19.12.1969
Efri deild: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (2247)

135. mál, verðgæsla og samkeppnishömlur

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja nokkur orð um þetta frv., sem hér er til 1. umr., og sérstaklega þó um málsmeðferðina. Satt að segja, er mér óskiljanlegt með öllu það ofurkapp, sem lagt er á að ræða þetta mál hér í dag, eins og ástatt er um þingstörfin og ástæðulaust er að rekja, þar sem nú er búið að boða þingfrestun kl. 6, þ. e. a. s. eftir klst., áður en 1. umr. um þetta mál er þó enn lokið. Sérstaklega er mér þessi málsmeðferð undrunarefni, þegar lesin er og yfirveguð saga þessa máls, eins og hún kemur fram á því þskj. 204, sem hér hefur verið lagt fram.

Í aths. með lagafrv. segir, að frv. þetta sé samið af nefnd, sem skipuð var af viðskmrh. samkv. ákvörðun ríkisstj. í febrúar 1967. Þessi nefnd hefur þannig verið 3 ár, og 2 mán. skemur þó að koma sér saman um þennan frv.-flutning. Í þessari nefnd, sem skipuð var í febrúar 1967, áttu sæti 20 menn, en samstaðan í henni um það mál, sem hér er flutt, er þó ekki meiri en svo, að 5 nm. eru algerlega andvígir frv.-flutningnum, en 15 standa að drögum að frv. um verðgæzlu og eftirlit með samkeppnishömlum ásamt grg., sem hér fylgir, eins og segir í aths. En samstaða þeirra er þó ekki meiri en það, að af þessum 15 mönnum skrifa 6 undir álitið með fyrirvara. Niðurstaðan er því sú, að af þeim 20 mönnum, sem skipaðir voru í áðurgreinda nefnd, eru 11, sem ekki eru ánægðir með frv. eins og það er núna. Þessir menn eru búnir að starfa að þessu máli í 3 ár, meira og minna, og niðurstaðan er þó ekki heillegri en sú, sem ég var hér að gera grein fyrir. Er þá líklegt, að alþm., sem fengu frv. fyrir 2 dögum, séu undir það búnir að ræða það efnislega og taka afstöðu til þess við 1. umr., eftir að hafa haft aðeins 2 daga til þess að kynna sér málið — tvo daga, sem hafa verið þeir annríkustu, sem Alþ. hefur búið við, a. m. k. að þessu sinni og raunar um langt skeið áður? Ég leyfi mér að efast um það. Þetta óðagot er þeim mun óskiljanlegra, sem það er ákveðið af þeim, sem málið flytja, hæstv. ríkisstj., að það skuli vera 12 mán. frestur á því að koma málinu til framkvæmda. Okkur er sagt, að hæstv. forsrh. hafi lagt slíkt ofurkapp á það, að þetta mál yrði afgr. til n., að hann hafi jafnvel borið ráðum þann hæstv. ráðh., sem flytur þetta mál þó hér.

Ég skal engum getum að því leiða, hvað ráði þessum vinnubrögðum, en ég verð að segja, að mér finnst þau ákaflega furðuleg og raunar ósæmandi. Þegar haft er í huga, að nefnd, sem skipuð var í málið, er 3 ár að gera sér grein fyrir því, og kemst ekki að sameiginlegri niðurstöðu, eins og ég hef gert grein fyrir, þá má það öllum ljóst vera, að hér er um að ræða mjög viðkvæmt mál og vandasamt. Þessi verðlagsmál hafa áður verið rædd lítillega hér á hv. Alþ. Það var í maímánuði s. l., sem fsp. var borin fram um verðlagsmálin til hæstv. viðskmrh. og spunnust af því tilefni nokkrar umræður. Ég tók lítillega þátt í þessum umræðum og leitaðist þá við að benda á, að verðlagsákvæði þau, sem í gildi hafa verið nú um langt skeið, væru ekki örugg trygging fyrir lægsta vöruverði, og ég hef ekki breytt um þá skoðun. Ég nefndi þá dæmi um það, hvernig hlutfallsleg álagning, eins og verið hefur viðhöfð hér um langt skeið, gæti í mörgum tilfellum stuðlað að því að draga úr áhuga kaupsýslustéttarinnar á því að gera hagstæð innkaup. Það hefur ekki verið metið sem skyldi að mínum dómi, þegar innflytjendur og aðrir verzlunarmenn hafa komizt að hagkvæmum kaupum, að þá hefur álagning þeirra verið minni, vegna þeirra ákvæða, sem gilt hafa, og afrakstur þeirra lakari heldur en ef þeir seldu dýrari vörur. Þetta tel ég óneitanlega mikinn galla.

