20.03.1970
Efri deild: 60. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2252)

135. mál, verðgæsla og samkeppnishömlur

Frsm. 2. minni hl. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Við hv. 11. þm. Reykv. höfum í allshn. ekki getað orðið samferða öðrum. Við höfum gefið út nál. á þskj. 451, og mun ég nú rekja aðeins okkar afstöðu til þessa frv., sem hér liggur fyrir.

Eins og fram hefur komið hér áður í umr., eru engin bein fyrirmæli í núgildandi verðlagslögum um íhlutun af hálfu ríkisvaldsins um verðlagsmál. Hins vegar er í þeim l. heimild til handa verðlagsnefnd að hafa áhrif á þróun verðlags í landinu, þegar því er að skipta. Og sá sérstaki háttur, sem hafður hefur verið á um skipan verðlagsnefndar, hefur átt að tryggja aðilum markaðsins sanngjarna og eðlilega úrlausn hverju sinni. Þess er ekki að dyljast, að af hálfu verzlunar hefur á undanförnum árum gætt talsverðrar óánægju í garð framkvæmdar verðlagslaga, og verzlunin hefur talið sig ekki bera óskarðan hlut frá borði. Þeir, sem ég og við í 2. minni hl. höfum talað við um þessi mál og fjalla um verzlun, hafa nánast verið á einu máli um það, að verðlagsákvarðanir af hálfu verðlagsnefndar eða verðlagsstjóra hafi æði oft verið handahófskenndar og ósanngjarnar og ekki sjaldan að þeirra áliti verið gengið framhjá ákvæðum verðlagslaga, hvernig haga skuli verðlagsákvörðun, þegar hún er í höndum opinberra stjórnvalda, og er þá átt við ákvæði 3. gr. verðlagslaganna og að verðlagsnefnd hafi ekki tekið tillit til rökstuddra reikninga og annarra slíkra gagna, sem umboðsmenn verzlunar hafa lagt á borð fyrir verðlagsnefnd og verðlagsstjóra — því hafi verið ýtt til hliðar eða ekki nægur gaumur gefinn. Þannig að þessar ásakanir, sem þannig hafa borizt á hendur verðlagsyfirvöldunum, hafa verið á þessa lund, eina aðallega, að framkvæmdin hafi farið úrskeiðis oft á tíðum og allt of oft.

Tvö eru höfuðatriði núgildandi verðlagslöggjafar að mér skilst. Í fyrra lagi, að þegar þörf er talin þess að taka ákvörðun um hámarksverðlag, beri að hafa mið af þörf þeirra fyrirtækja, sem búa við skipulegan og hagkvæman rekstur.

Og í annan stað, að stjórnvöldum beri að veita almenningi á hverri tíð þá sjálfsögðu vernd, að eigi sé hömlulaust verðlag, og þess vegna sé þessum yfirvöldum fengin heimild til íhlutunar. Og víst er um það, að svo viðkvæm, sem þessi mál eru, þá þarf við framkvæmdina að beita hinni ýtrustu varúð, og þeir menn, sem um fjalla, að hafa fyllstu þekkingu á verzlunarháttum öllum við beitingu hlutlægs mats á hagsmunum beggja markaðsaðila og gæta hinnar fyllstu sanngirni á báða bóga.

Margir fulltrúar eða umboðsmenn verzlunar munu telja sér nokkurn hag af því frv., ef að lögum verður, sem hér er um að ræða. Ég skal ekki segja um það, hversu þetta frv. er í stórum dráttum á þá lund, en það er engan veginn nægilega ljóst, hverjar verkanir þess kynnu að verða, þegar til framkvæmda kemur. En hv. frsm. meiri hl. allshn. taldi nú ekki líklegt, að neytendur yrðu fyrir neinum sérstökum verðlagshækkunum af völdum framkvæmdar á þessari löggjöf, ef til kæmi. Og í annan stað mundi verzlunin ekki njóta þeirra kjara eða viðbótarálagningar á verð, eins og þeir myndu nú gera ráð fyrir. Og hvers konar apparat er nú það, sem getur komið hlutunum þannig fyrir? Það er hin svokallaða virka samkeppni. Hún á að geta verkað með þessum hætti, að því er manni helzt skilst. En við spyrjum nú, hvers vegna á ekki að halda almennu vöruverðlagi innan hólflegra marka, þegar svo mörgu öðru, sem hefur ekki síður gildi innan þjóðfélagsins, er haldið í býsna römmum skorðum? Það má segja t. d., að kaup að ýmsu leyti sé búið nokkuð þröngum stakki. Enn fremur má segja það sama og er augljósara um verðlag landbúnaðarvara, og fleira mætti fram telja, þannig að það ætti ekki að vera óeðlilegt, þó að visst aðhald og verulegt aðhald yrði af þjóðfélagsins hálfu — af stjórnenda hálfu í sambandi við vöruverð almennt um allt þjóðfélagið.

