25.04.1970
Efri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (2302)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr. um heimild handa Kvennaskólanum í Reykjavík til að brautskrá stúdenta, hefur verið mikið rætt bæði á mannfundum og manna á milli og þá gjarnan sem stefnumál um, hvort menntaskólar almennt eigi að vera samskólar eða sérskólar. Í mínum huga er hér ekki um það að ræða, að með þessu frv. sé mörkuð sú stefna, að almennt skuli teknir upp sérskólar á menntaskólastiginu. Fylgi mitt við þetta frv. táknar ekki samþykki við sérskóla pilta og stúlkna almennt, en Kvennaskólinn í Reykjavík á sér langa og merka sögu, og það er álit skólamanna, að eðlilegt sé, að hann leiti að hlutverki, er sé stærra og í betra samræmi við kröfur tímans um menntun kvenna en það hlutverk, sem hann nú gegnir sem almennur gagnfræðaskóli. Með því að samþykkja, að hann brautskrái stúdenta, er verið að opna nýja námsleið á menntaskólastigi fyrir konur. En því fer fjarri, að verið sé að þvinga nokkra konu í þennan sérstaka skóla eða loka nokkrum menntunarleiðum fyrir konum. Og ég vil benda þeim á, sem vex það í augum, að þessi undantekning um sérskóla verði gerð frá almennu reglunni, að slík sérregla er í gildi að því er varðar Kvennaskólann sem gagnfræðaskóla. Aðrir gagnfræðaskólar landsins eru samskólar. Kvennaskólinn í Reykjavík er undantekning frá reglunni.

Mér virðist andstaðan gegn þessu frv. vera mjög í ætt við þau viðbrögð, sem ávallt hafa verið, þegar stofna hefur átt nýjan menntaskóla hér á landi. Andstaða gegn slíku hefur oft verið ótrúlega hörð, og mörgum, sem utan við þær deilur hafa staðið, með öllu óskiljanleg.

Í nál. meiri hl. menntmn. eru taldar upp röksemdir gegn frv. Meiri hl. n. segir fyrstu ástæðu fyrir afstöðu sinni vera þá, að vikið sé til hliðar grundvallarreglu fræðslulöggjafarinnar um aðskilnað gagnfræðaskóla og menntaskóla, og ef slíkt yrði leyft, hlyti það að draga dilk á eftir sér. Það virðist ástæðulaust að ætla, að þetta feli í sér neina hættu og fyrir þessu eru fordæmi. Menntaskólinn á Akureyri hafði um skeið gagnfræðadeild, eftir að gildandi fræðslulög voru sett, og er mér ekki kunnugt um, að það hafi dregið neinn dilk á eftir sér. Verzlunarskóli Íslands er að þessu leyti með enn þá meiri sérstöðu, en við þann skóla er unnt að ljúka stúdentsprófi án þess að taka landspróf og virðist ekki heldur hafa komið að sök.

Önnur röksemd meiri hl. n. gegn frv. er, að menntaskólar eigi að vera samskólar ungs fólks af báðum kynjum. En eins og ég tók fram áðan, er þegar fyrir hendi undantekning frá þessari höfuðreglu á gagnfræðaskólastiginu, einmitt að því er varðar Kvennaskólann sjálfan. Auk þess eru í okkar skólakerfi margir sérskólar. Má þar benda á Húsmæðrakennaraskóla, Hjúkrunarskóla Íslands, bændaskólana og húsmæðraskólana. Að vísu eru dæmi þess um t. d. Hjúkrunarskólana, að einn og einn piltur stundi þar nám, og í bændaskólunum hafa örfáar stúlkur stundað nám. Samt mega þessir skólar heita sérskólar í reynd. Því er haldið fram, að ekki megi miða uppeldi drengja og stúlkna við það, að aðeins annað kynið inni af höndum þau störf, sem skapast við stofnun heimilis. Ég er alveg sammála því, að hjón eigi að hjálpast sem mest að um heimilishaldið og barnauppeldið. Um þetta er ég þeirrar skoðunar, að æskileg sé enn meiri samvinna hjóna á heimilinu og um stjórn þess en nú er. Karlmennirnir þurfa að leggja þar fram meiri skerf en verið hefur, en mín skoðun er sú, að öllum sé fyrir beztu að konan haldi áfram sínu forystuhlutverki á heimilinu og um barnauppeldið.

Þau rök önnur, sem einkum hafa verið fram borin af andstæðingum þessa máls, eru, að annað sé nærtækara í skólamálum en kosta til þess að gera Kvennaskólann að nokkru að menntaskóla. Einnig hefur sú mótbára komið fram, að ekki beri að fjölga stúdentum, þar sem Háskólinn rúmi ekki alla þá, sem útskrifast úr menntaskóla og vilji stunda háskólanám hér heima. Á undanförnum árum hafa þrengsli verið mjög mikil í menntaskólunum, svo að til stórvandræða horfir. Að vísu hefur verið bætt nokkuð hér úr með því að stofna til menntaskólahalds í gömlu timburhúsi, sem áður var notað fyrir Miðbæjarskólann. Samt sem áður vantar enn viðunandi aðstöðu fyrir menntaskólakennslu, og hvar sem slík aðstaða verður sköpuð, mun hún kosta fjármuni. Því lít ég svo á, að að því er varðar kostnaðarhliðina, breyti þetta ekki svo miklu, hvort aukið verður við menntaskólakennsluna á þann hátt að samþykkja þetta frv. eða með öðrum hætti. Sú röksemd, að Háskólinn sé ekki fær um að taka við auknum stúdentafjölda á að mínu áliti ekki að hafa áhrif á þetta mál.

Höfuðatriði þessa máls er frá mínu sjónarmiði, að merk og traust menntastofnun biður um samþykki til þess að veita konum fleiri valkosti en nú eru í stúdentanámi. Hér verður um val að ræða, en enga þvingun. Stúdentspróf er tvímælalaust eftirsóttur menntunaráfangi, og ber þá ekki sízt að líta á þá aðstöðu til að hefja sérnám, sem það skapar strax eða síðar á ævinni. Stúdentsprófið er auk þess viðurkennt sem trygging fyrir góðri almennri menntun. Æ fleiri af ungu fólki stefna að því að taka stúdentspróf, og er það vel. Réttindi Kvennaskólans til að brautskrá stúdenta myndu í þessu efni eingöngu hafa jákvæð áhrif í þá átt, að fleiri stúlkur lykju stúdentsprófi.

Menn minnast þess, að þetta frv. hefur verið mikið rætt á s. l. vetri. Andstæðingar þess hafa sent hv. Alþ. áskorun um að samþykkja ekki frv. Undir það skjal hafa skrifað 467 konur og karlar. Hinn hópurinn er þannig miklu stærri, sem hefur sent hv. Alþ. eindregna áskorun um að samþykkja frv. Undir slíka áskorun hafa skrifað 2372 konur og karlar. Af þeim umr., sem fram hafa farið undanfarið um þetta mál, hef ég ekki látið sannfærast um þær hættur, sem í því eiga að felast að samþykkja þetta frv. Þvert á móti sýnist mér, að samþykkt frv. færi íslenzkum konum aukna möguleika til menntunar, og sé ég ekkert nema gott við það. Sú er ástæðan fyrir því, að ég mun fylgja þessu máli.