25.04.1970
Efri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (2304)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Auður Auðuns:

Herra forseti. Í nál. meiri hl. menntmn. á þskj. 654 eru í 6 liðum færð rök fyrir því, að við, sem meiri hl. skipum, erum andvíg þessu frv. um heimild handa Kvennaskólanum í Reykjavík til að brautskrá stúdenta. Ég geri ráð fyrir að við, sem meiri hl. skipum, leggjum e. t. v, misjafnlega ríka áherzlu á einstaka liði, þótt allir ráði þeir um andstöðu okkar við frv. Í mínum huga eru það meginrök gegn frv., að með því er horfið frá þeirri stefnu, sem hér hefur ríkt, og sem nýlega hefur verið lögfest, að menntaskólar skuli vera samskólar þeir skuli vera bæði fyrir pilta og stúlkur. Í jafnréttisbaráttu kvenna hefur krafan um menntunarjafnrétti einmitt verið ein meginuppistaðan. Aðskilnaður kynjanna á sama menntastigi, þ. e. a. s. á menntaskólastigi, með sérskóla fyrir stúlkur, þar sem lögð er áherzla á eitthvað, sem ég trúi, að í dag sé nefnt „sérstakar menntunarþarfir kvenna“, er undirstrikun á hefðbundnum skoðunum um verkaskiptingu kynjanna í þjóðfélaginu, sem hefur á margvíslegan hátt orðið konunni fjötur um fót í sókn hennar til jafnréttis og bættrar aðstöðu. Þetta gerir unga konan í dag sér fyllilega ljóst. Enda er andstaðan við þetta frv. áberandi rík í þeirra hópi.

Ég minnist þess, að einhvern tíma fyrir áratugum síðan kom upp sú hugmynd að gera Kvennaskólann í Reykjavík að menntaskóla og þá á þann hátt — sem er frábrugðið því, sem þetta frv. gerir ráð fyrir — að hann skyldi vera menntaskóli fyrir konur eða stúlkur, og svo skyldi vera annar fyrir pilta, og væri þar ekki um neitt val að ræða. Ég hef sjálfsagt verið búin að steingleyma því, að þessari hugmynd hafi nokkurn tíma skotið upp, ef mér væri ekki enn töluvert fersk í minni sú gremja, sem varð í kvenstúdentafélaginu út af þessari till. Ég held, að við kvenstúdentar höfum þá allar sem einn maður verið þeirrar skoðunar, að bæði væri rangt að aðskilja stúlkur og pilta í menntaskólunum og hitt, að það var uggurinn um, að í þessum kvennamenntaskóla, ef til kæmi, yrði farið að leggja aðaláherzluna á vissar greinar, sem í dag yrðu líklega kallaðar „sérstakar menntunarþarfir kvenna“.

Eins og ég sagði áðan, þá er andstaðan gegn þessu frv. mjög sterk, einmitt meðal ungu kvennanna. Um ungu mennina, sem hafa að vísu af miklum móði stutt þeirra málstað, myndi ég vilja segja, að ég vona, að það endist svo, að þegar þau eru síðar meir komin út í lífið, eigi þeir eftir að viðurkenna stúlkurnar sem jafnoka sína og geri það ekki einungis í orði, heldur einnig á borði.

Það hefur verið á það bent, að sérskólafyrirkomulagið sé alls staðar á undanhaldi. Hér á hins vegar að ganga á móti straumnum — á móti þróuninni. Fyrir utan það, að samskólar skapa nákvæmlega jafna menntunaraðstöðu, þá hafa þeir það mikla gildi að mínu viti, að það er stórkostlegt atriði fyrir ungt fólk einmitt á þessum aldri, þegar það er mjög að mótast, að hafa tækifæri til þess, og þá er það tækifæri mikils virði einmitt innan skóla, að kynnast viðhorfum hvers annars. Þetta er fólk, sem, þegar úr skólanum kemur, á eftir að fara út í lífið, starfa þar saman hlið við hlið, og þá tel ég, að það sé nauðsynlegur undirbúningur þess, að það starf fari fram af skilningi, að þetta unga fólk hafi fengið að sitja saman í skóla og blandað þar geði.