Fleiri dæmi hef ég áður nefnt og skal rifja upp þessu til stuðnings. Ég minntist hér, við þá umr., sem ég var að geta um áðan, á dæmi úr smásölu um sölu á kartöflumjöli. Þó hér sé talað um kartöflumjöl þá gildir það ekki eingöngu um það, heldur um alla kornvöru, sykur og margar þess háttar vörur. Ég gerði ráð fyrir því annars vegar, að verzlunin keypti 50 kg. sekk af kartöflumjöli og vigtaði það upp sjálf og legði í það þá vinnu, sem til þarf. Dæmið lítur þá þannig út, að innkaupsverð á kg. er 15 kr. og 8 aurar, smásöluálagningin, sem í þessu tilviki er 27%, gerir 4,08 kr., söluskattur 1,44 kr. Og útsöluverðið þar með 20,60 kr. Gert er ráð fyrir því, að poki, sem verzlunin þarf að leggja til, kosti 40 aura, þannig að verzlunin fær þá fyrir að vigta upp og selja kartöflumjölið í þessum umbúðum 3,68 kr. Þetta er það, sem verzlunin fær fyrir að inna þessa þjónustu af hendi sjálf — að vigta það upp. En svo getur verzlunin farið öðru vísi að. Hún getur farið þannig að að kaupa kartöflumjölið í sömu sendingu í eins kg. pokum, sem aðrir aðilar hafa pakkað. Þá lítur dæmið öðru vísi út. Innkaupsverðið á kg. er 21,90 kr., smásöluálagning, að vísu lægri, 22%, en hún gerir samt 4,80 kr., það er 72 aurum meira en í hinu dæminu, og söluskatturinn verður 2 kr. Þá er útsöluverð þessarar vöru 28,70 kr. Í þessu tilviki fær verzlunin 4,80 kr. fyrir að selja hvert kg., en viðskiptavinurinn þarf að greiða 8,10 kr. meira fyrir hvert kg. Ég held, að hér sé um gallaða framkvæmd að ræða og það sé full ástæða til þess, að þessi mál séu öll athuguð. Ekki bara til þess að bæta hag verzlunarinnar, heldur einnig til þess, að neytendur geti í sumum tilvikum, eins og þeim, sem ég var hér að minnast á með aðeins örfáum orðum — ég ætla ekki að halda hér langa ræðu — að þeir geti bætt hag sinn. En hitt er algerlega ljóst, að launþegasamtökin í landinu líta svo á, að afnám verðgæzlunnar í sinni núverandi mynd mundi verka á þann hátt, að vöruverðið yrði hærra. Það kemur glöggt fram í því séráliti, sem fulltrúar allra þessara samtaka í áður nefndri 20 manna nefnd láta frá sér fara, og ég vara við því, að meðan sá skilningur ríkir hjá launþegasamtökunum, að þessi frv.-flutningur og væntanleg lagasetning sé gerð til þess að bæta hag verzlunarinnar eingöngu og hljóti að leiða til óhagstæðari verðlagsmyndunar fyrir hinn almenna neytanda, þá er ákaflega varhugavert að breyta lögunum í þessa átt. Ég held því, að það, sem réttast sé að gera, sé að taka þessi mál öll — verzlunarmálin — til gaumgæfilegrar endurskoðunar og reyna í samvinnu við fulltrúa frá þessum stéttum að komast að því, hvaða fyrirkomulag það sé, sem geti sameinað þá kosti báða, eftir því sem mögulegt kann að vera, — að verzlunin geti búið við sæmilegan hlut og neytandinn fái vöruna við því hagstæðasta verði, sem undir þeim kringumstæðum er um að ræða.

