20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

Aðgerðir námsmanna í sendiráði Íslands í Stokkhólmi

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér finnst nokkur galli vera á málflutningi hæstv. dómsmrh. og hæstv. menntmrh. í þessu máli. Hæstv. menntmrh. sagði, að hann mundi beita sér fyrir því að birta skýrslur um það, hvað liði reglum um lánveitingar og styrkveitingar til íslenzkra námsmanna, og var greinilegt á hans ræðu, að hann ætlaði sér að reyna að sanna það, að framlög hins opinbera til íslenzkra námsmanna hefðu verið hækkuð. Og hæstv. dómsmrh. sá það einna helzt í þessu máli, að það mundi vera hægt að kenna einhverjum vondum kommúnistum um þessa atburði.

Ég held, að það geti ekki leikið neinn vafi á því, að allir hv. alþm. viðurkenni, að íslenzkir námsmenn erlendis eru í vanda staddir fjárhagslega vegna þess, hvernig fjárhagsmálin hafa þróazt á undanförnum árum. Ég þykist eiginlega hafa heyrt það hér í umr. á Alþ. að undanförnu, að þetta viðurkenna svo að segja allir, enda hafa hér verið að koma fram till. frá ýmsum aðilum um, að það þurfi að endurskoða þessar reglur og hér þurfi um að bæta.

Þeir atburðir, sem nú hafa gerzt erlendis og birtast með þessum sérstaka hætti, eiga sér vitanlega stað vegna þess, að hér er um stórkostlegt vandamál að ræða. Ég álít því, að aðalatriði þessa máls sé raunverulega ekki að deila um það fram og til baka, hvað lán til íslenzkra námsmanna hafa hækkað um margar krónur í gengislækkunarflóði síðustu ára eða hversu oft hæstv. dómsmrh. getur komið með einhverjar getsakir um það, að þetta sé að kenna þessum eða hinum manni eða þessum eða hinum flokknum. Aðalatriði málsins er auðvitað það, hvernig er meiningin að taka á þessu vandamáli. Það getur verið hægt að taka á því þannig, eins og hæstv. menntmrh. orðaði það í upphafi síns máls, að utanrrh. Íslands biður sænsk stjórnarvöld um það að ýta hinum íslenzku námsmönnum út úr sendiráðinu og reyna að koma í veg fyrir, að þeir verði út af fyrir sig fangelsaðir fyrir þá atburði, sem þarna hafa átt sér stað. En jafnvel þótt þeim sé stjakað út úr sendiráðinu, þá er málið ekki leyst. Jafnvel þó að hæstv. menntmrh. birti einhverjar töflur um það, hvernig lánin hafa breytzt á undanförnum árum, þá leysist ekki málið. Það, sem getur aðeins gerzt í þessum efnum, ef menn lemja á þennan hátt höfðinu við steininn og neita að mæta þeim vanda, sem við er að glíma, er það, að það gerist svipaðir atburðir annars staðar, og menn fái nýtt hneykslunarefni um að tala.

Vitanlega er aðalatriðið í þessu máli, að ríkisstj. kynni sér þann vanda til hlítar, sem hér er við að glíma, og að hún reyni að leysa úr vandanum. Þessir íslenzku námsmenn erlendis eru í vanda staddir. Þeir hafa sumir gefizt upp fjárhagslega, aðrir eru að þrotum komnir. Það er mergurinn málsins. Spurningin er: Hvernig er hægt að mæta þessum vanda, hvernig er hægt að leysa vandamálið? Það er aðalatriðið. Ég vildi sem sagt með mínum orðum beina því til hæstv. ríkisstj., að hún líti nú á þetta mál með raunhæfari augum en hér hefur komið fram hjá hæstv. ráðh., hún fáist til þess að taka á vandamálinu og reyni að leysa það, en ekki að fara hér út í þrotlausar deilur og karp um það, sem í rauninni er aukaatriði þessa máls, því að aðalatriðið er auðvitað þetta, að leysa vanda námsmannanna, greiða úr þeirra vanda, og ég held, að það geti enginn vafi leikið á því, að það verði að gera það með auknum fjárframlögum.