02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2282)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mig langar til þess að gera grein fyrir afstöðu minni í þessu máli með örfáum orðum.

Frv. fjallar um, að Kvennaskólinn í Reykjavík fái heimild til þess að útskrifa stúdenta. Á hinn bóginn hefur skólinn fram að þessu og á raunar áfram að vera einkaskóli, og hefur hann verið felldur sem einkaskóli inn í gagnfræðaskólakerfið, þannig að hann hefur heimild til þess að útskrifa gagnfræðinga og einnig landsprófsfólk. Í mínum augum er þessi heimild ekkert prinsipmál og engin stefnubreyting í skólamálum. Ég lít svo á, að það sé aðeins stigmunur en ekki eðlismunur á því að leyfa einkaskóla eins og Kvennaskólanum að útskrifa gagnfræðinga og landsprófsfólk, og því að leyfa sama skóla að hafa stúlkur 3 árum lengur í kennslu og útskrifa þær sem stúdenta.

Kvennaskólinn hefur um langa hríð verið alger undantekning í skólakerfinu. Ég held að það megi segja, að hann sé í raun og veru eini skólinn, sem með réttu má kalla sérskóla fyrir konur. Mér finnst skynsamlegt að leyfa þessum skóla, sem hingað til hefur verið leyft að starfa og studdur á þennan hátt sem undantekning, að færa starf sitt í nýtízkulegra horf með því fá heimild til að útskrifa stúdenta. Ég held, að sú menntun, sem með því er látin í té í skólanum, sé í rauninni ekkert tiltölulega meiri nú en gagnfræðamenntun var á sínum tíma, miðað við það, sem fjöldinn allur gat veitt sér þá og svo nú. Þess vegna sé þetta skynsamlegt og hér sé eingöngu um stigmun að ræða. Í mínum huga er það mjög þýðingarmikið að greiða fyrir því, að sem flestir geti tekið stúdentspróf, og mér finnst að með því að leyfa Kvennaskólanum þetta, muni þarna opnast leið fyrir nokkrar stúlkur til þess að geta náð stúdentsprófi með hagfelldum hætti, og þá greiðir þetta fyrir í heild. Þó að segja megi, að hér sé í raun og veru um smámál að ræða, þar sem þetta yrðu aðeins fáar stúlkur, þá gengur það þó að mínu viti í rétta átt.

Ég vil leggja áherzlu á, að hér er um einkaskóla að ræða, og þó að þessi heimild verði samþ., og þó að hún verði notuð, þá ber ríkinu engin skylda til þess að byggja yfir Kvennaskólann. Það er málefni skólans, sem verður að leysa á sínum tíma, og ég sé ekki að heildarkostnaður við stúdentsmenntun í Reykjavík muni vaxa, þó að þessi skóli fái þessa heimild, allra sízt heildarkostnaður ríkisins, því að ég geri ráð fyrir, að á bak við Kvennaskólann standi öfl, sem mundu ganga fram í því að útvega fjármuni til þessarar einkastofnunar í skólakerfinu og þá til bygginga. Þess vegna legg ég ekki mikið upp úr því, sem sumir halda fram í sambandi við þetta mál, að með því að samþykkja þetta frv., þá sé verið að stöðva aðrar bráðnauðsynlegar framkvæmdir ríkisins í menntaskólamálum. Ég lít ekki þannig á. Ég hef þvert á móti litið þannig á, að þarna opnaðist möguleiki fyrir því, að nokkrar stúlkur gætu fengið stúdentsmenntun, án þess að ríkið þyrfti að leggja jafn mikið til þess að þær fengju hana og kosta þarf til vegna annarra. Ég held því, að menn hafi mjög misskilið þessa hlið á málinu, því að mér hefur skilizt, að ýmsir mæli á móti því á þeim grundvelli, að með þessu sé verið að binda ríkinu einhverja skelfilega bagga umfram það, sem það þyrfti ella að taka á sig.

Ég legg áherzlu á, að ég er ekki með fylgi mínu við þetta mál að hverfa frá samskólastefnu, hverfa frá því að piltar og stúlkur yfirleitt eigi að vera saman í skólum, enda er nýbúið að samþykkja hér í hv. d. nýja menntaskólalöggjöf, þar sem þessi stefna er mótuð áfram, þ. e. sama stefna og fylgt hefur verið með þessari einu undantekningu á gagnfræðastiginu í Kvennaskólanum. Ég lít þannig á, að það þurfi enga sérkennslu fyrir konur á gagnfræðastiginu, og heldur ekki til stúdentsprófa. Ég vil taka þetta alveg skýrt fram. Ég fylgi ekki þessu máli á þeim grundvelli, að það þurfi að kenna konum eitt eða neitt sérstaklega í menntaskólum eða gagnfræðaskólum. Ég álit, að það eigi yfirleitt að kenna báðum kynjum saman og það sama. Fylgi mitt við frv. er byggt á allt öðru, eins og ég þegar hef greint lauslega frá.

