16.03.1970
Neðri deild: 60. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2322)

79. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Guðlaugur Gíslason) :

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir. Frv. barst n. og var sent til umsagnar þeirra aðila, sem n. taldi eðlilegt, að létu álit sitt í ljósi um málið, og bárust svör frá öllum þeim, sem það var sent. Það var í fyrsta lagi stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, stjórn Vinnuveitendasambands Íslands, stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og Alþýðusamband Íslands. Flestir eru þessir aðilar, sem um málið hafa fjallað, efnislega samþykkir frv., og vil ég með leyfi forseta lesa kafla úr umsögnum þeirra:

„Vinnuveitendasamband Íslands telur stefnu þá, sem í frv. felst, rétta, þ. e. að fremur sé, þegar því verður við komið, unnið fyrir þeim peningum við gagnlegar framkvæmdir, sem ella rynnu sem styrkur til atvinnuleysistrygginga. Á hinn bóginn leyfum vér oss að leggja til, að aðrir aðilar en sveitarfélögin gætu haft hagræði af þessari skipan, og yrði þá sú upphæð, sem sparast í styrki með auknum framkvæmdum, lánuð til langs tíma með lágum vöxtum þeim aðilum, sem uppfylla sett skilyrði.“

Umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga er mjög stutt og hljóðar þannig að efni til: Stjórn Sambandsins telur æskilegt að nýta mætti atvinnuleysistryggingabætur til atvinnuaukningar, svo sem frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar telur stjórnin, að mildir örðugleikar kynnu að verða á framkvæmd ákvæðanna, ef að lögum yrði.

Alþýðusamband Íslands tekur einnig efnislega undir frv. og segir m. a.:

„Frv. var rætt á fundi miðstjórnar A. S. Í. þann 12. þessa mánaðar.“ — Þetta er dagsett 13. febrúar. „Þótt frumhugsun frv. sé geðfelld, þá töldum við miðstjórnarmenn framkvæmd geta orðið mjög torvelda.“

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs tekur ekki efnislega afstöðu til málsins, en bendir á, að l. um atvinnuleysistryggingar séu í endurskoðun hjá stjórnskipaðri n., og er einnig á þetta bent í umsögn Alþýðusambands Íslands, eins og fram kom í þeirra erindi.

Frv. var nokkuð ýtarlega rætt í heilbr.- og félmn., og ég hygg, að menn hafi reynt að gera sér grein fyrir, hvort framkvæmd málsins yrði jafnerfið og ýmsir aðilar höfðu talið, ef frv. yrði að l. Sem flm. þá tel ég, að ekkert þurfi að óttast um, að efni frv. yrði ekki með mjög eðlilegum hætti komið í framkvæmd til hagsbóta bæði fyrir þá aðila, sem atvinnuleysisstyrks eiga að njóta, og einnig fyrir sveitarfélögin, en þar sem það liggur fyrir, að stjórnskipuð n. er að endurskoða l. um atvinnuleysistryggingar og ég hef haft samband við formann þeirrar n., þá tel ég eðlilegt, að farin sé sú leið, sem lagt er til í áliti heilbr.- og félmn., sem er einróma, en það er, að frv. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hin stjórnskipaða n., sem vinnur að endurskoðun l. um atvinnuleysistryggingarnar, fái einnig þetta atriði til athugunar með sérstöku tilliti til þess, hvernig því mætti verða bezt fyrir komið í framkvæmd, ef á það yrði fallizt. Ég tel að aðalatriðið sé, að málið nái fram að ganga, og ég tel það eðlilegt og sjálfsagt, að sú n., sem nú fjallar um þetta mál — í henni eru þeir aðilar, sem ég tel að öllum þessum málum séu mjög gagnkunnugir — fái málið til athugunar og geri sínar till. og Alþ. fái málið á ný til athugunar, þegar hún hefur lokið störfum. Ef efni þessa frv. yrði tekið upp á ný eftir þá breytingu, sem væntanlega er talið nauðsynlegt að gera á umræddum l., þá myndi ég telja það mjög vel farið. En fari svo, að efni frv. yrði ekki tekið upp, þá gefst að sjálfsögðu tækifæri til þess að koma málinu inn á Alþ. hér á ný til frekari athugunar.

Herra forseti. Ég leyfi mér að benda á, að n. hefur einróma lagt til, að málinu verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, sem þar er tilgreint og fram kemur í nál.