15.10.1969
Sameinað þing: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

Starfshættir Alþingis

dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Langir málfundir í Sþ. hafa í vaxandi mæli nú á undanförnum árum verið umhugsunarefni og sumum áhyggjuefni, enda verið mikið umtal um það, að ég hygg milli þm. úr öllum flokkum nokkuð jafnt, og ég er ekki að beina máli mínu eða ásökunum um slíkt til einstakra þm. eða einstaks flokks, ef einhver skyldi halda það. Ég hygg, að það væri mjög mikil þörf á því að reyna að bæta úr þessu með bættum vinnubrögðum. Ég veit, að hæstv. forseta gengur ekki nema gott til, þegar hann hefur boðað nú, eins og mátti skilja í gær, að þingfundir í Sþ. byrji kl. 13.30 í staðinn fyrir 14. Ég álít, að úr þessum vanda, sem ég hef vikið að, verði ekki bætt með hálftíma lengri fundartíma, heldur með samstilltu átaki þm. um að koma á betri vinnubrögðum í tilhögun fundanna í Sþ. Þetta á við umr. um dagskrárliði, en um það er ekki að sakast, en einnig umr. utan dagskrár og alveg sérstaklega í sambandi við umr. um fsp.

Nú er það vitað, að endurskoðun á þingsköpum hefur verið til athugunar í n. og till. um það gerðar. Það getur kannske tekið nokkurn tíma að ganga frá því, eins og reynslan sýnir okkur, en ég hygg t. d., að það mætti gera mjög mikla bragarbót á þessum málum með því að breyta snögglega með sameiginlegu átaki, ef við verðum sammála um það, ákvæðum þeim, sem gilda um fsp.-tímana. Ég vildi þess vegna leyfa mér að beina því til hæstv. forseta, að hann freistaði þess í samráði við þingflokkana fyrst og fremst að stefna að öðru fyrirkomulagi á umr. í Sþ. en verið hefur.

Ég kvarta ekki undan fundartímanum eða tímasetningunni. Það er ekkert aðalatriði í mínum augum. Þó veit ég, að það er ýmsum fremur óhagræði að byrja 13.30 á miðvikudögum en kl. 14.00, en það er ekki aðalatriði. Hitt er aðalatriði, sem ég beindi ósk um til hæstv. forseta.