28.10.1969
Efri deild: 7. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2327)

33. mál, Togaraútgerð ríkisins

Flm. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Frv. það, sem við framsóknarmenn í þessari hv. d. flytjum á þskj. nr. 33, er að eðli til tvíþætt, annars vegar .um Togarakaup ríkisins, en hins vegar um sérstakan stuðning við útgerð sveitarfélaga. Samkv. I. kafla frv. skal setja á stofn sérstakt fyrirtæki, Togaraútgerð ríkisins, er lúta skal sérstakri stjórn. Skal ríkissjóður leggja henni til tiltekið stofnfjárframlag, og ber ríkið einungis ábyrgð á skuldbindingum útgerðarinnar með þessu stofnframlagi. Útgerðin lætur byggja togara sína og önnur fiskiskip hér innanlands, eftir því sem unnt er. Meginmarkmið útgerðarinnar er að auka þjóðarframleiðsluna og gjaldeyristekjurnar, tryggja fiskiðnaðinum nægilegt hráefni allt árið, miðla hráefni eftir þörfum til hinna ýmsu fiskvinnslustöðva og stuðla þannig að atvinnuöryggi í landinu. Ég mun nú gera nokkru nánari grein fyrir ákvæðum frv. um þetta efni.

Í 1. gr. frv. er mælt, að sett skuli á stofn útgerð fiskiskipa undir nafninu Togaraútgerð ríkisins. Skal ríkissjóður leggja útgerðinni til 100 millj. kr. sem óafturkræft stofnfjárframlag, og er ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum útgerðarinnar takmörkuð við þetta stofnframlag, nema frekari heimildir til ábyrgðar séu veittar í lögum. Þykir mér rétt að undirstrika þetta alveg sérstaklega vegna þess, að sumir kynnu að hreyfa þeirri mótbáru gegn þessu máli, að hér væru verið að stofna til áhættusams reksturs fyrir ríkið. En með þessu ákvæði er hin fjárhagslega áhætta ríkissjóðs takmörkuð, eins og þar segir, og verður ekki frekari nema að því leyti til, sem veittar verði í lögum sérstakar heimildir til ábyrgðar. En það er gert ráð fyrir því, að Togaraútgerðinni sé auk framlags ríkissjóðs aflað nauðsynlegs fjármagns með lántöku, og er ríkisstj. í 2. gr. heimilað að ábyrgjast lán allt að 300 millj. kr., sem Togaraútgerð ríkisins tæki til þess að standa straum af kostnaði við byggingu skipaútgerðarinnar. Að sjálfsögðu er svo út frá því gengið, að Togaraútgerðin fái stofnlán úr opinberum sjóðum með sama hætti og aðrir aðilar, sem skip láta byggja. Þessi fjárframlög, sem þarna er talað um af hálfu ríkissjóðs, og sú ábyrgðarheimild, sem þarna er veitt, er fyrst og fremst hugsuð til þess að standa undir fjárþörfinni umfram stofnlán.

Í 3. gr. frv. segir, að Togaraútgerð ríkisins láti byggja togara eða önnur fiskiskip og ákveði stjórn útgerðarinnar fjölda þeirra, stærð og gerð að fengnu samþykki sjútvmrh. Skipin skal Togaraútgerðin láta byggja hér innanlands eftir því sem unnt er, og vil ég leyfa mér að leggja alveg sérstaka áherzlu á þetta atriði, að það á að vera reglan, að skip Togaraútgerðarinnar séu byggð í innlendum skipasmíðastöðvum nema alveg sérstakar ástæður standi því í vegi. Markmiðið með því að áskilja þetta er auðvitað að auka atvinnu og lyfta undir innlendar skipasmíðar. Hins vegar þýðir ekki annað en horfast í augu við það, að það kann að reynast í einstökum tilfellum ógerlegt að smíða skipin hér á landi, og geta þar komið til bæði fjárhagslegar og tæknilegar ástæður, en það á sem sagt ekki að vera nema í hreinum undantekningartilfellum.

