02.02.1970
Efri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

Ómæld yfirvinna ríkisstarfsmanna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið. Ég ætlast alls ekki til þess, að hann geti á þessu stigi og óundirbúið gefið um þetta fyllri upplýsingar en hann gaf. En hæstv. fjmrh. staðfesti það, að þetta hefði átt sér stað í nokkrum tilfellum, að háttsettum embættismönnum og þá fyrst og fremst forstöðumönnum hefði verið greidd ákveðin upphæð sem aukaþóknun. Um þetta má sitthvað segja. Ég skal ekki fara hér langt út í að ræða það utan dagskrár.

Ég vil aðeins segja það og ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. í því, sem mér virtist koma fram hjá honum, að samkv. hlutarins eðli getur ekki verið um að ræða neina yfirvinnu hjá ákveðnum embættismönnum. Það eru ákveðnir embættismenn, sem eru skipaðir með þeim hætti, að það er gert ráð fyrir því, að þeir verði að vinna í þeirri stofnun, eftir því sem á þarf að halda, og geti ekki átt kröfu á neinni aukaþóknun fyrir þá yfirvinnu, sem þeir inna af hendi, þannig að réttilega skoðað verður þetta að mínum dómi ekki skoðað sem nein yfirvinnugreiðsla, heldur sem hrein og bein aukaþóknun, launauppbót til þessara embættismanna.

Það er vafalaust rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að í sumum tilfellum getur staðið þannig á, að þessir yfirmenn beri nokkuð skarðan hlut frá borði miðað við suma undirmenn sína. En ég dreg nú í efa, að sá háttur, sem hér hefur verið á hafður, sé samt réttlætanlegur. Þess verður að gæta, að það hefur verið tekið upp nýtt kerfi í launamálum, hið svokallaða almenna launalagakerfi, sem ekki þarf að rekja hér. Allir hv. þdm. þekkja það kerfi og vita, að laun opinberra starfsmanna eru ákveðin, fastákveðin til tveggja ára í senn, ýmist með kjarasamningum, ef þeir takast, en ella af kjaradómi. Sú ákvörðun, sem tekin er af þeim aðilum, hvort heldur er samningsaðilum eða kjaradómi, verður að mínu áliti að standa þann tíma, sem hún á að gilda, og getur ekki einn eða annar vikið þar frá eftir eigin geðþótta, dregið af, ef því væri að skipta, né heldur bætt upp, ef það þykir við eiga. Þannig á að vera frá þessu gengið, að það á að vera réttilega metið, hvernig mönnum er þarna niður skipað. Ég er ekki með þeim orðum að leggja blessun mína yfir það, hvernig þetta hefur verið gert, en þetta á að gera þannig, að þetta á að standa. Ég skal að vísu ekkert fara að deila um það hér, hvað sé lagalega heimilt í þessu efni eða ekki, en ég verð að telja það mjög óviðfelldið, að það sé lagt á mat viðkomandi ráðh. að segja til um það, hverjir forstöðumanna þeirra stofnana, sem undir þann ráðh. heyra, séu þess verðugir að fá tiltekna uppbót. Ég held, að það sé ekki góð regla og ekki gott fordæmi. Og ég held, að það sé óhjákvæmilegt, að slíkt geti leitt til þess, að mönnum sé mismunað mjög ranglega, einn skilinn eftir og fái ekkert, þó að hann hafi alveg sömu verðleika til að bera og hinn, sem fær þessa aukaþóknun, og hafi ekki unnið sitt starf á neitt lakari hátt. En auk þess kem ég að því aftur, að hér gildir þetta launalagakerfi, og það er ekki aðeins gert ráð fyrir því, að launin, þau föstu, séu ákveðin með þeim hætti, sem ég hef drepið á, heldur er gert ráð fyrir samningum um önnur atriði, svo sem hlunnindi, fríðindi og yfirvinnu, ef því er að skipta. Og það er gert ráð fyrir því, að um þetta sé samið, en það sé ekki ákveðið með neinni einhliða ákvörðun. Og það er gert ráð fyrir því, að ef ágreiningur verður um slík atriði sem þessi, komi til ákveðinn aðili eftir kjarasamningalögunum, sem felli um það úrskurð, svonefnd kjaranefnd. Og ég verð að spyrja, hvort þessi atriði hafi verið borin undir kjaranefnd, og ég verð að spyrja, hvort það hafi verið haft samráð við gagnaðila fjmrh. í þessum samningum, kjararáð, sem fer með þessa samninga fyrir hönd BSRB.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta, en vil þó segja það, að ég lít á þetta talsvert alvarlegum augum, en um það verður auðvitað hægt að ræða síðar. Ég ætla þó að bæta hér aðeins við.

