27.10.1969
Efri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (2311)

23. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. hefur gert grein fyrir frv., sem hann flytur um breyt. á l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu og fleira.

Ég veit ekki, hvort ég man það rétt, en ég held þó, að hæstv. landbrh. hafi frá því skýrt á Búnaðarþingi í fyrra eða við annað tækifæri, að hann hafi skipað sjö manna n. til þess að endurskoða l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins með fleiru. Mig minnir enn fremur, að í þessari n. eigi sæti 3 hv. þm. í þessari deild. Það er hv. 3. landsk. þm., sem flytur þetta frv., og það er hv. 4. þm. Norðurl. e., Björn Jónsson, og það er hv. 12. þm. Reykv., Ólafur Björnsson. Mig minnir, að allir þessir menn hafi verið skipaðir í þessa nefnd. Ef ég fer ekki rétt með þetta mál, þá upplýsist það enn fremur. Formaður þessarar nefndar mun hafa verið skipaður Jónas Haralz, forstjóri Efnahagsstofnunarinnar með fleiru, eða núverandi bankastjóri. Enn fremur minnir mig, að eigi sæti í þessari nefnd formaður Stéttarsambands bænda, Gunnar Guðbjartsson og Einar Ólafsson, sem var þá stjórnarnefndarmaður hjá Stéttarsambandi bænda, og sömuleiðis Vilhjálmur Hjálmarsson, sem er í stjórn Stéttarsambands bænda og á einnig sæti á Alþ.

Nú langar mig til þess að spyrja hv. flm. að því, hvað þessi n. hefur gert. Er þetta frv. til komið vegna þess, að það hafi orðið ágreiningur í n., að hv. flm. hafi ekki fengið hljóð fyrir þessum till. í n. og hann flytji þetta mál þess vegna hér á hv. Alþ.? Þetta væri gott að vita strax við 1. umr. málsins, áður en það er frekar rætt, því að mér finnst einkennilegt, að þar sem hv. þm. á sæti í n., sem á að fjalla um þessa löggjöf í heild, skuli hann einsamall flytja þetta mál hér. Ekki svo að skilja, að ég sé í öllum atriðum á móti því frv., sem hér liggur fyrir, vegna þess að það er mín skoðun, að við bændur og aðrir, sem fjalla um málefni og verðlagningu á landbúnaðarafurðum, eigum að hugleiða þessi mál allýtarlega, og ekki sízt út frá þeim sjónarhóli, að það er vitað mál og margupplýst, að það er bændastéttin, sem er langsamlega tekjulægsta stétt þjóðfélagsins. Því finnst mér, að við bændur eigum að hugleiða hvert það skref, sem stigið er til þess að endurskoða verðlagsgrundvöllinn, hvort það gæti orðið til þess að rétta hlut þeirra í þjóðfélaginu frá því, sem verið hefur, þó að mér finnist á annað borð í þessu frv. það koma fram, að þau atriði og þær till. geti orðið til þess að skerða hlut bændanna frá því, sem nú er, því að hér er farið fram á skerðingu á útflutningsprósentunni, eins og hún getur verið í vissum tilfellum. Þó að það séu ekki margar vörutegundir, sem hefur þurft að flytja út, sem hefur þurft á hærri útflutningsprósentu en 200%, þá mun hafa fyrirfundizt eitthvað, eins og hv. flm. gat um, á undanförnum árum, en ég hygg, að nú séu vart fluttar út þær vörur, sem þurfi 200%, hvað þá meira, vegna þess að það voru einkum mjólkurafurðir. En eins og vitað er, þá er mjólkurframleiðslan í landinu það lítil, að það jaðrar við það, að það verði ekki hægt í vetur að fá þá neyzlumjólk, sem neytendur þurfa. Því er það, eins og hv. flm. gat um, að þá verður að íhuga þetta mál vel og senda til umsagnar stjórnar Stéttarsambands bænda, Búnaðarfélags Íslands og Framleiðsluráðs landbúnaðarins og heyra umsagnir bændastéttarinnar og þeirra, sem fara með þeirra mál, um þetta frv. En það, sem mér þykir einkennilegast er það, að hv. flm. skuli flytja einsamall þetta frv. nú og eiga sæti í þeirri n., sem á að endurskoða löggjöfina í heild. Það finnst mér benda til þess, að hann hafi ekki komið sínum málum fram í n., og því er æskilegt að fá það upplýst, hvað n. hefur starfað lengi, hverjar till. hún hefur gert, og hver ástæðan sé fyrir því, að hv. 3. landsk. flytur þetta frv. einn, en ekki einnig þeir hv. þm., sem hér eru og hefðu getað flutt frv. með honum, ef þeir hefðu verið honum sammála í þessum atriðum. En það mun vera komið eitt ár eða svo, síðan n. var skipuð, þannig að eitthvað hlýtur eftir hana að liggja, og það væri æskilegt að fá það þegar upplýst.