20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

Aðgerðir námsmanna í sendiráði Íslands í Stokkhólmi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Um hálftólfleytið í morgun hringdi utanrrh., Emil Jónsson, til mín frá Helsingfors, þangað sem hann er kominn til að sitja fund norrænna utanrrh., sem þar verður haldinn á morgun og miðvikudag. Með honum í Helsingfors er sendiherra Íslands í Svíþjóð, Haraldur Kröyer. Utanrrh. sagði mér, að þeim hefði þá rétt í þessu verið að berast fregn um það, að hópur íslenzkra stúdenta hefði ruðzt inn í sendiráð Íslands í Stokkhólmi og vísað þaðan út sendiráðsfulltrúanum og skrifstofustúlku og setzt að með matarbirgðir inni í byggingunni. Þeir hefðu dregið rauðan fána að hún á sendiráðsbyggingunni og hengt rauða fána út í alla glugga. Þeir kváðu ástæðurnar til þessara óvenjulegu aðgerða vera þær, að þeir vildu vekja athygli á aukinni þörf íslenzkra stúdenta erlendis fyrir aukin lán og aukna styrki. Utanrrh. sagði, að til sín hefði jafnframt verið hringt úr sænska utanrrn. og spurzt fyrir um það, hvað utanrrn. gæti gert til verndar eignum íslenzka sendiráðsins í Stokkhólmi, en það er að sjálfsögðu skylda utanrrn. að vernda eignir erlendra sendiráða í Stokkhólmi. Utanrrh. sagðist hafa sagt það við „prótokollsjeffinn“, — ég bið afsökunar á orðinu, — að hann óskaði þess, að hinum íslenzku námsmönnum yrði ýtt með hægð út úr húsinu og án þess að beita ofbeldi og án þess að þess væri óskað, að þeir væru fangelsaðir. Hér er um hóp um það bil 15 íslenzkra námsmanna að ræða. Forsvarsmaður þeirra hafði hins vegar einnig látið þess getið við sendiráðsfulltrúann, að samtímis væru hliðstæðar aðgerðir fyrirhugaðar í Osló og Kaupmannahöfn, en sendiherra Íslands í Osló er um þessar mundir staddur í Póllandi til þess að skila embættisskilríkjum. Hins vegar er sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn á staðnum. Utanrrh. höfðu engar fregnir borizt um það til Helsingfors, að til slíkra ráðstafana hefði verið gripið í Osló eða Kaupmannahöfn, og þegar ég fór úr Stjórnarráðinu, hafði þangað engin vitneskja borizt um slíkar aðgerðir þar.

Við þessar fregnir vil ég aðeins bæta því, að ég harma mjög, að örlítill hópur íslenzkra námsmanna í Svíþjóð, en það var tekið fram, að þessir námsmenn væru fulltrúar námsmanna í Stokkhólmi, Lundi og Uppsölum, þ. e. fulltrúar íslenzkra námsmanna í þremur sænskum háskólabæjum, skuli hafa gert sig sekan um þvílíka ósvinnu og hér er um að ræða. Ég harma það mjög, að þeir skuli með þessum hætti hafa sett alvarlegan blett á heiður íslenzkra námsmanna erlendis og raunar einnig á heiður Íslands. En ég undirstrika, að ég veit því miður ekki, hversu margir íslenzkir námsmenn eru í Stokkhólmi, Uppsölum og Lundi í heild, gat ekki fengið það gefið upp áðan, en þar sem hér er um að ræða aðeins 15 námsmenn, þá gefur auga leið, að það er aðeins örlítill hluti þeirra Íslendinga, sem stunda nám í þessum þremur sænsku borgum. Ég vildi óska þess, að fyrirspyrjandi gæti tekið undir það með mér að harma það, að þessar aðgerðir skuli hafa átt sér stað.

Varðandi það, að frá því er skýrt, að þessar óvenjulegu aðgerðir hafi verið framkvæmdar til þess að leggja áherzlu á beiðni um aukna styrki og aukin lán, þá vildi ég leyfa mér að gefa hinu háa Alþ., í örfáum orðum, upplýsingar um það, hvernig þau mál standa á þessu fjárlagaári og hver þróunin hefur verið í þeim málum á undanförnum árum.

