20.01.1970
Efri deild: 36. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2263)

18. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. meiri hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt af hv. þm. Jóni Þorsteinssyni og er til breytingar á sveitarstjórnarlögum. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp efni frv., eins og það liggur hérna fyrir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í sýslunefnd eiga sæti auk sýslumanns, sem er oddviti nefndarinnar, sýslunefndarmenn, sem kosnir eru í hverju sveitarfélagi innan sýslufélagsins. Í sveitarfélögum með 400 íbúum eða færri skal kjósa einn sýslunefndarmann, en í sveitarfélögum með yfir 400 íbúa skal kjósa tvo sýslunefndarmenn“

Svo sem kunnugt er og í grg. frv, segir, hefur sú regla gilt um langa hríð og að líkindum allt frá upphafi, er sýslunefndir voru stofnaðar, að hver hreppur innan sýslufélags kýs einn fulltrúa í sýslunefnd án tillits til þess, hversu margir íbúar eru innan hreppsfélagsins. Um afgreiðslu frv. hefur ekki náðst samstaða í heilbr.- og félmn. Minni hl. skilar sérstöku áliti, en við, 4 þm. í meiri hl., höfum gefið út nál. á þskj. 232.

Mál þetta var sent til umsagnar sýslumönnum og enn fremur Sambandi ísl. sveitarfélaga. Umsagnir bárust frá 9 sýslumönnum, svo og stjórn sambandsins. 5 sýslumanna eru andvígir þessu frv., 2 sýnast helzt aðhyllast þá stefnu, að hætt verði að kjósa sýslunefndarmenn, en oddvitar hreppsfélaga verði sjálfkjörnir fulltrúar í sýslunefnd. Loks telja 2 sýslumannanna, að eðlilegt og nauðsynlegt sé að samþykkja frv. óbreytt. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga telur frv. ekki þess eðlis, að efni þess skipti neinu höfuðmáli. Miklu fremur og eðlilegra væri, að hreppsnefndaroddvitar væru sjálfkjörnir fulltrúar sinna hreppsfélaga í sýslunefnd. Og enn fremur segir í umsögn sambandsins, að hún telji brýna nauðsyn bera til, að hafizt verði handa um endurskoðun á skiptingu landsins í sýslur.

Það er ljóst af umsögnum, að þorri þeirra, sem um hafa verið spurðir, telur frv. engan vanda leysa. Það skipti miklu fremur máli, að tekin verði til athugunar staða og málefni sýslunefnda í heild, þannig að verkefnaskipan innan sýslunefnda, þ. e. a. s. verkefni sýslunefnda og allt þeirra starf og öll aðstaða, verði tekin til yfirvegunar innan stjórnkerfisins. Við nm. höfum hvergi séð það, að sérstakar óskir hafi legið fyrir frá sýslufélögum, sýslunefndum eða hreppsnefndum um að breyta um þetta kjörskipulag, sem gilt hefur. Og við vitum heldur ekki dæmi þess, að sýslunefndarmenn frá sveitarfélögum, sem hafa íbúa yfir 400, hafi látið í ljós óánægju eða kvartað yfir ranglæti í sinn garð eða sveitarfélagsins í afgreiðslu mála innan sýslunefnda, sem rekja mætti til ákvæða laga um kjör sýslunefnda. En að sjálfsögðu kunna þó að finnast þess dæmi, þó að við nm. vitum ekki um það.

Hins vegar má geta þess, að það eru margir, sem bera ugg í brjósti út af dvínandi áhrifum hinna fámennari sveitarfélaga, áhrifum þeirra á skiptingu efnahagslegra og félagslegra gæða innan stjórnarumdæma. Það er mál út af fyrir sig. Þá teljum við nm., að viðmiðunin í frv. um 400 íbúa án frekari rökstuðnings bendi ekki til þess, að þetta mál hafi verið íhugað svo sem bæri, og fjölgi þá aðeins um einn fulltrúa í sýslunefnd í hinum stærri hreppsfélögum. Við teljum, að slík kjörregla væri engan veginn knýjandi réttarbót, eins og á stendur. Teljum við því, að með þessari breytingu væri í raun og veru stutt skref stigið í réttlætisátt og til að fullnægja því réttlæti, sem á kann að skorta í þessu efni. Ef á annað borð þarf að hreyfa ákvæðum um kjör sýslunefnda, þá teljum við, eins og ég hef áður drepið á, nm. í meiri hl., að það sé full nauðsyn að taka til rannsóknar ákvæði um sýslunefndir og þá m. a. kjörreglur. Það er t. d. mjög eftirtektarverð sú till., sem fram kemur í umsögn stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, að hreppsnefndaroddvitar séu sjálfkjörnir í sýslunefnd.

Það eru full rök til þess a. m. k., að oddvitar eiga að hafa að öðru jöfnu bezta þekkingu á málefnum sveitarfélagsins, og það er yfirleitt um þau málefni, sem sýslunefndir fjalla fyrst og fremst. Þess vegna teljum við, eins og á stendur, að ekki sé rétt að grípa á þessu eina atriði, og án þess að frekari rannsókn hafi farið fram á öðrum ákvæðum laga um sýslunefndir. Við álítum ekki rétt að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir, og leggjum því til, að frv. verði fellt.