25.04.1970
Efri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2303)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Það eru nokkur atriði, sem hér hafa komið fram í ræðum meðmælenda frv., sem ég vil víkja frekar að. Fyrst vil ég varpa fram þeirri spurningu, til hvers ungt fólk fer í menntaskólanám og tekur stúdentspróf. Ég held, að einn megintilgangur þess með því sé að undirbúa sig undir háskólanám — að stúdentsprófið sé áfangi á þeirra menntunarbraut til að halda áfram og stunda nám í háskóla. Þetta er þó ekki einhlítt. Það eru auðvitað til ýmsir menn, sem hætta námi við stúdentspróf og fara ekki lengra, en aðalreglan er þó, að menn halda áfram, ef fært er og taka háskólapróf.Þess vegna má fyrst og fremst líta á stúdentsmenntun og stúdentsprófið sem undirbúning að háskólamenntun. Nú virðist mér, sem formælandi minni hl. ætli þessum stúlkum, sem yrðu stúdentar frá væntanlegri menntadeild Kvennaskólans í Reykjavík ekki aðallega að fara inn á þessa braut — að þær gerðust háskólaborgarar og héldu áfram í háskóla — heldur eigi menntadeildin þarna að verða undirbúningsmenntun undir ýmiss konar kvenleg störf í þjóðfélaginu — ýmiss konar störf, sem miklu fremur séu stunduð af konum en körlum. Í því nál. minni hl. er minnzt á hjúkrunarskóla, húsmæðraskóla, fóstruskóla o. s. frv. Nú er það að vísu þannig, að í þessum skólum, sem ég hef hér talið upp, er alls ekki gerð krafa um það sem inntökuskilyrði, að menn hafi stúdentspróf, heldur mundi sjálfsagt stúlka með landspróf eða gagnfræðapróf frá Kvennaskólanum komast í þessa skóla, eins og nú er. Ég hygg, að það verði æði langt í land, að farið verði að gera þær kröfur til þessara skóla, sem hér eru nefndir, að inntökuskilyrði í þá verði stúdentspróf.

Út frá forsendum frummælenda hv. minni hl., þá finnst mér í raun og veru alveg með sömu rökum megi segja, að það eru fjölda mörg störf í þjóðfélaginu, sem kallast nær eingöngu eða aðallega störf karlmanna, og það er þá alveg með sama rétti hægt að setja á stofn menntadeild fyrir pilta eingöngu, sem ætti þá að undirbúa þá í að fara í skóla, þar sem menn læra upp á störf, sem karlmenn stunda sérstaklega, eins og að fara í vélskóla, stýrimannaskóla eða eitthvað þess háttar. Sannleikurinn er sá, eins og allir vita, að það fer sífellt í vöxt, að bæði karlar og konur, eða piltar og stúlkur, stunda nám í þessum skólum, sem hér hafa verið nefndir, t. d. er það farið að tíðkast að karlmenn stundi hjúkrunarnám og verði hjúkrunarmenn, og ef stúlkurnar sem ætla sér að verða hjúkrunarkonur, ættu að koma inn í Hjúkrunarskólann sem stúdentar frá Kvennaskólanum, hvaðan eiga þá blessaðir piltarnir að koma, sem ætla sér að verða hjúkrunarmenn, einmitt þegar þessi tilhneiging er svo vaxandi í þjóðfélaginu, að karlar og konur stundi sams konar störf, jafnvel störf, sem annað kynið stundaði aðallega áður? Úr því að við höfum komizt af allan þennan tíma án þess að hafa sérmenntaskóla fyrir konur, þá ættum við því fremur að geta verið laus við það nú á tímum. Og þess vegna má segja, að samþykkt þessa frv. yrði í raun og veru spor aftur á bak og spor út úr nútímanum.