Í 4. gr. segir, að útgerðin skuli halda skipum sínum til veiða í því skyni að hagnýta sem bezt fiskimiðin og stuðla með því að öflun hráefnis fyrir fiskiðnað landsmanna. Við ákvörðun um, hvar afla skuli landað, skal höfð hliðsjón af atvinnuástandi einstakra byggðarlaga, sem til greina koma. Er með þessu ákvæði lögð áherzla á miðlun hráefnisins til hinna ýmsu vinnslustöðva með tilliti til atvinnuástandsins á einstökum stöðum. En það er einmitt megintilgangurinn með ríkisútgerð togara, svo sem þegar hefur verið sagt, og liggur það sjónarmið einnig til grundvallar 5. gr. frv. En samkv. henni er stjórn Togaraútgerðarinnar heimilt að taka skip á leigu til bráðabirgða og gera út til hráefnisöflunar fyrir tiltekna staði.

Um stjórn útgerðarinnar eru ákvæði í 6, gr. frv. Stjórnin skal skipuð 7 mönnum. Af þeim kýs Alþ. 4, en 2 skulu tilnefndir af skipshöfnum á skipum Togaraútgerðar ríkisins, og skal annar þeirra vera frá yfirmönnum, en hinn frá undirmönnum, en ráðh. skipar svo 7. manninn án tilnefningar, og er sá stjórnarmaður formaður. Það er gert ráð fyrir því, að ráðh. setji stjórninni erindisbréf og umboð stjórnarinnar skuli vera bundið við 4 ár. Stjórnin ræður sér síðan framkvæmdastjóra til þess að hafa á hendi daglega stjórn útgerðarinnar og setur honum erindisbréf. Til þess að skuldbinda útgerðina þarf undirskrift fjögurra stjórnarmanna.

Í 7. og 8. gr. frv. eru ákvæði um reikningsskil, endurskoðun, ráðstöfun reksturshagnaðar, ef honum skyldi verða til að dreifa, o. fl. Sé ég ekki ástæðu til að rekja þau. Hins vegar vil ég vekja sérstaka athygli á 9. gr. Hún er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Nú telur stjórn Togaraútgerðarinnar eigi lengur þörf á því, að hún geri út togara til hráefnisöflunar og atvinnumiðlunar, og er henni þá heimilt að fengnu samþ. sjútvmrh. að selja fiskverkunarstöðvum og félagssamtökum, sem stofnuð eru fyrir forgöngu sveitarfélaga, togara sína. Enda skuldbindi kaupandi sig til að leggja upp afla hjá tilteknum fiskvinnslustöðvum. Þó skal Togaraútgerðin jafnan eiga og gera út a. m. k. 4 togara.“

Með þessu ákvæði er fiskvinnslustöðvunum sjálfum og útgerðarfélögum, sem sveitarfélög hafa forgöngu um að stofna, gefið færi á því að eignast togarana, þegar þessir aðilar telja sig umkomna að eiga og reka skipin, enda telji stjórn Togaraútgerðarinnar ekki lengur þörf á því, að hún geri togarana út til hráefnisöflunar og atvinnumiðlunar. Þó er sá varnagli sleginn, að Togaraútgerðin skal jafnan til öryggis hafa a. m. k. 4 togara á sínum snærum til þess að tryggja hráefnismiðlun og atvinnujöfnun. Ég vil sérstaklega leggja áherzlu á það, að ef togararnir eru seldir með þeim hætti, sem þarna segir, verður kaupandi að skuldbinda sig til þess að leggja upp hráefni hjá tilteknum vinnslustöðvum. Þetta ákvæði er sett með reynslu í huga. Það hefur hér áður verið veitt fyrirgreiðsla úr opinberum sjóðum, æði oft við skipakaup, og það eru í ýmsum tilfellum einkaaðilar, sem þeirrar aðstöðu hafa notið. Þeir hafa e. t. v. gert skip sín út frá þeim stað, sem þau voru upphaflega keypt til, en því miður eru þess allmörg dæmi, að slík skip hafi síðar verið seld burtu og séu ekki lengur til staðar til að þjóna þeim tilgangi, sem upphaflega var ætlazt til og fyrirgreiðsla var veitt vegna. Með þessu ákvæði 9. gr. er einkaframtakinu veittur kostur á að leysa ríkisútgerðina af hólmi, ef það hefur bolmagn til og getur valdið því verkefni, sem ríkisútgerð togara er einkanlega sett á stafn til að leysa. En eins og sagt var, á þó ríkisútgerðin jafnan að hafa aðstöðu til að geta gripið inn í til hráefnismiðlunar og atvinnujöfnunar eftir því, sem þörf krefur, og þess vegna er gert ráð fyrir því, að hún eigi og geri jafnan út 4 togara í það minnsta.

