02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (2285)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal vera frekar stuttorður um þetta mál. Ég tel ákaflega eðlilegt, að það fái afgreiðslu út úr þessari hv. d. núna, áður en þingið gerir hlé á störfum sínum. Það hefur verið á það minnt hérna, hvernig þetta mál er flutt nú. Hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, gerði það að umræðuefni og þótti það skrýtið, að frv. skyldi ekki vera flutt af ríkisstj., heldur á þann veg, sem það var gert, bæði í fyrra og nú. Það var flutt af hv. menntmn. Það er eitt, sem mér finnst skrýtið, og það er það, að hv. þm. Magnús Kjartansson var meðal flm. frv. í fyrra, fyrir ári síðan. Hann átti þá og á sæti í menntmn. Alþ. og var einn af flm. frv., þegar það var leitt hér inn á Alþ. í fyrra, eins og þskj. bera með sér. Við meðferð málsins á þinginu í fyrra kom hins vegar í ljós, að hann notaði þann rétt, sem hann og aðrir nm. áskildu sér, að fylgja eða flytja brtt. við málið, og hann reyndist svo að vera, þegar til stykkisins kom, andvígur málinu, og gerðist svo ekki flm. að málinu núna í byrjun þessa þings, en meiri hl. n. stóð við sína fyrri afstöðu og flutti málið á ný.

Um fjölgun menntaskólanna skal ég vera fáorður. Ég játa það fyllilega, að það væri kannske miklu brýnni þörf á því að huga að fleiri þáttum íslenzkra menntamála heldur en fjölgun menntaskóla, þó að menntaskólar séu vissulega gildur þáttur í skólakerfi þjóðarinnar. Og þar er mikið verk að vinna, sem ekki á að þurfa neitt að setja til hliðar eða láta gjalda þess, þó að eðlilegum kröfum sé sinnt í menntaskolamálunum. Það var ungað út einum menntaskóla í Reykjavík á liðnu ári þarna við Tjörnina. Ég álít, að það hefði verið skynsamlegra að staðsetja þann skóla annars staðar á Reykjavíkursvæðinu, t. d. annað hvort á Kópavogs- eða Hafnarfjarðarsvæðinu. En það er staðsetningaratriði, og ég geri ráð fyrir, að það geti alveg verið opið til athugunar enn, þó að skólanum hafi verið valið þarna bráðabirgðahúsnæði, sem fáanlegt var hérna við Tjörnina, og hann hafi byrjað starfsemi sína þar. En það er leiguhúsnæði, sem er ekki til frambúðar, og ég vildi vænta þess, að það sjónarmið yrði tekið til athugunar um staðsetningu þess skóla, hvort hann væri ekki betur settur á Hafnarfjarðar- eða Kópavogssvæði. Og get ég þá ekki neitað því, að sem söguleg rök varðandi það mál, þó að það séu ekki aðalrök, kemur mér hinn gamli og virti Flensborgarskóli í hug.

Þá vil ég taka það fram, sem varla á að þurfa, að það er mér ekkert undrunarefni, þó að hæstv. ríkisstj. hafi strax í fyrra gert sér það ljóst, að þetta mál gat eðli sínu samkv. ekki verið flokksmál. Það hlaut að vera augljóst öllum mönnum, að menn gátu haft á þessu mismunandi skoðanir í sama flokki, og þannig var það í öllum flokkunum og er sennilega í öllum flokkunum. Það var því ákaflega eðlilegur flutningsmáti að biðja þn. með fulltrúa úr öllum flokkum að flytja þetta mál, sem var gert. Ég er því ekkert undrandi á því, þó að því væri hagað þannig.

