15.10.1969
Sameinað þing: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1663 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

Atvinnuleysi

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér skilst, að það sé samkomulag allra um að fara hér ekki langt inn á almennar efnahagsumr. vegna þess að til þess þurfi aðra skipan mála heldur en þær umr. utan dagskrár, sem hér voru teknar upp og samkomulag var um að hafa varðandi ráðstafanir gegn því atvinnuleysi, sem menn ugga eða óttast að kunni að fara vaxandi, þegar fram á veturinn kemur. Og sá ótti býr í allra hugum, en við erum allir fúsir til þess og viljum okkar fram leggja að reyna að koma í veg fyrir það eftir því sem geta okkar stendur til.

Nú er það að vísu svo, að menn hafa vitnað hér í tölur varðandi ástand fyrr og síðar, en það er nauðsynlegt, að menn hafi það í huga, — ég er ekki að gera lítið úr þeim erfiðleikum, sem nú eru hjá ýmsum, en engu að síður er nauðsynlegt, að menn hafi það í huga, að tölur nú og fyrr eru ekki að öllu leyti sambærilegar þegar af því, að það er vitað mál, að ekki einungis hér í Reykjavík, heldur víðs vegar um landið sinna menn skráningu nú miklu betur og meira en áður, bæði vegna þess, að mönnum er ljóst, að atvinnuleysishætta er meiri, og af því að verkalýðsfélögin hófu á s. l. vetri beina hvatningu til meðlima sinna um að láta skrá sig, sem engan veginn var óeðlilegt að þau gerðu, og eins að bætur eru verulega hærri en þær voru áður. Þess vegna verður að játa, að tölur nú samanborið við fyrri ár eru nokkurs annars eðlis, og þó að þær séu hærri, er ekki þar með sagt, að atvinnuleysið sé þeim mun meira. Þetta vitum við allir, og ég vona, að við játum það einnig í umr. hér opinberlega eins og menn játa það í viðræðum sín á milli.

Eins er það vitað, að töluvert af því fólki, sem nú lætur skrá sig atvinnulaust, á í nokkrum örðugleikum með að sinna almennri vinnu. Þetta kemur glögglega fram af þeim skýrslum, sem um þetta hafa verið samdar, og ég held, að það gæti verið fróðlegt fyrir þingflokkana að fá ýtarlega skýrslu um sundurgreiningu á orsökum atvinnuleysisins eða í hverju það lýsir sér, réttara sagt, sem lögð var fram á fundi atvinnumálanefndar ríkisins í gær. Allar slíkar skýrslur eru auðvitað tölur, sem menn geta lagt misjafnlega mikið upp úr, en menn játuðu þó, a. m. k. hvað sem skýringunum leið, að tölurnar sjálfar væru mjög fróðlegar. Og ég hygg, að það væri rétt að gera ráðstafanir til þess, að þetta plagg yrði fjölritað, svo að a. m. k. þingflokkar gætu fengið svo mörg eintök sem hver um sig óskar eftir, hvort sem hver þm. kærir sig um það eða ekki, til athugunar á málinu. En við skulum hafa það alveg í huga og játa, sem liggur alveg ljóst fyrir, að tölurnar nú og fyrr eru ekki með öllu sambærilegar.

Þá er auðvitað það, sem hér kemur réttilega fram, að mestu máli skiptir auðvitað, að atvinnureksturinn í landinu í heild sé blómlegur. Þetta kom glögglega fram hjá hv. 9. þm. Reykv., þar sem hann benti á, að þær almennu ráðstafanir, sem voru gerðar til aðstoðar sjávarútveginum, ásamt annarri þróun þar, hafa orðið til þess að létta af okkur mesta vandanum. Það er óumdeilanlegt. Þess vegna er vandamálið nú allt annars eðlis og miklu auðleystara heldur en það var á s. l. vetri, meðan sjálfur höfuðvandi atvinnulífsins var óleystur.

Ég tek undir það, að vandinn er svo miklu takmarkaðri en hann var, að ástæðulaust er að magna svartsýni manna, um leið og við skulum ekki gera lítið úr vandanum. En eins og sagt var, ég hygg af hv. 2. landsk. þm., þá hefur hugarástand manna mikla þýðingu í þessum efnum. Það er svo, að ekki er farið nema að litlu leyti að vinna fyrir það aukna fé, sem ríkisstj. hefur látið afla til atvinnuaukningar nú í vetur. En engu að síður er enginn vafi á því, að þessar ráðstafanir, — og ég skal þá minna á bæði varðandi húsbyggingar, varðandi vegalagningu, varðandi skipabyggingar, einnig þær viðræður, sem átt hafa sér stað um ráðstafanir til þess að a. m. k. bæjarútgerðir reyni að forðast landanir erlendis, eftir því sem auðið er, og málaleitun hefur einnig verið beint til annarra, — allt þetta hefur nú þegar haft veruleg áhrif til aukinnar bjartsýni, svo að ekki sé talað um, ef síldveiði skyldi glæðast verulega hér við Suðvesturland og hvað þá fyrir austan, þá mundi ástand mjög verulega breytast á skömmum tíma. Þess vegna mega menn varast það að vera með of mikla svartsýni, vegna þess að hún getur orðið til þess að magna vandann og láta hann vaxa. Aðalatriðið er, eins og hv. 9. þm. Reykv. sagði, að hér er mest komið undir því, að sjálfir frumatvinnuvegirnir geti starfað og starfað blómlega.