Eins og ég sagði, þá eru það ekki meginrök mín gegn frv., að með því yrði horfið frá samskólastefnunni, að því er þennan skóla varðar. Hins vegar legg ég ekki eins mikið upp úr því, sem talið er í 1. lið í nál., það er sem sé aðskilnaður gagnfræðastigs og menntaskóla, þó ég geti tekið undir það, að rétt sé að halda sér við ákvæði laganna þar að lútandi. En ef það á á annað borð að fara að veita gagnfræðaskóla rétt til þess að útskrifa stúdenta, þá væri auðvitað vitið meira að velja stærri skóla. Kvennaskólinn er minnsti gagnfræðaskólinn í Reykjavík. Stærri skóli myndi þó gefa einhvern möguleika á valfrelsi og fjölbreytni í námi og að framkvæma það þá með hóflegum tilkostnaði, sem ekki er til staðar í litlum skóla eins og Kvennaskólanum. Það hefur verið talað um að það yrði að vera þar ein deild í bekk. Við skulum segja að í henni væru 15–20 stúlkur. Svo eiga að vera valgreinar, einhverjar greinar, sem yrðu miðaðar við hinar „sérlegu menntunarþarfir kvenna“, eins og það er orðað, og það mundi að sjálfsögðu vera eitthvað mismunandi hvaða greinar stúlkurnar kysu sér sem valgreinar. Þá yrði þetta bútað niður í kennslu fyrir kannske 5–6 stúlkur, og ég vil nú vitna til þess, sem aðrir hafa hér sagt um allt það, sem að kallar í okkar skólakerfi, og hvort ekki væri betur varið peningum á annan hátt. Um þessar greinar, sem eiga að vera sérstaklega við hæfi stúlkna, verð ég að taka undir það, sem hefur komið fram bæði í ræðum og skrifum, að ég sé ekki, að það sé ein einasta þeirra, sem ætti að útiloka pilta.

Það hafa verið færð rök fyrir því, að Kvennaskólanum yrðu veitt þessi réttindi, og það hefur verið tengt mjög við 100 ára afmæli skólans, sem nú er ekki langt fram undan. Það er sagt, að skólinn eigi sér merka sögu, og rétt er það. Í dag er hann þó — við skulum horfast í augu við hlutina eins og þeir eru — einn af gagnfræðaskólunum í Reykjavík með þá sérstöðu, að þar eru eingöngu stúlkur. Það hefur verið fært sem rök fyrir þessu, að hann væri góður skóli. Ekki dettur mér í hug að mæla því í móti, og enginn, held ég, að efist um það, að skólinn nýtur hinnar ágætustu stjórnar. En við skulum horfa á hitt líka, að það væri hægt að gera hvern einasta gagnfræðaskóla með góða stjórn, og sem betur fer hafa þeir það fleiri, að úrvalsskóla, ef hann fengi að velja inn nemendur eftir einkunnum. Og þegar við tölum um, að það sé góður skóli, þá getur maður velt því fyrir sér, hvernig eigi að meta það, hvað sé góður skóli. Ég endurtek aftur, að ég álít að Kvennaskólinn sé mjög góður skóli. Mér koma í hug orð eins ágæts skólamanns hér í Reykjavík, þar sem hann bendir á það, að ef það eigi að meta gæði skóla, þá sé sanngjarnast og eðlilegast að meta þau eftir því, hvað skólanum tekst að vinna úr þeim efnivið, sem honum er fenginn í hendur. Ég býst við, að sá ágæti kennari hafi haft í huga þá kennara, sem taka að sér að skila áleiðis þeim nemendum, sem minnst hafa fengið veganestið frá forsjónarinnar hendi. Það er líka eðlilegt, þegar skólarnir hafa þá sérstöðu, sem Kvennaskólinn hefur, að til hans veljast góðir kennarar, annað væri óeðlilegt, og enda mun kennaralið þar vera prýðisgott. En ég verð að segja, þegar við höfum, eins og hér hefur verið á minnt, í sömu götu alveg á næstu grösum, menntaskóla, sem geta tekið við þeim stúlkum úr Kvennaskólanum, sem vilja leggja inn á þá braut að stunda menntaskólanám, hvaða vit er þá í því að vera að stofna menntadeild við þennan litla gagnfræðaskóla með ærnum tilkostnaði og með takmörkuðu vali á sérgreinum, bara vegna þess að þessi skóli gegndi á sínum tíma sérstæðu hlutverki í þjóðfélaginu og verður bráðum hundrað ára gamall?