Svo má geta þess, að á undanförnum árum höfum við upplifað hverja gengisfellinguna á fætur annarri, sem hefur að sjálfsögðu skapað verðbólgu, síaukna dýrtíð. Hins vegar hefur kaupgeta alls almennings farið hröðum skrefum minnkandi, þannig að þegar svo er ástatt, þá þarf að mínu áliti að halda verðlagi í nauðsynlegum skorðum. Sífelldar gengisbreytingar og stórlega hvikult vöruverð og ekki sízt í innkaupum til landsins gerir það að verkum, að það verður að hafa hóflegt eftirlit með þessum hlutum, það verður ekki hjá því komizt. Það er allt annað, ef ríkir stöðugt gengi í landinu og markaðurinn yfirleitt er rólegur, þá gæti komið til þess að rýmka allverulega, þó að um frjálsa samkeppni hjá okkur, eins og á stendur, geti alls ekki orðið að ræða. En þessum rólega markaði er ekki til að dreifa af þeim ástæðum, sem ég hef þegar aðeins drepið á.

Þess vegna er það skoðun okkar í 2. minni hl., að eigi þurfi að ganga til slíkrar verðlagslöggjafar, eins og hér er um að ræða, það sé vel hægt að yfirveguðu ráði, ef einhver vilji og full alvara er til staðar, að breyta gildandi verðlagslögum þannig, að bæta mætti, svo að viðunandi væri, úr framkvæmdinni. Ég vil geta þess, að í séráliti fulltrúa Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Alþb. og Alþfl. er lítillega vikið að þeirri gagnrýni, sem ríkt hefur í garð verðlagsyfirvaldanna og þar gengið inn á það eða viðurkennt, að starfshættir í verðlagsmálum, eins og þeir hafa tíðkazt undanfarið, séu allt annað en fullkomnir og engan veginn gallalausir. Við skulum nú ekki halda því fram, að það sé hægt að framkvæma svo verðlagslöggjöf, að ekki megi þar á finna galla. En lengi má bæta og þessir fulltrúar, sem ég nefndi, eru eftir því, sem ætla má, ekki ófúsir þess, eins og málum er komið núna, að sníða af þá helztu agnúa, sem kunna að vera á framkvæmd löggjafar þeirrar, sem nú gildir. Eins og háttar í þjóðfélaginu og ég hef lítillega lýst, þá teljum við ekki ástæðu til þess að afgreiða það lagafrv., sem hér liggur fyrir.

Þá vil ég taka annað atriði aðeins til yfirvegunar. Í grg. frv. segir m. a., að nefndin, sem hafði undirbúning frv. á hendi, hafi ekki tekið afstöðu til þess, hvenær l. tækju gildi. Mun því ríkisstj. hafa tekið af skarið í því efni og niðurstaða hennar orðið sú, sem segir í 31. gr. frv., þ. e. a. s. að frv., ef að lögum yrði, tæki gildi 12 mánuðum eða einu ári, eftir að löggjöfin hefur verið samþ. á Alþ. Meðal annarra ástæðna fyrir þessu undarlega ákvæði er talin vera sú, að nýmælið í IV. kafla frv., þ. e. a. s. um samkeppnishömlur, sé svo vandasamt í meðförum og þurfi svo langan aðdraganda í undirbúningi, áður en farið verður að framkvæma ákvæðin, að ekki sé hægt að búast við því, að á skemmri tíma en einu ári sé hægt að undirbúa jarðveginn þannig úti á markaðinum, að ákvæðin geti orðið tekin til framkvæmda. En auðvitað fer ekki hjá því, að okkur mörgum detti það fyrst í hug, að stjórnarflokkarnir séu með þessum óvenjulega hætti að skjóta sér undan framkvæmdum svo lengi, sem þeir telja sér þess kost.