Áður en ég kem að því að gera nánari grein fyrir þeim efnislegu rökum, sem liggja til grundvallar tillöguflutningi um Togaraútgerð ríkisins, ætla ég aðeins að víkja með nokkrum orðum að II. kafla þessa frv., enda má segja, að svipaðar ástæður liggi að baki honum og I. kaflanum um Togaraútgerð ríkisins. En II. kafli fjallar um sérstakan stuðning við útgerð sveitarfélaga. Í 10. gr. segir, að ríkisstj. sé heimilt að verja allt að 50 millj. kr. til kaupa á hlutafé í útgerðarfélögum, sem stofnuð eru fyrir forgöngu sveitarstjórna og með þátttöku sveitarfélaga í byggðarlögum, þar sem atvinna er ótrygg og fiskvinnslustöðvar skorti verkefni. Í engu slíku félagi skal hlutafjárframlag ríkisins nema meira en 40% alls hlutafjár, en ríki og sveitarfélög skulu samtals jafnan hafa meiri hluta hlutafjár í sínum höndum. Ástæðan fyrir þessum aðskilnaði er sú sama og ég drap á áðan, að þetta á að girða fyrir, að þau skip, sem keypt eru þannig til tiltekinna staða séu flutt burtu eða seld burtu. En það á að vera tryggt, að til slíks komi ekki, ef ríkið og sveitarfélagið á meiri hl. í hlutafélaginu.

Samkv. 11. gr. er ríkissjóði heimilt að ábyrgjast eða taka nauðsynleg lán og endurlána þau útgerðarfélögum samkv. 10. gr. til þess að tryggja þeim það fé, sem þarf umfram lán, sem fást úr opinberum sjóðum, svo að það lánsfjármagn nái samtals 85% stofnkostnaðar.

Ástæðurnar, sem liggja til grundvallar flutningi þessa frv. eru fyrst og fremst þessar: Alvarlegar horfur í atvinnumálum, ónóg hráefnisöflun fyrir fiskvinnslustöðvarnar, þörfin á endurnýjun og aukningu togaraflotans og nauðsynin á auknum þjóðartekjum.

Ástandið í atvinnumálum er nú vægast sagt alvarlegt og horfurnar í þeim efnum eru öllum hugsandi mönnum áhyggjuefni. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að s. l. vetur varð hér stórkostlegt og almennt atvinnuleysi. Á nýliðnu sumri um hábjargræðistímann var einnig talsverður skortur á atvinnu á tilteknum stöðum, lengst af skráðir um eða stundum yfir 1000 manns atvinnulausir, þó að þeim hafi nú allra síðustu mánuðina nokkuð fækkað. Auk þess hafa svo margir leitað til annarra landa í atvinnuleit, og má í raun og veru bæta þeim við tölu atvinnulausra manna hér ú landi, því að vitaskuld hafa þeir farið til útlanda í velflestum tilfellum, af því að hér var ekki atvinnu að fá. Eins og ég sagði, hefur skráðum atvinnuleysingjum nokkuð fækkað upp á síðkastið, en þá er um leið þess að gæta, að um sama leyti hefur hinn mikli fjöldi skólafólks horfið af vinnumarkaðinum og á það auðvitað sinn þátt í því, að skráðum atvinnuleysingjum hefur fækkað nú upp á síðkastið.

