02.02.1970
Efri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

Ómæld yfirvinna ríkisstarfsmanna

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Það var nú í fyrsta lagi þar sem starfsmat það, sem nú er verið að vinna að, hefur blandazt nokkuð inn í þessar umr. utan dagskrár, sem mér þótti rétt að segja hér nokkur orð.

Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., að þau drög að starfsmatskerfi, sem unnið hefur verið að undanfarið, eða frásögn af þeim var í dag birt í dagblaðinu Vísi. Það hafði á s. l. hausti verið gert samkomulag milli hæstv. fjmrh. og stjórnar BSRB um, að þessi drög yrðu ekki birt að svo komnu máli, þar sem hér var um að ræða algert vinnuplagg og viðurkennt er af báðum aðilum, að mjög sennilegt sé, að það eigi eftir að breytast, e. t. v. í verulegum atriðum, og hvorugur samningsaðili hafði né hefur enn samþ. þessi drög fyrir sitt leyti, til þess að þau væru notuð við samningsgerð. Og mér þykir rétt, að það komi fram hér í þessu sambandi, að þessi starfsmatsdrög hafa verið til athugunar síðan í októbermánuði hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og einstökum bandalagsfélögum. Og í sambandi við þá athugun hefur komið í ljós, að að okkar dómi, forystumanna í BSRB og forystumanna í hinum ýmsu bandalagsfélögum, þá eru á þessum drögum verulegir gallar, sem taka þarf upp samninga um að fá breytingar á, ef frá okkar sjónarmiði á að vera hægt að nota þetta starfsmatskerfi. Það gefur því algerlega rangar hugmyndir, að birta þær upplýsingar, sem nú eru birtar í dagblaðinu Vísi. Þar er m. a. birt stigatala hjá ýmsum starfshópum, eins og birt var í þessum drögum sem algert sýnishorn eingöngu til þess að sýna fram á, hvernig svona starfsmat verkaði í framkvæmd til hagræðis fyrir þá mörgu félagsmenn og forystumenn í samtökum opinberra starfsmanna, sem þurftu að fjalla um þessi mál, en alls ekki sem nein niðurstaða af raunverulegu starfsmati, enda hefur það komið fram í aths. við þessi drög, að starfslýsingar, sem auðvitað eru nauðsynlegar við starfsmat, hafi ekki einu sinni verið notaðar í sambandi við þessi sýnishorn, þannig að það gefur algerlega skakka hugmynd að birta þetta í opinberu blaði og gæti að mínum dómi orðið til þess að stórspilla fyrir þessu máli á þessu stigi, sem ég vona þó að ekki verði. En ég vil leggja áherzlu á það, að hér er um frumdrög að ræða, sem a. m. k. forystumenn BSRB munu leggja áherzlu á, að þurfi að breytast í verulegum atriðum, ef unnt á að vera að nota þau drög.

Í sambandi við þær fsp., sem hér hafa verið til umr., þykir mér rétt að það komi fram, sem hæstv. fjmrh. raunar gat um í sambandi við fsp. hv. 1. þm. Norðurl. v., að það mál, sem hann fjallaði um, aukagreiðslur til forstjóra, hefur ekki verið borið undir BSRB og það hefur ekki vitað um þær greiðslur eða á neinn hátt verið við þær riðið. Það er kannske rétt að bæta því við, að mér fannst gæta nokkurs misskilnings í ræðu hæstv. fjmrh. að því er varðaði samningsrétt fyrir forstjóra, því að samkvæmt kjarasamningalögunum hefur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja vissulega samningsrétt fyrir alla starfsmenn ríkisins, einnig forstjóra. Þar eru engir undanskildir nema ráðh. og hæstaréttardómarar, þannig að kjarasamningalögin og þeir samningar og þeir dómar kjaradóms, sem kveðnir hafa verið upp, eiga vissulega við um forstjóra sem aðra. Til frekari upplýsingar um það er rétt, að það komi hér fram, að það eru meira að segja tvö félög í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, sem eru skipuð eingöngu forstjórum, og á ég hér við Félag forstjóra Pósts og síma og Félag skattstjóra. Og það eru ýmsir fleiri forstjórar í hinum einstöku bandalagsfélögum, þannig að hér er um misskilning að ræða af hálfu hæstv. ráðh. að því er samningsrétt fyrir þessa aðila varðar. Hann er vissulega hjá samtökunum eins og fyrir aðra starfsmenn.

Í sambandi við þær einhliða ákvarðanir um vísitöluuppbótina, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. spurði um, þá þykir mér rétt, að það komi fram, að um þetta var haft samband, eins og kom fram í ræðu fjmrh., við mig sem formann BSRB, og ég kallaði saman fund í kjararáði út af þessu máli, og svar okkar af hálfu kjararáðs til hæstv. fjmrh. var á þá leið, að eins og hann vissi, hefði þetta verið krafa frá samtökunum í síðustu samningagerð á s. l. ári, meira að segja gerðum við þá kröfu um fullar vísitölubætur, og jafnframt taldi kjararáð rétt að tjá fjmrh. það, hvað og gert var, að bandalagið væri reiðubúið til að semja um þetta mál. En af einhverjum ástæðum mun hæstv. fjmrh. ekki hafa talið það heppilegt af sinni hálfu að semja um þetta, eins og við fórum fram á. Vissulega vil ég leggja á það áherzlu, að ég tel því þá aðferð hafa verið rétta og raunar það eina rétta í þessum málum, og ég vil leggja á það áherzlu, að ég tel, að semja beri um þá hluti á milli samningsaðilanna lögum samkv., sem lögin gera ráð fyrir að samið sé um, og ég tel raunar, að það sé of mikil þróun í þá átt af þeirra hálfu, sem framkvæma kjarasamningalögin, að það sé ekki haft samband við samtökin um þessi mál. Það gengur of mikið að mínum dómi og okkar formanna BSRB í þá átt. Og ég vil nota tækifærið til að undirstrika það, að það gengur of mikið í þá átt á síðari tímum, að það sé verið að draga í hendur rn. og samninganefndar ríkisins einhliða vald, sem samkv. lögum er ætlað báðum. Og ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. geti tekið undir það með mér, að þetta sé óheppilegt undir því lagaformi, sem nú er, og ég vænti þess, að hæstv. ráðh. sjái til þess, að á þessu verði gerðar breytingar og stefnt í rétta átt framvegis í þessu efni. Þetta þótti mér rétt að taka fram í sambandi við þessar umr.