02.02.1970
Efri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

Ómæld yfirvinna ríkisstarfsmanna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mig langar til að beina lítilli fsp. til hæstv. fjmrh. Ástæðan til þess, að ég ber þessa fsp. fram munnlega utan dagskrár, er sú, að skriflegri fsp. mundi ekki verða svarað fyrir þingfrestunina. Í annan stað er þessi fsp. þess háttar, að ég tel víst, að hæstv. fjmrh. geti svarað henni undirbúningslaust.

En í nýútkomnu blaði Frjálsrar þjóðar, 4. tbl., sem kom út 28. janúar, er greinarkorn á forsíðu. Það greinarkorn ber fyrirsögnina: „60 þús. á ári í ómælda yfirvinnu.“ Og greinarkornið eða upphaf þess er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. upplýsingum Höskuldar Jónssonar deildarstjóra í fjmrn. fá nokkrir toppembættismenn launakerfisins árlegan bónus, sem kallast ómæld eftirvinna. Er upphæðin ákveðin af fjmrh. og reiknast fyrir tímabilið 1. júlí til 30. júní ár hvert. S. l. ár nam þessi upphæð 60 þús. kr. á mann, en meðal þeirra, sem hana fá, munu vera ráðuneytisstjórar, þjóðleikhússtjóri o. fl. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um upphæðina fyrir það ár, sem nú er að líða.“

Greinarkornið er örlítið lengra, en ég sé ekki ástæðu til að lesa meira. En ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort þetta sé rétt eða ekki, sem þarna segir. Og ef það skyldi nú reynast svo, að þessar upplýsingar væru réttar, þá leikur mér forvitni á að vita, samkv. hvaða heimild svona aukalaunagreiðslur eru inntar af hendi.

Ég ætla ekki að hafa þessa fsp. lengri og ekki fara nánar út í þetta mál að sinni, því að ég ætlast ekki til þess, að hæstv. fjmrh. geti undirbúningslaust gefið neinar ýtarlegar upplýsingar varðandi þetta, ef það er svo, að þetta sé rétt, sem í þessari grein segir. En þá verður sjálfsagt tækifæri til þess síðar að koma að skrifl. fsp., þar sem nánar væri spurt um þetta. En ég tel víst, að hæstv. fjmrh. geti leitt okkur þdm. í allan sannleika um þessi einföldu atriði, sem ég spurði um.