Horfurnar í atvinnumálum eru því miður mjög ískyggilegar að mínum dómi, og er ástæða til að óttast, að alvarlegt atvinnúleysi verði í vetur, nema sérstakar ráðstafanir séu gerðar til úrbóta og það þegar í stað. Þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar af opinberri hálfu eru að vísu góðra gjalda verðar, svo langt sem þær ná, en þær hafa ekki nægt til að vinna bug á atvinnuleysinu. Þar þarf meira til. Allt getur þetta að vísu farið betur en á horfist, og þá er vel. Þess munu allir óska. En við megum ekki bíða aðgerðalausir þess, sem verða vill. Við megum ekki treysta á neitt happdrætti eða stóla á neina strákalukku í þessu efni. Við verðum að snúast við vandanum af fyrirhyggju og með viðeigandi úrræðum. Annað væri ófyrirgefanlegt andvaraleysi. Allir segjast vilja vinna gegn atvinnuleysi. Þess vegna er hin brennandi spurning sú, hvernig ráðstafanir eru skynsamlegastar til þess að vinna bug á atvinnuleysinu og tryggja atvinnuöryggi til frambúðar. Það er skoðun okkar flm. þessa frv., að þar komi fiskveiðar og fiskiðnaður í fremstu röð, þó að margt annað hljóti þar auðvitað einnig að koma til athugunar. Það eru atvinnugreinar, sem krefjast mikils mannafla. Aukning í fiskiðnaði skapar þegar í stað mikla atvinnu í mörgum kauptúnum og sjávarplássum, þar sem úrvinnsla fiskafurða er undirstaða atvinnulífsins. Séu fiskvinnslustöðvarnar í fullum gangi, er atvinnulífinu á þeim stöðum í flestum tilfellum sæmilega borgið.

Það er því höfuðatriði, að allar fiskvinnslustöðvar séu fullnýttar og úrvinnsla fiskafurða aukin og efld. Þar má vafalaust enn gera mikið, því að langt er frá því að fullvinnsla þessara afurða fari fram hér á landi, enn sem komið er, og eigum við sjálfsagt mikið ógert í því efni. Það þarf auðvitað að vinna að því að margfalda verðmæti með innlendri vinnu eftir því, sem kostur er, en meginforsenda þess er, að nægilegs hráefnis sé aflað. En víða skortir verulega á, að svo sé. Margar fiskvinnslustöðvar hefur skort hráefni og hefur þeim stundum af þeim sökum verið lokað eða þær gengið með takmörkuðum afköstum á ákveðnum tímabilum. Á þessu þarf að ráða bót. Það þarf að gera allt, sem unnt er, til að tryggja fiskvinnslustöðvum, hvar sem er á landinu, nægileg hráefni og vinna þannig að því að afkastageta þeirra nýtist sem bezt allt árið. Hvernig verður það bezt gert? Það er stór spurning. Togararnir eru langafkastamestu tækin til hráefnisöflunar. Með útgerð hæfilega margra og velbúinna togara er bezt tryggt, að hraðfrystihúsin og aðrar fiskvinnslustöðvar hafi jafnan nægileg verkefni. Vitaskuld á eftir sem áður að nota önnur fiskiskip eða smærri báta til veiða fyrir fiskvinnslustöðvarnar, og auðvitað þarf að athuga það, hvað bezt hentar í því efni á hverjum stað, og haga sér samkv. því. En séu ekki togarar fyrir hendi, er hætt við, að það verði alltaf meiri eða minni eyður í hráefnisöflunina og það fari ekki hjá því einkanlega á vissum árstíma. Þess vegna er aukin togaraútgerð nauðsynleg vegna þarfarinnar á því að tryggja fiskvinnslustöðvunum hráefni allt árið um kring.

En endurnýjun og aukning togaraflotans er einnig að öðru leyti aðkallandi nauðsyn. Togaraútgerðin hefur átt í erfiðleikum síðustu árin. Hún hefur barizt í bökkum. Togurunum hefur fækkað og nauðsynleg endurnýjun hefur ekki átt sér stað. Á s. l. áratug hefur t d. togurum fækkað hér um meira en helming, og nú eru ekki gerðir hér út nema um það bil 20 togarar, sem flestir eru orðnir gamlir og úreltir og flestir raunar alveg á síðasta snúning. Enginu nýr togari hefur verið keyptur til landsins síðan á árinu 1960. Það gefur auga leið, hver áhrif þessi þróun eða öllu heldur öfugþróun hefur haft á atvinnulífið í landinu. Hlutfall togarafisksins í heildaraflanum hefur lækkað um nær því helming á s. l. 10 árum. 1959 var togarafiskur rúm 40% af heildaraflanum, þar inni í er ekki talin síld, loðna, humar eða rækja, en s. l. ár, 1968, var hins vegar aðeins liðlega 20% togarafiskur. Þetta segir vitaskuld sína sögu, þó að mér detti ekki í hug að neita því, að þarna komi fleira til, svo sem eins og aukning annarra skipa.

