04.05.1970
Neðri deild: 97. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

Námslán

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það kom enn einu sinni fram í þessari ræðu hv. 6. þm. Reykv., að hann er í einu og öllu sammála öllu því, sem gerzt hefur af hálfu íslenzkra námsmanna heima og erlendis á undanförnum vikum. Enn einu sinni kemur hann í þennan ræðustól og hefur ekki eitt fordæmingarorð að segja um þau lögbrot, sem framin voru í Stokkhólmi á sínum tíma, um þau lögbrot, sem framin voru í menntmrn. nú fyrir nokkrum dögum. Það eina, sem hann hefur að segja, er að lýsa sök á hendur mér og ríkisstj., að því er mér skilst fyrir það að bera ábyrgð á þessum atburðum og hafa sinnt hagsmunamálum námsmanna illa og lítið.

Ég skal ekki efna til neinnar efnisumr. um þetta mál að þessu sinni. Það er algerlega ástæðulaust. Það er þegar búið að taka það svo oft og rækilega fram hér á hinu háa Alþ. og í blöðum, að ríkisstj. hefur sýnt málefnum námsmanna mikinn og réttmætan og sjálfsagðan velvilja á undanförnum árum. Stuðningur við námsmenn hefur verið aukinn hröðum skrefum undanfarin ár, hefur meira en fimmfaldazt á undanförnum 5 árum, og ég hef marglýst því yfir hér í þessum ræðustól og við önnur tilefni, að það er ætlun ríkisstj. að halda áfram auknum stuðningi við námsmenn og láta hann fara hraðvaxandi. Það er ástæðulaust að segja þetta einu sinni enn. Þeir, sem þetta vilja heyra, hljóta að hafa heyrt það og hljóta að vita það. Enginn ráðh. hefur nokkru sinni sagt nokkurt orð, sem skilja megi öðruvísi en þannig, að það sé fullur vilji íslenzkra stjórnarvalda að halda áfram að stórauka stuðning við íslenzka námsmenn, bæði heima og erlendis.

Hitt er annað mál, að sú till., sem hv. þm. hefur flutt hér undirbúningslítið og algerlega rökstuðningslaust, er mjög flókin og vandasöm. Meira að segja stjórn lánasjóðs íslenzkra námsmanna hefur ekki treyst sér til þess enn að gera sundurliðaða till. um það, hvernig slíka hugsun mætti framkvæma. Það liggur enginn útreikningur fyrir á því, hvað framkvæmd þeirrar hugmyndar, sem í till. þm. felst, mundi kosta. Það liggur ekki heldur fyrir, hvort lánasjóður íslenzkra námsmanna muni óska eftir því, að hin svonefnda umframfjárþörf verði studd með lánum að öllu leyti eða upp í einhverja tiltekna hámarksprósentutölu. Það liggur ekki heldur fyrir nein till. um það, hvort stjórn lánasjóðsins hyggst framkvæma þessa miklu aukningu með sama hætti og aðstoðin hefur hingað til verið framkvæmd. M. ö. o.: ríkisstj. hefur enn engar sundurliðaðar eða rökstuddar till. fengið um það, hvað stjórn lánasjóðsins raunverulega ætlast fyrir, og í sannleika sagt er til nokkuð mikils mælzt nú að búast við því, að nokkur ráðh. eða ríkisstj. í heild geti tekið tafarlausa afstöðu til till., sem ekki liggja fyrir. Hugmyndin liggur fyrir og stjórn lánasjóðsins hefur mælt með hugmyndinni almennt, og hún hefur hlotið góðar undirtektir hjá ríkisstj. eins og kom fram í niðurlagi þeirra orða, sem ég mælti áðan.

Þá gat hv. þm. um það, að stúdentar í Osló biðu nú svars frá ríkisstj. við tilteknum óskum. Það er rétt, að til okkar í utanrrn. var í morgun hringt frá sendiráðinu í Osló og frá því skýrt, að 28 stúdentar — eða 27 stúdentar og frú Guðrún Brunborg — hefðu komið í sendiráðið án þess að gera boð á undan sér og sætu á gólfinu í sendiráðinu til þess að bíða svars við orðsendingu, sem sendiherrann las fyrir mér í síma. Og að gefnu þessu tilefni er rétt, að ég skýri hv. þm. frá því, hvernig sú orðsending hljóðar:

„Við undirritaðir námsmenn í Osló og Ási hefjum setu í sendiráði Íslands í Osló mánudaginn 4. maí kl. 11 fyrir hádegi. Til þessara aðgerða stofnum við:

1. Til að krefja ríkisstj. skýrra svara strax við till. SÍNE.

2. Til mótmæla við stefnu ríkisstj. í hagsmunamálum námsmanna.

3. Til að votta stuðning okkar við undangengnar aðgerðir námsmanna heima og erlendis.

4. Til að mótmæla beitingu lögregluvalds gegn friðsamlegum aðgerðum námsmanna erlendis 20. og 25. apríl. (20. apríl var dagur atburðanna í Stokkhólmi og heima þann 25. apríl s. l., þ. e. dagur atburðanna í menntmrn.)

5. Til að mótmæla persónulegum ofsóknum gegn námsmönnum þeim, sem framkvæmdu mótmælaaðgerðir í Stokkhólmi 20. apríl s. l.

6. Til að mótmæla þeirri ólýðræðislegu meðferð, sem málið hefur hlotið á Alþingi.

Aðgerðirnar eru friðsamlegar og beinast ekki gegn starfsliði sendiráðsins.

Oslódeild SÍNE.

Ásdeild SÍNE.“

28 undirskriftir að meðtalinni frú Guðrúnu Brunborg.

Þessu svaraði ég, að höfðu samráði við ríkisstj., samstundis með eftirfarandi orðsendingu til stúdentanna: „Hinn 17. apríl s. l. barst menntmrn. bréf frá stjórn lánasjóðs íslenzkra námsmanna, þar sem segir m. a.: „Stjórn lánasjóðs íslenzkra námsmanna samþykkir að beina þeim tilmælum til menntmrn., að á næstu árum skuli námsaðstoð hækka í áföngum þannig, að markmiði 2. gr. laga um námslán og námsstyrki verði náð við úthlutun á árinu 1975.“

Ríkisstj. hefur haft lánamál námsmanna heima og erlendis til gaumgæfilegrar athugunar og er m. a., eins og áður hefur verið skýrt frá, að kanna, hvernig námsaðstoð er hagað í nálægum löndum. Með hliðsjón af niðurstöðum þeirrar athugunar mun hún taka till. stjórnar lánasjóðsins í fyrrnefndu bréfi til velviljaðrar athugunar við undirbúning næstu fjárlaga.“

Stúdentarnir í Osló og Guðrún Brunborg hafa því fengið sitt svar.