20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

Aðgerðir námsmanna í sendiráði Íslands í Stokkhólmi

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austf. kemur nú með enn eina nýja skýringu, að atburðirnir eigi sér stað, af því að um vandamál er að ræða. Eigum við þá að ganga inn á það, að menn megi fremja mjög alvarleg lögbrot, ef því er að skipta, ef einhver vandamál ber að höndum? Auðvitað vitum við, að um vandamál er að ræða, og við þessi vandamál hefur þingið verið að glíma undanfarin ár og reynt að bæta úr, og það er áreiðanlega mjög mikill vilji hjá þm. yfirleitt og öllum skulum við segja til að bæta úr þeim vanda, sem hér er við að glíma. En á sama tíma viðurkenna ekki þm. slíkt háttalag eins og þetta. Og það er ekki ríkisstj., sem hefur stofnað til neinna deilna eða karps í þessu máli, heldur er það innleitt af öðrum, og það er ástæðulaust að hvetja ríkisstj. til þess að líta á vandamálið raunhæfum augum og leysa úr málinu. Mér er nær að halda, að það muni margur maðurinn á Íslandi í dag vera þeirrar skoðunar, að slíkir atburðir ættu að leiða til endurskoðunar á því, sem greitt er íslenzkum námsmönnum erlendis í styrki og lán, sem þannig hegða sér. Þetta er eðlilegt hugarfar hjá fólki. Ég held þess vegna, að slíkt eins og þetta sé því miður mjög líklegt til þess fremur að spilla almenningsáliti á því, hvað mikið á að gera fyrir slíka námsmenn erlendis, eins og þeir atburðir bera vitni, sem hér eru að eiga sér stað. Hitt er annað mál, að það hefur engin áhrif á alþm., og þeir munu í sínum fjárveitingum og styrkveitingum til námsmannanna sýna fullt umburðarlyndi þessum ungu mönnum, sem þarna eiga hlut að máli. En því miður held ég, að þeim hafi missýnzt, að þeir, sem þarna áttu hlut að máli, hafi því miður gripið til ráða, sem óvænlegust voru til þess að skapa þeim meiri byr í seglin um fjárveitingar og lán frá íslenzka ríkinu.