Ef svo heldur fram, sem nú horfir, og ekkert verður gert til þess að endurnýja togaraflotann, þá virðist þess skammt að bíða, að togaraútgerð leggist niður á Íslandi. Það má fyrir margra hluta sakir aldrei verða. Hér þarf að vera togaraútgerð. Allt frá því að togaraútgerð hófst hér á landi skömmu eftir síðustu aldamót hefur hún verið veigamikill þáttur í atvinnulífinu, og oft hefur hún verið ein styrkasta stoð þess. Hún hefur verið afkastamesta útgerðin, og frá þjóðhagslegu sjónarmiði hefur hún a. m. k. oft verið að ýmsu leyti bezta útgerðin. Hún hefur löngum verið einna drýgst til öflunar gjaldeyris og var á sínum tíma undirstaða þeirra miklu efnahagslegu framfara, sem hér áttu sér stað. Í sögu togaratútgerðarinnar hafa þó auðvitað skipzt á skin og skúrir, en þó að á ýmsu hafi oltið, hafa lengst af verið gerðir hér út fleiri togarar en nú. Auðvitað voru þeir áður fyrr minni, svo talan segir ekki allt.

En togararnir, sem nú eru gerðir út, svara heldur ekki kröfum tímans, séu þeir bornir saman við nýjustu skip annarra þjóða. Hjá öðrum fiskveiðiþjóðum hafa miklar framfarir átt sér stað á síðustu árum í togaraútgerðinni, bæði að því er varðar smíði togaranna og allan búnað þeirra. En þar af er skemmst frá að segja, að eftir að Íslendingar eignuðust sinn fyrsta togara, þá fjölgaði þeim hér eiginlega undrafljótt, þannig að þegar árið 1915 voru togarar hér á landi orðnir 20 að tölu, eða höfðu þá þegar náð svipuðum fjölda og nú er gerður út hér á landi. 1917 kom afturkippur í togaraútgerðina, vegna þess að Íslendingar urðu þá að láta af hendi helming sinna togara til Bandamanna, en 1920 voru samt togarar strax orðnir 28 og 1925 voru þeir orðnir 47 að tölu. 1930 höfðu þeir að vísu færzt niður í 41, árið 1939 voru togarar hér 37, og á árunum á milli 1930–1940 höfðu það sem sagt verið á milli 30–40 togarar, sem hér voru gerðir út. Þeim fækkar á styrjaldarárunum og eru ekki taldir vera nema 28 1945, en síðan voru svo eftir styrjöldina keyptir togarar, fyrst 33 og síðan 10, eða samtals 43 nýir togarar, þannig að eftir 1950 voru hér á milli 50–60 togarar. Nú er sem sagt talan orðin um það bil 20, og allt eru það gömul skip, að vísu misjafnlega gömul, en engin ný þó.

Togaraflotann þarf að endurnýja, við þurfum að eignast nýtízku togara og við þurfum að auka togaraflotann. Það væri engin ofrausn að gera ráð fyrir, að hér væru að minnsta kosti gerðir út 50 togarar, en núverandi togaraeigendum virðist, eins og sakir standa, vera um megn að endurnýja togaraflotann. Þeir sýnast ekki hafa getu til þess. Það sýnir reynslan, þar sem engir nýir togarar hafa verið keyptir eftir 1960. Þess er því ekki að vænta, að nein endurnýjun eða aukning togaraflotans eigi sér stað í bráð, nema ríkisvaldið eigi þar verulegan hlut að máli og beiti sér fyrir útvegun skipanna. En við megum ekki bíða. Hið sameinaða þjóðfélagsafl verður því að koma hér til sögu og leysa úr vandanum. Það á að láta byggja nokkra togara, sem svara kröfum tímans, og gera þá út, á meðan aðrir aðilar eru þess ekki umkomnir. Ríkisútgerð togara á, eins og ég hef þegar sagt, fyrst og fremst að tryggja fiskvinnslustöðvunum nægilegt hráefni allan ársins hring og auka þar með útflutningsframleiðsluna og gjaldeyristekjurnar. Þannig á einmitt almannavaldið að stuðla að atvinnuöryggi og atvinnujöfnun í landinu.