Eins og hv. 2. landsk. þm. sagði, verður auðvitað mjög erfitt að koma byggingariðnaðinum í fullkomið horf aftur, og þar hafa einstakar opinberar byggingar litla úrslitaþýðingu, nema því aðeins að kaupgeta manna innanlands vaxi, svo að þeir geti haldið áfram að kaupa íbúðir í eitthvað svipuðum mæli og þeir gerðu á undanförnum árum. Kaupgetan er auðvitað algerlega háð afkomu undirstöðuatvinnuveganna, að þeir séu blómlegir og geti greitt lífvænlegt kaup til frambúðar og vonandi raunverulega hærra kaup á komandi árum heldur en menn verða að sætta sig við í bili. Ef þetta tekst ekki, ef þessir frumatvinnuvegir eiga í áframhaldandi örðugleikum, þá er auðvitað ákaflega erfitt að rétta við byggingariðnaðinn, eins og líka kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. varðandi það, sem hann sagði um afkomu iðnaðarins. Það var ljóst, að þegar hann var að tala um afkomu iðnaðarins, hafði hann ekki sízt í huga þau vandræði, sem nú ganga yfir byggingaiðnaðinn, sem aftur á móti er í beinu sambandi við afkomu þjóðarbúsins í heild, þá minnkandi kaupgetu, sem kemur af ástandi undanfarandi missira, hverjar skýringar sem við höfum svo á því. En ef við tökum byggingaiðnaðinn frá og ef við tökum frá þá rýrnun, sem hefur orðið í járnsmiðjum, einfaldlega vegna þess að nú er minna að gera við byggingu síldarverksmiðja, jafnvel í einstökum tilfellum hraðfrystihúsa, heldur en stundum áður og á ekkert skylt við efnahagsstefnu ríkisstj., heldur þau breyttu atvik, sem atvinnuhættir hér hafa leitt til, — ef við tökum þetta frá, er það ómótmælanlegt, að meginhluti iðnaðarins hefur mjög rétt sig við á undanförnum árum. Og það er misskilningur, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði, að gengislækkun út af fyrir sig hafi komið hart niður á iðnaðinum, vegna þess að hann fékk auðvitað stórkostlega aukna vernd með gengislækkuninni. Hitt er svo stöðugt deiluefni, hvort það hafi verið nóg lánsfé, sem hann hafi fengið, til þess að geta notað sér þá miklu nýju möguleika, sem gengislækkunin færði honum. Það er enn annað mál, sem við getum síðar deilt um og þarf ekki að deila um hér.

Ég hygg, að þegar þetta er krufið til mergjar, beri okkur ekki svo mikið á milli eins og þessar umr. kynnu að gefa tilefni til að ætla. Ég hygg, að við séum sammála bæði um höfuðvandann, eins og hann liggur fyrir, og að það þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til þess að bregðast við honum. Þær hafa þegar verið gerðar að verulegu leyti. Það verður að fylgjast með og gera nýjar ráðstafanir, eftir því sem tilefni gefst til á hverjum tíma.

En þá komum við að því, sem ég ætlast ekki til, að við fáum svar við í dag, en er alveg nauðsynlegt að menn átti sig á til þess að ljóst sé, hvað fyrir mönnum vakir. Hv. 1. þm. Norðurl. v. telur, að það þurfi að breyta allri stjórn þessara mála. Hv. 4. þm. Austf. telur, að það þurfi að breyta samstarfsformi ríkisvaldsins við verkalýðshreyfinguna. Mér skilst aftur á móti, að hv. 9. þm. Reykv. telji, að það samstarfsform sé nokkurn veginn eins fullkomið og það getur verið með þeim ófullkomnu mönnum, sem eiga að vinna eftir því. Ég held, að við bætum okkur ekki mikið með því að fara út í þetta lengra hér. En þarna er um að ræða atriði, sem er fyllilega ástæða til þess að við leggjum höfuðið í bleyti um, hvaða breytingar það eru í raun og veru, sem fyrir mönnum vaka og hvort hægt er að finna þarna betra samstarfsform heldur en nú er fyrir hendi. Ég veit, að ríkisstj. er mjög fús til þess að athuga allar till., sem fram koma í þeim efnum.