02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (2287)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Umr. um þetta mál hafa nú staðið nær allan venjulegan fundartíma hv. d., og ég skal ekki lengja þær, segja aðeins örfá orð. Ég stend raunar aðallega upp til þess að taka undir þau orð, sem féllu í ræðu hv. 1. þm. Austf. hér áðan. Ég er honum svo sannarlega sammála um það, að það er skaði fyrir þjóðlíf okkar allt, hversu fáar konur taka þátt í þeim málum, sem venjulega eru nefnd þjóðmál. Ég mundi telja, að hv. Alþ. væri miklu betur skipað, ef hér ættu sæti fleiri konur, og felst þó enginn broddur í þessum orðum mínum til minna ágætu þingbræðra, sem allir eru hæfileikamenn miklir.

Ég var staddur á sveitarstjórnaráðstefnu, sem var haldin hér í Reykjavík á vegum Sjálfstæðisflokksins í gær og fyrradag. Þar komu fram þær upplýsingar, að í bæjarstjórnum og sveitarstjórnum í landinu munu sitja á 12. hundrað manns, ég man ekki töluna nákvæmlega. En af öllum þessum mannfjölda munu eiga sæti í bæjar- og sveitarstjórnum rúmlega 30 konur. Þetta tel ég ekki vera góða þróun í þjóðlífi okkar. Undir störf sveitarstjórna heyra ýmiss konar félagsmál, og með allri virðingu fyrir okkur karlmönnunum, þá er það mín skoðun, að konur séu okkur hæfari til þess að starfa að slíkum málum í flestum tilfellum.

Því hefur verið haldið fram í umr. um þetta mál, að ég og aðrir þeir, sem hafa greitt því atkv. hér í þingsölum, hafi gert það vegna áróðurs, að við höfum legið undir áróðri reykvískra kvenna og að við styðjum málið vegna kunningsskapar okkar við þær. Þetta er ekki rétt, hvað mig snertir, því þó ég þekki margar konur hér í Reykjavík, þá hafa þær ekki beitt mig neinum áróðri í þessu máli. Stuðningur minn í málinu er einfaldur og fljótsagður, og fljótskýrður. Hann er einfaldlega sá að ég sé hér opnast leið til þess, að fleiri ungmenni en ella njóti stúdentsmenntunar og verði stúdentar, því að það er skoðun mín, að sem flest ungmenni, sem hafa til þess getu og vilja, eigi að njóta stúdentsmenntunar. Ég tek undir það, sem hv. 1. þm. Austf. sagði hér áðan, að það er ekki orðinn svo mikill stigsmunur á stúdentsmenntun í dag og á gagnfræðanámi, t. d. þegar ég var að alast upp. Þetta er einföld afstaða mín í þessu máli, og á þessu byggist stuðningur minn við það.

Ég veit ósköp vel, að það eru til þeir menn, sem halda því fram, að það sé orðið allt of margt um stúdenta í okkar þjóðfélagi — allt of margt af fólki, sem nýtur þessarar menntunar. Það kom fram hér við 1. umr. um þetta mál, og þá sagði jafnvel einn hv. þm., að það ætti raunar ekki að leyfa öðrum en miðlungsmönnum að stunda stúdentsnám og verða stúdentar. Ég er alveg á öndverðum meiði við þennan hv. þm. Ég vil leyfa öllum að njóta stúdentsmenntunar, eins og ég sagði, sem hafa á því vilja og getu, og þegar það liggur fyrir; að skóli, velmetinn skóli, hefur kennarakrafta til þess að sinna þessu verkefni að kenna undir stúdentspróf, þá sé ég ekki nokkra ástæðu til þess að amast við því. Ég skal taka það fram, að ég er hlynntur því, að aðalreglan skuli vera sú, að skólar okkar skuli vera samskólar. En það er, eins og hv. 9. þm. Reykv. sagði, engin regla til án undantekningar og hefur aldrei verið og mun aldrei verða.

Það hefur orðið talsverður hávaði í þjóðlífi okkar út af þessu máli nú að undanförnu og er þó raunar einkennilegt, þegar við minnumst þess, að þegar þetta mál var hér á dagskrá á þinginu í fyrra heyrðist hvorki stuna né hósti gegn því. Því miður verð ég að halda því fram, að a. m. k. einhver hluti af þeim hávaða, sem orðið hefur um málið nú, sé sprottinn undan rifjum þeirra afla í þjóðfélagi okkar, sem kæra sig ekkert um það, að við lifum í friðsömu þjóðfélagi.