Það er mjög athyglisvert, hvað þetta frv. hefur vakið mikla athygli, og ég held, að það sé skynsamlegt að gefa því gaum. Umræður þær, sem orðið hafa út af þessu frv., eru að mínu viti mjög athygli verðar og á ýmsan hátt vafalaust tímabærar. Þó að það hefði ekki þurft að skeyta þær umr. við þetta mál, þá er samt skynsamlegt að gera sér grein fyrir því, að þetta mál hefur snert ýmsa mjög með sérstökum hætti — einmitt þetta mál. Andstaðan við málið er sem sé flutt á þann hátt, að það eigi ekki að koma til greina, að nokkurs staðar í þjóðfélaginu eigi sér stað aðskilnaður kynjanna. Það eigi á öllum sviðum að kveða niður þann gamla draug, að konur séu þjóðfélagslega svo sérstaklega settar, að réttlátt sé eða eðlilegt að skipa þeim sér í sveit, og sízt af öllu að sérsveitir kvenna eigi ekki að hafa sömu stöðu að öllu leyti og karlar. Þetta hefur dregizt mjög inn í þessar umr., og þetta er málefni, sem áreiðanlega þarf að ræða talsvert mikið um, að vísu ekki endilega í sambandi við þetta mál. En að því leyti, sem þessar umr. um Kvennaskólann hafa nálgazt þetta, finnst mér vera mjög mikill ávinningur að þeim.

Það er engin tilviljun, að þetta mál vekur svo mikinn áhuga meðal kvenna, og rétt að menn geri sér alveg grein fyrir því. Ég tel, að það stafi af því, að konur eru yfirleitt óánægðar með stöðu sína og áhrif í þjóðfélaginu. Og ég verð að segja, að mér finnst það ekkert undarlegt. Það er t. d. mjög athyglisvert, að eftir meira en hálfrar aldar kosningajafnrétti karla og kvenna, er aðeins ein kona á Alþ. Og eitthvað svipað er ástatt víða utan Alþingis, þar sem örlagaríkar ákvarðanir eru teknar í þjóðfélaginu. Ég hygg, að það sé þetta, sem býr í undirvitundinni, þegar ýmsar konur tala um þetta mál sem verulegt prinsippmál, og að það sé spor aftur á bak að hafa sérskóla fyrir konur.

Fyrst ég er kominn hér og farinn að ræða þetta, þá langar mig til þess að segja, að ég er þeirrar skoðunar eftir langa reynslu af félagsmálavinnu og pólitískri vinnu, að ástæðan til þess, hvernig þessi mál standa varðandi þátttöku kvenna í örlagaríkum ákvörðunum og á þýðingarmiklum þjóðfélagssamkomum eins og Alþ., sé fyrst og fremst sú, að konurnar einangra sig of mikið sjálfar í félagslegri vinnu. Ég segi alveg hiklaust eftir mína löngu reynslu í þessu, að það hefur fátt valdið mér meiri vonbrigðum en það, hve fáar konur taka þátt í almennu pólitísku félagsstarfi, og hve fáar konur ganga fram fyrir skjöldu í pólitískri baráttu. Samt eru margar konur hamhleypur í félagsmálastarfi. Það er staðreynd, en þær starfa flestar í félögum með takmörkuð verksvið og fjöldinn allur af konunum í félögum, sem einungis eru ætluð konum. Að mínu viti ná konur aldrei réttri hlutdeild í þjóðlífinu með þessu móti — aldrei — og þá allra sízt í þeim ákvörðunum, sem venjulega varða mestu, þ. e. a. s. þeim pólitísku. Það er ekki hægt með þessu móti. Konur verða að gera sér grein fyrir þessu og breyta eftir því og taka upp algerlega nýjar aðferðir að mínum dómi. Og þá fyrst og fremst í vinnu sinni í stjórnmálaflokkunum. Flokkarnir verða að vera til, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Lýðræðið og þingræðið byggist á því, og við verðum að gera okkur grein fyrir því, að engum dettur lengur í hug að velja sér pólitískt sálufélag eftir kynferði. Hvaða manni dytti t. d. í hug, að við þessir 59 karlar hér á Alþingi ættum að vera í pólitísku sálufélagi, allir, en eina konan hér, þ. e. a. s. Auður Auðuns, ætti að vera ein á báti?Þetta væri auðvitað alger fjarstæða. Þetta væri samt bara ýkt mynd af því gamla kerfi, sem við búum í raun réttri enn við að sumu leyti í þessum efnum.

Það er þýðingarmest af öllu að mínu viti, að konurnar geri sér grein fyrir því, að karlmennirnir koma þessum málum aldrei í lag fyrir þær, og þeir hreinlega geta það ekki. Það er alls ekki á þeirra valdi. Flokksleiðtogar t. d., sem auðvitað vilja fá konurnar til þess að berjast fyrir þeim málstað, sem þeir eru oddvitar fyrir, þeir geta það ekki, þeim er það um megn. Það er alveg út í hött, og þjónar engum skynsamlegum tilgangi og allra sízt, að konum sé gerður greiði með því að kenna stjórnmálamönnum, þ. e. karlmönnum í stjórnmálum um þetta ástand, og þetta sé körlum upp til hópa að kenna. Þótt þeir karlar séu að sjálfsögðu til, sem með eigingirni sinni eða þröngsýni torvelda konum sínum þátttöku í opinberu lífi, þá sjáum við það samt á mikilli þátttöku kvenna í öðrum félögum en stjórnmálafélögum að þetta er ekki aðalástæðan.