Við megum heldur ekki við því á neinn hátt, að togaraveiðar leggist niður. Við þurfum að hagnýta, eða geta hagnýtt fjarlæg fiskimið, sem önnur minni skip geta ekki stundað, því að ef við hagnýtum ekki þau mið, þá er víst, að þau verða hagnýtt af togurum annarra þjóða, og auðvitað eru togarar nauðsynlegir til þess, að viðhalda og varðveita og kenna þá reynslu, sem togarasjómenn hér hafa aflað sér, svo að unnt sé að kenna þá sjómennsku öðrum yngri mönnum. Við þurfum einnig togara að sjálfsögðu til þess að sigla með fisk til sölu á hagnýta markaði.

Eins og í grg. þessa frv. segir, erum við flm. þessa frv., ekki sérstakir talsmenn ríkisreksturs. Við teljum almennt heppilegra, að atvinnutækin séu í einkaeign og rekin af einstaklingum eða félögum. En þegar einkaaðila eða félagssamtök brestur bolmagn til að eignast og starfrækja nauðsynleg framleiðslutæki, er óhjákvæmilegt að grípa til ríkisreksturs a. m. k. um tíma. Þannig er nú að okkar dómi ástandið í málefnum togaraútgerðarinnar. Þess er alls ekki að vænta, að nein endurnýjun eða aukning togaraflotans eigi sér stað í bráð, nema ríkið beiti sér fyrir byggingu togara og útgerð þeirra, svo sem hér er gert ráð fyrir. En landsmenn mega vissulega ekki við því að missa þessi fengsælu framleiðslutæki, sem oft hafa verið styrkasta stoðin undir atvinnulífi þjóðarinnar, eins og sagt hefur verið. En auk þess er það svo, að ef að er gáð, þá er hér í raun og veru um að ræða stuðning við einkarekstur. Með Togaraútgerð ríkisins er fyrst og fremst stutt við bakið á fiskvinnslustöðvunum, en þær eru yfirleitt í einkaeign og einkarekstri. En þar hafa margir einmitt í sambandi við fiskvinnslustöðvarnar lagt í mikinn kostnað við byggingu dýrra mannvirkja og vélakaup.

Það er auðsætt, að rekstursaðstaða mannvirkja með miklum stofnkostnaði reynist erfið, þegar mikið skortir á, að þau séu fullnotuð. En með þeirri óbeinu aðstoð, sem hér er lagt til, að veitt sé, þá er einmitt stuðlað að því á hinn skilmerkasta hátt, að þessi stórvirku framleiðslutæki, fiskvinnslustöðvarnar, geti verið hagnýtt að fullu, og með þeim hætti skilað sínum eigendum sæmilegum arði og staðið undir þeim kostnaði, sem í þær hefur verið lagður.

