04.05.1970
Neðri deild: 97. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

Námslán

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til þess að karpa hér einu sinni enn við hv. þm. um þessi mál öllsömun, aðeins örfá atriði, sem ég vildi taka fram.

Það er algerlega rangt, að ég eða nokkur starfsbræðra minna í ríkisstj. hafi gefið tilefni til þess, að með almenningi komi upp eða eflist sefasjúkar hvatir, eins og hann orðaði það, í garð íslenzkra námsmanna. Sama kvöldið og lögbrotin í Stokkhólmi áttu sér stað átti sjónvarpið viðtal við mig, og þar lét ég svo um mælt, að mín persónulega skoðun væri sú, að rétt væri að fyrirgefa þessum unglingum vegna þess, að þeir vissu ekki, hvað þeir væru að gera. Mér er engin launung á því, að fyrir þessi ummæli mín hef ég hlotið gagnrýni mjög margra og þessi afstaða mín talin bera vott um of mikla mildi í garð manna, sem brotið hefðu lög og í raun og veru ættu ekkert gott skilið. En ég hef ekki látið það hafa nokkur áhrif á skoðanir mínar á þessu máli og mun ekki láta það hafa nein áhrif á afstöðu mína til málsins, þegar þar að kemur, að endanleg skýrsla berst um það, sem gerzt hefur í Stokkhólmi, sem ekki er komin enn, né heldur þegar endanleg skýrsla er komin um þau lögbrot, sem framin voru í menntmrn. á sínum tíma. Ég vísa því algerlega heim til föðurhúsanna, að ég eigi nokkurn þátt í þeirri miklu óvild, sem komið hefur fram eða vaknað hefur í hugum íslenzks almennings, alls þorra Íslendinga, í garð þess örlitla hóps manna, sem gerzt hefur sekur um alvarleg afbrot og því miður sett blett á íslenzka stúdenta erlendis og blett á heiður Íslands og hefur því miður orðið til þess að spilla mjög fyrir eðlilegum, sanngjörnum og réttmætum óskum íslenzkra námsmanna heima og erlendis.

Það er áreiðanlega engin tilviljun, að blöð fjögurra af þeim fimm stjórnmálaflokkum, sem hér eiga sæti á Alþ., hafa öll fordæmt mjög eindregið verknaðinn í Stokkhólmi og aðgerðirnar í menntmrn. Það er aðeins eitt blað, það blað, sem hv. þm. ritstýrir, sem ekki aðeins hefur ekki fordæmt þessi lögbrot, þessar aðgerðir, heldur hlakkað yfir þeim og skrifað að öllu leyti þannig, að þessi örlitli hópur getur ekki tekið það öðruvísi en sem stuðning við þessar aðgerðir og stuðning við áframhald slíkra aðgerða, og það ber sannarlega að harma. Ég óska svo sannarlega málstað íslenzkra stúdenta annars og miklu betra en þess, að þetta blað og flokkurinn, sem að baki því stendur, skuli reynast vilja stuðla að óhappaverkum, sem einungis geta skaðað góðan og réttmætan málstað íslenzkra námsmanna heima og erlendis.

Ég hef alltaf svarað þeim fsp., sem stúdentar hafa beint til mín, tafarlaust. Ég held, að óhætt sé að segja, að aldrei hafi liðið nótt milli þess, að mér hefur borizt orðsending frá þeim, þangað til þeir hafa fengið sín svör, svo að yfir því þarf ekki að kvarta, að þeir hafi ekki verið virtir svars eða virtir viðlits, eins og hv. þm. gaf í skyn.

Þá vildi ég leiðrétta þau ummæli hv. þm., að ég ætlist til þess, að SÍNE geri útreikning í sambandi við þær hugmyndir, sem uppi eru um það að auka námsaðstoðina smám saman á næstu 4–5 árum. Það hefur mér aldrei dottið í hug. En hitt er annað mál, að það er verk stjórnar lánasjóðsins að gera slíkar áætlanir og hún hefur ekki enn gert þær. Henni hefur ekki enn unnizt tími til þess. Stjórn lánasjóðsins er búin að hafa þessar óskir frá SÍNE til meðferðar síðan í lok nóvember, og enn liggja ekki fyrir þess konar till. frá hinum rétta aðila til ríkisstj., þannig að hún geti tekið afstöðu. Í bréfi 11. apríl boðar stjórnin, að hún muni í sumar við undirbúning fjárl. gera þessar nákvæmu till., og þá mun ríkisstj. sannarlega taka þær, eins og ég hef margsagt, til velviljaðrar athugunar. En ég segi enn og aftur, að það er sannarlega til nokkuð mikils mælzt að ætlast til þess, að ríkisstj. taki afstöðu til till., sem hún hefur ekki fengið, sem hún hefur ekki séð.

Hv. þm. nefndi og fór miklum viðurkenningarorðum um frú Guðrúnu Brunborg, og það er það eina í ummælum hans, sem ég get tekið undir, það eina, sem ég er honum sammála um. Það er rétt, að Guðrún Brunborg hefur unnið mikið og gott verk í þágu námsmanna, sérstaklega í Noregi og raunar námsmanna hér heima líka. En þetta gefur mér tilefni til þess að segja, hver hlutur hennar var í þessu máli í morgun og hversu ólíkur hann er hlut hv. þm. Þegar svar mitt barst, beitti frú Guðrún Brunborg sér eindregið fyrir því, að setunni yrði lokið, taldi svarið fullnægjandi og óskaði þess eindregið, að þessum aðgerðum lyki friðsamlega. Hv. þm. sagði ekkert orð í þá átt. Þvert á móti mundi hann eflaust vilja, að námsmenn sætu þarna í allt kvöld, alla nótt og líklega á morgun líka til þess að efna til sem allra mests ófriðar. Þannig var hún, sú merkiskona, ekki hugsandi, heldur vildi þvert á móti, að málinu væri lokið með því svari, sem stúdentarnir fengu frá mér.

Að síðustu ítrekaði hv. þm. spurninguna um sumaratvinnu námsfólks, og skal ég svara henni með örfáum orðum.

Í fyrravor var mikill uggur um, að atvinnuerfiðleikar námsfólks mundu verða mjög miklir á s. l. sumri. Hér á hinu háa Alþ. voru hafðar uppi miklar hrakspár um það, að íslenzkt skólafólk mundi ganga atvinnulaust þúsundum saman á s. l. sumri. Ríkisstj. kannaði þetta mál þá og hafði um það samvinnu við sveitarfélög og atvinnumálanefnd ríkisins, lagði fram nokkurt fé til þess að greiða fyrir sumaratvinnu skólafólks, og sem betur fór varð reynslan sú, að meðal skólafólks var nær ekkert atvinnuleysi á s. l. sumri. Ríkisstj. mun enn nú í vor fylgjast nákvæmlega með þessum hlutum og viðhafa alveg sömu vinnubrögð og í fyrra, hafa samráð við sveitarfélög um málið og gera það, sem í hennar valdi stendur, í samvinnu við sveitarfélögin til þess að koma í veg fyrir, að um atvinnuleysi skólafólks verði að ræða á sumri komanda.