02.02.1970
Neðri deild: 52. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (2291)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er nokkuð langt, síðan ég kvaddi mér hljóðs, og eru nú víst síðustu forvöð að leggja hér orð í belg, því að mér sýnist það vera ætlun þeirra, sem hér stjórna verkum, að ljúka þessu máli hér í d. í kvöld. Skil ég þó ekki, að það geti orðið til neins tjóns, að menn hefðu geymt þetta mál fram yfir þinghléið og athugað það nokkru nánar.

Ég hef ekki tekið til máls fyrr um þetta frv., en hins vegar hef ég hlýtt á margar ræður, bæði hér innan þings og utan. Ég vil nú aðeins með fáum orðum gera grein fyrir þeirri afstöðu, sem ég tók til málsins við 2, umr. og mun hafa einnig við atkvgr. nú.

Ég ætla ekki að rekja hér sögu þeirra atburða, sem gerðust á öldinni, sem leið, og ekki heldur ræða hér um stofnun Kvennaskólans í Reykjavík á 8. tug aldarinnar. Það hefur verið nokkuð vikið að henni hér áður. Ég hygg, að kennslan í þessum skóla hafi verið með ýmsu móti, en þegar kom fram á þessa öld eða í kringum 1920, þá var þar um tvenns konar kennslu að ræða — annars vegar um almenna kennslu, sem svipaði til gagnfræðaskóla, og hins vegar svokallaða hússtjórnardeild, sem einnig var í Kvennaskólahúsinu, og voru þær stúlkur, sem í henni voru, í heimavist í skólanum. Þessi hússtjórnardeild hefur fyrir nokkuð löngu verið lögð niður, en nú síðustu áratugina hefur Kvennaskólinn starfað sem einn af gagnfræðaskólum Reykjavíkurborgar með 3 bekkjum, sem veittu miðskólapróf eða landspróf, auk 4. bekkjar, eins og í öðrum gagnfræðaskólum. Reksturskostnaður þessa skóla er greiddur af bæ og ríki eins og annarra gagnfræðaskóla og einnig viðhald skólahússins, og kennarar eru settir eða skipaðir af menntmrh. En húsið sjálft og lóðin, sem því tilheyrir, og eitthvað af sjóðum skólans mun vera í eigu sérstakrar stofnunar eða félags og ekki vera greidd leiga fyrir húsið. Þetta hefur mér verið tjáð af fræðsluyfirvöldum, að þannig væri þessu háttað.

Nú hefur Kvennaskólinn farið fram á það, eða það hefur verið farið fram á það af hálfu Kvennaskólans, að hann fengi að bæta við sig fjögurra bekkja menntaskóla án deildarskiptingar á svipaðan hátt og menntaskólinn í Reykjavík áður var, áður en honum var skipt í máladeild og stærðfræðideild. Ég geri ráð fyrir því, að það sé stjórn þessa Kvennaskólafélags, sem hefur farið fram á þetta, eða kennararnir við skólann, og að það sé því kannske ekki rétt af mér að segja, að það sé skólinn, sem hafi borið fram þessa ósk, því að það hefur komið fram síðar, að a. m. k. æði mikill hluti af nemendum skólans, að mér hefur verið sagt, sé ekki þessa fýsandi. Kvennaskólinn hefur verið talinn góður gagnfræðaskóli, og aðsókn að honum hefur verið það mikil, að mér skilst, að árlega hafi verið vísað nokkuð mörgum umsækjendum frá skólavist. Það bendir í raun og veru ekki til þess, að þar sé húsrými afgangs til þess að starfrækja þar menntaskóla. Mér sýnist, að ef á að samþykkja þetta frv. um að veita Kvennaskólanum slíkt leyfi, sem hér greinir, þá hrökkvi það nú skammt að velta leyfið, það þurfi meira til en leyfið að starfrækja menntaskóla. Það þarf líka stofnkostnað og reksturskostnað til þess, og hér stendur í 3. gr., að kostnaður við menntadeild Kvennaskólans greiðist ú.r ríkissjóði. Ég fæ því ekki annað séð, en að þarna sé um að ræða að stofna á ríkis kostnað nýjan menntaskóla í tengslum við Kvennaskólann, og þá er gert ráð fyrir, að þessi menntaskóli verði fyrir konur eingöngu. Nú er ég ekkert sérfróður í uppeldismálum, og ég skal ekki leggja neinn dóm á það, hvort þörf sé á, að konur stundi almennt nám, eins og gagnfræðanám og menntaskólanám, í sérstökum skólum. Ég hef heyrt ýmislegt sagt um þetta með og á móti. En það sýnist mér þó, að ef þörf er talin á sérskólum fyrir ungar konur í almennum fræðum, eins og hér er um að ræða, þá sé sú þörf meiri fyrir ungar konur á gagnfræðastigi heldur en á menntaskólastigi. Og þess vegna ætti, ef það skyldi nú koma fram, eins og vikið er hér að í bréfi frá Kvennaskólanum, að þarna sé eitthvert húsrúm afgangs, skólinn heldur að nota það til þess að veita inngöngu þeim ungu stúlkum um fermingaraldur, sem nú sækja um skólann, heldur en að fara að óska eftir því að hafa þar menntaskóladeild. Það er nú þeirra mál, sem að því standa, út af fyrir sig, afstaðan til þeirra, sem um skólann sækja og fá þar ekki inngöngu. En hitt er mál ríkisins, hvort rétt sé að setja þarna á stofn eftir ósk þessara aðila sérstakan menntaskóla fyrir konur á þessum stað. Mér sýnist það ákaflega hæpið, að við hér á Alþ. förum að taka ákvörðun um að leggja fé til þess. Ég held, að það sé meiri þörf á að auka skólahúsnæði annars staðar og verja ríkisfé til þess.

