04.05.1970
Neðri deild: 97. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

Námslán

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru ekki nema örfá orð. Ég álít það síður en svo ófyrirsynju, að það sé spurt um sumaratvinnu skólafólks núna. Algerlega kemur það mér á óvart, að það hafi verið svo í fyrra, að það hafi ekki verið nein vandkvæði á því fyrir skólafólk að fá sumaratvinnu. Mér kemur það alveg á óvart og ég kannast alls ekki við það. Þvert á móti veit ég mörg dæmi þess í mínu nágrenni á Austurlandi, að þetta var mjög erfitt. Ég veit, að það eru ekki til skráðar tölur um atvinnu skólafólks í sveitum landsins. En eigi að síður var þetta svona. Og fullyrðing hæstv. ráðh. um, að það hafi nær ekkert atvinnuleysi verið, finnst mér bara vera í samræmi við hina fullyrðinguna áðan um það, að það hafi verið fimmfaldaður stuðningur við íslenzka námsmenn!

Ég flutti till. hér seint á þinginu, sem útbýtt var 13. des., um að fela ríkisstj. að endurskoða lög og reglur um stuðning ríkisins við íslenzka námsmenn í þeim tilgangi að undirbúa námslaunakerfi. Ég skal viðurkenna, að það hefur dregizt allt of lengi að flytja þessa till. Ég var satt að segja að búast við því þá og þegar að heyra af því, að hæstv. ríkisstj. gerði eitthvað róttækt í því að endurskoða þessi mál. Það er út af fyrir sig gott og blessað að heyra það nú, að hæstv. ríkisstj. ætlar að taka þessi mál til endurskoðunar, og það er töluvert annað hljóð komið í strokkinn þó nú heldur en var í fyrra á öndverðu þingi, þegar þessi mál voru rædd hér þá og ekkert orð fékkst frá hæstv. menntmrh. í aðra stefnu heldur en þá, að allt væri í bezta lagi með stuðning við íslenzka námsmenn. En það fer ekki fram hjá neinum, að þessi loforð núna og þær athuganir, sem væntanlega fara fram í sumar, þetta kemur nokkuð seint og það er í raun og veru ekki afsakanlegt, hvað þetta kemur seint. Það urðu alger tímamót, a. m. k. hvað snertir erlendu námsmennina, þegar gengið var fellt tvisvar sinnum. Áður var það erfitt, en þó hægt, þegar vel gekk, að klóra sig áfram, en eftir tvær síðustu gengisfellingar varð ómögulegt að vinna sér fyrir þeirri fjárhæð að sumri, sem nægði til þess að brúa mismuninn. En það gerist samtímis gengisbreytingunum, að stórlega dregur úr sumaratvinnu. Það er eins og þetta hafi algerlega farið fram hjá valdhöfum.

Ég vil aðeins að lokum árétta það, sem þegar hefur komið hér fram, að það þarf skjótra aðgerða í þessu máli og það þarf það skjótra aðgerða við, að námsmenn, þegar þeir leggja sín plön fyrir næsta námsár, viti nokkurn veginn, hvers vænta skal. Það er ófullnægjandi, það sér hver maður, fyrir þá, sem berjast í bökkum og ekki geta af eigin rammleik klofið sinn námskostnað, að fá þá fyrst að vita um þær leiðréttingar, sem gerðar kunna að verða, þegar fjárlög verða afgreidd í vetur. Ég held, að ef menn bara líta á þetta með raunsæi, aðstöðu námsmanna fyrir næsta námsár, þá megi mönnum vera ljóst, að það er algerlega ófullnægjandi, eins og nú er komið, að snúast við á þann hátt, sem ráðherra boðar, að miða aðgerðir eingöngu við fjárlagaafgreiðsluna í vetur komandi.