24.11.1969
Sameinað þing: 15. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

Minning Bernharðs Stefánssonar

forseti (BF):

Til þessa fundar er boðað til þess að minnast Bernharðs Stefánssonar fyrrv. útibússtjóra Búnaðarbanka Íslands og alþm., sem andaðist að heimili sínu á Akureyri aðfaranótt sunnudags 23. nóv., rúmlega áttræður að aldri.

Bernharð Stefánsson var fæddur 8. jan. 1889 að Þverá í Öxnadal. Foreldrar hans voru Stefán bóndi þar Bergsson bónda á Rauðalæk á Þelamörk Bergssonar og kona hans Þorbjörg Friðriksdóttir bónda á Gili í Eyjafirði Vigfússonar. Hann stundaði nám í Gagnfræðaskólanum á Akureyri 1904–1906 og í Flensborgarskóla 1907–1908 og lauk þaðan kennaraprófi. Hann var barnakennari í Skriðuhreppi 1908–1910 og í Öxnadal 1910–1923, bóndi á Þverá í Öxnadal 1917–1935 og útibússtjóri Búnaðarbanka Íslands á Akureyri 1930–1959. Hann var oddviti Öxnadalshrepps 1915–1928, sýslunefndarmaður 1922–1928 og í stjórn Kaupfélags Eyfirðinga 1921–1962. Alþm. Eyfirðinga var hann 1924–1959, sat á 44 þingum alls. Hann var forseti Ed. Alþingis 1947–1953 og 1956–1959. Fulltrúi í Norðurlandaráði var hann frá stofnun þess 1952 til 1959. Hann átti sæti í mþn. um landbúnaðarmál 1927, mþn. um tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga 1936 og mþn. um bankamál 1937.

Bernharð Stefánsson hóf á ungum aldri þátttöku í félagsstörfum. Ungmennafélagshreyfingin íslenzka átti um þær mundir upptök sín í héraði hans, og hann gerðist þar áhugasamur og starfsamur félagi, var um langt skeið forustumaður í ungmennafélagi sveitar sinnar. Hann gekk einnig á hönd samvinnuhreyfingunni í héraði sínu og var kosinn til trúnaðarstarfa á þeim vettvangi. Voru þau félagsstörf öll þroskavænlegur undirbúningur þess ævistarfs, sem hann átti fyrir höndum. Hann var formaður lestrarfélags sveitar sinnar, víðlesinn og fróður um sögu Íslands og fornbókmenntir. Síðar átti hann sæti á Alþingi í hálfan fjórða áratug, var traustur og vinsæll fulltrúi héraðs síns, en lagði einnig margt til annarra þjóðmála og átti lengst sæti í þeim nefndum þingsins, sem fjölluðu um fjárhagsmál og menntamál. Í ræðustóli flutti hann mál sitt skorinort og skilmerkilega, rólega og rökfast, var drengilegur í málflutningi, en fastur fyrir og lét ógjarnan hlut sinn. Hann var vel ritfær og langminnugur, og á næðissömum elliárum, er hann hafði látið af öðrum störfum, ritaði hann endurminningar sínar frá viðburðaríkri starfsævi, mikið rit og fróðlegt um menn og málefni, þar sem segir frá ýmsum stórviðburðum í íslenzkum þjóðmálum á þessari öld.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Bernharðs Stefánssonar, með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]