23.10.1969
Neðri deild: 5. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

Þingfréttir í dagblöðum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Reykv., ritstjóra Tímans, fyrir þær undirtektir, að leiðrétt muni í blaði hans, ef rangt hefur verið farið með tölur, eins og hann sagði, þar sem er sagt, að í fyrra hafi úthaldsdagarnir verið 864, og það sem af er þessu ári, til 1. okt., 694. En það var ekki talan í sjálfu sér, sem ég gerði að umtalsefni. En af þessu er dregin sú niðurstaða í fyrirsögn fréttarinnar, að úthaldsdögum varðskipanna hafi fækkað. Aðrar tölur eru ekki birtar en þessar 3/4 hluta ársins 1969 eða 9 mánuði, en 12 mánuði ársins 1968. Og þó að þær væru einar teknar án tillits til þeirra atvika, sem ég benti á um úthald Ægis, þá er niðurstaðan af tölunum röng og það skiptir miklu máli. Það er oft þannig, að sumir lesa kannske bara fyrirsagnir í Tímanum eins og öðrum blöðum og láta þar við sitja.

En ég ætla ekki að ræða landhelgisgæzluna, sem hv. þm. vék að. Það mál var lítillega rætt í gær og á dagskrá. Það var aðeins þessi aths., og þess vegna bind ég mig við hana, en geng að öðru leyti alveg fram hjá þeim skoðunum, sem hann hafði á sjálfri landhelgisgæzlunni og þörf aukningar á henni.