Ég efa það að vísu ekki, sem hæstv. fjmrh. sagði, að forstöðumenn þessara stofnana hafi unnið verk sín vel og hafi mikið á sig lagt og þeir í rauninni hafi í sjálfu sér unnið til þessarar umbunar. En ég held, að við hæstv. fjmrh. ættum að tala um þetta alveg í fullri hreinskilni, og hann að játa það ekkert síður en mér er það ljóst, að þetta er ekki greiðsla fyrir nein störf sérstaklega til þessara ágætu manna. Þetta er til komið af öðru. Það er til komið af því, að það er búið að brjóta þetta kerfi niður að verulegu leyti, bæði með þeim hætti, sem hann drap á, að nokkrir hafa brotizt út úr kerfinu og fengið samið um mun hærri laun en ákveðin hafa verið með kjaradómi, og svo á hinn bóginn það, að opinberum starfsmönnum, þessum sem taka laun eftir þessu kerfi, hefur verið haldið í skrúfstykki að segja má og þeir hafa ekki fengið nema skerta vísitölu.

Ég tek alveg undir þau orð, sem hv. 12. þm. Reykv. lét falla hér fyrir tveimur eða þremur dögum um það, að skert vísitala til lengdar hlyti að leiða til öngþveitis, því að hún leiddi til þess, að menn í hærri launaflokkum yrðu innan tíðar komnir niður fyrir þá, sem í lægri launaflokkunum eru. Það er þetta, sem hefur í raun og veru verið að gerast og hefur blasað við og stjórninni ekki þótt sanngjarnt að gera það án nokkurra leiðréttinga með þessum hætti. En ég get ekki stillt mig um að minna á það, að í viðtali, sem ég átti við Tímann, ég held í fyrravetur, benti ég nú alveg á nákvæmlega þessi sömu atriði, sem hv. 12. þm. Reykv. benti á síðast, og dettur mér þá ekki í hug að halda, að hann hafi tekið ummælin eftir mér. En þá var í málgagni hæstv. fjmrh. gert mikið hróp að mér fyrir að halda slíku fram. Ég hlýt að spyrja með nokkurri eftirvæntingu, hvort hv. 12. þm. Reykv. verði tekinn til bæna fyrir að hafa látið slík orð falla, sem hann gerði hér síðast. Sannleikurinn er auðvitað þessi, að það getur verið réttlætanlegt, eins og við báðir höfum sagt, 12. þm. Reykv. og ég, að til bráðabirgða taki þeir, sem breiðust hafa bökin, á sig kjaraskerðingu með því að una við skerta vísitölu um sinn, en til langframa er það kerfi algerlega óviðunandi og óþolandi. En þó að þetta hafi nú kannske eftir atvikum verið réttlætanlegt gagnvart þessum mönnum, sem eru þannig settir að nokkru leyti út úr römmum á þessu launakerfi, þá verður að taka með í reikninginn, að það þurfa fleiri á leiðréttingu að halda, og sjálfsagt mundu þeir, sem í lægri launaflokkum eru, telja sig alveg eins þurfa á nokkurri uppbót að halda. En það, sem er fyrst og fremst varhugavert við braut sem þessa, er mismununin, sem hún leiðir til. Það er náttúrlega ljótt og kannske óviðeigandi að tala um gæðinga í þessu sambandi, en þar er alltaf hættan sú, hvaða stjórn sem er við völd, ekkert frekar þessi, sem nú er, heldur en önnur, að ef farið er inn á braut sem þessa, þá verði það gæðingarnir, sem komast á stallinn, en hinir ekki.