Þá vil ég minna á það næst sem meginatriði í málinu, að hér er ekki verið að raska samskólakerfinu á Íslandi. Samskólakerfið er yfirgnæfandi í okkar skólakerfi neðan frá og upp úr. Barnaskólarnir samskólar, gagnfræðaskólarnir yfirleitt samskólar, menntaskólarnir samskólar. Að vísu eru starfandi um 20 skólar í landinu, sem í reynd eru annað hvort fyrir karla eða konur. Í þeim skólum eru þúsundir af ungu fólki, sem stundar ýmiss konar nám, í þjónustu atvinnulífs og þjónustustarfa aðallega, og veit ég ekki til, að það hafi nokkur þjóðarógæfa af slíku skólahaldi stafað.Það verð ég að segja. Á gagnfræðaskólastiginu hefur svo verið til ein undantekning. En til þess að staðfesta reglu, þarf undantekningu. Undantekning staðfestir regluna, segja menn, og þessi eina undantekning er Kvennaskólinn í Reykjavík. Og hann hefur starfað, eins og alkunnugt er, á gagnfræðaskólastiginu. Það er ætlunin, að þessi undantekning fái að vera við lýði á menntaskólastiginu, og hvað er eðlilegra, þegar við gerum okkur það ljóst, að kröfurnar um stúdentspróf, stúdentsmenntun, eru nú orðnar eins almennar og algildar og kröfurnar um gagnfræðamenntun voru fyrir 20–30 árum. Þegar það var almenn menntunarkrafa, þá kom bylgja, sem leiddi af sér byggingu fjölmargra gagnfræðaskóla samkv. gagnfræðaskólalöggjöfinni 1930 og héraðsskólanna í sveitunum. Gagnfræðapróf og gagnfræðamenntun var þá almenn menntunarkrafa þjóðarinnar. Núna er það almennt álitið, að stúdentsmenntun eigi að vera sá almenni menntunargrundvöllur, sem ungir menn og ungar stúlkur eigi aðgang að eftir sinni vild og getu eftir því, sem hæfileikar og vilji standa til. Og ég álít, að hæstv. menntmrh. og ríkisstj. hafi að þessu leyti aðeins verið að svara breyttum kröfum tímans, þegar þeir hafa fjölgað menntaskólunum svo sem gert hefur verið á undanförnum árum. Það var fyrir þessu, sem andstaðan við menntaskóla á Vestfjörðum og Austfjörðum féll. Það var ekki hægt að standa á móti málunum lengur. En afturhaldssemin hafði prýðilega enzt í 20 ár til þess að berjast á móti þessum sjálfsögðu kröfum um menntaskóla úti á landsbyggðinni. En hún er að láta undan hinum almennu kröfum í þjóðfélaginu um að jafna aðstöðu fólks til menntunar, þeirrar almennu menntunar, sem þá var krafizt, þ. e. a. s. stúdentsprófs. Og hvernig standa þá málin. Ég tók eftir því, að hv. 4. þm. Austf. barmaði sér yfir því, hann fullyrti það, að hann yrði á móti þessu máli af því, að það væri ýmislegt vangert í skólamálum Austfirðinga á menntaskólastiginu. Ég spyr nú: Eru Austfirðingar búnir að koma sér saman um skólastað? (Gripið fram í.) Er búið að ákveða það? (Gripið fram í.) Nú, já. Svo mikið er víst, að það er búið að heita því, að menntaskólamál Vestfirðinga, sem fylgdust alltaf að með Austfirðingamálinu, að það verði hafizt handa við þau á komandi hausti og menntaskólinn þar hefji störf með þeirri deild, sem Gagnfræðaskólinn á Ísafirði hefur fengið að starfrækja um langt skeið og annarri deild í viðbót. Það mál tel ég því vel komið í höfn, og svo mikið er víst, að það er búið að lögbjóða menntaskóla á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Hvernig standa þá menntaskólamálin núna? Þau standa þannig, að það eru þrír menntaskólar í Reykjavík — almenni menntaskólinn við Lækjargötu, Hamrahlíðarskólinn og svo nýi skólinn við Tjörnina — og tveir skólar, sem hafa rétt til þess að hafa menntadeildir í sambandi við starfsemi sína, Verzlunarskólinn og Kennaraskólinn. Þannig stendur það. En úti á landsbyggðinni eru lögfestir sem menntaskólar, Akureyrarskólinn, það er rétt að telja hann fyrst, Akureyrarskólinn, Laugarvatnsskólinn, Ísafjarðarskólinn og Austfjarðaskólinn. Þannig eru lög í landinu núna — fjórir skólar utan Reykjavíkursvæðisins og þrír menntaskólar á Reykjavíkursvæðinu og tveir skólar, sem hafa menntadeildir, Kennaraskólinn og Verzlunarskólinn. Á Reykjavíkursvæðinu er meira en helmingur þjóðarinnar. Mér sýnist því, að það sé nokkuð eðlileg skipan á þessum málum, eins og þau standa nú samkv. lögum. Og það er loks svo komið við lögfestingu Austfjarða- og Vestfjarðaskólans, að það er vafasamt, að það halli nokkuð á landsbyggðina, þegar þessi loforð hafa verið efnd, þegar þessi lagaákvæði hafa komizt í framkvæmd.