Stjórn lánasjóðs námsmanna úthlutar lögum samkv. lánum og styrkjum til allra íslenzkra námsmanna, bæði heima og erlendis. Í stjórn lánasjóðsins á sæti einn fulltrúi frá stúdentum við háskólann hér og annar fulltrúi frá Sambandi ísl. námsmanna erlendis. Þær reglur, sem settar hafa verið um úthlutun námsstyrkja og námslána, hafa verið settar samkv. samhljóða ákvörðun lánasjóðsstjórnar. Það hefur aldrei neinn meiri hl. tekið ákvörðun um neina reglu eða neina úthlutun úr stjórn lánasjóðs íslenzkra námsmanna erlendis. Það er því ekki svo, eins og sumir virðast hafa haldið, að einhver meiri hl. hafi markað þar einhverja ákveðna stefnu gegn einhverjum minni hl. Sumir virðast helzt hafa haldið, að fulltrúar stúdenta væru þar í minni hl. Frá því að þessi stjórn var sett á laggirnar, hafa allar reglur, sem um úthlutun lána og styrkja hafa verið settar, verið settar með atkv. fulltrúa stúdenta, bæði úr Háskóla Íslands og fulltrúa SÍNE, eins og félagsskapur íslenzkra stúdenta erlendis nú heitir. Menntmrn. hefur aldrei haft nokkur afskipti af þeim reglum, sem settar hafa verið, hvað þá af úthlutun styrkja úr sjóðnum, sem er ekki þess verk, heldur er stjórnin til þess sett að framkvæma þá úthlutun. Rn. hefur einvörðungu staðfest þær till., sem shlj. hafa verið gerðar um þær reglur, sem farið hefur verið eftir. En í mjög stórum dráttum eru þessar reglur þannig, að á fyrsta ári fá námsmenn í lán og styrk um það bil 40% svo nefndrar umframfjárþarfar, og síðan hækkar lánið og styrkurinn upp í 80%, stig af stigi, þegar námið tekur 6 ár. En með umframfjárþörf er átt við reiknaðan framfærslukostnað hér á Íslandi og erlendis, en hann er mismunandi eftir einstökum löndum, að frádregnum þeim tekjum, sem hlutaðeigandi námsmaður hefur haft. Lán og styrkir nema m. ö. o. sem svarar 40% af því, sem námsmaðurinn þarf á að halda á fyrsta ári umfram það fé, sem hann hefur til ráðstöfunar fyrir eigin vinnu. Og þessi 40% á fyrsta ári aukast smám saman upp í 80% á sjötta ári námsmannsins.

Fjárveitingar í þessu skyni til styrktar íslenzkum námsmönnum erlendis hafa farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Ég skal ekki þylja margar tölur um þetta, heldur láta einfaldar upplýsingar nægja.

Á árinu 1966 nam framlag ríkissjóðs samkv. fjárl. í lánasjóðinn um 14 millj. kr. Á þessu ári nema framlög ríkissjóðs 60 millj. kr. Til viðbótar framlagi ríkissjóðs hefur lánasjóðurinn víðtæka samninga við bankakerfið um að lána fé til viðbótar til lána og styrkja handa námsmönnum, auk þess sem sjóðurinn hefur nokkrar tekjur af eigin fé. Ráðstöfunarfé lánasjóðs námsmanna var 1966 19 millj. kr., en er nú á þessu ári 82 millj. kr. og hefur þannig meira en fjórfaldazt. Tala íslenzkra námsmanna hér, sem njóta lána og styrkja úr sjóðnum, er um 700, en tala íslenzkra námsmanna erlendis, sem njóta lána og styrkja, er um 600, þannig að sjóðurinn styrkir um 1300 íslenzka námsmenn heima og erlendis í ár. En fyrir 5 árum var þessi tala 950. Það gefur því auga leið, að lán og styrkir til íslenzkra námsmanna hafa aukizt miklu meir en nemur fjölgun þeirra hér heima og erlendis, þar sem þeim hefur fjölgað úr 950 í 1300, en lán og styrkir hafa á sama tíma aukizt úr 19 millj. í 82 millj. Er þessi aukning á fénu svo mikil, að hún gerir mun meira en að vega upp á móti þeirri aukningu framfærslukostnaðar, sem orðið hefur hér heima og erlendis. Á undanförnum 5 árum hefur því raungildi lánanna og styrkjanna farið vaxandi á hvern nemanda. Þó var sú mikilvæga breyting gerð á árinu 1967 með nýrri lagasetningu, að stúdentar á fyrsta og öðru ári, sem fram til þess tíma fengu hvorki lán né styrki, voru þá teknir með í hóp þeirra, sem fá lán og styrki, þannig að síðan 1967 fá allir íslenzkir námsmenn heima og erlendis lán og styrki frá fyrsta ári og til loka námsins. Auðvitað væri æskilegt að geta haft þessi lán og þessa styrki enn meiri en þau eru, og að því er stefnt ár frá ári, eins og reynsla undanfarinna ára sýnir, að þessir liðir hækki. Ég hygg, að það sé ekki langt frá sannleikanum, þegar ég segi, að fáir liðir fjárlaganna íslenzku hafi hækkað hlutfallslega jafnört á undanförnum árum og einmitt fjárlagaliðurinn til styrktar íslenzkum námsmönnum heima og erlendis, og það er vel. En ég endurtek það, að hér þarf enn um að bæta, og á næstu árum verður vonandi áfram haldið eins og á undanförnum árum, að stuðningur við íslenzka námsmenn vaxi hlutfallslega meir en nemur fjölgun þeirra heima og erlendis og nemur aukningu framfærslukostnaðar hér og annars staðar.

Þessar upplýsingar taldi ég rétt, að hv. þm. og raunar þjóðin öll fengi, þegar jafnraunalegir atburðir gerast og þeir, sem gerðust nú fyrir hádegið í Stokkhólmi.