Ég verð að segja það, að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með ræðu frsm. hv. minni hl. menntmn. Hans ræða hné öll að því að rökstyðja það, að þessi skóli ætti að fá tækifæri til þess að mennta konur til starfa, sem þær eru hæfari til en karlar, og þarna fannst mér gamla grýlan skjóta upp kollinum, skoðanirnar um hefðbundna verkaskiptingu. Hann sagði, að þetta frv. væri í fullu samræmi við þá stefnu, sem nú ryður sér bil rúms, að veita sem fjölbreyttasta menntun, en þetta frv. gengur bara þvert á þá stefnu. Það mætti gjarnan taka upp kennslu í þeim greinum, sem hafa verið orðaðar, og allt er það nú samt heldur óljóst í sambandi við fyrirhugaða menntadeild við Kvennaskólann. Það yrði áreiðanlega ávinningur að taka upp kennslu í þeim greinum, en það á bara að gera það í öðrum skólum, en ekki þessum litla skóla með sárafáum nemendum í menntadeild, og þar sem eingöngu stúlkur hafa tækifæri til að stunda námið.

Hv. frsm. minni hl. talaði þannig, að það var helzt að skilja, að það þyrfti að gefa ungum stúlkum í menntaskólum tækifæri til að búa sig undir að fóstra börn og hjúkra sjúkum. Ég skal um þetta bara vísa til þess, sem hv. frsm. meiri hl. n. sagði áðan, að stúlka fer ekki í menntaskóla til þess að búa sig undir að fóstra ungbörn eða að hjúkra sjúkum. Hún fer þangað til að skapa sér möguleika til að standa jafnfætis piltunum um menntun og aðstöðu, þegar út í lífið kemur.

Þá talaði hv. þm. um það, að þetta frv. miðaði að því, að betur yrðu metin þau störf, sem sérstaklega eru talin kvenmannsstörf. Þetta finnst mér sagt algerlega út í hött. Ég held, að þessi störf, og það er rétt hjá hv. þm., séu núna vanmetin. En ég held, að bezta ráðið til þess, að þau yrðu metin að verðleikum, væri það, að konurnar gætu haslað sér völl sem jafnokar og jafnmenntaðar karlmönnunum utan heimilanna. Það þýðir ekkert annað en horfast í augu við þá þróun í þjóðfélaginu, að konan leitar í æ ríkari mæli út fyrir heimilið. Hún er að verða æ meiri þátttakandi í athafnalífinu utan veggja heimilisins og það hlýtur óhjákvæmilega að leiða til annarrar verkaskiptingar en nú tíðkast inni á heimilunum sjálfum og á milli hjónanna.

Það er reyndar búið að skrifa svo margt og segja um þetta frv., að það er að bera í bakkafullan lækinn að bæta þar einhverju við, enda er það, sem maður segir, kannske upprifjun á því, sem áður hefur verið sagt. En það kom fram í ræðu hv. 11. þm. Reykv., að Kvennaskólinn hefði þegar sérstöðu að því leyti, að hann væri gagnfræðaskóli, sem væri eingöngu fyrir stúlkur, sérskóli, og hann vildi halda út strikið með það og leyfa þar einnig menntadeild. Ég minnist þess, ég held að ég muni það áreiðanlega rétt, að hafa lesið í blöðunum, að einhverjir mennta- og stúdentahópar erlendis hafi sent áskorun um það, að Kvennaskólinn yrði lagður niður sem sérskóli og piltum veitt þar innganga. Ég held, að mörgum hafi kannske fundizt þetta fjarstæða, a. m. k. mundi ég ekki telja mig reiðubúna til þess að leggja það til, en einmitt af því tilefni, þá fór ég að hugleiða þetta mál, og ég setti dæmið þannig upp fyrir mér, að ekki væri til neinn kvennaskóli í Reykjavík eða á Íslandi og svo kæmi einhver fram með þá hugmynd, að nú þyrftum við endilega að fá kvennaskóla. Ég efast ekki um, að það væri hugmynd, sem mundi þykja fráleit. Við erum það bundin vananum og um leið sögunni og þar með sögu menntastofnana, að það villir stundum um fyrir okkur, þegar við eigum að taka upp mál og dæma um það. Um Kvennaskólann vil ég segja það, að hann er alls góðs maklegur og sannanlega mætti gera þeim ágæta skóla eitthvað til heiðurs á 100 ára afmæli hans. En hinu er ég algerlega andvíg, að þess afmælis sé minnzt með því að stíga spor aftur á bak í okkar skólamálum.