17.04.1970
Efri deild: 73. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2331)

33. mál, Togaraútgerð ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Það mun hafa verið 28. október s. l., að framsaga var höfð af hálfu 1. flutningsmanns þessa frv. og því vísað til sjútvn. Þar hefur frv. verið síðan, og var leitað umsagnar, sem ég hef nú reyndar ekki við höndina, en þar var tekið undir þetta frv. að sumu leyti, og þó var önnur umsögn, sem lagðist á móti því, en mælti með öðru formi. Það er ekki nýtt, að menn hafa talið það forsendu fyrir togaraútgerð, og það hefur komið fram í umr. hér á undan, að ríkið stuðli að slíkri útgerð, það sé raunverulega ofviða einstaklingi, miðað við nútíma skip — og þá hafa menn í huga skuttogara — þau séu orðin það fjárfrek og stofnkostnaður það mikill, að ráðast í slík kaup án stuðnings frá ríkisvaldinu. Þetta sjónarmið virðist nú vera fyrir hendi í öllum stjórnmálaflokkum, og er það út af fyrir sig ánægjulegt.

Við höfum rætt þetta í n. og með tilvísun í frv., er borið var fram af hæstv. ríkisstjórn, og flutt hér af sjútvmrh., leggjum við í meiri hl. það til í nál. okkar, en það nál. er nr. 588, að þessu frv. verði vísað til hæstv. ríkisstjórnar með tilvísun í frv. um kaup á sex skuttogurum.

Það hefur nú komið fram, að öðrum hv. deildarm. þykir þetta smátt tekið og munu áreiðanlega tala fyrir meiri aukningu hér á eftir, og er það gott út af fyrir sig. Það kom líka fram, að það myndi verða litið með velvilja á þá viðleitni ýmissa bæjarfélaga, að fá minni skip en 1000 tonna skip, hugsanlega af stærðinni 6–800 tonna, þó að það liggi ekki ákveðið fyrir enn þá. Með þetta í huga teljum við það rétt, að málinu sé vísað til hæstv. ríkisstj., því án stuðnings frá ríkisvaldinu verður ekki hafizt handa um stórfellda aukningu.

Hæstv. 5. þingm. Reykv. ásakaði mjög Alþfl. og ríkisstj. hér í gær og vildi kenna henni alla hluti varðandi það, að togaraútgerð hér á Íslandi hefði farið hraðhrörnandi síðastliðinn áratug. Hann orðaði ekki aflaminnkun í því sambandi. Hann orðaði ekki ýmsa aðra þætti, sem eru samverkandi í þessu efni, sem ekki er á valdi neinna einstakra aðila að ráða við. Þetta með ýmsu öðru hefur valdið því, að togaraútgerðin stendur höllum fæti. Uppgripaafli var á síld og ýmsu öðru, og sem dæmi um aflabreytingu hér á landi má nefna, að 1964 var aflamagn á bátaflotanum 234 þús. tonn, en 1967 129 þús. tonn. Það seig niður á við um 105 þús. tonn. Að vísu minnkaði togaraaflinn nokkuð, en þó hvergi nærri í líkingu við þetta, því togararnir gátu. flutt sig til og farið á önnur mið, og það eru hin stóru rök fyrir eflingu togaraútgerðar hér á Íslandi, að togararnir geta flutt sig til og fiskaðvíðar. En það þarf meira til en það.

Ég ætla ekki að fara að lengja þessar umr. með því að munnhöggvast við hv. þm., en það er of einföld skýring, að það sé bara illvilji örfárra manna og stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar eða hæstv. ráðherra, sem eru orsök þess, að togaraútgerð á Íslandi á í vök að verjast. Slík staðreynd blasir við hvarvetna hjá öðrum þjóðum, og það má minnast þess, að Englendingar hafa orðið að veita sinni togaraútgerð sem nemur mörgum hundruðum millj. og nemur orðuð milljörðum á þessum síðastliðnum áratug. Sama er að segja í Þýzkalandi, sama er að segja í Noregi. Þegar sjávarútvegur hér á Íslandi er undirstaða, þá getum við ekki flutt fjármagn til innan hans frá einni starfsgrein til annarrar svo miskunnarlaust, að það bitni ekki á þeirri grein, sem verður fyrir barðinu, ef illa tekst til um aflabrögð og fleira. Þetta er staðreynd, sem þýðir ekki að horfa fram hjá. Ég man eftir því, og það stendur í grg., að 1. flm. frv., formaður Framsfl., Ólafur Jóhannesson, lagði einmitt á það mikla áherzlu, og það er auðvitað rétt, og á það má sífellt minnast, að afkastageta togara er mikil, og þeir eru hreyfanlegir. Það er hið stóra gildi þeirra, að geta komið með afla langt að og ráðstafað eftir þörfum. Þess vegna á togaraútgerð rétt á sér, þó að við erfiðleika sé að etja.

Ég ætla ekki að hafa þennan formála lengri, en nál. okkar leggur til, að frv. verði vísað til hæstv. ríkisstjórnar.