Það er áreiðanlegt, að það er margt fleira en verzlunarálagningin, sem ræður vöruverðinu. Það er skipulagsleysi í allri verzlun. Það er óheft frelsi til þess að setja upp verzlunarholur, hvar sem vera skal — hvort sem það er í þéttbýli eða dreifbýli. Það eru allt of dýrar verzlunarbyggingar með tilheyrandi innréttingum. Það eru flutningsgjöld, sem í mörgum tilfellum eru mjög óhagstæð og áreiðanlega miklu hærri en þau þyrftu að vera. Það er leigukostnaður, geymslukostnaður, fyrir vörur, sem í mörgum tilfellum er óhæfilega hár. Það er ekki langt síðan mér var tjáð af einum kaupmanni, að það kostaði ámóta mikið að geyma vöruna í pakkhúsunum hjá Eimskip eins og að leigja dýrustu svítuna á Hótel Sögu. Er nokkurt vit í þessu? Það held ég ekki.

Í þessu máli eru það mjög mörg atriði, sem til greina koma og áhrif hafa á þessi þýðingarmiklu mál, og ég undirstrika það, að það eitt að fella niður verðlagseftirlitið eins og hér er stefnt að, án þess að nokkuð annað komi í staðinn, það getur ekki verið lausn þessa máls.

Ég ætla ekki að gera frv. í einstökum atriðum að umtalsefni. Ég hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér það, og vona, að það verði ekki virt okkur þm. til hyskni við þingstörfin, þó við höfum ekki kynnt okkur þennan bálk á þeim 2 dögum, sem við höfum haft hann undir höndum, og unnið jafnframt við önnur þýðingarmikil mál. En það á að gefa okkur tíma til að skoða þessi mál. Ríkisstj. á ekki og má ekki knýja þetta mál fram í þessum búningi, sérstaklega þegar launþegasamtökin í landinu standa sem veggur gegn þessari lausn, og líta á það sem árás á hagsmuni sína. Þessi mál þarf að kynna miklu betur en gert hefur verið, og ég lýsi þar nokkurri sök á hendur verzlunarstéttinni, kaupmönnum og samvinnufélögum. Þessi mál hafa ekki verið kynnt almenningi. Það eru óteljandi mörg atriði, sem máli skipta, önnur en álagningin, sem geta orkað til hagstæðara vöruverðs, og það er skylda þessara manna að mínum dómi að kynna það fyrir fólkinu, svo að menn hafi rétta mynd af því viðfangsefni, sem hér er við að glíma.

Ég læt nægja að vísa til þess, sem aðrir hv. þm. hafa sagt um efnisatriði frv. Mér sýnist við fljótan yfirlestur, að þeir hafi ekkert ofsagt um það, að fyrir báðum efnisatriðum frv. sé ótryggilega séð, þó ekki sé nú meira sagt, þannig að mjög sé vafasamt, að þau nái tilgangi sínum. Hér var áðan rætt um það, að einokunaraðstaða gæti skapazt hjá aðilum, sem væru einir með verzlun á tilteknum stöðum, og sérstaklega tilnefnd kaupfélög í því sambandi. Ég vil taka það fram í þessu máli og segja það alveg hiklaust, að það verður ekki samvinnuverzlunin, sem gengur lengst í því að hækka vöruverðið, þó að frjálst verðlag verði sett á. Þvert á móti vil ég halda því fram, að það verði samvinnuverzlunin, ef hún býr við eðlileg skilyrði, sem ein, eða fyrst og fremst geti gefið nokkrar líkur fyrir því að eðlileg samkeppni geti ráðið hagstæðu vöruverði. Til þess voru samvinnufélögin stofnuð og að því hafa þau unnið, misjafnlega vel að vísu — það skal viðurkennt — en þann dag, sem þau sleppa því meginhlutverki sínu, gleyma því, eða geta ekki uppfyllt það, þá tel ég, að þau eigi ekki lengur neinn rétt á sér.

Ég skal ekki, herra forseti, tefja tíma þingdeildarmanna á lengri ræðu um þetta mál. Ég vildi aðeins vekja athygli á þessum tveimur atriðum, annars vegar því, að ég tel þessa málsmeðferð gersamlega óhæfa, óskiljanlega og hreina móðgun við þm., og svo hinu, að í þessu máli eru mörg vandasöm atriði, sem vel þarf að skoða.