20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

Aðgerðir námsmanna í sendiráði Íslands í Stokkhólmi

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér þótti nokkuð miður, þegar hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Austf., tók hér fyrst til máls, að þá snerist ræða hans að mestu leyti um það að gagnrýna kerfi það, sem við eigum nú við að búa í sambandi við möguleika til lána og styrkja til íslenzkra stúdenta. Það er mál út af fyrir sig. En það var ekki það mál, sem var hér til umr. utan dagskrár, og mér þótti lint til orða tekið af þessum hv. þm., sem ég veit, að er í alla staði hinn sómakærasti, að segja sem svo, að atburðir eins og þessir, sem áttu sér stað í Stokkhólmi í morgun, séu ekki æskilegir.

Ég tel ekki ástæðu til þess að vera á þessu stigi að deila um fyrirkomulag lánakerfisins. Eins og bent hefur verið á, hefur verið reynt, eftir því sem hægt er, að bæta úr því á undanförnum árum, þrátt fyrir mikla efnahagsörðugleika, sem þjóðin hefur átt við að búa. Og það verða menn að skilja, að eins og almenningur hér á landi hefur þurft að búa við skert kjör á undanförnum árum, þá kemur það að einhverju leyti líka niður á námsmönnum, og kannske mjög þungt niður á ýmsum námsmönnum. En það hefur verið af hálfu ríkisvalds og stjórnvalda hér, Alþ. og fjárveitingavaldsins, reynt að bæta úr því eftir föngum.

En ekki fleiri orð um það. Það, sem leiddi til þess, að ég kvaddi mér hljóðs hér, voru orð hv. 6. þm. Reykv., að ábyrgðin á þessum atburðum hvíldi á alþm. Ég vil ekki láta ómótmælt slíkum ummælum eins og þessum. Hér er um mjög alvarlegt lögbrot að ræða, mjög alvarlegt.

Ég skal ekki gera mig að neinu leyti að dómara yfir þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, en það væri auðvitað ósköp auðvelt á sama hátt að segja um hvers konar lögbrot, sem framið er, að það hvíli á þeim, sem hér eru innan veggja Alþingis.

En það vill nú svo til, að það eru nokkur sannindamerki í þessu máli um það, hvar ábyrgðin er og á hverjum ábyrgðin hvílir. Það var nefnilega töluvert mikið af rauðum kommúnistadruslum með í förinni, sem hengt var utan á sendiherrabústaðinn, og þar voru stimplarnir, sem nægjanlega sanna það, hvar ábyrgðarmannanna er í raun og veru að leita.