Það hefur verið sagt, að það sé óeðlilegt að hverfa frá skólakerfinu frá 1946, sem gerir ráð fyrir því,að menntaskólarnir hafi ekki gagnfræðadeildir. Það að tengja þannig saman gagnfræðadeild og lærdómsdeild í sama skóla sé óeðlilegt og hafi verið óeðlilegt síðan almenna skólalöggjöfin var sett 1946. En þetta er ekki nýmæli nú með Kvennaskólann. Eins og ég var að enda við að nefna, þá eru slíkar framhaldsmenntadeildir við tvo skóla í Reykjavík, Verzlunarskólann og Kennaraskóla Íslands. Hér er því aðeins um það að ræða að ekki er brotin braut, ekki heldur að þessu leyti, heldur aðeins þriðja tilfellinu bætt við, þar sem lærdómsdeild kemur í sambandi við annan skóla eins og við þá tvo, sem fyrir eru. Og ef mig misminnir ekki mikið, þá var það nú enginn afturhaldsraftur, sem sat á menntamálaráðherrastóli 1946, þegar nýja skólalöggjöfin þá var sett. Það var páfi kommúnismans á Íslandi, Brynjólfur Bjarnason. Og við skulum halda það, að hann hafi ekki verið að fara inn á neinar villigötur í kynferðislegum fasisma. Það vil ég a. m. k. vona. Hann staðfesti þá reglu, að Kvennaskólinn mætti starfa á gagnfræðaskólastiginu sem sérskóli, og hann hefur haft þann rétt síðan. Er það ekki óttalegt þetta, að hugsa sér það, að stúlkurnar í Kvennaskólanum og úr öðrum skólum, sem kynnu að vilja stunda nám í sérskóla, eigi að sitja þarna við bóknám 5 stundir á dag út af fyrir sig án þess að hafa samneyti við pilta? Er það ekki óttaleg misþyrming á eðli manneskjunnar? Ég held ekki. Ég held, að menn geti starfað að hvaða starfi sem er — og nám er starf — án þess að bíða tjón á sál eða líkama, þó að vinnuflokkar karla séu út af fyrir sig, hvort sem það er á vinnustað eða í skóla, eða konur út af fyrir sig, og ekki skipti mjög miklu máli, hvort vinnustaðurinn er blandaður eða ekki. Ef litið er ofstækislaust á málið, þá er það svona. Það er ekki stórmál.

En nú skulum við segja, að andstæðingum kvennaskólamálsins takist að fella það. Hvað gerist þá? Það sama og gerzt hefur hingað til, að stúlkurnar úr Kvennaskólanum, sem halda áfram námi, fara til menntaskólanáms í einhvern af menntaskólunum, sennilegt að margar þeirra fari hérna í hinn almenna, gamla menntaskóla við Lækjargötu. Og hvað þá? Þá verða þær settar þar í kvennabekki, sama ógæfan vofir yfir þeim, þær verða að vera sér í kennslustundum, 5–6 stundir á dag. Þetta er staðreynd. Síðasta Menntaskólaskýrslan í Reykjavík, fyrir árið 1968–1969, sýnir það, að þar eru kvennadeildir og piltadeildir. Breytingin er engin. Sama hörmungin með stúlkurnar, ef Kvennaskólanum verður synjað um það að brautskrá stúdenta, og það er eingöngu þetta, að þær eru nokkur hundruð metra hérna lengra upp með Lækjargötunni, ef Kvennaskólinn öðlast þessi réttindi, sem hann biður um, en annars verða þær hérna í hinum almenna, gamla menntaskóla í kvennabekk.

Já, það er alveg furðulegt, hvernig neikvæðum ofstækisöflum hefur tekizt að blása þetta smámál upp í stórmál. En þeim verður drjúgt að verki, þegar þau eru látin ein um hituna, sem allt of oft er gert. Þar að auki sé ég ekkert samræmi í því, því að það er staðreynd, að Gagnfræðaskólinn á Akureyri þokaði sínu máli fram um menntaskóla Norðurlands að hefja kennslu, frá heimild til kennslu á lærdómsdeildarstigri og varð síðan að senda sína stúdenta fyrstu frá sér undir próf, undir dóm hér í Menntaskólanum í Reykjavík. En síðan fékk hann löggjöfina í gegn og menntaskóli Norðurlands reis af grunni og varð eitt nýtt vígi íslenzkrar menningar.

