: Við getum ekki verið ánægð með það, þó að eitthvað dragi úr atvinnuleysi. Það má helzt engin íslenzk hönd vera iðjulaus. Íslenzka þjóðfélagið þarf á því að halda, að öllum vinnandi mönnum, sem vilja vinna, sé skapað verkefni, arðgefandi verkefni, og það á að vera hægt, ef allra hugur stefnir að því og allar hendur eru lagðar að því verki. Ekkert atvinnuleysi á Íslandi er það eina, sem við getum auðvitað sætt okkur við. Ég álít, þó að við horfum fram á uggvænlegt ástand í atvinnumálum hér á Reykjavíkursvæðinu í vetur og á Akureyrarsvæðinu líka, þá sé þetta annars eðlis heldur en sá sorti, sem við horfðum í í fyrra, og ég álít, að þetta sé viðráðanlegra, það sé takmarkaðra, af því að sjávarútvegur og iðnaður eru í heild núna margfalt betur á vegi staddir heldur en fyrir ári fyrir hinar opinberu aðgerðir að mörgu leyti. Ef ekkert er að gert, þá er það skoðun mín, að atvinnuleysið í Reykjavík yfir vetrarmánuðina verði uggvænlegt, — það hafa hækkað ört atvinnuleysingjatölurnar hér í Reykjavík, — ef aðgerðir koma ekki til til þess að snúa þróuninni við, og þær þurfa að koma fljótt, því það er reynsla, að þegar atvinnuleysi er skollið á, líður alllangur tími, þó að aðgerðir séu settar í gang, þangað til atvinnuleysisbylgjan lækkar sig á ný. Það er betra hér eins og á flestum öðrum sviðum að fyrirbyggja heldur en að lækna meinið, þegar það er orðið sollið.

Ég held, að atvinnumálanefnd ríkisins og allar þær till., sem komið hafa frá verkalýðshreyfingunni, séu ærinn efniviður til þess að vinna úr, og það er ég sannfærður um, að það verður með einhverju móti að útvega aukið fjármagn til þess að verða við þeim till., sem þar mættu helzt að gagni verða. 300 millj., sem lofað var í fyrra og voru að vísu miðaðar við tveggja ára tímabil, eru búnar, það er staðreynd, og þarna verður með einhverjum hætti að útvega meira fjármagn til þess að afstýra atvinnuleysinu á þeim stöðum, sem þó eru miklu færri en í fyrra, sem nú þarf að gefa gaum að til þess að afstýra þar voðanum. Ég tel því, að það sé ágætt, að þingflokkarnir leggi þunga sinn á þetta mál, og ég vil leyfa mér að vona, að hæstv. ríkisstj. liggi ekki á liði sínu í því að reyna að koma í veg fyrir atvinnuleysi á komandi vetri. Ég held, að horfur séu þannig, að það megi með góðum vilja og samstilltu afli þingflokka, verkalýðshreyfingar og ríkisstj. leysa þennan vanda.