Tvennar kosningar myndu þá líða framhjá, áður en til framkvæmda kemur. Sveitarstjórnarkosningar, sem fram eiga að fara á næsta sumri, og reglulegar alþingiskosningar á árinu 1971. Þetta segir sína sögu eða gefur undir fótinn með það, að það megi skýra þetta undarlega ákvæði. Og svo má geta þess, að fram undan eru alveg á næstunni harðvítug átök um kaup og kjör, sem velflestar launastéttir í okkar þjóðfélagi munu eiga beinan eða óbeinan þátt að. Og þá er spurningin þessi: Er stjórnarflokkunum öllu hentugra að geyma framkvæmdirnar fram yfir þann tíma, sem næstur er, og alla leiðina fram á síðari hluta árs 1971? En alls yfir má þykja eðlilegt, að okkur mörgum þyki kenna nokkurrar sýndarmennsku með framlagningu frv. nú, þegar þannig er alls yfir umhorfs í þjóðfélaginu, og framkvæmdin á að geymast svo lengi, sem ætlað er og ákvæðin í 31. gr. frv. segja til um. En hvað segja nú umboðsmenn kaupmannasamtaka í nál. m. a. Þeir segja um gildistökuákvæðin:

„Afstaða okkar byggist á því, að við treystum því, að málið hljóti fullnaðarafgreiðslu á yfirstandandi Alþ.“, þ. e. a. s. því, sem nú situr, „og að gildistaka þess geti átt sér stað eigi síðar en að 6 mánuðum liðnum frá áramótunum 1969–1970“. Og undir þessa yfirlýsingu rita fulltrúar frá Félagi stórkaupmanna, frá Verzlunarráði Íslands og frá Kaupmannasamtökunum, þannig að þeir myndu ekki telja óeðlilegt, þó að frv., ef að lögum yrði, tæki gildi miðað við 1. júlí á þessu ári. Nú ættu þeir að vita gerst um, hversu langan umþóttunartíma þetta mál ætti að taka, a. m. k. að því er varðar verzlunina. Nú er ég ekki að segja það, að þeir hafi einskorðað full tök á því, hvern undirbúning þessi framkvæmd ætti að hafa, en þetta álit þessara fulltrúa bendir ótvírætt til þess, að þeir telji ekki þörf svo langs umþóttunartíma.

Um frv. vil ég aðeins segja þetta að lokum, að eins og getið var um, þá mun það aðallega vera þýðing úr hluta af danskri löggjöf, sem fjallar um slíkt efni, og það sýnir sig í frv. sjálfu, að það á við allt aðrar aðstæður heldur en ríkja hérna hjá okkur. Úrslitaáhrif um efni frv. sýnist hafa haft erlendur sérfræðingur, og hvað sem öðru líður og segja má um frv., þá er það auðsætt, að nokkur ákvæði og jafnvel mörg eru nokkuð torskilin, og hefur verið bent á það, m. a. af hv. frsm. meiri hl. allshn., og önnur beinlínis annarleg, fyrst og fremst vegna þess að þau eiga við aðrar þjóðfélagsaðstæður.

En eins og ég hef aðeins minnzt á áður, þá er það skoðun okkar í 2. minni hl., að eigi sé þörf, eins og nú háttar í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, að tefla fram slíkri lagasmíð sem þessari, og því síður, þar sem ætla má, að á grundvelli núgildandi verðlagslöggjafar megi lagfæra að miklu leyti þá galla, sem kunna að hafa verið á framkvæmdinni og eru. Og með skírskotun til þessa höfum við leyft okkur að bera fram rökst. dagskrá, þannig að málsmeðferð verði við svo búið lokið í þessari hv. deild. Og ég leyfi mér að lesa upp niðurstöðuna:

„Þar sem ætla má, að koma megi verðlagsmálum í viðunandi horf með breytingu á framkvæmd gildandi verðlagslaga, sem nokkurri gagnrýni hefur sætt, og þar sem álíta verður næsta óeðlilegt að samþykkja á þessu þingi frv. þetta, sem ekki er ætlað að öðlast lagagildi fyrr en á síðari hluta árs 1971, þ. e. eftir næstu reglulegar alþingiskosningar, telur d. ekki rétt að halda áfram meðferð málsins og tekur fyrir næsta mál á dagskrá“.