Á sama hátt hófst baráttan á Laugarvatni. Þar var fyrst og fremst barizt fyrir því að fá rétt til þess, að menntaskólakennsla færi þar fram í tengslum við Laugarvatnsskólann, og að síðustu var fullnaðarsigur unninn, löggjöf sett um Menntaskólann á Laugarvatni og nákvæmlega sama sagan á Ísafirði. Þar var hafizt handa um kennslu á menntaskólastigi við gagnfræðaskólann þar og síðan barizt fyrir málinu, þangað til þróun tímans hafði lyft undir það og átt sinn drjúga þátt í að bjarga því í höfn. Þessir skólar hafa allir fengið aðstöðu til þess að fylgja sínum nemendum eftir og síðan hefur verið sett löggjöf um sjálfstæðan menntaskóla á þessum stöðum, sem ég hef nefnt. Að deildir séu við aðra skóla, fyrir því eru fordæmi líka, þar sem bæði er Verzlunarskólinn og Kennaraskólinn, svo að menntadeildir eru líka við skóla, eins og hér er verið að fara fram á við Kvennaskólann. Allar þær stúlkur, sem vilja fara í sérskóla, eiga þess vissulega rétt, því að þær geta valið um alla þá menntaskóla í landinu, sem fyrir eru og allir eru samskólar. Ekki er því gert á hluta þeirra. En er þá þröngt fyrir dyrum um námsval pilta með því að samþykkja þetta frv.? Ég sé það ekki heldur. Ég veit ekki annað en þeir eigi aðgang að samskólum alveg eftir sinni vild og bætti lítið úr, þó að einum litlum skóla með 30–40 nemendum væri bætt þar við þeirra valkosti.

Ég tók eftir því, að hæstv. menntmrh. sagði áðan: „Ég taldi ekki rétt, að ég og ríkisstj. stæðum gegn því, að ný námsleið opnaðist á menntaskólastiginu.“ Þetta tel ég nokkuð eðlilegt, en ég bæti við og segi: Ég tel ekki eðlilegt, að Alþingi Íslendinga standi gegn því, að ný námsleið opnist á menntaskólastiginu.

Það er upplýst, að Kvennaskólinn í Reykjavík hefur aðstöðu til þess að láta þessa umbeðnu kennslu fara fram í sínum húsakynnum fyrstu tvö árin. Á þessum tveimur árum sker reynslan algerlega úr um það, hvort menntadeild við Kvennaskólann fær aðsókn eða ekki. Ef þessi tvö ár skera úr á þann hátt, að deildin fái fullnægjandi aðsókn, þá kemur auðvitað að því að byggja yfir þann menntaskóla. En er það nokkur sérstakur kostnaður umfram það, sem aðrar lausnir málsins leiða af sér? Mundi ekki verða að byggja frá grunni yfir hvern þann nýjan menntaskóla, sem heimilaður væri? Ég held það. Ég held, að það sé mikið atriði í málinu. Við, sem erum samskólamenn, teljum, að það sé eðlilegt, að þeir, sem vilja heldur sérskóla, hafi einn möguleika, og hér er ekki verið að opna neinar nýjar leiðir, heldur að heimila framhaldsréttindi, sem fyrir eru hjá hinum starfandi skóla.

Ég tel það þröngsýni en ekki víðsýni að vilja ekki heimila neinn sérskóla í landinu á menntaskólastiginu, eins og verið hefur og góð reynsla fengizt af á gagnfræðaskólastiginu. Þar er ekki umturnað neinu í okkar skólakerfi, og það er ekki verið að fara fram á það að skerða réttindi nokkurs einstaklings né nokkurs skóla í landinu með þessu frv. Ég tel því einsætt, að Alþ. á ekki að loka þeirri leið, sem hér er farið fram á. Það á að samþykkja þetta frv. og heimila þannig einn sérskóla í landinu á menntaskólastiginu, eins og verið hefur um áratugi á gagnfræðaskólastiginu. Till. Magnúsar Kjartanssonar er eingöngu fram borin til þess að synja um óskir Kvennaskólans og stjórnenda hans um að fá að brautskrá stúdenta og hafa menntaskóladeild fyrir stúlkur. Það tel ég ekki rétt, því að ég mundi telja, að það eigi að svara játandi, en ekki að loka þeim leiðum, sem það opnar.