Leiðin er því sú að mínu viti, að konurnar rjúfi sjálfar einangrun sína í félags- og þjóðfélagsmálum með því að taka upp störf og baráttu með karlmönnum og eins og karlmenn, og taki áhugamál sín — því þær hafa mörg sérstök áhugamál, sem eftir eðli málsins sækja meira á þær að leysa en karla, og sem þær þekkja betur — taki þessi áhugamál með sér inn í þetta almenna starf. Taki þau með sér inn í þetta almenna þjóðmálastarf, en fáist ekki eins mikið og hingað til við þessi málefni sér í lagi. Auðvitað kostar öll pólitísk barátta gífurlegar fórnir og gífurlegt erfiði. Hún kostar t. d. oft það að fórna heimilislífi og öðru slíku. Hún veldur óskaplegum vandkvæðum á heimilum og gerir þá kröfu til karla, að þeir taki þátt í því engu síður en konur að hugsa um heimilin á meðan konan berst úti við. En þetta er nú þegar gert, því að sumar konur taka gífurlega mikinn þátt í félagsmálastarfi, en vinnutilhögun kvenna er að mínu áliti röng, þær einangra sig of mikið, og það er höfuðástæðan fyrir því, hversu lítið gengur fram á við í þessu. Og ég segi enn, að konum er enginn greiði gerður með því að taka undir söng, að þeim séu allar leiðir lokaðar af karlmönnum. Þeim er enginn greiði gerður með slíku, því það er ekki rétt. Leiðirnar eru opnar, ef réttum starfsaðferðum er beitt og konur nota réttindi sín skynsamlega.

Ég gat ekki stillt mig um að minnast á þennan þátt, því að það er áreiðanlegt, að það eru hugsanir af þessu tagi, sem koma upp í sambandi við Kvennaskólamálið, og í sambandi við stöðu konunnar fyrr og nú, og hvernig gengur í þeim málum. Fjöldinn allur af konum, ekki sízt ungu konurnar, finnur það, að þessi mál eru í meira og minna ólestri. Ég held þess vegna, að það sé skynsamlegt að nota einmitt þetta mál til þess að benda á þessi atriði, en hitt vil ég líka segja, að það er náttúrlega ástæða til að gleðjast yfir því, að vandamál kvenna eru ekki eins illkynjuð og þau áður voru, þegar það er orðið eitt af því versta, sem getur komið fyrir þær að sumra þeirra dómi, að Kvennaskólinn fái heimild til þess að útskrifa stúdenta í stað þess að verða að láta sér nægja að útskrifa gagnfræðinga eins og áður.

Ég hygg, að þetta mál hafi orðið svo mjög að umræðuefni vegna þess, að það minnir á stöðu kvenna almennt og það kemur upp þessi hugsun, að konur vilji alls ekki, að það sé litið á þær í einu eða neinu sem sérstakt fyrirbrigði, sem eigi að ætla annan vettvang félagslega séð en körlum og ekki í skólum heldur, og það er skoðun, sem ég tek alveg fullkomlega undir. Ég vildi nota þetta tækifæri til þess að benda á hin sérstöku félagslegu vandamál kvenna, og hvar ég held, að vandinn liggi, og að hann leysist aldrei nema með breyttum vinnuaðferðum af hendi kvennanna sjálfra og það einmitt á þennan hátt — að einangrun þeirra í félagsstarfinu verði látin hverfa sem allra mest.

Ég endurtek svo ekki það, sem ég hef áður sagt um þetta mál sjálft. Ég fylgi þessu máli, eins og ég tók fram í upphafi þessara orða. Ég fylgi því ekki sem prinsippmáli heldur vil ég veita Kvennaskólanum, sem nú hefur réttindi til þess að útskrifa gagnfræðinga og landsprófsfólk, ný réttindi, eins og ég orðaði það á öðrum stað, í samræmi við tíðarandann til þess að halda áfram að starfa. En mér finnst að þeir, sem ekki vilja það, ættu í raun og veru að taka þá upp hreinskilnislega baráttu fyrir því að leggja Kvennaskólann niður, að banna hann, því það væri rökrétt frá þeirra sjónarmiði séð. Það er ekki hægt að samþ. brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. þm., Magnúsi Kjartanssyni. Hann vill að vísu leyfa skólanum að starfa áfram eins og hann starfar nú, en gera það að skilyrði fyrir því, að skólinn fái heimild til þess að útskrifa stúdenta, að karlar fái þar aðgang eins og konur. Hann vill sem sagt ekki leyfa sérskóla lengra áleiðis en til enda gagnfræðastigsins. Ég vil leggja áherzlu á, að eins og sést á þessu m. a., er hér um stigmun að ræða, en ekki stefnumun.