Hér hefur verið rætt um réttindi Kvennaskólans, og að hann hafi t. d. eins og kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. að því leyti verið sérskóli, að gagnfræðadeild hans sé eingöngu fyrir konur. Það er út af fyrir sig alveg rétt, að Kvennaskólinn er sérskóli, eins og hann er í dag — fyrst og fremst á þann hátt, að það eru eingöngu stúlkur, sem læra þar. En af því leiðir ekki, að hann eigi að feta lengra á braut þessara frávika með því að gera hann einnig að sérstökum menntaskóla fyrir stúlkur — síður en svo. Reyndar má segja, að hann byggi þar á gamalli hefð að vera sérskóli, og forréttindi Kvennaskólans í dag eru líka þau, sem ég hygg, að hann hafi umfram afla aðra skóla í landinu, að hann fær að velja nemendur eftir einkunnum og taka þá, sem beztum árangri hafa náð í hinum ýmsu skólum Reykjavíkurborgar, eða hér í Reykjavík og nágrenni. Og eftir því, sem ég bezt veit — ég þekki þetta að vísu ekki nógu vel — þá er Kvennaskólinn í fyrsta lagi skyldunámsskóli að því leyti, að þar eru tekin tvö ár af skyldunámi. Hann hefur landsprófsdeild, og svo hefur hann tvö ár í viðbót fram yfir skyldunámið eins og venjulegur gagnfræðaskóli. Og svo á að fara að demba ofan á þetta menntadeild.

Það var minnzt hér á Menntaskólann á Akureyri. Hann fékk undanþágu í nokkur ár frá lögunum, en hann var látinn hlíta þeim. Hann fékk ekki að hafa gagnfræðadeild ásamt menntadeildinni, þó að kannske skólinn þar hefði viljað það, af því að það var brot á lögunum og af því að það á að halda uppi fræðslulöggjöfinni. Menn geta deilt um það, hvernig fræðslulöggjöfin eigi að vera, en það á að halda henni uppi, og það var þess vegna réttilega gert að halda henni uppi á Akureyri. Alveg eins á Kvennaskólinn að hlíta fræðslulöggjöfinni, og það á ekki að fara að gera hér undanþágu á fræðslulöggjöfinni og honum einum til handa, því eins og segir í nál. okkar, myndi það draga dilk á eftir sér. Hvernig ætti þá að neita, við skulum segja Menntaskólanum á Akureyri, ef hann heimtaði gagnfræðadeild, eða hvernig ætti að neita Flensborgarskólanum um það að fá rétt til þess að brautskrá stúdenta og hafa menntadeild, ef þetta yrði samþykkt? Ég sé ekki, hvernig staðið yrði gegn því með góðu móti. Það hefur líka verið vitnað hér til Verzlunarskólans. Hann er sérskóli, en þar eru þó kynin ekki skilin að. Hann er að því leyti frábrugðinn, að því er ég bezt veit, að þar er ekki landsprófsdeild, heldur er tekið sérstakt inntökupróf í Verzlunarskólann. Ég segi það sem mína persónulegu skoðun, að ég er algerlega á móti því, að fleiri sérskólar — þá á ég ekki bara við Kvennaskólann sérstaklega, heldur alla aðra, sem kæmu til greina, fái rétt til þess að brautskrá stúdenta heldur en þegar er, þar sem eru Kennaraskólinn og Verzlunarskólinn. Ég raunar efast um, að það hafi verið rétt stefna í upphafi að leyfa það, þó að menn hafi sjálfsagt skiptar skoðanir á því.

Þá vitnaði hér formælandi minni hl. í stúdentspróf í Bandaríkjunum, en stúdentsprófið í Bandaríkjunum og stúdentsprófið á Íslandi eru ekki sambærileg, því menn taka stúdentspróf í Bandaríkjunum yngri, sennilega 2 árum yngri en hér á Íslandi, þannig að t. d. prósenttölur um það eru ekki sambærilegar.

Ég undirstrika svo þau rök, sem fram hafa komið í okkar nál. Ég get aðeins bætt því við að lokum, að minnast á kostnaðinn fyrir utan það, að það er ekkert pláss fyrir þessa menntadeild í þessu skólahúsi, sem nú er, og það þyrfti auðvitað að byggja miklu stærra. Ef engin menntadeild verður stofnuð, þá nægir þarna væntanlega viðbygging. En ef menntadeild yrði hins vegar stofnuð, þá kæmi fljótlega að því, að það þyrfti að byggja nýtt skólahús, miklu stærra og auðvitað myndi verða mikill kostnaður því samfara, og það er alltaf, hvað sem stofnkostnaðinum líður, mjög dýrt að reka fámennan og lítinn menntaskóla, og sérstaklega hygg ég, að kennslukraftarnir myndu nýtast illa. Það yrðu margir stundakennarar, sem eðlilegt er, þar sem skólinn yrði svo fámennur, að hann myndi þess vegna verða miklu kostnaðarsamari. Ég tel, að það séu þegar fyrir hendi nægilega margir menntaskólar í Reykjavík og það þurfi að beina því fjármagni, sem á menntaskólastigið er ætlað, annað á næstu árum.