17.04.1970
Efri deild: 73. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (2332)

33. mál, Togaraútgerð ríkisins

Frsm. minni hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 33, hefur legið alllengi hjá sjútvn., og eins og frsm. meiri hl. sjútvn. gat um, þá höfðu borizt nokkrar umsagnir um þetta frv., sumar jákvæðar, aðrar neikvæðar. Það fer ekkert á milli mála, að togararnir eru afkastamestu atvinnutækin, sem við höfum haft til hráefnisöflunar í sjávarútvegi. Togarafloti Íslendinga hefur verið einn af hyrningarsteinum þeirra umbóta og framfara, sem orðið hafa hér á landi á síðustu áratugum. Með útgerð hæfilega margra togara er bezt hægt að tryggja það, að frystihús og aðrar vinnslustöðvar hafi jafnan nægilegt og gott hráefni. Frsm. meiri hl. gat um nokkur atriði í sambandi við þetta áðan og minntist á það, að togararnir væru óumdeilanlega afkastamestu tækin og hefðu möguleika á því að miðla afla eða hráefni til löndunar víðs vegar um landið. Þetta er einmitt eitt af þeim höfuðatriðum, sem við teljum vera til stuðnings þessu frv., að það verður tæplega unnt að komast hjá því, að togarar verði gerðir út. Hins vegar hefur það verið svo á undanförnum árum, að togaraflotinn hefur dregizt mjög saman. Hann er orðinn gamall og úr sér genginn og flestir togararnir samsvara alls ekki kröfum tímans og eru þar af leiðandi mjög dýrir í rekstri.

Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir því, að sett verði á stofn og starfrækt útgerð fiskiskipa og þá sérstaklega togara og verði afli skipanna lagður á land víðs vegar í fiskvinnslustöðvum. Í frv. er gert ráð fyrir því, að ríkisstjórnin leggi fram 100 millj. kr. sem óafturkræft stofnfjárframlag í þessu skyni, enn fremur er gert ráð fyrir heimild handa ríkisstjórninni til þess að ábyrgjast lán allt að 300 millj. kr. til þess að standa straum af kostnaði við byggingu skipa útgerðarinnar.

Það hefur verið rætt töluvert um togara hér í þessari hv. d. undanfarna daga, og það er ekki ástæða til þess að endurtaka mikið af því, sem sagt hefur verið. Ég vil undirstrika það, að það er fyllsta nauðsyn á því, að ráðizt verði í það að endurnýja togaraflotann nú og ekki sé seinna vænna. Það má segja það, að það sé kannske gleðilegur vottur um það, að ríkisstjórnin hefur lagt fram frv. um kaup á sex skuttogurum. Þannig að það er þó að minnsta kosti komin hreyfing á þetta mál, og ber að virða það, sem gert er í því efni. Frv. þetta gerir einnig ráð fyrir því, að sérstaklega verði styrkt útgerð bæjar- og sveitarfélaga. Ég vill endurtaka það, að við, sem stöndum að þessu frv., erum engir sérstakir talsmenn ríkisútgerðar skipa yfirleitt eða ríkisafskipta, en það er óumflýjanleg nauðsyn, að þegar einstaklingar eða sveitar- og bæjarfélög geta ekki af eigin rammleik útvegað eða keypt þau atvinnutæki, sem nauðsynleg eru, verður ríkið að hlaupa undir bagga og leggja fram fjármuni til þess að þetta sé hægt. Þetta hefur verið gert og þetta verður óumflýjanlega að gera á komandi árum til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi víðs vegar um landið.

Ég vil endurtaka það, að það er að okkar áliti, óumflýjanleg nauðsyn, að togaraflotinn verði endurnýjaður og það verði efnt til togaraútgerðar á vegum ríkisins, ef ekki er annar kostur fyrir hendi. Við höfum lagt til í sambandi við annað frv., sem hér liggur frammi, eða um kaup á hinum margnefndu sex skuttogurum, að skipin yrðu fleiri, sem keypt yrðu. Þessum sex skuttogurum, sem um hefur verið að ræða, hefur verið ráðstafað, eða að minnsta kosti er talið, að búið sé að ráðstafa þeim ! En þegar maður fer að hugleiða það, kemur í ljós, að það vantar marga staði úti á landi, eins og komið hefur fram í umr. möguleika til þess að kaupa minni skip, 400–500 eða 600–800 tonna, eftir því sem talið er henta á hverjum stað. Mér er kunnugt um það, að á Vestfjörðum er uppi hreyfing um að kaupa tvö skip. Á Norðurlandi hafa að minnsta kosti verið uppi raddir um það að kaupa 2 eða 3 skip og sama er að segja um Austurland. Þannig að yrði bætt 6 skipum við í frv., sem hér hefur legið fyrir, og skipin yrðu 12, sem heimilt væri að byggja, þá mundu sennilega strax fást kaupendur að þeim. En þetta var að vísu útúrdúr. Við leggjum sem sagt til, að frv. um Togaraútgerð ríkisins og stuðning við útgerð sveitarfélaga verið samþykkt.