12.01.1970
Sameinað þing: 29. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfs

forseti (ÓB):

Svo hljóðandi bréf hefur borizt: „Þorvaldur Garðar Kristjánsson, framkvstj. Sjálfstfl., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Samkv. beiðni Pálma Jónssonar bónda, 4. þm. Norðurl. v., sem nú er veikur, leyfi ég mér, með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis, að óska þess, að varamaður hans, Eyjólfur K. Jónsson ritstjóri, taki á meðan sæti hans á Alþingi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt. Sigurður Bjarnason,

forseti neðri deildar.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Enn fremur hefur mér borizt svo hljóðandi bréf: „Ólafur Jóhannesson, formaður þingflokks Framsfl., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem Einar Ágústsson, 11. þm. Reykv., hefur orðið fyrir slysi og mun því ekki geta sótt þingfundi næstu vikur, leyfi ég mér, með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis, að óska þess, að 1. varamaður Framsfl. í Reykjavík, Kristján Thorlacius deildarstjóri, taki sæti á Alþingi í forföllum hans.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt. Jónas G. Rafnar,

forseti efri deildar.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Báðir þeir varaþm., sem nú taka sæti á Alþ., hafa átt sæti á Alþ. fyrr á þessu kjörtímabili og kjörbréf þeirra því verið samþykkt. Ég leyfi mér að bjóða þá báða velkomna til þingstarfa.