Ég geng þess ekki dulinn, að í sambandi við þetta mál verður reynt að þyrla upp ýmiss konar moldviðri og hefur reyndar verið gert, þótt í litlu sé. Það verður sagt, að við framsóknarmenn séum orðnir ríkisreksturspostular og þjóðnýtingarmenn. Ég læt mér slíkt í léttu rúmi liggja. Ég held, að það sé ekki hægt að leysa vandamál atvinnulífs og efnahagsmála eftir neinni fyrirframákveðinni formúlu. Ég held, að þegar vandi steðjar að, verði hverju sinni að grípa til þeirra úrræða, sem aðstæður og þarfir krefjast, hvort sem það er ríkisrekstur, áætlunarbúskapur eða stuðningur í einu eða öðru formi við rekstur einstaklinga eða félaga. Frá mínu sjónarmiði er aðalatriðið nú fyrir landsmenn, fyrir alla þjóðina, að fá nýja togara og koma þeim í rekstur. Rekstursformið er ekkert höfuðatriði frá mínu sjónarmiði. Auk þess er hér ekki um neina þjóðnýtingu að ræða. Ríkinu er ekki áskilinn neinn einkaréttur. Engum einstaklingi er með þessu frv., þótt að lögum yrði, bannað að eignast eða gera út togara. Sú togaraútgerð ríkisins, sem hér er ráðgerð, er t. d. hliðstæð Síldarverksmiðjum ríkisins, en þar er ekki heldur um neina þjóðnýtingu að tefla. Það geta aðrir einkaaðilar eða félög átt og rekið síldarverksmiðjur, eins og mörg dæmi sanna. Reyndar er það svo, ef ég man rétt, í lögum um Síldarverksmiðjur ríkisins, að til þess að einstaklingar megi byggja síldarverksmiðjur þurfa þeir sérstakt leyfi frá ríkisstj., en hér er engu slíku til að dreifa. Þó að þetta frv. verði að lögum, þá þurfa menn vissulega ekki frekar en hingað til neitt leyfi til þess að láta byggja og gera út togara. Ég leyfi mér enn fremur að minna á það, að þegar nýsköpunartogararnir, sem svo hafa verið nefndir, voru keyptir til landsins var um helmingi þeirra ráðstafað til bæjarútgerða eða hlutafélaga með þátttöku bæjarfélaga. Þannig var t. d. ástatt árið 1951, að 18 togarar voru í eigu bæjarútgerða, 7 togarar voru í eigu og gerðir út af hlutafélögum, sem bæjarfélag átti hlutdeild í, og einn togari var þá eign ríkisins, eða samtals voru þá 26 togarar í opinberri eigu. En ég held, að það sé að eðli til ekki allur munur á því, hvort um er að ræða bæjarútgerð eða ríkisútgerð. Ég held, að þar sé ekki um stórkostlegan eðlismun að ræða. Þó að við flm. þessa frv. teljum, að nú eigi að grípa til ríkisútgerðar togara, er það skoðun okkar, eins og þegar hefur komið fram, að stefna eigi að því, að útgerð togara verði í framtíðinni fyrst og fremst í höndum félagssamtaka og einstaklinga, og þess vegna er í 9. gr. frv., sem áður hefur verið rakin, veitt heimild til þess að ráðstafa togurum ríkisútgerðar til einkaaðila að þeim skilyrðum fullnægðum, sem þar greinir. Um slíkt verður þó tæplega að ræða, nema aðstaða togaraútgerðar verði bætt frá því, sem nú er.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um annan kafla frv. fremur en gert hefur verið. Ég vil þó aðeins undirstrika það, sem í grg. segir um það efni, að á allmörgum stöðum eru heimamenn fyrir forgöngu sveitarstjórna að reyna að stofna samtök til skipakaupa. Slík viðleitni er viðurkenningarverð, en hún er því miður víðast hvar af fullkomnum vanefnum gerð. Þátttaka ríkisins í slíkum félögum getur verið ómetanlegur stuðningur og raunar ráðið úrslitum um það, hvort fyrirhuguð skipakaup takast. Með þeim hætti getur ríkið mjög ýtt undir framtak og sjálfsbjargarviðleitni heimamanna.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en leyfi mér að vænta þess, að frv. þetta fái skjóta og góða afgreiðslu eða í öllu falli eðlilega afgreiðslu. En hvernig sem um það fer, þá vona ég það, og ég trúi því, að svo muni verða, að þetta frv., og raunar annað frv., sem hér er á dagskrá á eftir, sem svipuð hugsun býr að baki að nokkru leyti, verði til þess að koma hreyfingu á þessi mál, frá þeirri kyrrstöðu, sem hefur ríkt um þau allt of lengi, þjóðfélaginu til stórkostlegs tjóns. Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska eftir því, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. sjútvn.