Hér í Reykjavík hygg ég, að af svokölluðum framhaldsskólum þá sé húsnæðisskortur einna mestur í Kennaraskólanum, sem nú er einnig orðinn stúdentaskóli. Það er alkunna um hvílík vandræði þar er að ræða, því aðsókn að þessum skóla hefur margfaldazt og öllum verið leyfð innganga, sem um hafa sótt og fullnægt hafa inntökuskilyrðum. Ég hef það fyrir satt, að skólinn sé vistaður á ýmsum stöðum í bænum, sums staðar í mjög lélegu húsnæði, og jafnvel sé það svo um suma bekki þar, að þeir eigi ekki þess kost að sækja skóla nema annan hvern dag eða svo. Það eru náttúrlega hrein vandræði, því verður ekki neitað. Einnig er það auðvitað svo, eins og hér var drepið á í ræðu í dag, að húsnæði hins upprennandi tækniskóla hér í Reykjavík mun vera mjög ófullnægjandi ennþá, því miður, og tækjakostur hans, og í l. um tækniskóla hefur verið gert ráð fyrir því, að annar tækniskóli verði stofnaður á Akureyri. Af hálfu ríkisins hefur ekkert verið gert ennþá til þess að koma því í framkvæmd. Þar er að vísu starfandi undirbúningsdeild, en enginn reglulegur tækniskóli ennþá, ekki einu sinni fyrsta árs skóli. Og ríkið hefur ekkert gert í þá átt að byggja yfir þessa stofnun þar.

Ég þarf ekki að endurtaka það, sem hér hefur verið sagt um þá löggjöf, sem sett hefur verið um menntaskóla bæði á Vestfjörðum og Austurlandi. Þetta er enn þá pappírslöggjöf, og hefur ekkert fé verið lagt fram eða varla teljandi til þess að framkvæma hana. Við munum það dável, síðan verið var að afgreiða fjárl. í vetur, hvernig ástatt er um skólahúsnæði víða á landinu, bæði um barnaskóla og framhaldsskóla. Það er mjög fjarri því, að það takist að verða við þeim óskum um bráðnauðsynlegar framkvæmdir, sem víða eru uppi.

Þetta hafði ég í huga, sem ég nú hef rætt, þegar ég ákvað að greiða atkv. gegn þessu frv. við 2. umr. Ég skal játa það, að ég hef einnig hlýtt með athygli á það, sem áhugasamir menn hafa sagt um samskóla og sérskóla, en ég skal ekki ræða um það hér sérstaklega. En ég endurtek það, að ég held, að það sé misráðið af þeim ágætu konum, sem hafa verið í kvennaskóla hér í Reykjavík, að leggja kapp á það að fara að reka menntaskóla í þessu takmarkaða húsnæði, sem þar er, og ef um eitthvert afgangshúsnæði væri að ræða, þá væri réttara að nota það til að fullnægja eftirspurn þeirri, sem nú er eftir kvennaskólavist fyrir ungar stúlkur, en vera ekki að vísa þeim frá til þess að stofna menntaskóla. Ég held, að það sé misráðið með allri virðingu fyrir þeim mætu konum, sem þarna eiga hlut að máli.

Ég hef heyrt menn segja það, að af sögulegum ástæðum ætti að veita þessu máli brautargengi, vegna þess að Kvennaskólinn væri merk stofnun og ætti senn aldarafmæli. Ekki skal ég draga úr gildi sögulegra minninga á neinn hátt, en þegar verið er að bera þetta saman, t. d. við baráttuna, sem háð var fyrir menntaskóla á Akureyri, fyrir rúmum 40 árum, þá held ég, að þar sé ekki um sambærilega hluti að ræða. Ég var þá sem ungur maður einn af þeim, sem höfðu mikinn áhuga á því máli, og satt að segja held ég, að í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, sem þá var, hafi allir verið einhuga, bæði kennarar og nemendur að óska eftir menntaskóla á Norðurlandi. Það var þannig þá, að gagnfræðaskólinn, sem var arftaki Möðruvallaskóla, var þriggja bekkja skóli og gagnfræðingar þaðan höfðu rétt til inngöngu í 4. bekk Menntaskólans í Reykjavík. En það er víst alveg áreiðanlegt, að ef við hefðum átt á Akureyri menntaskóla í næsta húsi við Gagnfræðaskólann okkar gamla, þá hefðum við ekki farið að leggja áherzlu á þessa ósk. Þar er ólíku saman að jafna. Nú eru hér tveir menntaskólar svo að segja saman í Reykjavík, og þetta yrði sá þriðji, ef til þessa kæmi. Ég held, að ef stofnaðir eru nýir menntaskólar, eigi þeir að vera miðaðir við eitthvert ákveðið svæði, sem þeir eigi að þjóna.

Ég skal ekki hafa þessa ræðu lengri, en mér þótti rétt, að það kæmi fram, hver er meginástæðan fyrir því, að ég vil ekki að svo stöddu samþykkja þetta frv.