29.04.1970
Sameinað þing: 49. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

Starfshættir Alþingis

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mig langar til þess að beiðast skýringar hæstv. forseta, varðandi dagskrárgerð og dagskrárframkvæmd. Það er staðreynd, að það eru þáltill. hér, sem bornar voru fram a. m. k. mánuði fyrir síðustu áramót, eða í nóv. eða des. s. l., og hafa enn ekki komið hér til umr. Þær hafa verið teknar á dagskrá, jafnvel fund eftir fund, en þær hafa ekki komið til umr. á þeim fundum, ýmist af því, að röðin hefur ekki komizt að þeim, eða hinu, að það hefur verið farið fram hjá þeim og tekin til umr. mál, sem aftar hafa staðið á dagskrá, og svo eru þessar till. kannske allt í einu komnar út af dagskrá, alls ekki lengur teknar með á dagskrá. Ég hef veitt því athygli, að hæstv. forseti virðist ekki fara eftir aldursröð mála, þegar hann raðar þeim á dagskrá, þ. e. a. s. það virðist viðtekin regla hjá honum og reyndar líka forsetum deilda að taka stjórnarmál jafnan fyrst á dagskrá og til meðferðar. Enn fremur virðist hæstv. forseti fylgja þeirri reglu að taka jafnan fyrst á dagskrá og fyrst til afgreiðslu þær þáltill., sem þegar hafa verið í n. og nál. hefur verið skilað um, taka þær á undan þeim þáltill., sem aldrei hefur verið sýndur sá sómi að taka þær til umr. og vísa þeim til n. En svo hef ég líka veitt hinu athygli, að hæstv. forseti víkur hvað eftir annað frá þeirri dagskrá, sem fyrir liggur, og hleypur aftur í dagskrána og tekur til meðferðar mál, sem standa miklu aftar í dagskránni. Og þetta gildir um mál, sem einstakir þm. hafa flutt.

Þess eru dæmi nú og ég get nefnt þau, ef þörf krefur, að það sé búið að afgreiða til fullnustu á þessu hv. sameinaða Alþ. þáltill., sem síðar voru fluttar heldur en þær þáltill., sem aldrei hafa verið teknar til umr. Hver er skýringin á þessu? Ég veit, að forseti á samkv. þingsköpum að semja dagskrá. Ég veit líka, að hann getur samkv. þingsköpum vikið frá dagskránni. En í þingskapalögum stendur ekkert um það, að þeirri reglu skuli jafnan fylgt, að stjórnarmálefni skuli tekin á undan þingmannamálefnum til meðferðar, og það stendur heldur ekkert í þingsköpunum um það, að þau málefni, sem tekin eru til framhaldsumr., skuli tekin á undan þeim, sem aldrei hafa komið til umr. Þetta eru því reglur, sem hæstv. forseti hefur sjálfur sett sér og fylgir, án þess að þar um sé beinlínis nokkuð að finna í þingsköpum. Þess vegna vil ég spyrja: Á hverju byggir hæstv. forseti þessar starfsaðferðir? Á hverju byggist það, þegar hann tekur einstök yngri þingmannamál á undan eldri þingmannamálum eða þeim, sem fyrr hafa verið flutt? Hvers vegna hættir hann að taka á dagskrá mál, sem lengi eru búin að standa á dagskrá, enda þótt þau hafi ekki náð því að komast til umr.? Það er augljóst mál, að með slíkum starfsaðferðum er hægt að mismuna ekki aðeins stjórn og stjórnarandstöðu, heldur er hægt að mismuna einstökum þm.

Ég veit, að þá afsökun má færa fram fyrir því, að þáltill. hafa ekki verið teknar hér til meðferðar eins og skyldi, að mikill tími hefur farið í sameinuðu þingi í fsp., vegna þess að það hefur komizt á, að fsp.-tíma er meira eða minna snúið upp í almennan umræðuvettvang, en það eru starfshættir, sem um var rætt í byrjun þessa þings og af ekki minni manni en hæstv. dómsmrh. Og þá virtust menn sammála um, að það þyrfti að leita eftir úrræðum til að bæta þessa starfshætti. M. a. var þá bent á, að það væri ósköp auðvelt að halda þingfundi í sameinuðu þingi oftar en einu sinni í viku. Hvað hefur verið gert í þessu efni? Hverra úrræða hefur verið leitað til að bæta úr þessu? Hvaða samráð hafa hæstv. forsetar haft við þm. um þetta?

Það er alveg áreiðanlegt, að af þeim starfsháttum, sem hér hafa verið um hönd hafðir, munu þm. læra. bæði ég og aðrir. Við sjáum, að ef við viljum hreyfa máli eða ef við viljum vekja athygli á einhverju máli, þá er ekki lengur leiðin sú að flytja um það þáltill. Nei, leiðin er sú að flytja um það fsp. Það verður áreiðanlega fylgt á eftir, ef hér er ekki breytt um.

Ég ætla ekki undir þinglokin að fara að hefja neinar deilur við hæstv. forseta um þetta efni. En ég vildi vekja athygli á þessu og ég vildi veita forseta tækifæri til þess að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem liggja til grundvallar þeim starfsaðferðum, sem hann virðist fylgja hér. Og ég skal taka alveg ákveðið dæmi, sem mig langar til þess að fá skýrt svar við. Ég hef hér flutt þáltill. um nefndastörf ráðh., sem gengur aðeins út á það, að hv. Alþ. lýsi yfir vilja sínum um það efni, en felur ekki í sér áskorun á einn eða neinn. Þessari þáltill. var útbýtt 2. des. 1969. Hún hefur síðan hvað eftir annað verið tekin á dagskrá, en það hefur æ ofan í æ verið hlaupið fram hjá þessari till. og þau mál tekin til meðferðar, sem síðar voru flutt. Mig langar til þess að fá skýringu og alveg skýrt svar hæstv. forseta við því, hvernig stendur á því, að þessi þáltill. hefur ekki fengizt tekin til umr. Og ég vil enn fremur spyrja hæstv. forseta að því, hvort hann sé ánægður með þá starfshætti í þeirri stofnun, sem hann veitir forstöðu, að mál, sem þar eru flutt í nóv. eða des., komist þar aldrei til umr.